Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 19. - 25. apríl 2003

Fréttapistill vikunnar
19. - 25. apríl 2003



Þróun heilbrigðisnets á Norðurlandi - fjarlækningar verða mögulegar

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fulltrúar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA), Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (HÞ) og fulltrúar Símans kynntu í dag, föstudag, samstarfssamning um þróun heilbrigðisnets á Norðurlandi. Samningurinn felur í sér að byggja upp og þróa heilbrigðisnet sem tengir saman FSA og HÞ auk þeirra útstöðva sem þær þjóna, þ.e: Þórshöfn, Kópasker, Raufarhöfn, Mývatn og Laugar. Auk margvíslegra gagnasendinga um heilbrigðisnetið er stefnt að því að gera fjarlækningar mögulegar. Undanfarin ár hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið unnið að þróun íslensks heilbrigðisnets, eða frá því að samþykkt var stefnumótun ráðuneytisins í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins árið 1997. Fjölmörgum þróunarverkefnum hefur verið hrint af stokkunum vegna þess og er gert ráð fyrir að árið 2005 verði kominn vísir að mjög víðtæku heilbrigðisneti á Íslandi. Þættir heilbrigðisnetsins eru fjölmargir. Þeir lúta að innritunum og útskrift, vottorðum, lyfseðlum, endurgreiðslu lyfseðla, útgáfu reikninga, rannsóknarbeiðnum og svörum, röntgenbeiðnum og svörum, beiðnum um sérfræðiálit, tilvísunum, samræmdri slysaskráningu, starfi rannsóknaraðila, samskiptum við erlenda samstarfsaðila, myndum, úrlestri og túlkun upplýsinga, fjarlækningum, ráðgjöf og viðtölum, læknisþjónustu og upplýsingum úr sjúkraskrám. Ennfremur er gert ráð fyrir að almenningur geti haft rafræn samskipti við heilbrigðiskerfið eftir sérstökum reglum. Settir hafa verið strangir staðlar um öryggi gagna og gagnaflutninga vegna íslenska heilbrigðisnetsins og verður þeim fylgt í norðlenska samstarfsverkefninu enda markmiðið að það verði hluti af íslenska heilbrigðisnetinu þegar fram líða stundir.

Leiðbeiningar og tilmæli vegna heilkennis alvarlegrar bráðrar lungnabólgu
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf í vikunni út tilkynningu þar sem mælst er til þess að allir ferðamenn fresti ferðum sínum til Beijing og Shanxihéraðs í Kína og til Toronto í Kanada nema brýna ástæðu beri til ferða þangað. Fyrri tilmæli WHO til ferðamanna um að fresta ferðum til Hong Kong og Guangdonghéraðs í Suður-Kína er enn í fullu gildi. Tilmælin eiga einungis við ferðamenn sem leggja leið sína til þessara staða en ekki farþega sem hafa einungis viðkomu á flugvöllum þessara staða á leið til annarra áfangastaða. Á heimasíðu landlæknisembættisins er samantekt frétta um veikina ásamt leiðbeiningum Sóttvarnarlæknis fyrir ferðamenn, áhafnir flugvéla o.fl. og spurningar og svör um heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu.
NÁNAR...

Vaxandi áfengisneysla á Norðurlöndunum áhygguefni
Áfengisneysla hefur aukist meðal allra Norðurlandaþjóðanna að Dönum undanskyldum á liðnum árum. Aukningin síðast liðin tvö ár er meiri en nokkru sinni og stefnir í að Norðurlandaþjóðirnar nái meðaltalsneyslu Evrópusambandsþjóðanna sem nemur 12 lítrum af hreinu alkóhóli árlega. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta tölublað Social & Hälsovårdsnytt I Norden sem er helgað umfjöllun um þessi mál. Danir hafa lengi haft sérstöðu meðal Norðurlandaþjóðanna vegna mikillar áfengisneyslu jafnt unglinga sem fullorðinna. Árið 1998 settu Danir bann við sölu áfengis til unglinga undir 15 ára og í kjölfar þess minnkaði áfengisneysla unglinga til muna en árið 2001 var neyslan aftur orðin jafn mikil og hún var áður en aldursmörk vegna áfengiskaupa voru sett. Nú er í skoðun að hækka aldursmörkin í 16 ár. Í norskri rannsókn á áfengisneyslu unglinga NOU 2003/4 kemur fram að meðaltalsáfengisneysla fólks á aldrinum 15 - 20 ára nam þremur lítrum af hreinum vínanda árið 2000 en var komin í fimm lítra árið 2001. Í ritstjórnargrein Social & Hälsovårdsnytt er lýst áhyggjum af ýmsum þáttum sem orðið geta til þess að auka áfengisneyslu enn frekar. Meðal annars er nefnd lækkun skatta á áfengi í Danmörku sem tekur gildi í október á 2003. Einnig að kvótar á innflutningi áfengis frá öðrum Evrópusambandsþjóðum til Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur falla niður árið 2004 og loks er nefnd væntanleg innganga Eistlands í Evrópusambandið þar sem verð á áfengi afar lágt.

Upplýsingar Hagstofu Íslands um sölu áfengis árið 2002
Áfengisneysla hér á landi jókst um 6,6% frá árinu 2001 - 2002 eða úr 17,5 milljónum lítra í 18,6 samkvæmt frétt frá Hagstofu íslands. Miðað við sölutölur áfengis nemur neysla hvers íbúa 15 ára og eldri 6,53 lítrum af hreinu alkóhóli á ári og er það 3,3% aukning frá fyrra ári. Sala á léttvínum hefur aukist mest eða um 11,4% og sala á bjór um 6,4% en sala á sterkum vínum hefur dregist saman um 5,4% á tímabilinu. Athyglisvert er hve mikil aukning hefur orðið á sölu s.k. blandaðra drykkja en stór hluti þeirra eru tilbúnar blöndur seldar á flöskum líkt og gosdrykkir og af mörgum taldar höfða mjög til unglinga. Söluaukning þessara drykkja4 var 37% á milli ára. Vakin er athygli á því að í upplýsingum Hagstofunnar er ekki meðtalið það áfengi sem ferðamenn eða áhafnir skipa og flugvéla flytja með sér inn í landið.

Nýtt og endurbætt húsnæði Heilbrigðisstofnunar Hólmavíkur tekið í notkun
Lokið er gagngerum breytingum með endurbótum og nýbyggingu við húsnæði Heilbrigðisstofnunar á Hólmavík. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók húsnæðið formlega í notkun við hátíðlega athöfn í vikunni. Brýnt þótti að ráðast í endurbætur á húsnæðinu sem var langt frá því að svara kröfum sem gerðar eru til hjúkrunarheimila. Heilbrigðisstofnunin hefur nú tekið stakkaskiptum og er allur aðbúnaður vistamanna og starfsmanna gjörbreyttur. Litlum tveggja manna stofum var t.d. breytt í eins manns stofur, komið var fyrir tveimur litlum íbúðum á fyrstu hæð, lyfta sett í viðbygginguna, komið fyrir tveimur sjúkrastofum og rúmgóðri borð- og setustofu. Í kjallara er líkams- og iðjuþjálfun ásamt þvottahúsi og aðstöðu til frágangs á líni. Ríkissjóður, Framkvæmdasjóður aldraðra og fjórir hreppar í Strandasýslu standa straum af kostnaði við framkvæmdirnar sem kostuðu rúmar 126 milljónir króna.

Norrænn samráðsfundur um Alzheimer
Dagana 24. - 27. apríl er haldinn Norrænn samrásfundur um Alzheimer á Grand Hoteli í Reykjavík. Þar er fjallað um ýmsar hliðar sjúkdómsins, umönnun og hjúkrun alzheimersjúklinga, menntunarþörf starfsfólks sem annast þá, lífgsæði fólks með alzheimer og margt fleira. Fundinum lýkur á morgun með ávarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Frávísun máls bæklunarlækna gegn TR staðfest í Hæstarétti
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms í máli bæklunarlækna gegn Tryggingastofnun ríkisins (TR). Félag bæklunarlækna höfðaði málið vegna deilna við TR um gjaldtöku fyrir læknisþjónustu. Frávísun héraðsdóms var byggð á því að sakarefnið væri ekki nægilega skýrt. Aðeins væri leitað úrlausnar dómsins um túlkun á tilteknu ákvæði samnings án þess að krafan tengdist afmörkuðu sakarefni. Héraðsdóms væri ekki að skera úr um lögfræðileg álitamál nema til úrlausnar um ákveðna kröfu. Frávísunin var staðfest í dómi Hæstaréttar.

Forstjóri dönsku lýðheilsustofnunarinnar með fyrirlestur á morgunverðarfundi Félags um lýðsheilsu
Lýðheilsa og samfélagsheill verða rædd á morgunverðarfundi Félags um lýðheilsu á Hótel Sögu þriðjudaginn 29. apríl kl. 8:00 - 10:00. Á fundinum heldur Finn Kamper-Jörgensen, forstjóri dönsku lýðheilsustofnunarinnar erindi um lýðheilsu og samfélag og fjallar um pólitíska þýðingu lýðheilsu í Evrópu og í alþjóðlegu samhengi. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytur einnig erindi um lýðheilsu og samfélagsheill og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flytur erindi um sama efni. Í lok fundarins verður efnt til umræðna með þátttöku stjórnmálamanna og annarra viðstaddra.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta