Trúfélög gegna mikilvægu hlutverki í umhverfisvernd
Mikilvægt er að trúfélög leggi málstað umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar lið. Samstarf trúfélaga hvert við annað og við umhverfisverndarhreyfinguna tengir saman grunngildi fólks við jákvæðar aðgerðir til að vernda jörðina og lífríki hennar. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, þegar hann ávarpaði fund trúfélaga um umhverfisvernd, sem er haldinn í Skálholti og rafrænt dagana 12.-13. okt.
Alþjóðlega ráðstefnan Trú fyrir náttúruna (e. Faith for Nature) var haldin með stuðningi ríkisstjórnar Íslands í október 2020, en hana sóttu m.a. háttsettir trúarleiðtogar úr ólíkum trúarbrögðum víðs vegar að úr heiminum. Fundurinn nú er haldinn til að fylgja ráðstefnunni og ályktun hennar eftir. Þar er m.a. horft til þess að fá samþykkta ályktun um þátt trúfélaga í umhverfisvernd á vettvangi Umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna (UNEA).
Ráðherra hvatti til þess að unnið sé að slíkri ályktun, þannig mætti ýta undir að trúfélög og lífsskoðunarfélög beittu sér fyrir umhverfisvernd og viðurkenna mikilvægi trúar og trúfélaga í starfi sem miðar að vernd lífríkisins og sjálfbærri þróun.