Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 1995 Utanríkisráðuneytið

Evrópustefna íslenskra stjórnvalda - Ávarp ráðherra á málstefnu Alþjóðaverslunarráðsins á Íslandi

28. nóvember 1995

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra:
Evrópustefna íslenskra stjórnvalda -
Ísland og ríkjaráðstefna ESB 1996.
Á Ísland hagsmuna að gæta?
Ef svo er, hvaða hagsmuna... og hvers er að gæta þeirra?
Málstefna Alþjóðaverslunarráðsins á Íslandi, Hótel Sögu

Ég fagna tækifærinu hér sem gefst í dag til að ræða þau knýjandi álitaefni sem eru á dagskrá þessa málþings. Það verður að segjast eins og er að umræður um Evrópumál hafa því miður oft einkennst meira af tilfinningahita en rökum. Stöðu Íslands í Evrópuþróuninni þarf og verður að ræða málefnalega, með opnum huga og af yfirvegun.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að treysta samskiptin við ESB á grundvelli EES-samningsins. Öflug þátttaka í framkvæmd og þróun samningsins verður því tryggð til að íslendingar geti gætt hagsmuna sinna með sem bestum hætti og haft vökult auga með þeim tækifærum sem samningurinn býður upp á.

Menn hefur greint á um hver viðbrögð íslendinga hefðu átt vera við nánara samstarfi ESB-ríkjanna. Flestir hafa þó verið sammála um nauðsyn þess að tryggja betur viðskiptahagsmuni Íslands í ljósi nýrra aðstæðna sem voru að skapast með hinum sameiginlega innri markaði ESB. Ég tel að EES fullnægi þessum markmiðum.

Samningurinn markaði þáttaskil í tengslum okkar við ESB. Með honum var lagður grunnurinn að mun nánari og öflugri samskiptum sem ná ekki aðeins til viðskipta heldur einnig til fjölmargra annara sviða. Samningurinn var rökrétt framhald fríverslunarsamningsins frá 1972 og hins svo kallaða Lúxemborgarferlis sem hófst 1984.

EES-samningurinn er viðamesti og flóknasti milliríkjasamningur sem Ísland hefur gert. Hann hefur jafnframt breytt viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja og tryggt aðstöðu þeirra til jafnrar samkeppni á mörkuðum ESB.

Samningurinn tryggir fulla aðild Íslands að innri markaði ESB, markaði 380 milljón manna sem er sá stærsti og auðugasti í veröldinn með um 46% heimsverslunarinnar. Þeir möguleikar sem í slíkri aðstöðu felast verða seint full nýttir.

Það sem gerir EES-samninginn ólíkan öðrum alþjóðasamningum sem við eigum aðild að er, að hann er í stöðugri þróun. Í því felst að við erum sífellt að laga hann að þeirri samrunaþróun sem á sér stað innan ESB. Þannig er tryggt að íslensk fyrirtæki heltast ekki úr lestinni vegna ójafnrar samkeppnisstöðu, þar sem reglur er varða þróun fjórfrelsins eru jafnóðum samræmdar hér á landi.

Þannig er verið að semja um að Ísland hljóti stöðu aðildarríkis og annist sjálft heilbrigðiseftirlit með íslenskum sjávarafurðum. Þetta þýðir m.ö.o. að heilbrigðiseftirlit með sjávarafurðum verður afnumið á landamærum milli efta ríkjanna og esb. Ísland yrði þá einnig að annast eftirlit með sjávarafurðum sem kæmu frá þriðju ríkjum til Íslands. Ávinningurinn af þessu fyrirkomulagi fyrir sjávarútveginn yrði hins vegar verulegur.

Mikilvægur þáttur í samstarfi okkar við ESB er þátttaka í verkefnun á sviðum vísinda og rannsókna. Megin tilgangurinn er að styrkja og þróa íslensk fyrirtæki og framleiðslu þeirra og gera þau hæfari í samstarfi við fyrirtæki í ESB, jafnframt því að efla þau í samkeppninni. Íslendingar eru aðilar að svo kallaðri 4. rammaáætlun ESB þannig að íslensk fyrirtæki geta sótt um styrki til slíks þróunarstarfs frá sambandinu. Fjöldi íslenskra fyrirtækja og rannsóknaraðila hafa nýtt sér þennan möguleika og hefur verulegur árangur þegar náðst. Það gefur auga leið að þetta samstarf er hvetjandi fyrir íslensk fyrirtæki, vísindamenn og rannsóknaraðila, og má vænta góðs samstarfs okkar og ESB t.d. á sviði hafrannsókna.

Mjög mikil gerjun er einnig á ýmsum öðrum sviðum innan ESB þar sem EES tryggir okkur þátttöku. Til dæmis má nefna að verið er að samræma reglur um rétt höfunda hugverka í tölvutæku formi og verið er að vinna að því að koma á sameiginlegum markaði fyrir samgöngur en siglingar og flugsamgöngur skipta okkur mestu máli. Jafnframt er þróunin ör t.d. í nýtækniþjónustu og stefnt er að því að fjarskipti verði gefin fjráls frá og með 1. janúar 1998 svo fátt eitt sé talið.

Samvinnan utan marka fjórfrelsins tekur til æ fleiri þátta s.s. til menningarmála og heilbrigðismála.

Aðild EFTA ríkjanna þriggja, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar að ESB, breytti forsendum EES samstarfsins að vissu marki. Það leggst nú af meiri þunga á stjórnvöld og hefur því verið mætt m.a. með því að efla sendiráðið í Brussel til muna. Nánast öll ráðuneytin eiga þar nú fulltrúa beint og óbeint.

Af framansögðu sést að Ísland hefur skapað sér traustan sess í Evrópu.

Ríkjaráðstefnan hefst á næsta ári en með henni hefst nýr áfangi í samrunaþróun ESB. Í skýrslu hugmyndahóps Westendorps, Evrópumálaráðherra spánar, sem kom út í nóvember, er farið að skýrast hvaða málefni verða tekin fyrir á ráðstefnunni. Þar kemur fram að tvær megin forsendur séu fyrir ráðstefnunni, að bæta skilvirkni sambandsins ásamt því að búa ESB þannig úr garði að það geti tekið á innri og ytri vandmálum sem það stendur frammi fyrir, þ.á.m. stækkun.

Ástæðan fyrir því að ríkjaráðstefnan er haldin á næsta ári er upphaflega sú að maastricht samningurinn kveður á um hana. Tilgangur ráðstefnunnar hefur breyst frá því að vera vettvangur til að ljúka ýmsum málum sem gert er ráð fyrir í maastricht í það að horfa fram á veginn til að undirbúa jarðveginn fyrir stækkun sambandsins.

Eins og áður segir eru línur nokkuð farnar að skýrast varðandi það hvaða málefni verða rædd. Þessi mál varða m.a.:

* hvernig styrkja megi utanríkis- og öryggisstefnu sambandsins.

* samvinnu í lögreglumálum og gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi, eiturlyfjum o.fl.

* ákvarðanatöku, þ.e.a.s. hvort nota eigi atkvæðavægi við afgreiðslu mála í auknum mæli og hvort breyta eigi vægi atkvæða aðildarríkjanna.

* lýðræði, þ.e.a.s. hvort Evrópuþingið og þjóðþingin eigi að hafa stærra hlutverk.

* hversu fjölmenn framkvæmdastjórnin eigi að vera.

* hvort breyta eigi fyrirkomulaginu varðandi formennsku í ESB, og

* hvernig gera megi sambandið skiljanlegra fyrir borgarana og auka meðvitund þeirra um störf þess og mikilvægi.

Þótt menn séu nokkuð á eitt sáttir um þau álitaefni sem taka þarf fyrir á ríkjaráðstefnunni er djúpstæður ágreiningur um það hvernig eigi að kljást við þau og leysa. Hefur stöðunni verið lýst þannig að alger ringulreið ríki um hugsanlegar lausnir. Það er því margt sem bendir til þess að ríkjaráðstefnan muni ekki gera eins róttækar breytingar á ESB og í fyrstu var talið.

Augljóst er að niðurstöður ríkjaráðstefnunnar geta haft áhrif á stöðu EES-samningsins og á Ísland. Ég mun því á næsta ári sem formaður EFTA í EES ráðinu, leita eftir að við fáum að fylgjast með gangi ráðstefnunnar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Ég mun jafnframt nota hvert tækifæri sem gefst til að ræða sjónarmið Íslands beint við starfsbræður mína í aðildarríkjunum.

Ýmsar aðrar viðræður eru framundan sem skipta framtíð sambandsins miklu. Fjármál ESB verða tekin til endurskoðunar 1998 og 1999. Endurskoða verður landbúnaðarstefnu ESB um aldamótin en þá lýkur framkvæmdatíma landbúnaðarsamnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO/GATT). Um aldamótin hefst því jafnframt ný viðræðulota um landbúnaðarviðskipti á vettvangi WTO. Endurskoðun landbúnaðarstefnunnar og framlög til þróunarsjóða ESB tengist viðræðunum um fjármál og fjölgun aðildarríkjanna. Gert ráð fyrir því að myntsambandið taki gildi á árinu 1999 og í upphafi þess árs verður tekin ákvörðun um það hvaða aðildarríki fullnægja skilyrðum þess. Loks skal nefnt að aðildarviðræður við Möltu og Kýpur hefjast 6 mánuðum eftir að ríkjaráðstefnunni lýkur. Mörg ESB ríkjanna líta svo á að sambandið sé pólitískt skuldbundið til að hefja aðildarviðræður við mið- og austur Evrópuríkin á sama tíma.

Markmið ESB með stækkun til austurs er að stuðla að friði, velsæld og stöðugleika í álfunni. Ljóst er að sterkt Evrópusamband eykur líkur á stöðuleika í Evrópu. Við hljótum því að styðja viðleitni sambandsins til að styrkja innviði sína. hins vegar stendur sambandið frammi fyrir því erfiða verkefni hvernig hægt sé að tryggja stækkun án þess að vega að undirstöðunum þess.

Þessar spurningar varða Íslendinga miklu. Verði gerðar breytingar á stofnanakerfi ESB verður að skoða hvort og hvaða áhrif það hefur. Einnig er það áhyggjuefni ef hugmyndir um að auka vald stærri aðildarríkjanna á kostnað hinna smærri ná fram að ganga. Rétt er að minna á að með hverju nýju aðildarríki stækkar EES.

Við verðum því að fylgjast grannt með næstu aðildarviðræðum ESB.

Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram um framtíð vestur Evrópusambandsins en samningurinn um þá stofnun rennur út árið 1998.
Það er ljóst að hugmyndir um að fella vesturEvrópusambandið inn í ESB sem einskonar varnarmálastofnun, samræmist ekki íslenskum hagsmunum. Grundvallaratriði er, að viðhalda sterku atlantshafsbandalagi og treysta tengslin yfir Atlantshafið.


Ég tel að áhrif myntsambandsins á íslenska viðskiptahagsmuni og efnahag hafi ekki verið skoðuð nægilega. Því er nauðsynlegt að brotið verði til mergjar hverjar afleiðingarnar kunni að verða fyrir Ísland.

Ef aukaaðild Íslands að Schengen samkomulaginu nær fram að ganga, kallar það einnig á nánari samvinnu við ESB á sviði lögreglumála, flóttamannamála, baráttu gegn eiturlyfjum, alþjóðlegum glæpum o.s.frv. sem felst í hinni svo kölluðu þriðju stoð Maastricht sáttmálans.

Öll eru þessu álitaefni flókin og erfið viðfangs. Þau tengjast verulega innbyrðis og þróun á einu sviði kemur til með að hafa áhrif á gang mála á öðrum.

Grundvallarspurningin er hver staða Íslands verður í Evrópu í byrjun 21. aldarinnar. Enginn veit hvernig Evrópa kemur til með að líta út eftir 5 eða 10 ár. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með þróun mála, vega og meta. Við verðum að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og sjá til þess að Ísland skipi þann sess sem því ber í Evrópu framtíðarinnar. Tryggja verður viðskiptahagsmuni íslenskra fyrirtækja og öryggishagsmuni þjóðarinnar allrar.

Þungamiðjan í umræðunni hér heima varðandi Evrópuþróunina og í afstöðunni til aðildar að ESB varðar hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.

Þeir möguleikar sem einkum hafa verið ræddir fram til þessa um hugsanlega aðild virðast eftirfarandi:

- að við undirgöngumst hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.

- að ESB breyti sjávarútvegsstefnu sinni til að koma til móts við sjónarmið íslendinga.

- að Ísland fái varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni.

Sjávarútvegsstefna ESB er óaðgengileg fyrir Ísland og engar vísbendingar eru um að sambandið sé reiðubúið að taka tillit til séraðstæðna Íslands. fyrr en slíkur skilningur hefur skapast er tómt mál að tala um aðild. það er ljóst að framsal yfirráða yfir auðlindinni er frágangssök af okkar hálfu. lífshagsmundum þjóðarinnar verður ekki fórnað á altari aðildar að ESB. Ekki kemur heldur til greina að opna fyrir fjárfestingar í sjávarútvegi sem gæti leitt til þess að fiskveiðikvóti flyttist úr landi (kvótahopp). Aðild að sjávarútvegsstefnu ESB þýddi ennfremur að stærsta iðngreinin yrði rekin undir verndarvæng og styrktarkerfi hins opinbera.

Ég hef orðið var við að nokkurrar vanþekkingar gætir meðal aðildarríkjanna varðandi sérstöðu okkar. það er afar mikilvægt að fullur skilningur ríki bæði meðal aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB í hverju andstaða okkar við aðild að ESB er fólgin. Ég mun því kappkosta við að kynna betur að hvaða leyti hagsmunir okkar og stefnumál ESB eru ósamrýmanleg.

Við verðum að vera í stakk búnir að fylgjast með og mæta þeim miklu breytingum sem eiga sér stað í Evrópu og tryggja að alltaf sé valinn besti kosturi fyrir hagsmuni okkar. atburðirnir sem nú eru að eiga sér stað í Evrópu er þriðja umbrotaskeiðið í Evrópu á þessari öld. Í raun er verið að endurskipuleggja álfuna frá grunni og enginn sér fyrir endann á þeirri þróun. ESB gegnir lykilhlutverki í þessu viðamikla verkefni sem snertir allar þjóðir Evrópu. íslendingar geta því ekki staðið hjá heldur verðum við að taka virkan þátt í mótun Evrópu framtíðarinnar. Stöðu Íslands verður að meta eins og þróunin gefur tilefni til. Evrópustefnuna verður að móta með það að leiðarljósi að langtímahagsmunir íslendinga séu tryggðir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta