Hoppa yfir valmynd
27. október 2010 Utanríkisráðuneytið

Erlendar fjárfestingar og Evrópa

Erlendar fjárfestingar og Evrópa

Össur Skarphéðinsson skrifar

Erlendar fjárfestingar á Möltu, Kýpur, Slóvakíu og Slóveníu tvöfölduðust fyrstu fjögur árin eftir að ríkin gengu í Evrópu­sambandið árið 2004. Öll nota þau evru. Í Eistlandi jukust erlendar fjárfestingar um helming á sama tíma, en Eistar taka ekki upp evruna fyrr en um næstu áramót.

Þetta sýnir, að þegar smáríki ganga í Evrópusambandið stóreykur það erlendar fjárfestingar í viðkomandi ríkjum. Athyglis­vert er, að langstærsti hluti erlendrar fjárfestingar í þessum fimm nýju aðildar­löndum kemur frá öðrum ríkjum sambands­ins. Smáríki, sem hafa búið við sjálfstæða mynt og sveiflukenndan efnahag, einsog við Íslendingar, eru ekki sjálfsagður fjárfestinga­kostur í augum alþjóðlegra fjárfesta. Þeim fylgir áhætta, einsog birtist varðandi Ísland 2008.

Reynsla ríkjanna fimm sýnir hins vegar að um leið og ríkin verða hluti af traustu og stöðugu efnahagsumhverfi Evrópusambandsins, þá opnast fyrir flæði erlendra fjárfestinga frá ríkjum, sem eru fyrir í sambandinu. Það er engin ástæða til að ætla, að sama verði ekki uppi á teningnum ef Ísland gengi í Evrópusambandið og hefði skýra stefnu um upptöku evrunnar. Við þurfum á erlendum fjárfestingum að halda til að vinna gegn atvinnuleysinu. Það ógnar framtíð fjölmargra fjölskyldna, og þarmeð framtíð Íslands.

Þó atvinnuleysi á Íslandi fari að sönnu minnkandi eru ennþá um 15 þúsund manns án atvinnu. Árlega munu ríflega tvö þúsund manns hið minnsta bætast við á vinnumarkaðnum. Á næsta áratug þurfum við því að skapa fleiri en 30 þúsund störf til að eyða atvinnuleysinu. Ég tel að Evrópuleiðin sé besta leiðin til þess. Aðild Íslands að ESB er raunar besta einstaka aðgerð til endurreisnar ímyndar Íslands sem álitlegs fjárfestingarkosts. Evrópuleiðin mun skapa stöðugleika, færa okkur Evrópuvexti og stórlækka þannig greiðslubyrði fjölskyldna og fyrirtækja, gera okkur fært að skera frá verðtrygginguna, og síðast en ekki síst losna við gjaldeyrishöftin. Króna í viðjum gjaldeyrishafta mun ella koma í veg fyrir að Ísland geti keppt við aðrar þjóðir í viðskiptum á jafnræðisgrundvelli. Þessu til viðbótar sýnir nú reynsla smáþjóða, að erlendar fjárfestingar stóraukast þegar þær verða hluti af Evrópusambandinu.

Andspænis atvinnuleysi hafa íslenskar fjölskyldur ekki efni á að hafna þeirri framtíðarleið sem liggur gegnum Evrópusambandið. Menn verða þá að sýna fram á betri leið til að eyða atvinnuleysi á Íslandi. Það hefur enginn gert ennþá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta