Álit innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR11030004
Álit innanríkisráðuneytisins
í máli nr. IRR 11030004
I. Afmörkun álitaefnis
Þann 11. febrúar 2011 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra A varðandi miðlun grunnskóla í sveitarfélaginu X á upplýsingum um barn hans og samskipti hans við skólayfirvöld og sveitarfélagið. Með úrskurði sínum, dags. 12. mars 2011 vísaði ráðuneytið kærunni frá þar sem hún félli ekki innan kæruheimildar 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Ráðuneytið ákvað hins vegar að taka málið til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 102. gr. sömu laga þar sem sagði að ráðuneytið skyldi hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegndu skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 fer menntamálaráðherra með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til, setur grunnskólum aðalnámskrá, leggur grunnskólum til námsgögn, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lögin kveða á um. Samkvæmt sama ákvæði hefur menntamálaráðuneytið eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/2008 kemur svo fram að rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu.
Samkvæmt framangreindu bera sveitarfélög ábyrgð á öflun og miðlun upplýsinga og framkvæmd skólastarfs. Er ótvírætt að það álitaefni sem mál þetta lýtur að heyrir því undir ráðuneytið. Ráðuneytið bendir þó á í því sambandi að í 5. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/2008 kemur fram að menntamálaráðherra skal setja reglugerð um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. Í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins hefur menntamálaráðherra sett reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín nr. 897/2009. Þann 4. júlí 2011 tók svo gildi reglugerð nr. 657/2011 sem breytti eldri reglugerð nr. 897/2009. Í 1. gr. reglugerðar nr. 657/2011 segir:
Grunnskólum er heimilt að nota rafrænt upplýsingakerfi til skráningar og miðlunar upplýsinga um nemendur samkvæmt þessari reglugerð. Ennfremur getur skóli notað slíkt kerfi til þess að veita foreldrum aðgang að upplýsingum og til samskipta við þá. Komi fram rökstudd beiðni frá foreldrum um að aðgangur að upplýsingum verði jafnframt veittur með öðrum hætti, s.s. með tölvupósti, símleiðis eða bréfleiðis, skal starfsfólk skóla leitast við að verða við slíkum beiðnum, enda þjóni það hagsmunum og þörfum barnsins. Tillit skal tekið til eðlis og mikilvægis þeirra upplýsinga sem um ræðir hverju sinni og hvort sérþarfir barns eða sérstakar aðstæður kalli á að samskipti séu með tilteknum hætti.
Ráðuneytið telur rétt að geta þess að hið tilvitnaða ákvæði hafði ekki tekið gildi er atvik þessa máls áttu sér stað, síðari hluta skólaársins 2008-2009 og allt skólaárið 2009-2010.
Ráðuneytið lítur svo á að álitaefni máls þessa lúti fyrst og fremst að því hvort umræddur grunnskóli hafi með réttum hætti komið til móts við þarfir A og barns hans við miðlun upplýsinga, en fyrir liggur að hann hafði óskað eftir því að upplýsingum um barn hans yrði komið til hans með beinum hætti, en ekki í gegnum rafræna upplýsingakerfið Mentor. Mun ráðuneytið því takmarka athugun sína við framangreint álitaefni.
II. Sjónarmið málsaðila
Við meðferð þessa máls óskaði ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins X og afriti af þeim gögnum sem sveitarfélagið hefði undir höndum og gætu gagnast við úrlausn þess. Í umsögninni kemur m.a. fram að skólayfirvöld telja að þau hafi lagt sig fram um að sinna upplýsingaskyldu til forráðamanna allra foreldra í skólanum. Ef forráðamenn óski eftir því að samskipti séu ekki með rafrænum hætti eða vilji ekki nýta sér Mentor þá sé tekið tillit til þess. Eftir að A hafi gert athugasemdir við notkun Mentors hafi sá háttur verið hafður á að kennarar hefðu venjulega sent tölvupóst til A, umsjónarkennara og síðast til aðstoðarskólastjóra. Skólayfirvöld hafi lagt sig fram um að veita A allar upplýsingar um barn hans jafnóðum en óhjákvæmilega hafi það stundum þurft að bíða þangað til í lok vinnudags.
Ljóst er að A telur hins vegar að skólayfirvöld hafi ekki komið nægilega til móts við þarfir hans og barns hans. Tekur hann fram að barn hans hafi sjúkdóm sem geri það að verkum að A þurfi að vita af öllum atvikum dagsins strax til að geta gripið inn í. Telur hann að sér hafi oft borist skilaboð of seint og að þær upplýsingar sem hann telji sér nauðsynlegt að fá hafi hann oft þurft að sækja af hörku og með ýtni. Skólinn hafi ekki lagt sig fram um að hafa samskipti þeirra á milli í lagi, heldur þvert á móti reynt að draga úr þeim. Þá sé farið með rangt mál þegar fullyrt sé að skólayfirvöld hafi sérstaklega lagt sig fram um að veita honum upplýsingar á annan hátt en í gegnum Mentor, en bæjarstjóri sveitarfélagsins hefði sjálfur sagt honum að sveitarfélagið ákvæði einhliða með hvaða hætti upplýsingum væri miðlað til íbúa þess. Telur A það ekki geta staðist. A telur þannig að óeðlilegt sé að foreldri þurfi að knýja sveitarfélag og skóla til að verða við tilmælum um hvernig upplýsingum sé komið til foreldra langveikra barna þannig að þær komi að sem bestu gagni við uppeldi þeirra, og mæti sérþörfum og hagsmunum barna er þurfa sérrúræða við.
Rétt er að taka fram að í gögnum málsins koma fram ýmis fleiri sjónarmið beggja aðila sem ráðuneytið telur ekki þörfa á rekja hér frekar.
III. Álit ráðuneytisins
Svo sem fyrr greinir innihalda gögn málsins mikinn fjölda tölvubréfasamskipta á milli A og starfsfólks grunnskólans frá tímabilinu mars 2009 og fram í júní 2011. Er ljóst af þeim að A tjáði skólayfirvöldum að hann vildi ekki notast við rafræna upplýsingarkerfið Mentor, enda hvíldi ekki á honum lagaskylda til þess. Benti A m.a. á í því sambandi að barn hans ætti við langvinnan sjúkdóm að stríða og skráningarkerfið hentaði ekki aðstæðum þess, enda bærust honum upplýsingar þá iðulega of seint. Fór A fram á að þess í stað myndu skólayfirvöld tilkynna honum með beinum hætti, svo með tölvubréfi eða símleiðis, um öll atvik er upp kæmu varðandi barn hans og öðru leyti það sem skólagöngu þess varðaði.
Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að rekja hér efni tölvubréfasamskipta A og starfsmanna grunnskólans, eða nefna úr þeim sérstök dæmi, en telur hins vegar ljóst af lestri þeirra að skólayfirvöld hafi leitast eftir því, svo framast var unnt, að koma til móts við óskir A, og tilkynna honum með tölvubréfi um þær upplýsingar er ella hefðu verið skráðar í upplýsingakerfið Mentor. Ráðuneytið telur jafnframt ljóst að í nokkur skipti hafi orðið misbrestur á að svo hafi verið gert en telur hins vegar að það hafi fyrst og fremst stafað af því að ekki hafi allir kennarar verið meðvitaðir um óskir A. Hins vegar verður ekki annað séð en að leitast hafi verið að bæta úr slíkum mistökum um leið og þau urðu ljós. Jafnframt telur ráðuneytið að ráðið verði af gögnum málsins að slík mistök hafi orðið fátíðari eftir því sem meiri reynsla komst á samskipti þeirra á milli. Telur ráðuneytið því ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við verklag grunnskólans í því máli sem hér um ræðir og ítrekar það sem áður er komið fram að ekki verður annað ráðið en að skólayfirvöld hafi leitast við að koma til móts við óskir A.
Að öðru leyti telur ráðuneytið rétt að ítreka þá breytingu sem gerð var á reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín nr. 897/2009, með reglugerð nr. 657/2011 og varðaði heimild grunnskóla til að nota rafrænt upplýsingakerfi til skráningar og miðlunar upplýsinga um nemendur. Þannig hefur nú verið staðfest heimild grunnskóla til að notast við slíkt kerfi til að miðla upplýsingum til foreldra og til samskipta við þá. Foreldrar geta engu að síður beint rökstuddri beiðni til skólayfirvalda um að aðgangur að upplýsingum verði jafnframt veittur með öðrum hætti, s.s. með tölvupósti, símleiðis eða bréfleiðis, og skal starfsfólk skóla leitast við að verða við slíkum beiðnum, enda þjóni það hagsmunum og þörfum barns. Skal þá taka tillit til eðlis og mikilvægis þeirra upplýsinga sem um ræðir hverju sinni og hvort sérþarfir barns eða sérstakar aðstæður kalli á að samskipti séu með tilteknum hætti. Vænist ráðuneytið þess að samskipti A og skólayfirvalda grunnskólans muni framvegis taka mið af framangreindum reglum.
Innanríkisráðuneytinu,
12. mars 2012.
Bryndís Helgadóttir Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson