Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 18/2015

Úrskurður úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

nr. 18/2015


 Ár 2015, miðvikudaginn 25. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 23/2014; kæra A og B, dags. 28. desember 2014. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur


ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sinna þann 18. maí 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda 11. nóvember 2014.

Kærendur sendu nokkrar athugsemdir til ríkisskattstjóra á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og framkvæmd leiðréttingar, þann 17. nóvember 2014.

Ríkisskattstjóri sendi kærendum þann 18. nóvember 2014 afrit af uppgjörs­samkomu­lagi milli kærenda og X banka ásamt yfirlýsingu um framsal á réttindum kærenda á lóðinni M götu. Bæði skjölin eru undirrituð af hálfu kærenda og dags. 14. desember 2009.

Ríkisskattstjóri svaraði athugasemdum kærenda þann 27. nóvember 2014. Þar kom fram að X banki hefði móttekið athugasemdir kærenda og það hefði verið niðurstaða bankans að hann hefði glatað veðtryggingu á skuldbindingu sem stóð eftir án fasteignaveðs eftir yfirtöku eignar og því rétt að skrá niðurfærslu vegna uppgjörssamkomulags. Meðfylgjandi svari ríkisskattstjóra var bréf, dags. 4. apríl 2014, sem X banki hafði sent kærendum vegna endurútreiknings á láni nr. 1.

Með kæru, dags. 28. desember 2014, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga. nr. 35/2014, sbr. 11. gr. sömu laga. Kröfugerð í kæru verður skilin þannig að kærendur krefjist þess að niðurfelling vegna glataðrar veðtryggingar, samtals að fjárhæð 9.414.176 kr. eða 4.707.088 kr. hjá hvoru þeirra, komi ekki til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu, 1.934.558 kr. hjá hvorum kæranda.


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Athugasemdir kæranda voru bornar undir X bankann sem mun hafa upplýst að þann 14. desember 2009 undirrituðu kærendur uppgjörssamkomulag sem meðal annars fól í sér að X banki tæki yfir einbýlishúsalóðina M götu. Yfirtökuverð eignarinnar nam samkvæmt samkomulagi 3.024.000 kr. og staða á láni 1, sem var með veði í ofangreindri fasteign nam á viðmiðunardegi, 27. nóvember 2009, 24.823.000 kr. Mismunur á skuldum og yfirtökuverði nam 21.799.000 kr. en samkvæmt samkomulagi skyldu greiðendur staðgreiða 2.400.000 kr. inn á eftirstöðvar lánsins og sú fjárhæð sem útaf stæði skyldi afskrifuð, 19.399.000 kr. Þann 4. apríl 2014 var kærendum sent bréf þar sem tilkynnt var um leiðréttan endurútreikning á láni 1  og að ný staða á láni næmi 9.414.176 kr. og er sú fjárhæð skráð sem niðurfærsla vegna glataðrar veð­kröfu. Kærendum var sent bréf er sýndi lækkun á afskrifaðri kröfu vegna endur­útreiknings hennar.  

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014.

 Ágreiningslaust virðist vera að ráðstöfun einbýlishúsalóðarinnar að M götu, fór fram 14. desember 2009. Hefur því ekki verið mótmælt að samkvæmt samkomulaginu, sem kærendur undirrituðu, nam afskrift 19.399.000 kr., sem síðan var endurreiknuð sem 9.414.176 kr. Er sú fjárhæð verulega umfram útreiknaða leiðréttingarfjárhæð kærenda, sbr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur virðast einkum byggja málatilbúnað sinn á því þau hafi aldrei búið á umræddri lóð, ekki sé um núverandi húsnæði að ræða, að lóðin hafi verið of lágt metin í uppgjörssamkomulagi þeirra við X banka og að lóðin sé ekki íbúðarhúsnæði. Mat kærenda og X banka á verðmæti einbýlishúsalóðar kærenda, sbr. undirritað samkomulag þeirra, sætir ekki endurskoðun nefndarinnar. Ljóst er að ákvæði 8. gr. laga nr. 35/2014 er ekki takmarkað við fasteignaveðlán er hvíldu á íbúðarhúsnæði er umsækjandi hélt heimili eða hafði lögheimili á, né heldur við að um núverandi fasteign sé að ræða. Skilyrði er að um fasteignaveðlán hafi verið að ræða og er það skilyrði uppfyllt. Einbýlishúsalóðin að M götu, er fasteign í skilningi 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, nánar tiltekið afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Lán 1 var tryggt með veði í fasteigninni.

 Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur vegna niðurfellingar vegna fasteignaveðláns 1 sem hefur glatað veðtryggingu er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.


Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta