Úrskurður nr. 116/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
nr. 116/2015
Ár 2015, miðvikudaginn 25. mars, er tekið fyrir mál nr. 96/2015; kæra A og B, dags. 9. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteigna–veðlána þann 24. júlí 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 11. nóvember 2014.
Með kæru, dags. 9. febrúar 2015, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. sömu laga. Í kæru er þess krafist að frádráttarliður verði felldur niður. Kærendur greina frá því að umræddur frádráttur væri tilkominn vegna sértækrar skuldaaðlögunar. Þau leggja áherslu á að sértæk skuldaaðlögun sé ekki opinbert úrræði og þau hafi ekki notið úrræða frá hinu opinbera vegna hrunsins. Í kæru kemur fram að fyrri ríkisstjórn hafi auglýst sértaklega að sértæk skuldaaðlögun skerti ekki möguleika á seinni úrræðum. Kærendur telja að komi sértæk skuldaaðlögun til frádráttar leiðréttingu lána þeirra sé um afturvirk áhrif að ræða.
II.
Ágreiningsefni máls þessa snýr í raun að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Útreiknuð leiðrétting lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, er 1.601.598 kr. hjá hvorum kærenda, eða samtals 3.203.196 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samtals 10.755.773 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. sömu laga. Þar af eru 10.455.773 kr. vegna sértækrar skuldaaðlögunar sem skuldarar fengu á árunum 2011 og 2012 og 300.000 kr. vegna sérstakra vaxtabóta.
Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í b-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. niðurfellingu fasteignaveðkrafna sem mælt sé fyrir í samningi um sértæka skuldaaðlögun samkvæmt 2. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, sbr. samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, með breytingum, dags. 22. desember 2010.
Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.
Ágreiningslaust virðist vera að kærendur hafi notið þeirra úrræða sem koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu. Hefur því ekki verið mótmælt að niðurfærsla skulda hafi numið 10.455.773 kr. Er sú fjárhæð verulega umfram útreiknaða leiðréttingu lána kærenda, sbr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur virðast einkum byggja málatilbúnað sinn á því að þegar þau nutu sértækrar skuldaaðlögunar hafi verið auglýst að þau myndu ekki tapa betri rétti. Skilja verður málatilbúnað kærenda sem svo að með þessu sé vísað til 23. gr. samkomulags um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, með breytingum, dags. 22. desember 2010. Þar kom fram að með því að ganga til samninga samkvæmt samkomulaginu fyrirgerði lántakandi ekki betri rétti er hann kynni að öðlast síðar með lögum eða samkvæmt dómi. Með lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, er sérstaklega kveðið á um að sértæk skuldaaðlögun dragist frá útreiknaðri leiðréttingu lána, sbr. b-lið 1. mgr. 8. gr. laganna. Telja verður samkvæmt því að lög nr. 35/2014 hafi ekki veitt kærendum betri rétt. Samkvæmt 8. gr. laganna þá takmarkast frádráttarliðir ekki við opinber úrræði og meðal upptalinna liða er sértæk skuldaaðlögun. Þar sem óumdeilt er að skuldir kærenda hafi lækkað um 10.455.773 vegna sértækrar skuldaaðlögunar eftir 1. janúar 2008, kemur sú fjárhæð til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. b-lið 8. gr. laga nr. 35/2014.
Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna niðurfellingar fasteignaveðkrafna sem mælt er um í samningi um sértæka skuldaaðlögun, er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.