Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 181/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA


nr. 181/2015

 

Ár 2015, fimmtudaginn 7. maí, er tekið fyrir mál nr. 136/2015; kæra A, dags. 24. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 22. maí 2014, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Leiðréttingarfjárhæð kæranda var 753.219 kr. og var sú fjárhæð birt henni 11. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt þann 23. desember 2014 að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað sem greiðslu inn á lán bankans X nr. 1. Kærandi samþykkti leiðréttingu þann 14. febrúar 2015, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014.

Með kæru, dags. 24. febrúar 2015, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru er ráðstöfun leiðréttingar inn á lán með veði í fasteigninni F1 kærð. Í kæru er þess krafist að ráðstöfun verði breytt þannig að leiðréttingarfjárhæð kæranda fari ekki til niðurgreiðslu á láni á eign sem hún hafi ekkert tilkall til. Kærandi greinir frá því að árin 2008 og 2009 hafi hún verið ógift og borgað af sínum lánum ein og hafi með því greitt ein „oftekna vexti“. Í júlímánuði 2014 hafi hún gengið í hjónaband með B. Með kaupmála, dagsettum í júlímánuði 2014, hafi verið tilgreint að fasteignin F1 væri séreign B og fasteignin F2 væri séreign kæranda. Meðfylgjandi kæru var kaupmáli, dagsettur í júlímánuði 2014, því til staðfestingar.

Með bréfi, dags. 13. apríl 2015, leitaði úrskurðarnefndin umsagnar bankans X vegna láns nr. 1. Óskað var upplýsinga um hver væri skuldari lánsins, stöðu lánsins, á hvaða veðrétti og fasteign lánið hvíldi og hver væri eigandi þeirrar fasteignar. Í umsögn bankans X kemur fram að B hafi alltaf verið skráður fyrir fasteigninni F1 og einungis sé eitt lán frá bankanum X áhvílandi á þeirri fasteign.

 

II.

Kærendur skiluðu kæru sinni til úrskurðarnefndar eftir að þau samþykktu leiðréttingu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Í lagagreininni kemur fram að hafi umsækjandi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar skuli hann samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 11. gr. innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Að þeim tíma liðnum falli réttur til leiðréttingar niður. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að heimilt sé að kæra ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar samkvæmt 9. gr., framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 11. gr. og endurupptöku samkvæmt 13. gr. til úrskurðarnefndar. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er gert ráð fyrir að kæra fresti framkvæmd leiðréttingar samkvæmt lögunum. Í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kemur fram að ef umsækjandi hafi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd leiðréttingar og kærir ekki niðurstöðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, skuli hann samþykkja hana innan þriggja mánaða. Ella falli réttur til hennar niður. Í 5. mgr. 8. gr. sömu reglugerðar segir að samþykki umsækjanda á framkvæmd/ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar skv. 1.-4. mgr. sömu greinar sé bindandi og taki ekki breytingum þótt hjúskaparstaða breytist.

Jafnvel þótt ákveðin rök hnígi að því að hugsunin við framangreinda laga- og reglugerðarsetningu hafi verið sú að með samþykki á leiðréttingu félli niður kæruréttur verður ekki framhjá því litið að í hvorugu lagaákvæðinu er það tekið fram berum orðum. Þannig kemur það ekki fram að samþykki á útreikningi og framkvæmd leiðréttingar leiði til þess að kæruréttur falli niður, að því tilskyldu að kærufrestur sé ekki liðinn. Ummæli í greinargerð með lögum nr. 35/2014 taka heldur ekki af vafa þar um. Þær sem kæruheimild til æðra stjórnvalds er meðal grundvallarréttinda stjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. 26. gr. laga nr. 37/1993, er það mat úrskurðarnefndarinnar að hann verði ekki takmarkaður nema með skýru lagaákvæði. Leiðir það því ekki sjálfkrafa til frávísunar málsins þótt kærendur hafi samhliða kæru sinni samþykkt leiðréttingu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014.

Kærandi skilaði kæru sinni til úrskurðarnefndar í tölvupósti. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 skal umsókn um leiðréttingu beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri ákvað að umsókn og málsmeðferð yrði í gegnum vefinn leiðrétting.is. Ekki er tekið á því í lögum nr. 35/2014 hvernig kærumeðferð samkvæmt lögunum skuli vera. Í reglugerð nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, segir í 3. mgr. 10. gr. að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd og birting úrskurða nefndarinnar skuli vera rafræn. Í framkvæmd hefur málsmeðferðin hjá úrskurðarnefndinni farið fram í gegnum vefinn leiðrétting.is. Að mati úrskurðarnefndar verður að liggja fyrir skýr sérlagaheimild ef hægt á að vera að einskorða málsmeðferð kæra við rafræna meðferð. Þar sem slík sérlagaheimild liggur ekki fyrir, heldur aðeins reglugerðarheimild, var kæranda heimilt að senda skriflega kæru til nefndarinnar, enda ljóst að almennt ákvæði 1. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 veitir aðeins heimild fyrir rafrænni stjórnsýslu.

 

III.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, er kærandi skuldari að einu láni á fyrsta veðrétti, láni nr. 2 hjá bankanum X sem tryggt er með veðrétti í fasteigninni F2, sem jafnframt er lögheimili kæranda. Eftirstöðvar þess láns þann 2. febrúar 2015 voru 2.629.574 kr. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skal ráðstafa leiðréttingarfjárhæð kæranda inn á lán nr. 1 frá bankanum X sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F1. Eiginmaður kæranda, B, er skuldari þess láns og eigandi veðs. Eftirstöðvar þess láns voru  20.856.925 kr. þann 2. febrúar 2015.

Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti um leiðréttingu 22. maí 2014 og var þá skráð ein í heimili. Um einum og hálfum mánuði síðar, í júlímánuði 2014, gekk kærandi í hjónaband. Á samþykktardegi leiðréttingar, 14. febrúar 2015, var kærandi því í hjónabandi. Samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra skal ráðstafa leiðréttingarfjárhæð kæranda inn á lán eiginmanns kæranda en kærandi er ekki skráður skuldari að því.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 3. mgr. þeirrar greinar kemur fram að lánveitandi fasteignaveðláns á fremsta veðrétti skuli skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingahluta. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar er enn óráðstafað skal lánveitandi  á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skal fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 skal leiðréttingarfjárhæð hjóna og samskattaðra sambúðaraðila á samþykktardegi framkvæmdar/ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar ráðstafað óháð því hvort hjóna eða sambúðaraðila er formlega ábyrgt fyrir lánum og hvort hlutaðeigandi sóttu saman um leiðréttingu. Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 25/2014, en ráðherra er þar heimilað að setja nánari reglur um framkvæmd leiðréttingar.

Óumdeilt er að kærandi var í hjónabandi með B á samþykktardegi leiðréttingar þann 14. febrúar 2015. Eiginmaður kæranda er skuldari að láni bankans X nr. 1 sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F1. Eftirstöðvar þess láns voru  20.856.925 kr. þann 2. febrúar 2015 og þannig hærri en eftirstöðvar láns bankans X nr. 2 sem tryggt er með fyrsta veðrétti, en þær námu 2.629.574 kr. þann 2. febrúar 2015. Ekki skiptir máli þó kærandi sé ekki ábyrg fyrir láni sem eiginmaður hennar er skráður skuldari að eða þau hafi ekki sótt saman um leiðréttingu, sbr. 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014.

Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán bankans X nr. 1 er í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð kæranda, 753.219 kr., sem greiðslu inn á lánið verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta