Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 342/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 342/2015

 

Ár 2015, fimmtudaginn 18. júní, er tekið fyrir mál nr. 245/2015; kæra A og B, dags. 11. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 26. maí 2014. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda var samtals 5.869.198 kr. en takmarkast við hámarksleiðréttingu lána sem er 4.000.000 kr. Frádráttur vegna niðurfærslna nam samtals 7.475.430 kr. Leiðréttingarfjárhæð kærenda var því 0 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 11. mars 2015, er kærð fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kærunni kemur fram að upphæðin sem notuð sé til frádráttar vegna úrræðis um tvær fasteignir sé of há. Kærendur séu mjög ósátt við að dregnar séu 2 x 2.498.283 kr. frá útreiknaðri leiðréttingu lána þeirra vegna úrræðis sem þau nýttu sér vegna tveggja fasteigna. Kærendur spyrja hvaða gögn liggi fyrir um raunverulegt tap/niðurfærslu lánastofnunarinnar X vegna þessa úrræðis gagnvart kærendum í dag. Íbúðin sem um ræði hafi verið seld fyrir nokkrum árum og raunverlegt tap sjóðsins því klárlega ekki verið 4.996.566 kr. eins og útreikningurinn gefi til kynna. Óska kærendur eftir því að leiðréttingarfjárhæð þeirra verði hækkuð um ca 1.000.000 kr., eða sem nemi fullri leiðréttingu að frádreginni 110% leiðréttingu og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Í tilefni af kæru og með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2015 fór úrskurðarnefndin fram á það þann 27. maí 2015 að lánastofnunin X upplýsti nefndina um hinn umdeilda frádráttarlið og sendi eftir atvikum gögn til skýringa. Svar barst 28. maí 2015. Þar kom fram útreikningur á niðurfellingu láns, útgefnu af kæranda, A. Staða lánsins samkvæmt frumvarpi um eignaráðstöfun, dags. 18. júlí 2011, nam 20.396.566 kr. Verðmat  á fasteigninni F1, samkvæmt frumvarpinu og lok eignaráðstöfunar, dags. 16. ágúst 2011, var 15.400.000 kr. Mismunurinn var 4.996.566 kr., sem hafi verið afskrifaður. Umsögninni fylgdi frumvarp um eignaráðstöfun og skjalið lok eignaráðstöfunar, hvoru tveggja á grundvelli laga nr. 103/2010, framangreindum fjárhæðum til staðfestingar.

Svar lánastofnunarinnar X var borið undir kærendur þann 28. maí 2015, auk þeirra gagna sem því fylgdu. Var kærendum gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði sem þau teldu ástæðu til innan 7 daga. Svar barst frá kærendum þann 3. júní 2015. Þar kom fram að kærendur væru þakklát fyrir að mál þeirra skyldi vera tekið fyrir. Ef íbúðin væri enn óseld og í eigu lánastofnunarinnar X væru þau ekki að kalla eftir þessu. En gögnin sem hafi komið komið fram miðist ekki við raunverulegt tap lánastofnunarinnar X vegna eignaráðstöfunarinnar. Seinna hafi sjóðurinn selt íbúðina og þá fengið innborgun á afskriftina. Fram að því hafi sjóðurinn haft leigutekjur af íbúðinni. Telja kærendur eðlilegra og sanngjarnara að miða við þá fjárhæð sem raunverlegt tap sjóðsins hafi verið og kalla eftir því að tekið verði tillit til þess í útreikningi á leiðréttingu fasteignaveðlána þeirra.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Leiðrétting lána kærenda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, er  4.000.000 kr., að teknu tilliti til hámarks 6. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samtals 7.475.430 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. sömu laga. Þar af eru 4.996.566 kr. vegna tveggja fasteigna úrræðis, 1.977.747 kr. vegna lækkunar skuldar samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011 (110% leið) og 501.116 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Kærandi hefur viðurkennt réttmæti seinni tveggja frádráttarliðanna.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í

e-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. niðurfellingu fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Gildi þetta þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 103/2010. Samkvæmt c-lið 1. mgr. á þetta einnig við um lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitanda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni), dags. 15. janúar 2011, óháð því hvort sótt hafi verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda. Hið sama á að lokum við um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið sömu lagagreinar.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Ágreiningslaust virðist vera að kærendur hafi notið þeirra úrræða sem koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu og ekki er ágreiningur um frádrátt vegna 110% leiðar og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Fjárhæð niðurfærslu, vegna tveggja fasteigna úrræðis, 4.996.566 kr., hefur ekki verið mótmælt að öðru leyti en því að kærendur virðast byggja málatilbúnað sinn á því að endurreikna eigi fjárhæð þeirrar afskriftar í ljósi sölu þeirrar fasteignar sem afsalað var til lánastofnunarinnar X á grundvelli úrræðisins. Engin rök hafa þó verið færð fyrir því eða gögn því til staðfestingar að söluverð hafi raunverulega verið hærra en meðaltalsmatsverð það sem nýtt var við vinnslu úrræðisins. Verður fjárhæð niðurfærslu samkvæmt framlögðum gögnum því lögð til grundvallar útreikningi á frádrætti. Fjárhæð niðurfærslu samkvæmt tveggja fasteigna úrræðis, 4.996.566 kr., kemur til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kæranda, sbr. e-lið 8. gr. laga nr. 35/2014. Hið sama á við um frádrátt á grundvelli 110% leiðarinnar, sbr. c-lið sömu lagagreinar og lækkun vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið.

Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna lækkunar lána kærenda er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ekki hafa af hálfu kærenda verið gerðar athugasemdir við einstaka liði útreiknings ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.

 

 Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta