Úrskurður nr. 365/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
NR. 365/2015
Ár 2015, fimmtudaginn 9. júlí, er tekið fyrir mál nr. 514/2015; krafa A, dags. 20. maí 2015, um endurupptöku máls nr. 18/2015, sem upp hafði verið kveðinn í úrskurður nr. 127/2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 30. júlí 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var samtals 1.221.946 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda 11. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt þann 6. janúar 2015 að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað sem greiðslu inn á lán nr. 1 hjá sjóði X.
Með kæru, dags. 6. janúar 2015, var kærð framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru kom fram að kærandi óskaði eftir því að leiðréttingarfjárhæð væri ráðstafað inn á ótilgreint lán hjá sjóði Y en ekki lán sjóðs X. Að öðrum kosti gagnist leiðréttingin kæranda ekki. Úrskurðarnefndin óskaði eftir gögnum og umsögn sjóðs Y um lán kæranda hjá sjóðnum með tölvupósti, dags. 9. mars 2015, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Í svari sjóðsins, dags. 10. mars 2015, kom fram að kærandi og B, væru skuldarar að láni sjóðsins nr. 2. Afrit skuldabréfsins fylgdi og kom fram að lánið hvíldi upphaflega á 6. veðrétti fasteignar skuldara að M götu. Á sama tíma hvíldi á 2. veðrétti sömu fasteignar lán sjóðs X nr. 1. Svar sjóðs Y, auk gagna, var sent kæranda þann 10. mars 2015 og upplýst um að ráðstöfun færi almennt eftir veðröð. Kæranda var gefinn kostur á að leggja fram gögn og tjá sig um þau atriði í gögnum sjóðs Y sem hún teldi ástæðu til innan 14 daga. Kærandi svaraði ekki erindi úrskurðarnefndarinnar. Upp var kveðinn úrskurður nr. 127/2015 þann 1. apríl 2015, þar sem kröfu kæranda var hafnað.
Þann 20. maí 2015 krafðist kærandi endurupptöku málsins með vísan til rangra upplýsinga sem fram hafi komið frá sjóði Y. Kærandi upplýsti að samkvæmt veðbókarvottorði hvíldi lán sjóðs Y nr. 2 á 1. veðrétti fasteignar skuldara að M götu. Kærandi sendi veðbókarvottorð fasteignarinnar þessu til staðfestingar.
II.
Um endurupptöku fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar fer samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að eftir að þrír mánuður séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Í tilviki kæranda er ljóst að úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 1. apríl 2015 byggði á röngum upplýsingum um málsatvik, nánar tiltekið því að lán sjóðs Y nr. 2 hvíldi á 6. veðrétti fasteignar kæranda að M götu en ekki 1. veðrétti, eins og veðbókarvottorð ber með sér að það geri. Þrátt fyrir að kæranda hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemd við það við meðferð málsins á sínum tíma, og hún ekki sinnt því, hefur það ekki áhrif á niðurstöðu um það hvort málið verði endurupptekið. Skilyrði til endurupptöku málsins eru því fyrir hendi.
Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, er kærandi m.a. skuldari að láni sjóðs X nr. 1 og láni sjóðs Y nr. 2. Lán sjóðs Y stendur framar í veðröð en lán sjóðs X.
Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 3. mgr. þeirrar greinar kemur fram að lánveitandi fasteignaveðláns á fremsta veðrétti skuli skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingahluta. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar er enn óráðstafað skal lánveitandi á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.
Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skal fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.
Af veðbókarvottorði er ljóst að lán sjóðs Y nr. 2 stendur framar í veðröð fasteignarinnar M götu en lán sjóðs X nr. 1. Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán nr. 1 er ekki í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð, 1.221.946 kr., sem greiðslu inn á lán nr. 1 er því hnekkt og skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað inn á lán sjóðs Y nr. 2.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Leiðréttingarfjárhæð kæranda, 1.221.946 kr., skal ráðstafað inn á lán sjóðs Y nr. 2.