Úrskurður nr. 462/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRS FASTEIGNAVEÐLÁNA
NR. 462/2015
Ár 2015, föstudaginn 21. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 436/2015; kæra A, dags. 25. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 7. ágúst 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreiknaða leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðrétting kæranda var 1.275.788 kr. og var sú fjárhæð birt honum 11. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt þann 23. desember 2014 um ráðstöfun leiðréttingar inn á lán kæranda nr. 1 í banka X.
Með tilkynningu, dags. 17. mars 2015, lét ríkisskattstjóra kæranda vita að frestur hans til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar rynni út 23. mars 2015 og ekki væri unnt að fá þann frest framlengdan.
Með kæru, dags. 25. mars 2015, er kærð framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kærunni kemur fram að kærandi geti ekki samþykkt leiðréttingu, vegna einhverrar villu sem ekki hafi verið komin í lag fyrir lokafrest. Hvorki skuldaleiðrétting né séreignasparnaður hafi verið afgreidd og engar greiðslur eða leiðréttingar hafi farið fram.
Með bréfi, dags. 8. júlí 2015, leitaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýringum á erindi kæranda. Í bréfinu kom fram að samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefði kæranda verið tilkynnt um ráðstöfun leiðréttingar þann 23. desember 2014. Kærufrestur væri 3 mánuðir frá þeim degi, nánar tiltekið til 23. mars 2015. Kæra hefði borist úrskurðarnefndinni 25. mars 2015, þ.e. eftir lok kærufrests. Með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var óskað eftir afstöðu kæranda til þess hvort byggt væri á því að afsakanlegt væri að kæra hefði ekki borist fyrr eða hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar og ef svo væri, hverjar. Svarfrestur varðandi kærufrestinn var gefinn til og með 15. júlí. Kæranda var leiðbeint um að hann skyldi svara á netfang úrskurðarnefndar og um að hann gæti sent erindi á sama netfang ef óskað væri eftir lengri fresti. Tekið var fram að bærust engin svör yrði máli tekið til meðferðar eins og það lægi fyrir. Ekkert svar barst.
II.
Ágreiningsefni máls þessa snýr að samþykkt leiðréttingarfjárhæðar. Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram skilyrði um að umsækjandi samþykki leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar. Í lagagreininni kemur fram að hafi umsækjandi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar skuli hann samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 11. gr. innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Að þeim tíma liðnum falli réttur til leiðréttingar niður.
Um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vísast til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að unnt sé að kæra til nefndarinnar ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar skv. 9. gr. laganna, framkvæmd leiðréttingar skv. 11. gr. og endurupptöku skv. 13. gr. Eins og valdsvið nefndarinnar er afmarkað í tilvitnaðri lagagrein fellur það utan við úrskurðarvald nefndarinnar að fjalla um samþykkt leiðréttingarfjárhæðar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 og verður þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.