Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR11010506

Ár 2011, þann 30. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 11010506

vegna ákvörðunar Flugmálastjórnar Íslands í máli

Iceland Express og Mariku Petrova

 

I.      Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. janúar 2011 barst ráðuneytinu kæra Iceland Express (hér eftir nefnt IEX), kt. 700497-2919, Efstalandi 26, 108 Reykjavík, vegna ákvörðunar Flugmálastjórnar Íslands (hér eftir nefnd FMS) í máli Mariku Petrova (hér eftir nefnd MP) nr. FMS10060081 frá 28. október 2010. Með ákvörðun FMS var IEX gert að greiða MP bætur að fjárhæð 400 evrur samkvæmt b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 574/2005. Krefst IEX þess að ákvörðun FMS verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að staðfest verði að IEX sé ekki skylt að greiða skaðabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 vegna seinkunar á flugi AEU902 þann 8. maí 2010. FMS krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest og að kröfu IEX um að félaginu sé ekki skylt að greiða skaðabætur verði vísað frá eða hafnað. MP hefur ekki látið málið til sín taka fyrir ráðuneytinu og lítur ráðuneytið svo á að í því felist að krafist sé staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Ákvörðun FMS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 10. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands og barst kæran ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Kæruefni og ákvörðun FMS

IEX er ferðasali sem annaðist flug AEU 902 sem áætlað var frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 þann 8. maí 2010. Í kæru IEX segir að vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og lokunar Keflavíkurflugvallar hafi brottför verið seinkað til kl. 13.00 þann 9. maí og brottför ákveðin frá Akureyri. Umrædd áætlun og seinkun er óumdeild en deilt er um bótaábyrgð IEX vegna seinkunar á flugi.

Hinn kærði úrskurður er svohljóðandi:

I.                   Erindið

Þann 7. júní 2010 barst FMS kvörtun dags. 1. júní 2010 frá Einari Þráinssyni vegna konu hans, MP, við IEX. Í kvörtuninni kemur fram að MP hafi átt bókað far með flugi IEX nr. AEU902 kl. 7.00 þann 8. maí 2010 frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Þá segir einnig í kvörtuninni að fluginu hafi ítrekað verið seinkað vegna þess að IEX hafi tekið þá ákvörðun að nota sömu vél kvöldinu áður í flug til Spánar. Þetta hafi orðið til þess að vélinni hafi verið seinkað aftur og aftur þar til völlurinn hafi lokast vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Af þessum sökum missti MP af tenguflugi sínu til Riga. MP fékk svo flug með IEX daginn eftir gegnum Akureyri og þurfti að kaupa annað flug til Riga sem kostaði um 60.000 krónur. Í kvörtuninni kemur einnig fram að IEX hafi sagt að félagið bæri ekki ábyrgð á tengifluginu vegna eldgossins. MP er ósátt við þetta og bendir á að Keflavíkurflugvöllur hafi verið opinn um morguninn þann 8. mái 2010.

II.                Málavextir og bréfaskipti

FMS sendi IEX framangreinda kvörtun til umsagnar með tölvupósti dags. 8. júní 2010. Þann 18. júní 2010 óskaði Ívar Bragason hdl., f.h. IEX, eftir viðbótarfresti um viku sem FMS veitti. Með bréfi Ívars Bragasonar hdl. dags. 24. júní 2010 barst FMS umsögn IEX vegna framangreindrar kvörtunar þar sem fram kom að af óviðráðanlegum orsökum, þ.e. vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, þurfti að fresta brottför flugs AEU902 til kl. 13.00 sunnudaginn 9. maí 2010 og þá frá Akureyri. Í umsögninni segir einnig að engin leið hafi verið fyrir IEX að koma í veg fyrir seinkun á áætluðum brottfarartíma flugsins. IEX hafi tilkynnt farþegum sem áttu bókað flug um seinkunina, bæði með tölvupósti og SMS. Auk þess hafi IEX hringt beint í MP og upplýst hana um stöðuna. Jafnframt hafi IEX upplýst alla farþega um önnur réttindi þeirra sbr. ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004. Þeir farþegar sem samþykktu að ferðast til Akyreyrar til að ná áætlaðri brottför voru fluttir án endurgjalds með rútu frá Reykjavík til Akureyrar.

Með tölvupósti FMS dags. 20. ágúst 2010 var framangreind umsögn IEX send til MP. Með tölvupósti dags. sama dag svaraði MP og sagði skýringar IEX ekki réttar. MP ítrekaði það sem áður hafði komið fram í kvörtuninni um að seinkunin um morguninn þann 8. maí 2010 hafi ekker haft með eldgosið að gera heldur verið vegna þess að IEX hafði verið að nota vélina kvöldinu áður til að flytja farþega frá Spáni. MP bendir á að Icelandair og aðrir hefðu flogið frá Keflavík þarna um morguninn.

Til að fá staðfestingu á lokun Keflavíkurflugvallar þá hafði FMS samband við Trausta Tómasson samræmingarstjóra hjá Isavia og fékk hjá honum yfirlit yfir umferð á flugvellinum 8. maí 2010. Samkvæmt svari hans var flug eðlilegt þann 7. maí en þann 8. maí var síðasta brottför fyrir lokun vallarins kl. 11.09. Á yfirlitinu má sjá að flug IEX nr. AEU501 til London með brottför kl. 7.00 fór í loftið kl. 7.06 og fjölmargar vélar frá Icelandair fóru í loftið á áætluðum tíma fyrir lokun flugvallarins.

III.             Forsendur og niðurstaða Flugmálastjórnar Íslands

Um réttindi farþega vegna seinkunar á flugi er fjallað um í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 574/2005. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 574/2005 er FMS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 261/2004/EB.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og átt getur við þegar aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-403/07 komst dómstóllinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Þetta þýðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, geta átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt framá að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Í því máli sem hér er til skoðunar hefur IEX borið fyrir sig að umrædd seinkun hafi orðið af óviðráðanlegum orsökum sem tengjast eldgosinu í Eyjafjallajökli og lokun flugvallarins vegna þess. Eins og framangreindur vitnisburður MP og það yfirlit sem FMS hefur aflað frá Isavia bera með sér er ljóst að Keflavíkurflugvöllur lokaðist ekki fyrr en eftir kl. 11.00 þann 8. maí 2010 þar sem staðfest er að síðasta brottför fyrir lokun var kl. 11.09. Það er því ljóst að upphafleg seinkun flugs IEX nr. AEU902 til Kaupmannahafnar þann 8. maí 2010 var ekki vegna óviðráðanlegra aðstæðna.

Með hliðsjón að framangreindu er það mat FMS að IEX hafi ekki getað sýnt fram á að upphafleg seinkun á flugi IEX nr. AEU902 til Kaupmannahafnar þann 8. maí 2010 hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Í ljósi þess er það niðurstaða FMS að MP eigi rétt á skaðabótum úr hendi IEX að fjárhæð 400 evrur vegna seinkunar á flugi AEU902 þann 8. maí 2010, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 574/2005.

Ákvörðunarorð:

 

Iceland Express skal greiða kvartanda bætur að upphæð 400 evrur skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 574/2005.

Skaðabæturnar sem um getur skulu greiddar í reiðufé, með rafrænni yfirfærslu, í gíró eða eða með bankaávísun eða, ef farþeginn gefur til þess skriflegt samþykki, í ferðaávísun og/eða með annarri þjónustu.

II.        Málsástæður, umsögn FMS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra IEX barst ráðuneytinu með bréfi dags. 24. janúar 2011 og var móttekin þann 26. janúar.

Í kæru IEX kemur fram að flugvélin sem annast hafi átt flug AEU902 þann 8. maí 2010 frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 hafi verið að koma frá Spáni þann sama morgun. Áætluð lending vélarinnar hafi verið kl. 9.00. Á þessum tíma hafi eldgosið í Eyjafjallajökli staðið sem hæst. Öskuspár hafi gert ráð fyrir því að Keflavíkurflugvöllur myndi lokast aðfaranótt 8. maí. Sú hafi orðið raunin og flugvöllurinn lokað þá um morguninn.

Fram komi í ákvörðun FMS að samkvæmt yfirliti frá Trausta Tómassyni, samræmingarstjóra hjá Isavia, hafi síðasta brottför fyrir lokun flugvallarins þann 8. maí verið kl. 11.09 og að fjölmargar vélar hafi farið á áætluðum tíma fyrir lokun flugvallarins. Við nánari skoðun verði ekki séð að þessi staðhæfing sé rétt enda hafi síðasta millilandaflugi verið flýtt um 27 mínútur og farið kl. 9.33 í loftið. Umrætt flug sem hafi farið kl. 11.09 hafi verið vél Icelandair sem átti að fara í millilandaflug frá Keflavík en verið flogið til Akureyrar þar sem lokun Keflavíkurflugvallar var yfirvofandi.

Samkvæmt ákvörðun FMS sé IEX gert skylt að greiða skaðabætur líkt og um seinkun væri að ræða sem ekki er af óviðráðanlegum orsökum. Sú ákvörðun IEX að lenda á Akureyrarflugvelli í stað Keflavíkurflugvallar hafi einmitt verið vegna óviðráðanlegra orsaka sem ekki hafi verið hægt að afstýra jafnvel þó allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Lokun Keflavíkurflugvallar hafi verið yfirvofandi vegna eldgoss. Á sama hátt hafi Icelandair gripið til þess ráðs að flytja flugvél yfir til Akureyrar áður en Keflavíkurflugvöllur lokaðist.

Ljóst sé að flug AEU902 hafi ekki verið á áætlun heldur hafi verið seinkun á flugi frá Spáni sem einnig hafi verið vegna eldgossins. Seinkunin hafi hins vegar aðeins verið tvær klukkustundir. Í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 komi fram skyldur flugrekenda við seinkun á flugi. Evrópudómstóllinn hafi komist að því að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst, sbr. 5. gr. Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar komi fram að flugrekanda beri ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.

Náttúruhamfarir sem í eðli sínu séu óviðráðanleg ytri atvik hafi leitt til umræddrar seinkunar og hafi IEX ekki getað afstýrt henni með neinu móti. Seinkun á flugi AEU902 með IEX til Kaupmannahafnar þann 8. maí 2010 hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna (force majeure) sem ekki hafi verið hægt að afstýra jafnvel þótt allar viðeigandi ráðstafanir hefðu verið gerðar.

Kæran var send FMS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 9. febrúar 2011. Með bréfi ráðuneytisins þann sama dag var MP tilkynnt um fram komna kæru.

Umsögn FMS barst ráðuneytinu með bréfi dags. 10. mars 2011. Í henni vekur FMS athygli á breytingum sem gerðar voru á lögum um loftferðir nr. 90/1998 með lögum nr. 87/2010. Þessar breytingar lúti annars vegar að almennum heimildum FMS til að setja reglur um ákveðna þætti í starfsemi sinni og hins vegar hafi ýmsar valdheimildir stofnunarinnar verið styrktar. Í lögunum sé þannig að finna breytingar er varði hagsmuni neytenda en aukin áhersla hafi verið lögð á mikilvægi neytendasjónarmiða á sviði samgangna og sé lögunum ætlað að endurspegla þá áherslubreytingu, m.a. í 126. gr. c. vegna bóta í tengslum við tafir eða niðurfellingu flugs.

Þannig geti neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra beint kvörtun til FMS. Stofnunin taki málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og skeri úr ágreiningi með ákvörðun ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Ólíkt því sem verið hafi fyrir þessa síðustu breytingu á lögunum þá bindi sú ákvörðun flugrekandann.

Reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður hafi verið innleidd hér á landi með reglugerð nr. 574/2005 sem sett hafi verið með heimild í 126. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar 574/2005 sé FMS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Þá segir í umsögn FMS að IEX byggi kröfu um að ákvörðun FMS verði felld úr gildi á því að um hafi verið að ræða óviðráðanlegar aðstæður þar sem sú vél er fljúga átti umrætt flug hafi orðið að lenda á Akureyrarflugvelli í stað Keflavíkurflugvallar þar sem lokun Keflavíkurflugvallar hafi verið yfirvofandi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. FMS hafni í hinni kærðu ákvörðun þeirri málsástæðu IEX að umrædd seinkun á flugi AEU902 frá Keflavík til Kaupmannahafnar þann 8. maí 2010 hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem leiða ætti til þess að skylda IEX til greiðslu skaðabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 574/2005 falli niður.

Flug AEU902 hafi samkvæmt áætlun átt að fara frá Keflavík áleiðis til Kaupmannahafnar kl. 7.00 þann 8. maí 2010. Á þeim tíma sé ljóst samkvæmt yfirliti yfir umferð um Keflavíkurflugvöll þann dag að flugvöllurinn hafi verið opinn fyrir flugumferð fyrri hluta 8. maí 2010 og hafi þó nokkrar brottfarir flugvéla IEX og Icelandair átt sér stað þennan morgun. Megi m.a. nefna flug IEX nr. AEU501 frá Keflavík til London Gatwick sem farið hafi frá Keflavíkurflugvelli kl. 7.06 og sömuleiðis flug Icelandair FI204 frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 8.00. Þá liggi jafnframt ljóst fyrir, sbr. og það sem fram komi í kæru IEX, að enn hafi verið að eiga sér stað millilandaflug kl. 9.33 eða rúmri tveimur og hálfri klukkustund síðar en áætluð brottför flugs AEU902 var. Þá hafi flug FI6001 tekið á loft frá Keflavíkurflugvelli kl. 11.09 sem bendi til þess að þá hafi enn verið tök á flugi þó rétt sé að það flug hafi lent á Akureyrarflugvelli vegna yfirvofandi lokunar Keflavíkurflugvallar vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. FMS bendir að auki á að framangreint yfirlit staðfesti að flugvélar hafi verið að lenda á Keflavíkurflugvelli fram til kl. 7.00 þennan sama morgun.

Það er mat FMS að IEX geti ekki fríað sig bótaábyrgð með vísan til þess að vél félagsins sem flytja átti MP kl. 7.00 að morgni þess 8. maí 2010 hafi vegna seinnar komu úr öðru flugi frá Spáni lent á Akureyrarflugvelli. Atvik er varði annað flug en það sem um er deilt geti ekki valdið slíkri víxlverkun að teljist til óviðráðnlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Á áætluðum brottfarartíma AEU902 hafi Keflavíkurflugvöllur verið opinn fyrir flugumferð og engar óviðráðanlegar aðstæður því til fyrirstöðu að flogið yrði umrætt flug.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skuli veita í slíkum tilvikum sé fjallað um í 6. gr. reglugerðar nr. 261/2004. Þar komi hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og átt getur við þegar flugi er aflýst, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum c-402/07 og C-432/07 hafi dómstóllinn hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst, sbr. 5. gr. Þetta þýði að allir farþegar sem verði fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, sem geri það að verkum að þeir komi á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, geti átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Meginmáli EES-samningsins hafi verið veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið. Í 3. gr. laganna sé kveðið á um að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggjast. Þá sé í 3. gr. EES-samningsins hnekkt á þeirri skyldu samningsríkja til ráðstafana til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiða. Grundvallarmarkmið EES-samningsins sé að tryggja samræmi innan alls svæðisins. Í því skyni sé sú túlkunarregla í 6. gr. EES-samningsins að samningsákvæði beri að túlka í samræmi við þá úrskurði Evrópudómstólsins sem máli skipta og varða þau ákvæði EB réttar sem eru efnislega samhljóða EES-reglum. Þetta gildi þó aðeins um þá úrskurði sem upp hafi verið kveðnir fyrir undirritunardag EES-samningsins en í 3. gr. samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA sé gert ráð fyrir að tilhlýðilegt tillit sé tekið til dómsúrlausna Evrópudómstólsins sem kveðnir eru upp eftir þann dag. Í framkvæmd hafi enginn munur verið talinn á fordæmisgildi dómsúrlausnar dómstólsins fyrir og eftir undirritunardag EES-samningsins. Liggi fyrir að leitast skuli við eftir mætti að tryggja samræmda túlkun samningsákvæða.

Beri flugrekandi fyrir sig óviðráðanlegar aðstæður liggi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu hans megin. Hvíli á flugrekanda að sýna fram á að sannarlega hafi verið uppi óviðráðanlegar aðstæður sem ekki hafi verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Takist sú sönnun ekki verði flugrekandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Með hliðsjón af þessu ítrekar FMS kröfu sína.

Með bréfum ráðuneytisins dags. 29. mars og 11. maí 2011 var IEX gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum FMS. Engin andmæli bárust.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. maí 2011 var MP gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfum til aðila málsins og FMS dags. 7. júní 2011 var tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

III.      Niðurstaða ráðuneytisins

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun FMS fjallar reglugerð EB/261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst  eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 574/2005. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er FMS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB/261/2004.

Þá kemur og fram í umsögn og ákvörðun FMS að um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skuli veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB/261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að ef farþegar verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Í máli þessu liggur fyrir að samkvæmt áætlun var flug IEX nr. AEU902 áætlað frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 þann 8. maí 2010. Óumdeilt er að brottför var seinkað til kl. 13.00 þann 9. maí frá Akureyri eða um rúmlega sólarhring. Snýst ágreiningur aðila um hvort seinkunin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir, sbr. ákvæði 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB/261/2004. Byggir IEX á því að seinkunin sé til komin vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og lokun Keflavíkurflugvallar. Ákvörðun FMS byggist hins vegar á því að IEX hafi ekki tekist sú sönnun, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, og því ákvarðað að IEX skuli greiða MP bætur vegna seinkunarinnar.

Fyrir liggur og óumdeilt er að sú flugvél sem átti að annast flug AEU902 frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 þann 8. maí 2010 var að koma frá Spáni þann sama morgun. Var áætluð lending flugvélarinnar kl. 9.00 eða um tveimur tímum síðar en áætluð brottför var til Kaupmannahafnar. Byggir IEX á því að vegna yfirvofandi lokunar Keflavíkurflugvallar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hafi verið tekin sú ákvörðun að lenda flugvélinni á Akureyrarflugvelli í stað Keflavíkurflugvallar. Sé seinkun flugs AEU902 því af óviðráðanlegum orsökum.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir og aflað var af hálfu FMS var Keflavíkurflugvöllur opinn fyrir flugumferð fyrri hluta dags 8. maí 2010. Fóru þannig nokkrar flugvélar frá Keflavíkurflugvelli þennan morgun. Átti síðasta millilandaflugið þennan morgun sér stað kl. 9.33. Auk þess fór vél frá Icelandair til Akureyrar frá Keflavíkurflugvelli kl. 11.09 eða fjórum tímum eftir að áætlað var að flug AEU902 færi áleiðis frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Þá liggur og fyrir að nokkrar vélar lentu á Keflavíkurflugvelli að morgni hins 8. maí 2010 fram til kl. 7.00.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það mat FMS að IEX geti ekki fríað sig bótaábyrgð með vísan til þess að flugi félagsins nr. AEU902, sem áætlað var frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 að morgni 8. maí 2010, hafi seinkað vegna seinnar komu flugvélarinnar frá Spáni og flugvélin hafi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli lent á Akeyrarflugvelli. Er það mat ráðuneytisins að upphafleg ástæða seinkunar á flugi AEU902 frá Keflavík til Kaupmannahafnar sé fyrst og fremst til komin vegna seinkunar á fluginu frá Spáni en hafi ekki verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Liggur þannig fyrir að á áætluðum brottfarartíma flugs AEU902 kl. 7.00 var Keflavíkurflugvöllur opinn fyrir flugumferð og var svo allt fram til kl. 11.09 þegar síðasta skráða brottför er frá flugvellinum. Þá er ráðuneytið sammála því mati FMS að atvik er varða annað flug en það sem um er deilt geta ekki valdið slíkri víxlverkun að teljist til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB/261/2004. Er það því mat ráðuneytisins að IEX hafi ekki tekist sönnun þess að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða sem leiddu til seinkunar á flugi AEU902.

Þá hefur ráðuneytið yfirfarið málsmeðferð FMS og er hún í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB/261/2004 sbr. reglugerð nr. 574/2005.

Úrskurðarorð :

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir                                                                                                    Brynjólfur Hjartarson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta