Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Úrskurður í máli nr. SRN17110062

Ár 2018, þann 9. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17110062

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 21. nóvember 2017 barst ráðuneytinu kæra X, kt. 000000-0000 (hér eftir nefndur X), á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 24. október 2017 um að synja umsókn X um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Af kæru verður ráðið að X krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum veitt umbeðið leyfi.

Kæruheimild er í 4. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Af gögnum málsins má sjá að X lagði fram umsókn um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar í október 2017. Með ákvörðun SGS þann 24. október 2017 var þeirri umsókn synjað.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi X mótteknu þann 21. nóvember 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 23. nóvember 2017 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi SGS mótteknu 14. desember 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. janúar 2018 var X kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Með tölvubréfi X dags. 1. febrúar 2018 kvaðst hann ekki hafa frekari efnislegar athugasemdir fram að færa.

Með tölvubréfi ráðuneytisins þann sama dag var X tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök X

Í kæru vísar X til þess að hann hafi átt von á að fá úthlutun þar sem hann hafi haft tæpa 1.200 daga í reynslu sem afleysingabílstjóri og alls hafi 40 leyfi verið til úthlutunar. Telur X að samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 397/2003 hefði átt að veita honum atvinnuleyfi nú. Í ákvæðinu sé SGS veitt heimild til að taka sérstakt tillit til umsókna frá öryrkjum, ekki aðeins að veita 260 daga í forgjöf heldur megi einnig samkvæmt orðanna hljóðan taka sérstakt tillit til slíkra umsókna. Telur X að SGS hafi átt að gera slíkt í þessu tilviki og úthluta honum leyfi. Kveðst X vera með gervifót og hafi skilað til SGS þeim vottorðum sem tilgreind eru í 6. gr. og hafi fengið metna 260 daga í forgjöf.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að skilyrði til að fá úthlutað atvinnuleyfi séu tilgreind í lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001, sbr. reglugerð nr. 397/2003. Hafi SGS farið yfir umsókn X með tilliti til laga og reglna. Uppfylli X ekki skilyrði um starfsreynslu við akstur leigubifreiðar samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar og fái því ekki úthlutað atvinnuleyfi að þessu sinni. Þá kemur fram í ákvörðun SGS að í október 2017 hafi verið úthlutað 40 atvinnuleyfum til leiguaksturs.

Í umsögn SGS kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001 fari SGS með framkvæmd mála er varðar leigubifreiðar. Undir starfssvið stofnunarinnar falli m.a. útgáfa atvinnuleyfa. Í 6. gr. reglugerðar um leigubifreiðar nr. 397/2003, sbr. 8. gr. laga nr. 134/2001, sé fjallað um úthlutunarreglur þær sem gilda þegar gefin eru út atvinnuleyfi til leiguaksturs. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar veiti SGS að öllum skilyrðum uppfylltum atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar. Sé SGS heimilt að taka sérstakt tillit til umsókna frá öryrkjum enda hafi þeir meðmæli frá Öryrkjabandalagi Íslands og tryggingayfirlækni um að leiguakstur henti þeim vel og fötlun hindri þá ekki í starfi. Öryrkjar fái metna 260 daga í reynslu við mat á atvinnuleyfisumsókn. Starfsreynsla samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar sé metin á grundvelli dagafjölda, þ.e. fjölda daga sem umsækjandi hefur starfað við akstur leigubifreiðar sem afleysingabílstjóri. Sá sem hafi flesta daga í starfsreynslu sé fyrstur í röðinni til að hljóta úthlutun atvinnuleyfis. Í október 2017 hafi farið fram úthlutun á 40 atvinnuleyfum til leiguaksturs. Þeir sem fengu úthlutað leyfum hafi verið með frá 1200 dögum upp í um 1600 daga. X hafi verið með 1155 daga metna í starfsreynslu þegar úthlutun fór fram. Í dag sé X með 1214 daga metna miðað við þá akstursheimild sem hann hafi til 7. janúar 2018 og teljist þeir dagar með sem enn eru óunnir. Þá hafi X í september 2016 fengið metna 260 aukadaga eins og heimilt sé samkvæmt ákvæði reglugerðarinnar. Séu þeir dagar taldir með hér að framan. Hafi X þegar úthlutun fór fram ekki náð sama dagafjölda og þeir 40 sem fengu úthlutað atvinnuleyfi. Hafi honum því verið synjað um útgáfu atvinnuleyfis til leiguaksturs.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða, veitingu þeirra og skilyrði sem þarf að uppfylla er fjallað í lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001. Í 5. gr. laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og þau talin upp í 1. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. 5. gr. kemur síðan fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og akstri forfallabílstjóra. Um veitingu atvinnuleyfa er fjallað í 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er atvinnuleyfi samkvæmt 5. gr. skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur, sbr. þó 9. gr. laganna. Séu atvinnuleyfi gefin út af SGS hvort sem er á takmörkunarsvæðum eða utan þeirra. Um takmörkun á fjölda leigubifreiða er fjallað í 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis setur ráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum SGS, nánari reglur um fjölda leigubifreiða á ákveðnum svæðum að fenginni umsögn sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga leigubifreiðastjóra. Segir þar einnig í 3. mgr. að þar sem takmörkun á fjölda leigubifreiða hafi verið ákveðin skuli umsækjandi fullnægja skilyrðum 5. gr. og sitji hann að jafnaði fyrir við úthlutun leyfa hafi hann stundað leigubifreiðaakstur í a.m.k. eitt ár. Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 8. gr. skal takmörkun þessi framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa samkvæmt lögunum.

Á grundvelli laga um leigubifreiðar hefur verið sett reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003. Í 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um takmörkunarsvæði. Kemur þar m.a. fram að hámarksfjöldi atvinnuleyfa á takmörkunarsvæði I sé 580 atvinnuleyfi. Þá kemur fram í ákvæðinu að takmörkun sé framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa svo sem hámarkstala segir til um. Um úthlutunarreglur er fjallað í 6. gr. reglugerðarinnar. Segir þar m.a. í 1. mgr. að SGS veiti að uppfylltum öllum skilyrðum atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar. Þá kemur þar einnig fram að SGS sé heimilt að taka sérstakt tillit til umsókna frá öryrkjum enda hafi þeir meðmæli Öryrkjabandalags Íslands og tryggingayfirlæknis um að leiguakstur henti þeim vel. Þá fá öryrkjar samkvæmt ákvæðinu metna 260 daga í starfsreynslu við mat á atvinnuleyfisumsókn.

Líkt og fram hefur komið sótti X um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar á takmörkunarsvæði I en hámarksfjöldi atvinnuleyfa á því svæði er 580. Þegar umsókn X var til meðferðar hjá SGS voru til úthlutunar 40 laus atvinnuleyfi. Var það niðurstaða SGS að reynsla X hafi ekki verið nægjanleg til úthlutunar þar sem hann hafi ekki verið einn af þeim sem voru með mestu starfsreynsluna. Hafi X á þeim tíma sem úthlutun fór fram verið með 1155 daga metna í starfsreynslu en þeir sem fengu úthlutað leyfum hafi verið með frá 1200 dögum upp í um 1600 daga.

Það er mat ráðuneytisins að þau sjónarmið sem ákvörðun SGS byggist á séu í samræmi við þau ákvæði laga um leigubifreiðar og reglugerðar um leigubifreiðar sem rakin hafa verið og gilda um veitingu og úthlutun atvinnuleyfa til aksturs leigubifreiða á takmörkunarsvæðum. Af gögnum málsins verði þannig ráðið að X hafi ekki verið einn af þeim sem voru með mestu starfsreynsluna. Hafi niðurstaða SGS því byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Varðandi þá athugasemd X að heimilt hafi verið að taka sérstakt tillit til umsókna frá öryrkjum bendir ráðuneytið á að aðeins er þar um heimildarákvæði að ræða, auk þess sem SGS hafði fengið metna 260 aukadaga samkvæmt ákvæðinu.

Með þessum athugasemdum er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 24. október 2017 um að synja umsókn X um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta