Úrskurður í máli nr. IRN22010975
Ár 2022, þann 26. september, er í innviðaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRN22010975
Kæra Icelandair ehf.
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru móttekinni, 30. nóvember 2021, kærði Icelandair (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun Samgöngustofu nr. 33/2021 frá 31. ágúst 2021 þess efnis að kæranda hafi verið gert að greiða staðlaðar skaðabætur að fjárhæð 400 evrur til X (hér eftir nefndur farþeginn). Kærandi krefst þess aðallega að ráðuneytið snúi við ákvörðun Samgöngustofu og hafni kröfu farþegans um skaðabætur. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Samgöngustofu verði felld úr gildi.
Kæruheimild er í 3. mgr. 126. gr. c loftferðalaga nr. 60/1998 og 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá barst stjórnsýslukæran innan þess frests sem getið er um í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
II. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins
Farþeginn bókaði þann 28. maí 2020 flug með Icelandair frá Keflavíkurflugvelli til Gardermoen flugvallar við Ósló þann 4. júní 2020 og sömu leið til baka þann 7. júní 2020. Flugnúmer farþega þann 4. júní 2020 var FI318 og var áætlaður brottfarartími 07:50 (að staðartíma) og var áætlaður komutími 12:35 (að staðartíma) sama dag. Flugnúmer farþega þann 7. júní 2020 var FI319 og var áætlaður brottfaratími 13:45 (að staðartíma) og áætlaður komutími 14:45 (að staðartíma) sama dag.
Þann 29. maí 2020 aflýsti félagið flugi FI318 vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins og upplýsti farþegann með því að senda tölvupóst á það netfang sem viðkomandi gaf upp við gerð bókunarinnar.
Þann 30. júní 2020 óskaði farþeginn eftir bótum skv. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður og um að fella úr gildi reglugerð EBE nr. 295/91, sem innleidd var hér á landi með reglugerð 1048/2012. Kærandi hafnaði þá bótakröfunni og í svörum hans kom fram að aflýsingin væri til komin vegna óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.
Farþeganum voru ákvarðaðar staðlaðar bætur með ákvörðun Samgöngustofu nr. 33/2021 frá 31. ágúst 2021.
Kærandi kærði ákvörðun Samgöngustofu til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru móttekinni þann 30. nóvember 2021.
Umsögn Samgöngustofu barst ráðuneytinu þann 22. desember 2021.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda þann 8. febrúar 2022.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi telur sér rétt og skylt að gera alvarlegar aðfinnslur við málsmeðferð Samgöngustofu við úrlausn málsins. Kvörtun farþegans hafi borist Samgöngustofu þann 4. október 2020. Þann 5. október sama ár hafi stofnunin leitað umsagnar félagsins og umsögnin borist stofnuninni 8. janúar sama ár. Málinu hafi síðan verið lokið á lægra stjórnsýslustigi, með birtingu ákvörðunar, 31. ágúst 2021.
Kærandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skuli ákvarðanir teknar svo fljótt sem unnt er. Þá beri samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, í þeim tilvikum þar sem málsmeðferð dregst verulega, að tilkynna það málsaðilum, auk þess sem málsaðilum skal kynnt hvenær ákvörðunar er að vænta. Í fyrirliggjandi máli hafi liðið 225 dagar frá því Samgöngustofu bárust öll nauðsynleg gögn og þar til ákvörðun í málinu var tekin. Þá hafi Samgöngustofa látið sér í léttu rúmi liggja að veita kæranda, sem sé aðili máls, þá tilkynningu sem stofnuninni bar að veita samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi telur engum blöðum um það að fletta að Samgöngustofa hafi, með langdreginni meðferð máls og skorti á tilkynningum um framgang málsins, brotið freklega í bága við reglur 9. gr. stjórnsýslulaga enda hafi ekkert komið fram sem skýri svo verulegan drátt við töku ákvörðunarinnar.
Þá bendir kærandi á að fjöldi mála hjá Samgöngustofu undanfarið ár hafi verið umtalsvert meiri en undanfarin ár. Sé sá mikli fjöldi mála til kominn vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins og þeirrar staðreyndar að flugsamgöngur um allan heim drógust saman eða hreinlega lögðust tímabundið af vegna útbreiðslu heimsfaraldursins. Þá ætti Samgöngustofu að vera fullljóst að í fjölda þessara kvartana sem snúa að samskonar niðurfellingum, við samskonar ástand, óskuðu farþegar eftir bótum en stofnunin lokið þeim málum með niðurfellingum er varðar kröfur um skaðabætur. Kæranda þykir ljóst að handahófskennd ákvarðanataka um bótaskyldu í hinni kærðu ákvörðun brjóti bersýnilega í bága við 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Megi í því samhengi benda á að stofnunin hafi í fjölda afmarkaðra tilfella tekið afstöðu til bótakrafna vegna niðurfellinga á flugferðum vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á vordögum ársins 2020. Aukinheldur hafi stjórnvaldið þann 28. febrúar 2020 birt almennar leiðbeiningar á vefsíðu sinni um rétt farþega til bóta þegar flugi er aflýst vegna faraldursins.
Kærandi ályktar, með hliðsjón af framangreindum og ætluðum brotum Samgöngustofu á meginreglum 9. og 11. gr. stjórnsýslulaga, auk hins gríðarlega málafjölda hjá stofnuninni, sem svo að óbreyttu megi búast við fjölda handahófskenndra ákvarðana vegna mála langt aftur í tímann kæranda til ómælds fjártjóns.
Kærandi vísar til þess að meginregla reglugerðarinnar sé réttur farþega til staðlaðra skaðabóta í tilfellum flugraskana. Flugrekandi geti þó neitað greiðslu skaðabóta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem ef aflýsingar séu boðaðar með tveggja vikna fyrirvara eða raskanir séu til komnar vegna „óviðráðanlegra aðstæðna“, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.
Þá hafi Evrópudómstóllinn í máli C-549/07 Wallentin-Hermann g. Alitala skýrt hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo raskanir teljist vera vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Segir þar að aflýsing þurfi annars vegar að vera vegna atvika sem eru utan eiginlegrar yfirstjórnar flugrekanda og hinsvegar þurfi atvik að vera utan eðlilegrar flugrekstrarstarfsemi. Þá sé efnislega sama hugtak að finna í pakkaferðatilskipun Evrópusambandsins nr. 2015/2302.
Kærandi byggir á að íslenskir dómstólar hafi ljáð hugtakinu „óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður“ frekari fyllingu í dómaframkvæmd en í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-3281/2020 sé afdráttarlaust skorið úr um að útbreiðsla heimsfaraldurs, líkt og kórónuveirufaraldursins, beri að heimfæra til óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.
Þá telur kærandi það ekki nokkrum vafa undirorpið að heimfæra beri útbreiðslu heimsfaraldurs til óviðráðanlegra aðstæðna. Þann 11. mars 2020, hafi Alþjóða Heilbrigðisstofnunin lýst útbreiðslu kórónuveirunnar sem alheimsfaraldri. Þann 19. mars 2020 hafi sóttvarnalæknir lýst Íslandi og síðar Noregi sem hááhættusvæði vegna útbreiðslu kórónuveiru auk þess að nokkrum dögum áður hafi sóttvarnalæknir formlega ráðlagt öllum Íslendingum frá ferðalögum erlendis, auk þess að hvetja Íslendinga erlendis til að flýta heimför. Þá hefðu ýmis ríki heims lokað landamærum sínum (t.a.m. BNA og Kanada) auk þess að ríki Evrópu hafi flest sett reglur um samkomu- og aðrar samfélagslegar takmarkanir með skömmum fyrirvara. Í kjölfar þess hafi kærandi aflýst fluginu til Óslóar.
Kærandi áréttar að Evrópudómstóllinn hafi í dómaframkvæmd afmarkað skýrlega undir hvaða kringumstæðum aðstæður geti flokkast sem „óviðráðanlegar aðstæður“ í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Sé þar um að ræða aðstæður sem eru ekki háðar eiginlegri yfirstjórn flugrekanda og hins vegar aðstæður sem eru utan eðlilegrar flugrekstrarstarfsemi. Þá hafi útbreiðsla heimsfaraldurs og aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við slíkri útbreiðslu kollvarpað um leið öllum forsendum fyrir rekstri tiltekinna flugleiða á þann veg sem væri ekki háður eiginlegri yfirstjórn flugrekenda, enda geti flugrekandi hvorki hindrað útbreiðslu heimsfaraldurs né haft áhrif á aðgerðir stjórnvalda. Þá sé það bersýnilega ekki innan eðlilegrar flugrekstrarstarfsemi að hindra útbreiðslu heimsfaraldurs eða fara með löggjafar- og/eða framkvæmdarvald sem áhrif hafi á slíkar aðstæður. Því síðastnefnda til stuðnings vísar kærandi til leiðbeinandi tilmæla Evrópusambandsins frá 18. mars 2020.
Kærandi byggir á því að Samgöngustofa hafi í ákvörðun sinni vísað til þrengjandi lögskýringar Evrópudómstólsins og þess að önnur flug hafi ferðast til/frá Keflavík umræddan dag. Kærandi telur rétt að gerðar séu alvarlegar aðfinnslur við rökstuðning Samgöngustofu.
Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemdir við að vísað sé til „þrengjandi lögskýringar Evrópudómstólsins“ í sama mund og Samgöngustofa sniðgangi með öllu þau viðmið sem Evrópudómstóllinn setti fram í máli Wallentin-Hermann. Þá hafi Samgöngustofa og ráðuneytið margítrekað í úrlausnum og ákvörðunum sínum vísað í framangreind viðmið. Skjóti því skökku við að Samgöngustofa kjósi skyndilega að víkja frá framangreindu fordæmi Evrópudómstólsins við afmörkun óviðráðanlegra aðstæðna.
Þá telur kærandi rétt að benda á að rökfærsla Samgöngustofu á þá vegu að önnur flug hafi komið til Óslóar umræddan dag sé hvorki rökrétt né í nokkru samhengi við dómaframkvæmd á réttarsviðinu, enda beri ávallt að meta það atviksbundið hvort óviðráðanlegar aðstæður séu til staðar. Í slíku samhengi sé ótækt að vísað sé til starfrækslu annarra flugferða, sem voru e.t.v. annars eðlis og/eða komu frá öðrum áfangastöðum, hvar aðrar reglur og eftir atvikum forsendur giltu um starfrækslu flugferða. Aukinheldur mætti með sömu rökum benda á að eingöngu eitt farþegaflug hafi ferðast frá Keflavík umræddan dag, en það hafi verið til Boston í Massachusetts í Bandaríkjunum.
Kærandi byggir einnig á að minna en tveimur vikum fyrir áætlaða starfrækslu flugs farþega (þ.e. þann 17. maí 2020) hafi tekið gildi samningur stjórnvalda við félagið sem ætlað var að tryggja lágmarkssamgöngur til og frá landinu á hamfaratímum. Kærandi telur það skjóta skökku við að á sama tímabili og ráðuneytið gangi til slíkra neyðarsamninga telji Samgöngustofa ekki ríkja óviðráðanlegar aðstæður sem réttlætt geti niðurfellingu flugs.
Kærandi heldur því fram að Samgöngustofa hafi í ákvörðun sinni ekki vikið að því hvað valdi því að vikið skuli svo freklega frá eigin leiðbeiningum sem birtar voru 28. febrúar 2020. Kærandi leiðir að því líkum að batnandi fjárhagsstaða félagsins eða síðari þróun faraldursins hafi mildað upplifun Samgöngustofu af vordögum 2020. Kærandi telur að vart þurfi að taka fram að hvorugt framangreindra sjónarmiða geti talist málefnalegt í skilningi 11. gr. stjórnsýslulaga.
Þá gerir kærandi athugasemdir við starfshætti og ákvarðanatöku stjórnvaldsins en hann telur ekki nokkrum vafa undirorpið að Samgöngustofa hafi með ákvörðun sinni gengið gegn jafnræðisreglu og málefnalegum sjónarmiðum við úrlausn málsins. Þá vísar kærandi til ákvörðunar Samgöngustofu nr. 12/2021 hvar sé fallist á að óviðráðanlegar aðstæður í ljósi lettneskar löggjafar sem mælti gegn ferðalögum til landa þar sem nýgengni smita var yfir 25 á hverja milljón íbúa. Hafi flugi flugrekanda í því tilfelli verið aflýst tveimur dögum fyrir áætlaða starfrækslu þess.
IV. Ákvörðun og umsögn Samgöngustofu
Í ákvörðun Samgöngustofu kemur eftirfarandi fram:
„Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998 eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c. loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.
Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.
Um aflýsingu flugs og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skal farþegum ef flugi er aflýst, boðin aðstoð af hálfu flugrekandans í samræmi við 8. gr. og a-lið 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 9. gr. Í 8. gr. reglugerðarinnar er fjallað um rétt farþega til þess að fá endurgreitt eða að fá flugleið breytt. Þar kemur nánar tiltekiðfram að flugfarþegar eigi eftirfarandi kosta völ; að fá innan sjö daga endurgreitt að fullu upprunalegt verð farmiðans, að breyta flugleið, með sambærilegum flutningsskilyrðum, til lokaákvörðunarstaðar eins fljótt og auðið er, eða að breyta flugleið, með sambærilegum flutningsskilyrðum og komast til lokaákvörðunarstaðar síðar meir.
Auk framangreinds gildir að sé flugi aflýst eiga farþegar rétt á skaðabótum frá flugrekanda í samræmi við 7. gr., hafi ekki verið tilkynnt um aflýsingu á þann hátt sem mælt er um í i) – iii) liðum c-liðar 1. mgr. 5. gr. Þetta gildir nema flugrekandi geti sýnt fram á að flugi hafi verið aflýst af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir, sbr. 3. mgr. 5 gr. reglugerðarinnar.
Loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.
Fyrir liggur að kvartandi átti bókað far með flugi nr. FI318 frá Keflavík til Oslóar þann 4. júní 2020 og fluginu var aflýst.
Álitaefni þessa máls er hvort að aflýsingu á flugi kvartanda megi rekja til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Í leiðbeinandi tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem birt voru þann 18. mars 2020 er að finna leiðbeiningar varðandi túlkun á ákvæðum EB reglugerðar nr. 261/2004 vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 hefur haft á flugrekendur og farþega, aðallega með hliðsjón af aflýsingu á flugi.
Í umræddum leiðbeiningum kemur m.a. fram að óviðráðanlegur aðstæður kunni að skapast þegar stjórnvöld banna tiltekin flug eða banna för manna þannig að það útiloki í raun umrætt flug. Að því er varðar síðari málsliðinn segir í leiðbeiningunum eftirfarandi:
This condition may also be fulfilled, where the flight cancellation occurs in circumstances where the corresponding movement of persons is not entirely prohibited, but limited to persons benefitting from derogations (for example nationals or residents of the state concerned).
Í þessu máli verður að líta til þrengjandi lögskýringu Evrópudómstólsins á hugtakinu óviðráðanlegar aðstæður í skilningi 3. mgr. 5. gr. EB reglugerðar nr. 261/2004 og til útgefinna leiðbeininga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að til þess að óviðráðanlegar aðstæður skapist verði að vera um að ræða slíka takmörkun á för manna að hún sé sé „de facto“ bann.
Samkvæmt upplýsingum sem sóttar voru af heimasíðu Flightstats voru fjölmörg flug flogin til Gardermoen flugvallarins í Osló þann 4. júní 20202 og ekkert liggur fyrir um að það hafi einungis verið norskir ríkisborgarar sem hafi mátt koma til landsins.
Með hliðsjón af gögnum málsins þá hefur IA ekki að mati SGS sýnt fram á að flugi nr. FI318 frá Keflavík til Oslóar þann 4. júní 2020 hafi verið aflýst vegna aðstæðna sem falli í flokk óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi EB reglugerðar nr. 261/2004.
Með vísan til þess sem að framan er ritað, þess að landamærin voru ekki lokuð og með hliðsjón af venjubundinni túlkun Evrópudómstólsins á hugtakinu óviðráðanlegar aðstæður, sbr. 3. mgr. 5. gr. EB reglugerðar 261/2004, fellur aflýsing flugsins undir bótaskylt atvik samkvæmt reglugerðinni. Þannig eru skilyrði bótaskyldu á grundvelli 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 uppfyllt og ber að fallast á kröfu kvartanda um staðlaðar skaðabætur vegna aflýsingar á flugi nr. FI318 þann 4. júní 2020.“
Í umsögn Samgöngustofu kemur fram að við könnun hennar á flugferðum milli Keflavíkur og Óslóar hafi komið í ljós að fjölmörg flug voru flogin á sama degi til Ósló og framkvæma átti flug kæranda. Að sama skapi hafi töluvert margar flugferðir verið farnar á aflýsingardegi. Þá hafi ekki verið að finna upplýsingar um að einungis norskir ríkisborgarar hafi mátt koma til Noregs á umræddum tíma. Með vísan til þess hafi ekki verið litið svo á að landamæri Noregs hafi verið lokuð og niðurstaða Samgöngustofu þ.a.l. að umrædd aflýsing félli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna. Þá hafi verið fallist á skaðabætur til handa farþega þar sem flugi hans var einungis aflýst með sex daga fyrirvara en samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 á farþegi rétt á skaðabótum ef flugi hans er aflýst með minna en 14 daga fyrirvara.
Samgöngustofa tekur undir með kæranda hvað varðar mikinn fjölda mála sem berast stofnuninni í málaflokknum. Samgöngustofa vísar til þess að neytendamál krefjist oft á tíðum mikilla samskipta við málsaðila auk leiðbeininga. Rétt sé að langur tími hafi liðið frá kvörtun og þar til ákvörðun var gefin út. Samgöngustofa telur þó að ekki sé um óeðlilegan drátt að ræða í máli þessu en tafir á afgreiðslu málsins megi einkum rekja til álags í málaflokknum og þá ekki síst vegna þess ástands sem skapaðist í flugsamgöngum vegna áhrifa heimsfaraldursins.
Þá hafnar Samgöngustofa að um handahófskennda ákvörðun hafi verið um að ræða. Þá fari hún með ítarlegum og samræmdum hætti yfir öll mál sem berist stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins og án ótilhlýðilegra tafa.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun Samgöngustofu fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.
Um aflýsingu flugs og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað í 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 5. gr. skulu viðkomandi farþegar eiga rétt á skaðabótum frá flugrekandanum í samræmi við 7. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.
Ráðuneytið bendir á að með reglugerð nr. 1048/2012 er leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála. Þá bendir ráðuneytið á að það er meginregla samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að farþegar eigi rétt á skaðabótum verði þeir fyrir aflýsingu eða mikilli seinkun á flugi. Sönnunarbyrði fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið uppi hvílir alfarið á flugrekandanum og ber honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir aflýsinguna eða seinkunina. Takist sú sönnun ekki ber flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt.
Að mati ráðuneytisins gæti heimsfaraldur almennt séð talist til óviðráðanlegra aðstæðna en telur óviðráðanlegar aðstæður í skilningi pakkaferðatilskipunarinnar ekki eiga við þetta mál þar sem hún og lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 séu sértækari en þær réttarheimildir sem gilda um þau atvik sem fjallað er um í máli þessu. Þá er tilvísaður dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli E-3281/2020 sama marki brenndur.
Ráðuneytið bendir á að skilgreining á hááhættusvæðum hafði einkum þýðingu hvað varðaði skyldu til þess að sæta sóttkví við heimkomu. Ferðatakmarkanir til landa eða landshluta sem féllu undir skilgreininguna takmörkuðust við skyldu til þess að sæta sóttkví. Það felur hins vegar ekki í sér að kæranda hafi verið meinað af yfirvöldum að fljúga til Noregs. Þá fela ráðleggingar sóttvarnalæknis ekki það í sér að kæranda hafi á nokkurn hátt verið meinað eða gert ómögulegt að fljúga til Noregs. Þó svo ekkert flug hafi yfirleitt farið frá Keflavík þennan dag ef frá eru talin flug FI til Boston í Bandaríkjunum, sem starfrækt var á grundvelli ríkissamnings þess sem til er vísað í af kæranda, og fraktflug Bluebird, telur ráðuneytið að á engan hátt megi ráða að kæranda hafi verið meinað að fljúga til Noregs.
Í athugasemdum kæranda við svör Samgöngustofu kemur fram að kærandi telji stofnunina horfa fram hjá því að ekki hafi verið flogið frá Keflavík til Óslóar þennan dag. Kærandi vísar jafnframt til ákvörðunar nr. 12/2021 hvar fallist var á óviðráðanlegar aðstæður í ljósi lettneskar löggjafar sem mælti gegn ferðalögum til landa þar sem nýgengi smita var yfir 25 á hverja milljón íbúa. Var flugi flugrekanda í því tilfelli aflýst tveimur dögum fyrir áætlaða starfrækslu þess, óháð því að nýgengi hérlendis var síðan lægra en 25 á umræddum ferðadegi. Ráðuneytið telur aðstæður ekki sambærilegar í málinu þar sem sýnt var fram á að stjórnvöld í Lettlandi hafi meinað viðkomandi flugfélagi að fljúga milli Íslands og Lettlands.
Í þessu máli verður að líta til þrengjandi lögskýringar Evrópudómstólsins á hugtakinu óviðráðanlegar aðstæður í skilningi 3. mgr. 5. gr. EB reglugerðar nr. 261/2004 og til útgefinna leiðbeininga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að til þess að óviðráðanlegar aðstæður skapist verði að vera um að ræða slíka takmörkun á för manna að hún sé sé „de facto“ bann.
Með vísan til þess sem að framan er ritað, þess að landamærin voru ekki lokuð og með hliðsjón af venjubundinni túlkun Evrópudómstólsins á hugtakinu óviðráðanlegar aðstæður, sbr. 3. mgr. 5. gr. EB reglugerðar 261/2004, fellur aflýsing flugsins undir bótaskylt atvik samkvæmt reglugerðinni. Þannig eru skilyrði bótaskyldu á grundvelli 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 uppfyllt og ber að fallast á kröfu farþegans um skaðabætur vegna aflýsingar á flugi nr. FI318 þann 4. júní 2020.
Ráðuneytið telur ekki þörf á að fjalla sérstaklega um aðrar málsástæður kæranda.
Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.