Úrskurður í máli nr. SRN17110065
Ár 2018, þann 18. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. SRN17110065
Kæra WOW Air ehf.
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Þann 21. nóvember 2017 barst ráðuneytinu kæra WOW Air (hér eftir nefnt WOW) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli X (hér eftir nefndur farþeginn) nr. x/2017 frá 14. ágúst 2017. Með ákvörðun Samgöngustofu var WOW gert að greiða farþeganum bætur að fjárhæð 600 evrur samkvæmt c-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012, vegna seinkunar á flugi WOW frá Washington til Kaupmannahafnar, með millilendingu í Keflavík, þann 10. október 2015. Krefst WOW þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþegans um bætur verði hafnað.
Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.
II. Kæruefni og ákvörðun SGS
WOW annaðist flug WW118 sem áætlað var frá Washington til Kaupmannahafnar, með millilendingu í Keflavík, þann 10. október 2015. Brottför flugsins frá Washington seinkaði sem varð til þess að farþeginn missti af tengiflugi í Keflavík. Var áætlaður komutími til Kaupmannahafnar kl. 12:05 en raunveruleg koma var kl. 12:00 næsta dag, eða tæplega sólarhringsseinkun. Er deilt um bótaábyrgð WOW vegna seinkunarinnar.
Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:
- Erindi
Þann 19. september sl. barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá Flyforsinkelse.dk ApS f.h. X (kvartandi). Kvartandi átti bókað far með flugi WOW air (WW) nr. WW118 frá Baltimore til Kaupmannahafnar þann 10. október 2015 með millilendingu í Keflavík. Brottför flugsins frá Baltimore seinkaði sem varð til þess að kvartandi missti af tengiflugi í Keflavík.
Upphaflega áætluð koma kvartanda til Kaupmannahafnar var kl. 12:05 en raunveruleg koma var kl. kl. 12:00 næsta dag eða 23 klukkustundum og 55 mínútum á eftir áætlun.
Kvartandi fer fram á bætur skv. 7. gr. EB reglugerðar 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.
- Málavextir og bréfaskipti
Samgöngustofa sendi WW kvörtunina til umsagnar þann 20. september 2016. Í svari WW sem barst Samgöngustofu þann 27. september sl. kemur fram að flug WW118 til Baltimore hafi þurft að lenda í Richmond vegna þrumuveðurs í Baltimore og hafi brottför þaðan því seinkað. Slæmt veður séu aðstæður sem teljist óviðráðanlegar í skilningi reglugerðar EB nr. 261/2004 og WW hafni því bótakröfu kvartanda. Meðfylgjandi umsögninni séu gögn með upplýsingum um seinkunina úr flugrekstrarkerfi WW.
Svar WW var sent kvartanda til umsagnar þann 28. september sl. en engar athugasemdir bárust.
- Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu
Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.
Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.
Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eiga rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta dómafordæmi var staðfest með dómi Evrópudómstólsins í máli C-11/11 og hefur nú einnig verið lögfest með 6. gr. reglugerðar nr. 1048/2012.
Loftferðalög nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.
Kvartandi átti bókað far með flugi nr. WW118 frá Baltimore til Kaupmannahafnar með millilendingu í Keflavík þann 10. október 2015. Fluginu seinkaði sem varð til þess að kvartandi missti af tengiflugi frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Í umsögn WW vísar félagið til þess að seinkun flugsins hafi komið til vegna seinkunar á fyrra flugi félagsins sem ekki hafi getað lent í Baltimore á réttum tíma vegna veðurs. Í umsögninni er réttilega bent á að veðuraðstæður séu meðal atvika sem fallið geta í flokk óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi reglugerðar EB nr. 261/2004 og leyst flugrekanda undan bótaábyrgð.
Í ljósi þess að loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega er það mat Samgöngustofu að þegar atvik sem leiða til seinkunar flugs, hafa áhrif á önnur eða síðari flug en það sem deilt er um, geti slík víxlverkun ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB 261/2004 fyrir hin síðari flug. Því leiði töf á síðari flugum til bótaskyldu flugrekanda skv. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Stofnunin vísar í þessu sambandi til fyrir ákvarðana um áhrif víxlverkana, til að mynda með ákvörðun nr. 12/2011. Sú niðurstaða var staðfest í úrskurði innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR11040216 frá 11. október 2011 og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-837/2012 frá 31. október 2013.
Í ljósi þeirrar túlkunar Samgöngustofu að áhrif víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna ber WW að greiða kvartanda bætur í samræmi við ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012.
Ákvörðunarorð:
WOW air skal greiða kvartanda bætur að upphæð 600 evrur skv. c-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.
III. Málsástæður WOW, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu
Kæra WOW barst ráðuneytinu með tölvubréfi mótteknu 21. nóvember 2017.
Í kæru kemur fram að flug WW117 frá Keflavík til Washington hafi verið með áætlaðan komutíma kl. 21.55 þann 9. október 2015. Raunverulegur komutími hafi hins vegar verið kl. 04:22 þann 10. október 2015 eða seinkun sem nemur 6 klukkustundum og 27 mínútum. Ástæða seinkunarinnar hafi verið sú að vélin hafi neyðst til að lenda í Richmond vegna veðurstorms í Washington. Hafi það valdið seinkun á flugi farþegans nr. WW118 til Keflavíkur. Sé ekki um víxlverkun að ræða. Upphaflega áætlaður brottfarartími flugs WW118 hafi verið frá Washington kl. 22.35 þann 9. október 2015 en raunverulegur brottfarartími verið kl. 05:10 þann 10. október. Upphaflegur komutími til Keflavíkur hafi verið kl. 05:10 þann 10. október en raunverulegur komutími verið kl. 11:00 þann sama dag. Hafi því verið tæplega sex klukkustunda seinkun á fluginu. Hafi flugvélin lent í Washington kl. 04:22 þann 10. október 2015 og lagt af stað aftur til baka til Keflavíkur kl. 05:10. Hafi það aðeins tekið 48 mínútur að gera vélina tilbúna til brottfarar á ný og starfsmenn WOW þannig gert allt sem í þeirra valdi stóð til að takmarka seinkunina sem mest.
WOW vísar til þess að reglugerð nr. EB 261/2004 og reglugerð nr. 1048/2012 skorti lagastoð. Hvorki í loftferðalögum né öðrum lögum sé að finna heimild til að leggja þá skyldu á einkarekin fyrirtæki eins og WOW að greiða farþegum refsibætur tiltekinnar fjárhæðar og það án þess að viðkomandi hafi orðið fyrir tjóni. Gangi slíkt gegn lögmætisreglu og stjórnarskrá. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fari Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Það leiði af ákvæðinu að það sé stjórnskipulegt hlutverk Alþingis að setja almenningi bindandi hátternisreglur. Af ákvæðinu sé einnig ljóst að þetta verkefni teljist ekki til verkefna ráðherra samkvæmt stjórnarskránni. Af lögmætisreglunni leiði síðan að ráðherra sé beinlínis óheimilt að setja íþyngjandi hátternisreglur í reglugerð nema hafa fengið til þess skýra lagaheimild með löglegu valdaframsali frá Alþingi. Ráðherra hafi á hinn bóginn heimild til að setja ákvæði í reglugerð um lagaframkvæmd og þar undir kunni að falla hátternisreglur sem hafi skýr efnisleg tengsl við reglur um lagaframkvæmd og teljist þeim nauðsynlegar.
Reglugerð nr. 1048/2012 hafi veri sett með heimild í 4. mgr. 106. gr. og 3. mgr. 126. gr., sbr. 145. gr. loftferðalaga. Framangreindar reglugerðir, einkum bótareglur reglugerðar EB nr. 261/2004, gangi langt umfram heimildir framangreindra lagaákvæða sem fjalli um bætur vegna tjóns, þ.e. skaðabætur. Í 106. gr., sem fjalli um bótarétt í tilviki seinkana, sé m.a. gert að skilyrði að farþegi hafi orðið fyrir tjóni en í þessu máli liggi ekkert fyrir um að svo sé. Þaðan af síður sé heimilt í reglugerð að afnema lagaskilyrði um raunverulegt tjón. Af samanburði 106. gr. loftferðalaga og bótareglum reglugerðar EB nr. 261/2004 telur WOW ljóst að verið sé að krefjast refsibóta án tjóns. Engin lagastoð sé fyrir slíkum bótum og sé það ekki í valdi ráðherra að ákveða slíkt með reglugerð án lagastoðar. Gangi slíkt gegn grundvallarreglum um þrískiptingu ríkisvaldsins og lögmætisreglu stjórnskipunarréttar. Bendir WOW á að samkvæmt 113. gr. loftferðalaga verði málsástæður, lagarök og dómsúrlausn aðeins byggð á ákvæðum kaflans og Montreal samningnum. Sé SGS óheimilt að lögum að líta til reglugerðar 261/2004 við úrlausn málsins.
Þá kveðst WOW ósammála efnislegri niðurstöðu SGS sem félagið telji hvorki í samræmi við loftferðalög, reglugerð EB nr. 261/2004 né dómafordæmi. Hafi fluginu eingöngu seinkað vegna veðurstorms sem var til staðar á flugvellinum í Washington og teljist slíkar aðstæður óviðráðanlegar skv. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 og leysi þar með flugrekanda undan bótaskyldu. Beri fyrst og fremst að líta til íslenskra laga sem taka á álitaefninu sem um er deilt, sbr. 2. ml. 1. mgr. 106. gr. loftferðalaga. Í samræmi við lögskýringarreglur gangi það ákvæði framar ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004 um óviðráðanlegar aðstæður. Óheimilt sé að þrengja skilgreiningu á því hvenær flugrekendur losna undan bótaskyldu í reglugerð frá því sem mælt er fyrir um í settum lögum. Hafi WOW gert allt sem í valdi félagsins stóð til að koma í veg fyrir seinkun en ekki sé unnt að grípa til úrræða sem koma í veg fyrir veðurstorm. Að mati WOW séu beint tengsl milli flugsins frá Keflavík til Washington og flugsins til baka sem leiði til þess að WOW eigi einnig að verða undanþegið bótaskyldu vegna flugsins sem deilt er um, enda hafi sama vélin átt að sjá um bæði flugin. Ekkert í framangreindum ákvæðum, lögskýringargögnum eða dómaframkvæmd Evrópudómstólsins styðji þá niðurstöðu SGS að veðuraðstæður eigi ekki við um seinni flug.
WOW vísar til þess flug WW118 hafi ekki orðið fyrir áhrifum af eiginlegum víxlverkunum flugs WW117. Sé það skilyrði fyrir því að um víxlverkanir sé að ræða að flugið sem verður fyrir víxlverkunum hefði getað lagt af stað í samræmi við upphaflega áætlaðan brottfartíma ef ekki hefði verið fyrir víxlverkanir. Bendir WOW á að þegar aðstæður sem leiddu til seinkunar á fyrra flugi eru enn til staðar þegar seinna flug á áætlaðan brottfarartíma hafi aðstæðurnar sjálfstæð áhrif á seinna flugið. Í slíkum aðstæðum geti ekki verið um víxlverkanir að ræða. Flug WW117 hafi ekki tekið af stað frá Richmond fyrr en veðuraðstæður leyfðu. Hafi vélin því lent í Washington 6 klukkustundum eftir upphaflega áætlaðan brottfarartíma flugs WW118. Af því sé ljóst að veðurstormurinn hafi enn verið til staðar í Washington þegar flug WW118 átti að leggja af stað. Leiði þetta til þess að flug WW118 hefði aldrei getað lagt af stað í samræmi við upphaflega áætlaðan brottfarartíma og hefði seinkun alltaf orðið umfram þrjár klukkustundir vegna áhrifa frá veðurstorminum. Beri að meta seinkun flugs WW118 út frá þeim aðstæðum sem voru til staðar á flugvellinum þegar flugið átti upphaflega áætlaðan brottfarartíman, en á þeim tíma hafi verið veðurstormur á flugvellinum sem teljist til óviðráðanlegra aðstæðna.
WOW vísar til þess að þau skilyrði sem flugrekendur þurfa að uppfylla svo þeir verði undanþegnir bótaskyldu komi fram í dómi Evrópudómstólsins í máli C-549/07 Wallentin-Hermann v Alitalia frá 22. desember 2008. Í fyrsta lagi þurfi óviðráðanlegar aðstæður að vera til staðar og í öðru lagi þurfi flugrekendur að sýna fram á að þeim hefði verið ómögulegt að koma í veg fyrir seinkunina. Óviðunandi veðuraðstæður séu eitt skýrasta dæmið um óviðráðanlegar aðstæður. Hafi WOW ekkert getað gert til að koma í veg fyrir veðurstorminn í Washington. Hafi bæði skilyrðin því verið uppfyllt. Þá sé um að ræða sömu flugvél sem varð fyrir röskun vegna óviðráðanlegra aðstæðna og því eigi 15. tl. inngangsliðs reglugerðarinnar við. Þá gerir WOW athugasemdir við þann rökstuðning SGS að víxlverkun geti ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna.
Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 23. nóvember 2017.
Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi mótteknu 22. desember 2017. Í umsögninni kemur fram að í kæru komi fyrst fram nýjar upplýsingar um aðstæður á flugvellinum í Washington á áætluðum brottfarartíma flugs WW118. Við meðferð málsins hafi verið leitað umsagnar WOW og sérstaklega óskað eftir áliti WOW á kvörtuninni ásamt upplýsingum um flugið, orsök seinkunar og til hvaða ráðstafana hafi verið gripið til að koma í veg fyrir seinkun. Í umsögn WOW hafi komið fram að ástæða seinkunarinnar hafi verið stormur sem gert hafi að verkum að ekki hafi verið hægt að lenda fyrra flugi nr. WW117 í Washington. Í umsögn WOW komi ekkert fram um veðuraðstæður á flugvellinum í Washington að öðru leyti eða að þær aðstæður hafi enn verið til staðar á áætluðum brottfartíma flugs WW118. SGS bendir á að WOW hafi ekki lagt fram gögn um veðuraðstæður á flugvellinum í Washington umræddan dag, hvorki með umsögn í málinu né í kæru. Áréttar SGS að sönnunarbyrðin fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hvíli alfarið á flugrekandanum og beri honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir seinkun. Takist sú sönnun ekki beri flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. SGS bendir á að sú afstaða WOW að flug WW118 hefði aldrei getað lagt af stað á upphaflega áætluðum brottfartíma hafi fyrst komið fram eftir að hin kærða ákvörðun var tekin. Líti SGS svo á að um nýja málsástæðu sé að ræða sem ekki hafi verið unnt að taka tillit til við meðferð málsins hjá SGS enda hafi ekki verið á henni byggt. Leggi SGS mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga og ítrekar stofnunin að sönnunarbyrðin hvíli á flugrekanda. Hafi hin nýja málsástæða um að fluginu hafi seinkað vegna veðurs ekki verið studd með gögnum eða upplýsingum um hverjar aðstæður voru á flugvellinum í Washington á áætluðum brottfartíma flugs WW118 þann 10. október 2015.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. janúar 2018 var WOW gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi WOW mótteknu 24. janúar 2018.
Í andmælum WOW ítrekar WOW sjónarmið félagsins um að bótareglur reglugerðar EB nr. 261/2004 skorti lagastoð. Einnig áréttar WOW að vélin hafi hætt við lendingu í Washington vegna óveðurs og lent í Richmond. Þar hafi vélin beðið og þegar veður leyfði lagt af stað til Washington og lent þar. Engar frekari seinkanir hafi komið til. Hafi slæmar veðuraðstæður þannig verið það eina sem kom í veg fyrir að bæði flug WW117 og WW118 hafi getað lent á áfangastað í samræmi við upphaflegan komutíma. Hafi seinkun á flugi WW117 leitt til seinkunar á flugi WW118 og WOW ekki með neinu móti getað komið í veg fyrir þá seinkun. Hafi félagið ekki haft nein úrræði til að koma í veg fyrir slæmar veðuraðstæður. Þá liggi fyrir veðurupplýsingar sem sýni fram á að flug WW118 hefði ekki getað lagt af stað í samræmi við upphaflega áætlaðan brottfarartíma þó að aukavél hefði verið til staðar á flugvellinum. Tekur WOW fram að það séu með öllu óraunhæfar kröfur að félagið sé með varaflugvélar á öllum sínum áfangastöðum.
Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 11. janúar 2018 var farþeganum gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.
IV. Niðurstaða ráðuneytisins
Krafa WOW lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþegans um bætur verði hafnað með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið. Farþeginn hefur ekki látið málið til sín taka við meðferð þess hjá ráðuneytinu.
Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun SGS fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.
Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.
Fyrir liggur að farþeginn kom tæplega sólarhring seinna á lokaákvörðunarstað en áætlað hafði verið. Byggir WOW á því að seinkunin hafi verið tilkomin vegna óviðráðanlegra aðstæðna þar sem veðuraðstæður í Washington hafi valdið seinkuninni. Í hinni kærðu ákvörðun var það niðurstaða SGS að áhrif víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna og kæmi þegar af þeirri ástæðu til bótaskyldu flugrekanda.
Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er með reglugerðinni leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála. Þá bendir ráðuneytið á að það er meginregla samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að farþegar eigi rétt á skaðabótum verði þeir fyrir aflýsingu eða mikilli seinkun á flugi. Sönnunarbyrði fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið uppi hvílir alfarið á flugrekandanum og ber honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir aflýsinguna eða seinkunina. Takist sú sönnun ekki ber flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt. Í því sambandi bendir ráðuneytið á 14. inngangslið reglugerðar EB nr. 261/2004 þar sem fram kemur að slíkar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, ófullnægjandi flugöryggis og verkfalla sem hafi áhrif á starfsemi flugrekandans.
Ráðuneytið tekur fram að það telur að ákvæði reglugerðar nr. 1048/2012 hafi fullnægjandi lagastoð sem og þá einnig ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004, enda reglugerðin sett með heimild í 4. mgr. 106. gr. og 3. mgr. 126. gr. sbr. 145. gr. loftferðalaga. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu WOW að bótareglur reglugerðarinnar skorti lagastoð.
Líkt og fram hefur komið liggur fyrir að farþeginn kom til Kaupmannahafnar tæplega sólahring síðar en áætlað var. Var þar um lokaákvörðunarstað að ræða samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004, en þangað var ferð kæranda haldið frá Washington með millilendingu í Keflavík. Hefur WOW gefið þá skýringu á seinkuninni að vegna veðuraðstæðna í Washington hafi fluginu þaðan seinkað um tæplega sex klukkustundir.
Ráðuneytið tekur fram að það telur að SGS hafi í hinni kærði ákvörðun borið að leggja mat á hvort veðuraðstæður í Washington hafi verið með þeim hætti sem lýst er af hálfu WOW, en ekki hafi verið rétt að líta á ástæður seinkunarinnar sem víxlverkunaráhrif líkt og gert var í hinni kærðu ákvörðun. Í slíkum tilvikum sem hér háttar beri SGS þannig að meta hvort um óviðráðanlegar aðstæður er að ræða, enda geti veðuraðstæður fallið þar undir samkvæmt áður tilvitnuðum reglugerðarákvæðum. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að heildarseinkunin nam tæpum sólarhring, en seinkunin á fluginu frá Washington til Keflavíkur, þar sem farþeginn millilenti á leið sinni til Kaupmannahafnar, seinkaði aðeins um tæplega sex klukkustundir. Þar sem Kaupmannahöfn var lokaákvörðunarstaður farþegans standa því eftir tæplega 18 klukkustundir þar sem WOW þarf að sýna fram á að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða sem ekki hefði verið unnt að afstýra þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir, og að félagið hafi þannig gert allt sem í þess valdi stóð til að koma í veg fyrir frekari seinkun en þegar hafi verið orðin. Er það mat ráðuneytisins að sú sönnun hafi ekki tekist og verði WOW að bera hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði c-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.