Mál nr. IRR14030179
Ár 2015, þann 9. mars, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR14030179
Kæra [B] ehf. og [D] ehf.
á ákvörðunum
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru dagsettri 17. mars 2014 kærði [M] f.h. [B] ehf., kt. [...], [...], og [D], kt. [...], [...] (hér eftir nefnd kærendur), ákvarðanir Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 2. desember 2013 um að hafna forskráningu tveggja ökutækja af gerðinni Can-Am Maverick. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og umsókn kærenda um forskráningu verði tekin til greina.
Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Dagana 14. og 20. nóvember 2013 bárust SGS tvær forskráningarbeiðnir kærenda fyrir tvö ökutæki af gerðinni Can-Am Maverick. Umsóknunum fylgdu upprunavottorð framleiðenda ökutækjanna þar sem m.a. kom fram að uppgefin þyngd þeirra væri 629 kg. Þar sem SGS taldi að ökutækin væru þyngri en leyfð hámarksþyngd samkvæmt gr. 01.72 (IV) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 var forskráningu hafnað með ákvörðunum SGS frá 2. desember 2013.
Ákvarðanir SGS voru kærðar til ráðuneytisins með tölvubréfi kærenda dags. 17. mars 2014.
Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 25. mars 2014 var óskað eftir frekari gögnum vegna málsins.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 23. apríl 2014 var SGS gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi stofnunarinnar dags. 27. maí 2014.
Með bréfum ráðuneytisins dags. 30. maí og 2. júní 2014 var kærendum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. júlí 2014 var kærendum tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök kærenda
Í kæru er á það bent að SGS annist skráningu skráningarskyldra ökutækja og sé mikilvægt að borgurum sé ekki mismunað hvað varðar málsmeðferð og afgreiðslu mála. Benda kærendur á að í reglum sé hvergi vikið að því hvaða gögn hafi úrslitaáhrif um það hvernig ákvarða beri þyngd ökutækis. Sé fyrirkomulagið nokkuð matskennt.
Í kæru er á því byggt að jafnræðis hafi ekki verið gætt né heldur meðalhófs. Þá hafi SGS ekki gaumgæft staðreyndir nægilega og þar með ekki fullnægt rannsóknarskyldu. Þá hafi andmælaréttar ekki verið gætt.
Hvað varðar jafnræðisreglu vísa kærendur til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í henni felist að þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt á þau áherslu leiði jafnræðisreglan til þess að þegar sambærilegt tilvik kemur aftur til úrlausnar beri að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og áður. Hafi kærendur vitneskju um að önnur sambærileg ökutæki hafi fengið skráningu þrátt fyrir að uppgefin þyngd sé yfir mörkum. Sé upprunaþyngd þeirra ökutækja frá framleiðanda borin saman við þyngd þeirra samkvæmt skráningu SGS sé ljóst að miklu muni. Vegna þessa misræmis telja kærendur rétt að staðreyna raunverulega þyngd ökutækjanna.
Í 12. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að stjórnvöld skuli gæta meðalhófs. Í því felist að stjórnvöld skuli aðeins taka ákvarðanir sem eru íþyngjandi fyrir borgarana ef lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þegar stjórnvöld hafi val um fleiri en eina leið til að ná því markmiði sem að er stefnt þá leiði það af ákvæðinu að velja skuli það úrræði sem vægast er og að gagni getur komið. Reglur sem fjalli um ökutæki, þ.m.t. um þyngd þeirra, stefni að almennu öryggi. Hafi kærendur farið þess á leit að fá löggilta aðila til að vigta ökutækin til að geta skilað raunverulegum vigtarseðli. Telja kærendur að þyngd ökutækjanna sé ekki sú sem segir í upprunavottorðinu. Með synjun skráningar, án þess að aðilar fái kost á að koma að gögnum, sé brotið gegn meðalhófsreglunni.
Hvað varðar rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga benda kærendur á að hún feli í sér að það stjórnvald sem tekur ákvörðun beri ábyrgð á því að mál hafi verið nægilega rannsakað áður en ákvörðun er tekin. Með því að neita að taka við öðrum gögnum varðandi þyngd ökutækjanna hafi SGS brugðist skyldu sinni, þ.e. að leiða þyngd þeirra ekki í ljós en ljúka málinu þess í stað með synjun.
Þá hafi SGS með fortakslausri synjun brotið gegn reglunni um andmælarétt með því að leyfa kærendum ekki að koma að frekari gögnum um þyngd ökutækjanna. Reglur um andmælarétt feli í sér rétt málsaðila að eiga þess kost að kynna sér gögn máls, tjá sig um fram konar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli.
IV. Ákvarðanir og umsögn SGS
Í ákvörðunum SGS kemur fram að forskráningu ökutækjanna sé hafnað þar sem þau uppfylli ekki undirlið IV, liðar 01.72, 1. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Þar segi að torfæruhjól á fjórum hjólum skuli vera 400 kg eða minna eða 550 kg eða minna ef það er ætlað til vöruflutninga. Upprunavottorð sem fylgt hafi umsóknum kærenda segi að ökutækin séu 629 kg og því þyngri en leyfð hámarksþyngd slíks ökutækis.
Í umsögn SGS kemur fram að ökutækin hafi verið of þung samkvæmt framlögðum gögnum til að hljóta forskráningu. Um torfæruhjól sé fjallað í ákvæði 01.72 reglugerðar nr. 822/2004. Í lið IV sé torfæruhjól tilgreint sem ökutæki á fjórum hjólum 400 kg eða minna eða 550 kg eða minna ef það er ætlað til vöruflutninga. Í gr. 03.04 reglugerðarinnar komi fram hvaða gögnum skuli framvísa með umsókn um forskráningu nýs ökutækis á Íslandi. Meðal þeirra séu upplýsingar um þyngd ökutækisins. Við innflutning nýrra ökutækja þar sem framvísað er frumriti upprunavottorðs frá framleiðanda sé ávallt skráð eftir þeim upplýsingum sem þar koma fram enda séu það áreiðanlegustu upplýsingarnar. Liggi fyrir gögn sem ekki séu staðfest af framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu séu þau ekki tekin til greina við skráningu enda sé augljóst að ekki liggi fyrir staðfesting á að þær upplýsingar séu réttar. Gögn frá viðurkenndri tækniþjónustu séu tekin gild enda um að ræða aðila sem hafi fengið sérstaka alþjóðlega viðurkenningu sem úttektaraðilar. Engin önnur gögn en frá framleiðanda og viðurkenndri tækniþjónustu séu tekin til greina við skráningu ökutækja. Sé þetta tryggt til að tryggja með sem bestum hætti að skráning ökutækja sé rétt, áreiðanleg og endurspegli réttar upplýsingar um ökutæki sem skráð eru hér á landi. Hafi SGS unnið að því að tryggja slíka skráningu með sem bestum hætti og sé þetta verklag hluti af því verki.
Hvað varðar athugasemdir kærenda um brot gegn jafnræðisreglu bendir SGS á að samkvæmt framlögðum skráningarvottorðum varðandi tvö umrædd ökutæki séu þau annars vegar 517 kg og hins vegar 545 kg. Sé hvort tveggja undir hámarki sem kveðið er á um í reglugerð nr. 822/2004 fyrir slík ökutæki, þ.e. fjórhjól ætluð til vöruflutninga. Hafi SGS kannað gögn sem fylgdu skráningu þeirra ökutækja og komi þyngdartölurnar fram á upprunavottorðum frá framleiðanda ökutækjanna sem uppfylli skilyrði fyrir skráningu. Skrái SGS ökutæki eingöngu eftir þeim gögnum sem uppfylli tilgreind skilyrði, þ.e. að stafa frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu. Önnur gögn, s.s. upplýsingar á vefsíðu framleiðanda, geti ekki talist fullnægjandi og ótækt að leggja þær til grundvallar skráningu. Hafi jafnræðis verið gætt þar sem ávallt sé gerð krafa um að gögn stafi frá framleiðendum eða viðurkenndri tækniþjónustu. Séu sömu kröfur gerðar til allra sem sækja um forskráningu enda skýrt kveðið á um hvaða gögnum skuli framvísa í reglugerð nr. 822/2004.
Hvað varðar meðalhóf vísar SGS til þess að ökutæki séu skráð á grundvelli þeirra gagna sem er framvísað. Aðeins sé skráð samkvæmt gögnum sem stafi frá aðilum sem nefndir eru í gr. 03.04 reglugerðarinnar. Hvorki í lögum né reglugerðum séu heimildir fyrir því að taka við upplýsingum frá löggiltum aðila sem vigtað hafi fullbúið ökutæki og nota það sem grundvöll skráningar þar sem þegar hafi verið framvísað fullnægjandi gögnum. Telur SGS ótækt að taka við slíkum upplýsingum og skrá samkvæmt þeim. Tekur SGS fram að undantekningartilvik geti komið upp þegar sótt sé um forskráningu stærri ökutækja sem ekki eru fullbúin til notkunar við innflutning. Þá taki SGS við vigtarseðli eftir að ökutæki sé gert fullbúið til notkunar en sú breyting sé alltaf óháð því að ökutækið falli í tiltekinn ökutækjaflokk. Séu ökutækin þá þegar í tilteknum flokki og uppfylli öll skilyrði en aðeins sé um að ræða skráningu á burðargetu ökutækisins sem ekki liggi fyrir í gögnum. Framleiðendur slíkra ökutækja hafi nú þegar hafið það ferli að útrýma þessari óvissu með útgáfu upprunavottorða líkt og því sem lagt hafi verið fram í máli þessu. Telur SGS að meðalhófs verði ekki gætt með því að heimila aðila að framvísa vigtarseðli þar sem hann telji upprunavottorð frá framleiðanda ekki innihalda réttar upplýsingar.
Varðandi meint brot gegn andmælarétti kærenda telur SGS að með framlagningu á réttum og vottuðum gögnum liggi fyrir allar þær upplýsingar sem sé að hafa varðandi umrædd ökutæki. Þá liggi afstaða umsækjenda fyrir með umsókn og framlagningu allra umbeðinna gagna. Meginreglan um andmælarétt eigi sér fáeinar undantekningar en meðal þeirra séu tilvik þar sem afstaða og rök aðila liggi fyrir í gögnum máls og þar af leiðandi þurfi ekki að veita aðila frekar færi á að tjá sig. Dæmigert mál sem falli þar undir sé umsókn um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum þar sem lögð séu fram tiltekin gögn. Ákvörðun sé þá tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna og ekki þörf á að veita aðila færi á því að tjá sig frekar. Í máli kærenda hafi verið lögð fram gögn við umsóknir um forskráningu ökutækja og tekin ákvörðun á grundvelli þeirra gagna. Þær upplýsingar sem fram hafi komið í gögnunum hafi sýnt með skýrum hætti að ákvæði reglugerðar nr. 822/2004 væru ekki uppfyllt og umsóknum því hafnað. Telur SGS að tilvik þessi falli að tilgreindri undantekningu frá meginreglunni um andmælarétt.
SGS tekur fram að stofnunin telji að ekki sé tenging á milli þess að gæta meðalhófs og þess að fylgja þeim reglum sem kveða á um skráningu ökutækja samkvæmt reglugerð nr. 822/2004. Að fylgja settum reglum um það hvaða gögn séu tekin til greina við skráningu geti ekki talist óhófleg krafa til handa borgurum sem sæki um forskráningu ökutækja. Samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem framvísað hafi verið með umsóknum kærenda séu ökutækin of þung. Byggist niðurstaðan á fullnægjandi gögnum vottuðum af framleiðanda ökutækjanna. Ekki verði séð að meðalhófs verði gætt með því að fara á svig við settar reglur um skráningu ökutækja. Þá hafnar SGS því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Telur stofnunin ljóst að fullnægjandi gögnum hafi verið framvísað með umsókn um forskráningu og tekin ákvörðun á grundvelli þeirra upplýsinga. Megi segja að öll ný ökutæki sem skráð séu á Íslandi séu skráð samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda enda um að ræða áreiðanlegar upplýsingar.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Um torfæruhjól er fjallað í ákvæði 01.72 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Hefur ákvæðinu verið breytt í þrígang eftir að reglugerðin tók gildi, fyrst með reglugerð nr. 689/2006, því næst með reglugerð nr. 953/2006 og loks með reglugerð nr. 1045/2013. Það ákvæði sem snýr að ökutækjum þeim sem hér eru til umfjöllunar er í IV. lið ákvæðisins eins og það er orðað nú, þ.e. torfæruhjól á fjórum hjólum 400 kg eða minna eða 550 kg eða minna ef það er ætlað til vöruflutninga. Í ákvörðun SGS er til þess vísað að umrædd ökutæki séu 629 kg og því of þung samkvæmt tilgreindu ákvæði. Byggja kærendur hins vegar á því að jafnræðis og meðalhófs hafi ekki verið gætt af hálfu SGS. Þá hafi hvorki rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar verið gætt né hafi kærendum verið gefinn kostur á að gæta andmælaréttar. Hafa sjónarmið kærenda verið rakin hér að framan.
Í gr. 03.04 reglugerðar nr. 822/2004 kemur fram hvaða gögnum skal framvísa með umsókn um forskráningu nýs ökutækis. Meðal þeirra upplýsinga sem fram þurfa að koma er þyngd ökutækisins. Vísar SGS til þess að við innflutning nýrra ökutækja þar sem framvísað er frumriti upprunavottorðs frá framleiðanda þeirra sé ávallt skráð eftir þeim upplýsingum sem þar koma fram enda séu það áreiðanlegustu upplýsingarnar sem er að hafa um ökutæki. Liggi fyrir gögn sem ekki eru staðfest af framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu séu þau ekki tekin til greina við skráningu þar sem ekki liggi fyrir að upplýsingarnar séu réttar. Gögn frá viðurkenndri tækniþjónustu séu tekin gild þar sem um sé að ræða aðila sem hafi fengið sérstaka alþjóðlega viðurkenningu sem úttektaraðilar. Engin önnur gögn en frá framleiðanda og viðurkenndri tækniþjónustu séu tekin til greina við skráningu ökutækja. Sé þetta gert til að tryggja með sem bestum hætti að skráning ökutækja sé rétt, áreiðanleg og endurspegli réttar upplýsingar um skráð ökutæki á Íslandi. Tekur ráðuneytið undir framangreind sjónarmið og áréttar að ekki verði byggt á öðrum gögnum við skráningu ökutækja en þeim sem stafa frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu.
Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir upprunavottorð framleiðanda ökutækjanna þar sem fram kemur að þyngd þeirra sé 629 kg. Er þyngd þeirra því meiri en leyfileg hámarksþyngd samkvæmt ákvæði 01.72 reglugerðar nr. 822/2004. Er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með SGS, með vísan til þess að framan var rakið, að önnur gögn verði ekki lögð til grundvallar þegar þyngd ökutækjanna er ákvörðuð.
Kærendur byggja á því að jafnræðis hafi ekki verið gætt við töku hinna kærðu ákvarðana. Er á því byggt að kærendur hafi vitneskju um að sambærileg ökutæki hafi fengið skráningu þrátt fyrir að uppgefinn þungi þeirra sé yfir viðmiðunarmörkum. Vísa kærendur til framlagðra gagna þar um. Ráðuneytið vísar til þess að samkvæmt framlögðum skráningarvottorðum þeirra ökutækja eru þau annars vegar 517 kg og hins vegar 545 kg. Er hvort tveggja undir hámarki því sem kveðið er á um í ákvæði 01.72 reglugerðar nr. 822/2004. Þá tekur ráðuneytið undir það með SGS að á öðrum gögnum en skráningarvottorðum þeirra verði ekki byggt þegar þyngd ökutækjanna er ákvörðuð. Telur ráðuneytið því að ekki sé um sambærileg tilvik að ræða og því ekki um að ræða brot á jafnræðisreglu. Þá vísar ráðuneytið einnig til þess að af hálfu SGS eru gerðar sömu kröfur til allra sem sækja um forskráningu og ávallt gerð krafa um gögn sem stafa frá viðurkenndum aðilum, þ.e. annað hvort framleiðendum eða viðurkenndri tækniþjónustu.
Kærendur vísa til þess að við töku hinna kærðu ákvarðana hafi SGS ekki gætt meðalhófs. Hvað þetta verðar tekur ráðuneytið undir það með SGS að ökutæki séu skráð á grundvelli þeirra gagna sem framvísa ber þegar skráning fer fram. Þá verði við skráningu almennt ekki byggt á öðrum upplýsingum en þeim sem stafa frá framleiðendum eða viðurkenndri tækniþjónustu. Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að skráning á þyngd ökutækjanna byggist á upprunavottorði frá framleiðanda þeirra og er skráningin þannig í samræmi við ákvæði 03.04 reglugerðar nr. 822/2004. Verður því ekki á það fallist að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Hvað varðar athugasemd kærenda um að brotið hafi verið gegn andmælarétti bendir ráðuneytið á að samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin enda liggi ekki fyrir í gögnum máls afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í máli því sem hér er til umfjöllunar lágu öll nauðsynleg gögn fyrir áður en SGS tók umræddar ákvarðanir. Þá telur ráðuneytið ljóst að afgreiðsla SGS hafi að öllu leyti verið í samræmi við tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 822/2004 og fyrir liggi að umrædd ökutæki uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru um þyngd þeirra samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sem SGS var rétt að byggja á. Því hafi verið óþarft að gefa kærendum kost á að gæta andmælaréttar þar sem slíkt hefði í engu breytt skýrum fyrirmælum ákvæðis 03.04 reglugerðar nr. 822/2004 varðandi það hvaða gögnum byggja beri á við skráningu ökutækja. Telur ráðuneytið því að andmælaréttur hafi ekki verið brotinn á kærendum.
Að lokum vísa kærendur til þess að SGS hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að neita að leiða í ljós raunverulega þyngd ökutækjanna. Hvað þetta varðar vísar ráðuneytið til þess sem áður hefur rakið varðandi það á hvaða gögnum verði byggt við skráningu ökutækja og þau gögn hafi legið fyrir við skráningu umræddra ökutækja. Því verður ekki fallist á þessa málsástæðu kærenda.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að SGS hafi verið rétt að hafna forskráningu ökutækjanna og verða hinar kærðu ákvarðanir því staðfestar.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Staðfestar eru ákvarðanir Samgöngustofu frá 2. desember 2013 um að hafna forskráningu tveggja ökutækja af gerðinni Can-Am Maverick.