Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Úrskurður í máli nr. SRN17070055

Ár 2017, þann 6. desember, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17070055

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 25. júlí 2017 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir nefndur SS) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli nr. 30/2017 frá 18. júlí 2017 vegna kvörtunar um neitun á fari með flugi WOW nr. WW146 frá Toronto til Keflavíkur þann 4. september 2016. Með ákvörðun Samgöngustofu var talið réttmætt að neita SS um far á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012 sbr. einnig reglugerð um útlendinga nr. 53/2003. Af kæru verður ráðið að SS krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að SS átti bókað far ásamt eiginkonu sinni með WOW með flugi WW146 frá Toronto til Keflavíkur þann 4. september 2016. Var ferð SS áætluð frá   4. – 12. september 2016 og hafði farseðillinn verið keyptur þann 1. október 2015. SS innritaði sig rafrænt í flugið að morgni hins 4. september 2016 en þegar hann mætti á flugvöllinn síðar sama dag var honum tjáð að vegabréf hans rynni út þann 21. nóvember 2016. Væri vegabréfið þannig ekki í gildi næstu þrjá mánuði eftir að för til Íslands ætti að vera lokið og því væri vegabréfið ekki gilt ferðaskilríki.

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

  1. Erindi

    Þann 31. október 2016 barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá X hér eftir kvartandi. Kvartandi átti ásamt konu sinni bókað flug með WOW air WW146 þann 4. september 2016 frá Toronto í Kanada til Keflavíkur en kvartandi hafði keypt farmiðann þann 1. október 2015. Ferð kvartanda var áætluð frá 4. október til 12 september 2016 en þann dag átti kvartandi bókað flug til baka til Toronto. Kvartandi innritaði sig í flugið til Keflavíkur að morgni 4. október 2016 en þegar hann mætti á flugvöllinn í Toronto var honum tjáð að þar sem vegabréfið hans rynni út þann 21. nóvember 2016 og væri þannig ekki í gildi næstu þrjá mánuði á eftir því að för hans til Íslands hefði lokið, væri vegabréf hans ekki gilt ferðaskilríki.

    Fór kvartandi því ekki til Íslands.

    Kvartandi fer fram á að gildistími hinna greiddu farmiða verði framlengdur fram í september 2017.

  2. Málavextir og bréfaskipti

    Samgöngustofa sendi WOW kvörtunina til umsagnar þann 3. nóvember 2016 og þann 16. nóvember 2016 barst umsögn WOW. Í umsögninni er m.a. vísað til j-liðar í 2. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 þar sem fram komi að réttmætar ástæður til þess að meina farþega að ganga um borð geti verið ef ferðaskilríki eru ófullnægjandi. Þá sé í 6. mgr. 12. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 það skilyrði sett fyrir útlendinga sem ferðast til Íslands að gildisími vegabréfs þeirra skuli vera a.m.k. þrír mánuðir yfir áætlaða dvöl á Íslandi.

    Þann 17. nóvember 2016 sendi Samgöngustofa kvartanda umsögn WOW til athugasemda. Þann sama dag bárust athugasemdir kvartanda þar sem fram kom að kvartandi viðurkenndi eigin ábyrgð á því er varðar að hafa meðferðis vegabréf með gildistíma í þrjá mánuði eftir lok ferðar. Hins vegar vísaði hann til þess að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá WOW þegar hann bókaði flugið þann 1. október 2015 þar sem hann hefði að sögn sagt þjónustufulltrúa WOW frá því hvenær vegabréf hans rynni út og ekki fengið viðbrögð á þeim tíma. Kvartandi vísaði ennfremur til þess að þegar hann innritaði sig rafrænt að morgni þess 4. september 2016 hefði innritunarkerfi WOW átt að hafna innrituninni þegar hann gaf upp númer vegabréfs síns, þar sem vegabréfið var ekki gilt ferðaskilríki inn til Íslands. Hefði höfnunin átt sér stað á þeim tíma hefði kvartandi náð því að frá framlengdan gildistíma vegabréfsins og jafnframt náð vélinni sem hann átti bókað far með. Óskaði kvartandi eftir því að í ljósi aðstæðna myndi WOW bjóða honum framlengingu á gildistíma hinna greiddu farmiða fram til september 2017.

    Með tölvupósti dags. 18. nóvember 2016 kom Samgöngustofa beiðni kvartanda um framlengingu á gildistíma farmiðanna á framfæri við WOW.

    Þar sem ekkert formlegt svar barst frá WOW ítrekaði Samgöngustofa með tölvupósti dags. 11. júlí 2017 beiðni kvartanda um framlengingu miða hans. Svar barst frá WOW þann sama dag þar sem fram kemur að ekki hafi verið fallist á beiðni kvartanda.

    Þann 12. júlí 2017 sendi Samgöngustofa fyrirspurn á WOW hvað varðaði endurgreiðslu á sköttum til kvartanda og þann sama dag barst svar frá WOW um að kvartandi ætti rétt á endurgreiðslu skatta og að þar sem endurgreiðsla hefði ekki átt sér stað, yrði hún nú framkvæmd.

    Þann 13. júlí 2015 kom Samgöngustofa nýjustu samskiptum Samgöngustofu og WOW á framfæri við kvartanda. Kvartandi ítrekaði fyrri óskir sínar með tölvupósti sama dag og vísaði aftur til þess að hann hefði fengið ófullnægjandi upplýsingar þegar hann keypti miðana 2015 og einnig til þess að bókunarkerfi WOW væri ófullnægjandi þar sem það heimilaði rafræna innritun þrátt fyrir að gildistími væri ekki í samræmi við gildandi reglur. Kvartandi sagðist mjög ósáttur við hvernig mál hans hefði verið meðhöndlað af WOW og óskaði eftir formlegri ákvörðun Samgöngustofu.

     

  3. Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998 (loftferðalög) eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Samgöngustofa hefur skoðað hvort kvartandi eigi rétt á skaðabótum vegna neitunar á fari á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004. Á grundvelli 4. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, eiga farþegar rétt á skaðabótum sé þeim neitað um far sem þeir áttu rétt á.

Kvartanda var neitað um far þar sem að vegabréf hans rann út innan þriggja mánaða frá því að dvöl hans á Íslandi hefði átt að vera lokið. Eins og fram kemur í rökstuðningi WOW eru ófullnægjandi ferðaskilríki ein þeirra réttmætu ástæðna sem flugrekandi getur vísað til þegar farþega er neitað um far.

Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 5372003 kemur fram að útlendingur, sem kemur til landsins eða fer þaðan, skal hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Kennivottorð sem talin eru upp í viðauka 2 eru viðurkennd sem ferðaskilríki við komu til landsins eða brottför þaðan. Ef útlendingur afhendir lögreglu eða öðru stjórnvaldi hér á landi vegabréf sitt eða annað kennivottorð skal hann fá í hendur kvittun lögreglu eða stjórnvalds fyrir móttöku skilríkisins.

Í 12. gr. reglugerðar nr. 53/2003 er fjallað um skilyrði fyrir því að vegabréf teljist gild ferðaskilríki og kemur þar fram að gildistími vegabréfs skuli vera a.m.k. þrír mánuðir fram yfir áætlaða dvöl hér á landi.

Á grundvelli framangreinds liggur fyrir að útlendingur með vegabréf sem gildir skemur en að framan er lýst uppfyllir ekki kröfur reglugerðar nr. 53/2003.

Samgöngustofa bendir á að skýrt kemur fram í bókun kvartanda að það sé á ábyrgð farþega að afla upplýsinga um og hafa meðferðis nauðsynleg ferðagögn, áritanir og ferðaheimildir eftir því sem við á, sem nauðsynleg eru til þess að koma inn í lönd.

Þá kemur það einnig fram í samningsskilmálum WOW (greinum 3.3 og 7.1) að flugfélagið geti neitað farþega um far sem ekki sýnir fram á fullnægjandi ferðaskilríki.

Með vísan til framangreinds er það mat Samgöngustofu að ábyrgð á því að hafa meðferðis fullnægjandi ferðaskilríki hafi alfarið verið á hendi kvartanda. Þrátt fyrir að kvartandi hafi að eigin sögn sagt sölufulltrúa WOW árið 2015 að vegabréf hans rynni út ári síðar, getur það ekki undanskilið hann ábyrgð í málinu. Almennt verður að telja að farþegar gangi úr skugga um hvort þeir séu með gild ferðaskilríki með því að afla upplýsinga um það á viðeigandi upplýsingaveitum, s.s. hjá viðkomandi sendiráðum eða heimasíðum ráðuneyta viðkomandi ríkis.

Að því er varðar röksemdir kvartanda um að innritunarkerfi WOW hafi ekki verið fullnægjandi þar sem rafræn innritun hefði ekki átt að vera möguleg, bendir Samgöngustofa á að engin krafa er á flugrekanda að tryggja að rafræn innritun geti ekki átt sér stað uppfylli farþegi ekki kröfu viðkomandi ríkis um ferðaskilríki. Eftir sem áður er ábyrgðin alfarið farþega að hafa meðferðis við inngöngu í loftfarið fullnægjandi ferðaskilríki.

Með vísan til framangreinds er það mat Samgöngustofu að neitun WOW á því að flytja kvartanda hafi verið réttmæt og að engin skylda verði lögð á WOW að framlengja gildistíma farmiða kvartanda.

Athuga ber að þann 12. júlí 2017 kom fram hjá WOW að kvartandi ætti rétt á endurgreiðslu skatta og að endurgreiðsla yrði framkvæmd.

Ákvörðunarorð:

Neitun WOW á fari kvartanda var réttmæt á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012, sbr. reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga. Engin skylda verður lögð á WOW að framlengja gildistíma farmiða kvartanda.

 

III.      Málsástæður SS, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra SS barst ráðuneytinu með tölvubréfi þann 25. júlí 2017. Af kæru verður ráðið að SS krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

SS vísar til þess að innritunarkerfi WOW hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi komið fram að vegabréf hans væri ekki gilt ferðaskilríki. Þrátt fyrir þá staðreynd hafi SS getað innritað sig í flugið og fengið úthlutað sæti um tíu klukkustundum fyrir áætlaða brottför. Hefði innritunarkerfi WOW gert SS viðvart hefði honum gefist tími til að fá gildistíma vegabréfsins framlengdan. Þá beri WOW að tryggja að starfsfólk fyrirtækisins sé kunnugt þeim reglum sem gilda varðandi gildistíma ferðaskilríkja. Kveðst SS hafa upplýst starfsmann WOW um fyrirhugaðan ferðatíma og gildistíma vegabréfsins í samtali og hafi þar engin athugasemd verið gerð. Aðeins hafi verið tekið fram að SS þyrfti að vera með gilt vegabréf og í kjölfarið hafi WOW gefið út farmiða til handa SS. Þá bendir SS á að WOW hafi nú á heimasíðu félagsins vakið athygli á reglum um gildistíma vegabréfa fyrir farþega frá Norður Ameríku. Þær upplýsingar hefðu reynst hjálplegar á sínum tíma.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 14. ágúst 2017.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi dags. 21. ágúst 2017. Í umsögninni áréttar SGS að engin krafa hvíli á flugrekendum að tryggja að rafræn innritun geti ekki farið fram uppfylli farþegi ekki kröfur viðkomandi ríkis um ferðaskilríki. Ábyrgðin sé að mati SGS eftir sem áður farþegans og beri honum að kynna sér gildandi reglur um ferðaskilríki og hafa þau meðferðis við inngöngu í loftfar. Í bókun SS komi skýrt fram að það sé á ábyrgð farþega að afla upplýsinga um og hafa meðferðis nauðsynleg ferðagögn, áritanir og ferðaheimildir eftir því sem við á. Þá komi einnig fram í samningsskilmálum WOW að flugfélagið geti neitað farþega um far sem ekki sýnir fullnægjandi ferðaskilríki. Hafi SS viðurkennt að það hafi verið á hans eigin ábyrgð að hafa meðferðis ferðaskilríki með gildistíma í þrjá mánuði eftir lok ferðar. Þá fellst SGS á mikilvægi þess að starfsfólk flugfélaga sé vel upplýst og þjálfað og að það veiti viðskiptavinum sínum réttar upplýsingar og góða þjónustu. Stofnunin hafi þó engar forsendur til að leggja mat á réttmæti frásagnar SS hvað þetta varðar þar sem samskipti hans við WOW hafi átt sér stað símleiðis fyrir tveimur árum síðan.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 14. ágúst 2017 var WOW gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Með tölvubréfi WOW þann 1. september 2017 vísaði félagið til þeirra sjónarmiða sem fram komu við meðferð málsins hjá SGS.

Með tölvubréfi til SS þann 25. september 2017 var tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Samgöngustofu þess efnis að réttmætt hafi verið að neita SS um far á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012 sbr. einnig reglugerð um útlendinga nr. 53/2003. Af kæru verður ráðið að SS krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Farþegar sem neitað er um far á óréttmætum grundvelli geta átt rétt á bótum á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012. Ber SGS ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar, sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012. Geta neytendur flugþjónustu beint kvörtun til SGS telji þeir að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framagreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt loftferðalögum nr. 60/1998 eða reglugerðum settum á grundvelli laganna. Sker SGS úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga.

Um eftirlit flutningsaðila með ferðaskilríkjum er fjallað í 26. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 1212/2007. Kemur þar fram í 1. mgr. að stjórnendur skipa og loftfara skuli ganga úr skugga um að farþegar þeirra hafi gild ferðaskilríki. Áður en farþegi stígur um borð skal kanna hvort hann hafi vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki og hvort þeir farþegar sem eru áritunarskyldir hafi gilda vegabréfsáritun til landsins. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur síðan fram að skylda samkvæmt 1. mgr. eigi ekki við um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins en þó skuli gengið úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þágildandi reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 skal útlendingur sem kemur til landsins eða fer þaðan hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki, sbr. viðauka 2 með reglugerðinni. Í 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um skilyrði fyrir því að vegabréf teljist gild ferðaskilríki. Kemur þar fram í 6. mgr. 12. gr. að gildistími vegabréfs skuli vera a.m.k. þrír mánuðir fram yfir áætlaða dvöl hér á landi.

Fyrir liggur að SS hugðist dvelja hér á landi frá 4. til 12. september 2016. Þá liggur fyrir að vegabréf SS myndi renna út þann 21. nóvember 2016, eða minna en þremur mánuðum eftir áætlaða brottför SS frá Íslandi. Var því ekki um gilt ferðaskilríki að ræða, sbr. 6. mgr. 12. gr. þágildandi reglugerðar um útlendinga.

Ráðuneytið tekur undir það með SGS að það sé alfarið á ábyrgð farþega að hafa meðferðis gild ferðaskilríki við inngöngu í loftför. Þá kemur skýrt fram í samningsskilmálum WOW, sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun, að flugfélagið geti neitað farþega um far sýni hann ekki fullnægjandi ferðaskilríki. Þá tekur ráðuneytið undir það með SGS að engin krafa hvílir á flugrekendum þess efnis að þeir tryggi að rafræn innritun geti ekki farið fram uppfylli farþegi ekki kröfur viðkomandi ríkis um ferðaskilríki, enda hvílir ábyrgðin á því að hafa meðferðis gild ferðaskilríki alfarið á farþeganum. Hvað varðar þá málsástæðu SS að hann hafi fengið rangar upplýsingar hjá starfsmanni WOW hefur ráðuneytið ekki forsendur til að meta samskipti þau sem þar er vísað til enda fóru samskiptin fram símleiðis á sínum tíma.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta