Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR15110019

 Ár 2016, þann 11. mars, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR15110019

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 29. október 2015 barst ráðuneytinu kæra [X], á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 10. september 2015 um að synja um forskráningu ökutækis af gerðinni Ford Edge. Krefst [X] þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt og ökutækið verði forskráð í samræmi við umsókn [X].

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Af gögnum málsins má sjá að þann 26. maí 2015 sótti [X] um forskráningu bifreiðar af gerðinni Ford Edge. Með ákvörðun SGS þann 15. júní 2015 var umsókn [X] synjað. Í kjölfarið fór [X] þess á leit að ákvörðunin yrði endurupptekin en með bréfi SGS dagsettu þann 22. júní 2015 var þeirri beiðni synjað. Með bréfi [X] dagsettu 10. ágúst 2015 fór  hann þess á leit við SGS að stofnunin myndi endurupptaka málið og lagði fram ný gögn. Með bréfi SGS dagsettu 10. september 2015 var fyrri ákvörðun endurupptekin en á ný synjað um forskráningu ökutækisins.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi [X] mótteknu þann 29. október 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. nóvember 2015 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi SGS mótteknu 4. desember 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. desember 2015 var [X] kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Barst ráðuneytinu bréf [X] þann 6. janúar 2016 þess efnis að ekki væri ástæða til frekari athugasemda.

Með bréfi dags. 21. janúar 2016 tilkynnti ráðuneytið [X] að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök [X]

[X] vísar til þess að með beiðni um endurupptöku hafi hann lagt fram nýjar upplýsingar frá Bureau of Motor Vehicles (BMW) í Indiana fylki í Bandaríkjunum þar sem fram komi að notkun þessarar tilteknu bifreiðar sé ekki bundin neinum takmörkunum. Í svarbréfi BMW frá því í ágúst 2015 komi fram að engar takmarkanir séu á notkun bifreiðarinnar þegar hún hefur verið endurbyggð /e. rebuilt title). Þessi flokkur merki einungis að bifreiðin hafi verið talin tjónabifreið af tryggingafélagi og síðar hafi verið gert við bifreiðina þannig að hún fullnægi öllum skilyrðum til notkunar. Ætti þessi flokkun einungis að hafa áhrif á verðmæti bifreiðarinnar. Þá vísar [X] til reglna Indiana fylkis um endurbyggð ökutæki og reglna fylkisins um útgáfu nýs titilbréfs sem raktar eru í kæru. Hafi verið gætt að öllum þeim atriðum og lögð fram yfirlýsing um viðgerð bifreiðarinnar með endurupptökubeiðninni. Í yfirlýsingunni komi fram að bifreiðin fullnægi skilyrðum um endurbyggð ökutæki. Hafnar [X] þeim fullyrðingum SGS að íslenska reglugerðin geri ríkari kröfur um skoðun en þær bandarísku þar sem þær síðarnefndu geri ráð fyrir því að lögreglumaður taki út bifreiðina. Í íslensku reglunum sé aðeins kveðið á um úttekt viðurkennds fagaðila. Aðalatriðið sé það að íslensku reglurnar um forskráningu geri þá kröfu að titilbréf ökutækis veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem það er gefið út. Hafi [X] aflað sér upplýsinga sem staðfesti að engar takmarkanir séu á notkun bifreiðarinnar í landinu þar sem titilbréfið er gefið út.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að í ljósi nýrra gagna fallist stofnunin á að endurupptaka málið án þess þó að tekið sé undir að fyrri ákvörðun hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Þá kemur fram að þrátt fyrir hinar nýju upplýsingar telji SGS sér ekki fært að samþykkja umsókn um forskráningu. Vísar SGS til röksemda fyrri ákvörðunar, þá einkum til ákvæðis 03.05 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Þar komi fram að frumrit erlends titilbréfs ökutækis skuli veita heimild til notkunar án takmörkunar. Hafi ákvæðið verið túlkað svo að þegar titill ökutækis felur í sér athugasemd um að viðkomandi ökutæki hafi lent í tjóni, s.s. að um sé að ræða endurbyggt ökutæki eftir tjón, sé það takmörkun á titli ökutækis og sé forskráning því óheimil. Sé framangreint áréttað í skráningarreglum SGS sem settar eru á grundvelli reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Þar komi fram í kafla 1.3.1 að ökutæki geti ekki fengið skráningu hér á landi á grundvelli slíkra eignavottorða/titilbréfa. Í titilbréfi ökutækis þess sem hér um ræðir komi fram að það sé endurbyggt eftir tjón. Um sé að ræða takmörkun á titli ökutækisins sem þar af leiðandi uppfylli ekki kröfur reglugerðar nr. 822/2004 sem gerðar eru til umsóknar um forskráningu. SGS meti hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi samkvæmt ákvæði 03.05 (2) reglugerðarinnar. Túlkun SGS á ákvæði 03.05 (4) reglugerðarinnar byggi að meginstefnu til á bréfi frá Samgönguráðuneytinu dagsettu 21. júlí 2010. Í kjölfarið hafi ávallt verið litið til þess hvort að takmarkanir komi fram í skráningarskírteini/titli og að athugasemdir „rebuilt vehicle“ hafi allan þann tíma verið talin slík takmörkun. Rök að baki framangreindu séu aukið umferðaröryggi og neytendavernd.

Líkt og fram komi í fyrri ákvörðun sé SGS falið að meta hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi samkvæmt ákvæði 03.05 (2). Hafi stofnunin metið það svo að athugasemdin „rebuilt vehicle“ teljist takmörkun í skilningi ákvæðis 03.05 (4). þessi skilningur hafi verið færður í verklagsreglur sem settar séu á grundvelli 5. mgr. 4. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Hafi sambærileg mál miðast við sömu sjónarmið. Þá getur SGS þess að bifreiðar sem heimilaðar eru í umferð hér á landi í kjölfar þess að hafa verið skráðar tjónabifreiðar hafi farið í gegnum ferli sem taki mið af því meginmarkmiði reglugerðar nr. 822/2004 að tryggja umferðaröryggi. Sé þannig gerð krafa um að viðgerðir séu framkvæmdar og/eða teknar út af viðurkenndum fagaðilum sem gefi út vottorð sem staðfesti að viðkomandi bifreið sé ekki lakari en sambærilegt ökutæki óskemmt. Umræddar reglur geri talsvert ríkari kröfur en bandarísku reglurnar, þ.e. að nægjanlegt sé að lögreglumaður taki út bifreiðina svo heimilt sé að nota hana í umferð að nýju.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Til að byrja með telur ráðuneytið rétt að geta þess að upphaflega var umsókn [X] um forskráningu synjað með ákvörðun SGS þann 15. júní 2015 og synjað um endurupptöku þeirrar ákvörðunar þann 22. júní 2015. Eftir að SGS bárust ný gögn frá [X] tók SGS þá ákvörðun sem er til umfjöllunar þann 10. september 2015. Kemur þar fram að SGS fallist á endurupptöku málsins án þess þó að framlögð gögn breyti fyrri afstöðu stofunarinnar. Telur ráðuneytið að fyrrgreind ákvörðun SGS hafi falið sér endurupptöku málsins en niðurstaðan hafi verið sú að synja [X] á ný um forskráningu ökutækisins. Sé því til umfjöllunar ákvörðun SGS frá 10. september um að synja umsókn [X] um forskráningu ökutækis af gerðinni Ford Edge.

Um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja er fjallað í ákvæði 03.05 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Segir þar í ákvæði 03.05 (4) að meðfylgjandi umsókn um skráningarviðurkenningu skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilbréfs sem veitir heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið er gefið út. Þá þurfi einnig að fylgja gögn um staðfestingu á fyrsta skráningardegi og/eða framleiðsluári komi þessi atriði ekki fram í skráningarskírteininu/titilbréfinu.

Ráðuneytið tekur undi þau sjónarmið SGS að ákvæðið beri með sér að frumrit titilbréfs ökutækis skuli bera með sér að veitt sé heimild til notkunar ökutækis án takmörkunar. Er ráðuneytið sammála því sjónarmiði SGS að túlka beri ákvæðið svo að þegar titill ökutækis felur í sér athugasemd um að viðkomandi ökutæki hafi lent í tjóni, s.s. ef um er að ræða endurbyggt ökutæki eftir tjón, sé það takmörkun á titli ökutækis. Hvað varðar ökutæki það sem um er deilt í máli þessu liggur fyrir að í titilbréfi þess kemur fram að það sé endurbyggt eftir tjón eða „rebuilt vehicle“. Telur ráðuneytið að fallast beri á það með SGS að um sé að ræða takmörkun á titli ökutækisins.

Það er hlutverk SGS að meta hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi samkvæmt ákvæði 03.05 (2) reglugerðar nr. 822/2004. Telur ráðuneytið að fallast beri á það með SGS að þar sem fram kemur í titilbréfi umrædds ökutækis að það sé endurbyggt eftir tjón sé um að ræða takmörkun í skilningi ákvæðis 03.05. (4) reglugerðar nr. 822/2004. Sé sú túlkun á ákvæðinu í samræmi við það markmið reglugerðarinnar að tryggja umferðaröryggi. Þau gögn sem [X] hafi lagt fram breyta í engu framangreindri túlkun. Þá verði ekki litið framhjá framangreindum reglum við forskráningu ökutækisins hér á landi, burtséð frá því hvaða reglur kunni að gilda annars staðar.  Með þessum athugasemdum er það mat ráðuneytisins að rétt sé að staðfesta hina kærðu ákvörðun.  

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 10. september 2015 að synja umsókn [X] um forskráningu ökutækis af gerðinni Ford Edge.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta