Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR15110212

Ár 2016, þann 10. mars, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR15110212

 

Kæra [X]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 23. nóvember 2015 barst ráðuneytinu kæra [X] (hér eftir nefndur [X]), á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 7. október 2015 um að synja umsókn [X] um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Af kæru verður ráðið að [X] krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum veitt umbeðið leyfi.

Kæruheimild er í 4. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Af gögnum málsins má sjá að [X] lagði fram umsókn um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar þann 17. ágúst 2015. Með ákvörðun SGS þann 7. október 2015 var þeirri umsókn synjað.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi [X] mótteknu þann 23. nóvember 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 25. nóvember 2015 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi SGS mótteknu 18. desember 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 30. desember 2015 var [X] kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi dags. 3. febrúar 2016 tilkynnti ráðuneytið [X] að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök [X]

[X] vísar ekki í kæru sinni til annars en þess að hann telji sig uppfylla öll skilyrði fyrir atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Því fari hann fram á að verða veitt umbeðið leyfi.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að reynsla [X] sé ekki nægjanleg til úthlutunar á atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Því sé [X] ekki einn af þeim tíu sem tilnefndir hafi verið til atvinnuleyfis leigubifreiða í október 2015.

Í umsögn SGS kemur fram að meðfylgjandi umsókn [X] hafi verið að finna umsókn um atvinnuleyfi dagsett 11. mars 1994 en hvorki leyfisbréf né atvinnuskírteini frá þeim tíma hafi fylgt til að sannreyna að viðkomandi umsókn hafi verið samþykkt. Samkvæmt gagnagrunni SGS hafi [X] aldrei fengið úthlutað atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar og þurfi því að sækja um slíkt leyfi samkvæmt lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001. Í 8. gr. laganna sé kveðið á um takmörkun á fjölda leigubifreiðaleyfa sem sé síðan nánar útfært í reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003. Þar sé mælt fyrir um takmarkanir á fjölda leigubifreiða og úthlutun atvinnuleyfa sem byggð sé á starfsreynslu. Hafi [X] sótt um atvinnuleyfi á takmörkunarsvæði I sem teljist til Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Bessastaðahrepps, Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Miðnes-, Gerða- og Vatnsleysustrandarhrepps. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar sé hámarksfjöldi atvinnuleyfa á því svæði 560. Í október 2015 hafi farið fram úthlutun á tíu lausum atvinnuleyfum. Samkvæmt gagnagrunni SGS, sem haldi utan um starfsreynslu byggða á dagafjölda forfallabílstjóra, hafi [X] ekki verið einn af þeim sem verið hafi með mestu starfsreynsluna. Lágmarksfjöldi daga að þessu sinni hafi verið 1217 dagar en [X] hafi einungis verið með 285 daga og gögn um annað liggi ekki fyrir.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða, veitingu þeirra og skilyrði sem þarf að uppfylla er fjallað í lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001. Í 5. gr. laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og þau þar talin upp í 1. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. 5. gr. kemur síðan fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og akstri forfallabílstjóra. Um veitingu atvinnuleyfa er fjallað í 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er atvinnuleyfi samkvæmt 5. gr. skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur, sbr. þó 9. gr. laganna. Séu atvinnuleyfi gefin út af SGS hvort sem er á takmörkunarsvæðum eða utan þeirra. Um takmörkun á fjölda leigubifreiða er fjallað í 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis setur ráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum SGS, nánari reglur um fjölda leigubifreiða á ákveðnum svæðum að fenginni umsögn sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga leigubifreiðastjóra. Segir þar einnig í 3. mgr. að þar sem takmörkun á fjölda leigubifreiða hafi verið ákveðin skuli umsækjandi fullnægja skilyrðum 5. gr. og sitji hann að jafnaði fyrir við úthlutun leyfa hafi hann stundað leigubifreiðaakstur í a.m.k. eitt ár. Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 8. gr. skal takmörkun þessi framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa samkvæmt lögunum.

Á grundvelli laga um leigubifreiðar hefur verið sett reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003. Í 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um takmörkunarsvæði. Kemur þar m.a. fram að hámarksfjöldi atvinnuleyfa á takmörkunarsvæði I, sbr. það sem rakið er í umsögn SGS, sé 560 atvinnuleyfi. Þá kemur fram í ákvæðinu að takmörkun sé framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa svo sem hámarkstala segir til um. Um úthlutunarreglur er fjallað í 6. gr. reglugerðarinnar. Segir þar m.a. í 1. mgr. að SGS veiti að uppfylltum öllum skilyrðum atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar.

Líkt og fram hefur komið sótti [X] um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar á takmörkunarsvæði I en hámarksfjöldi atvinnuleyfa á því svæði er 560. Þegar umsókn [X] var til meðferðar hjá SGS voru til úthlutunar tíu laus atvinnuleyfi. Var það niðurstaða SGS að reynsla [X] hafi ekki verið nægjanleg til úthlutunar þar sem hann hafi ekki verið einn af þeim sem voru með mestu starfsreynsluna.

Það er mat ráðuneytisins að þau sjónarmið sem ákvörðun SGS byggðist á hafi verið í samræmi við þau ákvæði laga um leigubifreiðar og reglugerðar um leigubifreiðar sem rakin hafa verið og gilda um veitingu og úthlutun atvinnuleyfa til aksturs leigubifreiða á takmörkunarsvæðum. Af gögnum málsins verði þannig ráðið að [X] hafi ekki verið einn af þeim sem voru með mestu starfsreynsluna. Hafi niðurstaða SGS því byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Með þessum athugasemdum er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 7. október 2015 um að synja umsókn [X] um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta