Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR14120082

Ár 2015, þann 24. júní, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR14120082

 

Kæra A.B.L. Taks ehf.

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru  móttekinni 5. desember 2014 kærði A.B.L. Tak ehf. (hér eftir nefnt A.B.L), kt. 590499-4049, Fannafold 42, Reykjavík, ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 29. apríl 2014 um að synja forskráningu bifreiðar af gerðinni DAF-Leyland 8X6. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn A.B.L um forskráningu verði tekin til greina.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012. Þegar kæran barst ráðuneytinu var þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga liðinn. Eftir ákvörðun SGS freistaði A.B.L. þess hins vegar að leggja fram ný gögn og fá ökutækið forskráð. Með tölvubréfi SGS þann 7. október 2014 var A.B.L. tilkynnt að hin nýju gögn nægðu ekki til forskráningar og telur ráðuneytið rétt að miða kærufrest við þann dag. 

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Þann 22. apríl 2014 barst SGS umsókn A.B.L. um forskráningu ökutækis af gerðinni DAF-Leyland 8X6. Með bréfi SGS til A.B.L. dagsettu 29. apríl 2014 var umsókninni synjað þar sem framlögð gögn með henni fullnægðu ekki þeim kröfum sem gilda um forskráningu notaðra ökutækja. Eftir að sú ákvörðun var tekin bárust SGS viðbótargögn frá A.B.L. Með tölvubréfi SGS dagsettu 7. október 2014 var fyrirtækinu tilkynnt að viðbótargögnin nægðu ekki til forskráningar ökutækisins.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi A.B.L mótteknu 5. desember 2014.

Með bréfum ráðuneytisins dags. 9. desember 2014 og 27. janúar 2015 var SGS gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi stofnunarinnar dags. 3. febrúar 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. febrúar 2015 var A.B.L. gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. mars 2015 var A.B.L. tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök A.B.L.

Í kæru kemur fram að ákvörðun SGS sé verulega íþyngjandi. Samkvæmt yfirlýsingu breskra yfirvalda dugi þau gögn sem A.B.L. hafi afhent til að fá ökutækið skráð þar. Standi ákvörðunin óbreytt þurfi að flytja ökutækið til Bretlands til að fá skoðunarvottorð afhent sem dygði til skráningar hér á landi. Fylgdi því umtalsverður kostnaður. Þá greinir A.B.L. frá því að þar sem þau gögn sem lögð hafi verið fram dugi til að fá skráningarskírteini í Bretlandi samræmist það ekki meðalhófsreglu að ætlast til að fyrirtækið eyði stórfé í flutning bifreiðarinnar fram og til baka aðeins í þeim tilgangi að fá skráningarskírteini sem hægt sé að gefa út hér á landi.

 

IV.    Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS frá 29. apríl 2014 kemur fram að í ákvæði 03.05 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004, með síðari breytingum, komi fram að tiltekin gögn skuli fylgja umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja. Í a-lið segir að frumrit erlends skráningarskírteinis eða tiltilsbréf skuli fylgja sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Jafnframt kemur fram í b-lið sú meginregla að þar til greindar upplýsingar um ökutæki skuli, eftir því sem við á, staðfestar með vottorði frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu í frumriti, þar sem fram kemur verksmiðjunúmer viðkomandi ökutækis. Komi framangreindar tæknilegar upplýsingar fram í erlendu skráningarskírteini ökutækisins teljist þær vera fullnægjandi. Af gögnum sem fylgdu umsókn A.B.L. sé ljóst að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt. Hvorki sé fyrir að fara erlendu skráningarskírteini sem áskilið sé samkvæmt a-lið ákvæðisins né heldur fullnægjandi upplýsingum samkvæmt b-lið. Sé því ljóst að framlögð gögn með umsókn A.B.L. fullnægi ekki þeim kröfum sem gildi um forskráningu notaðra ökutækja og umsókninni því hafnað. Þá kemur fram að synjunin komi ekki í veg fyrir að ökutækið geti verið forskráð síðar ef tilskilin og fullnægjandi gögn verða lögð fram. Í tölvubréfi SGS frá 7. október 2014 kemur fram að framlögð viðbótargögn frá A.B.L. nægi ekki til að fá ökutækið forskráð.

Í umsögn SGS kemur fram að skilyrði fyrir skráningarviðurkenningu ökutækisins séu ekki uppfyllt. Hvorki hafi verið til staðar erlent skráningarskírteini samkvæmt a-lið ákvæðis 03.05 (4) reglugerðar nr. 822/2004 né fullnægjandi upplýsingar samkvæmt b-lið ákvæðisins. Umsókn A.B.L. hafi því verið hafnað þar sem framlögð gögn fullnægðu ekki kröfum sem gilda um forskráningu notaðra ökutækja. Þá hafi A.B.L. lagt fram viðbótargögn sem ekki hafi nægt til að skrá ökutækið á Íslandi.

SGS greinir frá því bresk skráningaryfirvöld (DVLA) geri tilteknar kröfur til skráningar á ökutækjum sem breska varnarmálaráðuneytið (MOD) selur. Þar komi skýrt fram hvaða gögn þurfi til að skrá slík ökutæki í Bretlandi. Tekur SGS fram að yfirlýsingar yfirvalda annarra ríkja um að tiltekin gögn dugi til skráningar tiltekins ökutækis þar í landi hafi ekki áhrif á ákvörðun um skráningu ökutækja hér á landi þegar tilskilin gögn samkvæmt íslenskum reglum eru ekki til staðar. Þessu til stuðnings segi í ákvæði 03.05 (2) reglugerðarinnar að SGS meti hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi. Í ákvæði 03.05 (4) segi að skráningarskírteini/titilsbréf skuli fylgja umsókn um skráningarviðurkenningu. Af þessu orðalagi sé ljóst að skráningarviðurkenning fáist ekki án þess að skráningarskírteini/titilsbréf sé til staðar. Ákvæði þetta byggist á tilskipun Evrópuráðsins nr. 37/1999 um skráningarskjöl fyrir ökutæki. Þar segi í 4. gr. að því er varðar tilskipunina skuli aðildarríkin viðurkenna skráningarskírteini sem gefin eru út í öðrum aðildarríkjum þegar um er að ræða að bera kennsl á ökutæki í ferðum milli landa eða endurskráningu þess í öðru aðildarríki. Í ákvæðinu felist að það sé skráningarskírteini sem skuli viðurkenna en ekki önnur skjöl. Þá bendir SGS á að það sé alfarið í höndum innflytjenda ökutækja að kynna sér þær reglur sem gildi um skráningu notaðra ökutækja á Íslandi. Reglurnar megi finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 sem m.a. sé birt á vefsíðu SGS. Enn fremur sé að finna á vef SGS verklagsreglur stofnunarinnar þar sem m.a. sé útskýrt ítarlega hvernig forskráning ökutækja fari fram og hvaða gögn séu nauðsynleg til að skráningin nái fram að ganga. Hefði A.B.L. haft samband við SGS og óskað upplýsinga um innflutning notaðra ökutækja hefði fyrirtækinu verið tilkynnt að væri skráningarskírteini eða titilsbréf ekki í gögnum þegar sótt væri um forskráningu væri henni synjað undantekningalaust. Telur SGS ekki forsendur til að víkja frá kröfu um skráningarskírteini. Þá telur SGS það samræmast meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að stofnunin geri sömu kröfur til skráningar allra notaðra ökutækja sem flutt eru til landsins. Í öllum slíkum tilfellum geri SGS þá kröfu að framvísað sé erlendu skráningarskírteini eða titilsbréfi. Ef slíku sé ekki fyrir að fara sé umsókn synjað. Þá geti það ekki talist brot gegn meðalhófsreglu að gera ráð fyrir að innflytjendur ökutækja kynni sér þær reglur og kröfur sem gerðar eru til innflutnings og skráningar ökutækja.

 

V.     Niðurstaða ráðuneytisins

Í ákvæði 03.05 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004, með síðari breytingum, kemur fram að tiltekin gögn skuli fylgja umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja. Í a-lið ákvæðisins kemur fram að með umsókn um skráningarviðurkenningu skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilsbréfs sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Þá kemur fram í b-lið ákvæðisins að þar til greindar upplýsingar ökutækis skuli, eftir því sem við á, staðfestar með vottorði frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu í frumriti þar sem fram kemur verksmiðjunúmer ökutækis. Komi framangreindar tæknilegar upplýsingar fram í erlendu skráningarskírteini ökutækis teljist þær vera fullnægjandi.

Í hinni kærði ákvörðun er á því byggt að af þeim gögnum sem fylgdu umsókn A.B.L. verði ekki séð að skilyrði skráningarviðurkenningar séu uppfyllt. Hvorki hafi verið til staðar erlent skráningarskírteini sem áskilið er samkvæmt a-lið ákvæðis 03.05 (4) né fullnægjandi upplýsingar samkvæmt b-lið. Því hafi umsókn A.B.L. um forskráningu ökutækisins verið synjað. Þá var það einnig mat SGS að síðar framlögð gögn nægðu ekki til að fá ökutækið skráð.

Ráðuneytið tekur undir það með SGS að tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 822/2004 verði ekki skilin öðru vísi en svo skráningarskírteini eða titilsbréf skuli fylgja umsókn um forskráningu og ekki sé að finna í lögum eða reglugerðinni neinar undantekningar frá þeim kröfum. Liggi fyrir að hvorki hafi verið lögð fram tilskilin gögn af hálfu A.B.L. samkvæmt a-lið ákvæðis 03.05 (4) reglugerðar nr. 822/2004 né fullnægjandi upplýsingar samkvæmt b-lið þess. Séu skilyrði fyrir skráningarviðurkenningu ökutækisins því ekki uppfyllt. Hafi SGS því verið rétt að synja umsókn A.B.L. um forskráningu ökutækisins og síðar framlögð gögn af hálfu A.B.L. breyti engu þar um. Þá tekur ráðuneytið undir það með SGS að yfirlýsingar yfirvalda annarra ríkja um að tiltekin gögn dugi til skráningar ökutækis þar í landi breyti í engu þeim reglum sem SGS beri að fara eftir samkvæmt íslenskum lögum og reglum þegar metið er hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu eru fullnægjandi. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 29. apríl 2014 um að synja umsókn A.B.L. Taks ehf. um forskráningu ökutækis af gerðinni DAF-Leyland 8X6.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta