Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR15010225

 Ár 2015, þann 1. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR15010225

 

Kæra [GK]

á ákvörðunum

Vegagerðarinnar

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru móttekinni 15. október 2014 kærði [GK] (hér eftir nefndur GK), […], ákvarðanir Vegagerðarinnar um að heimila lokun á Nesjavallaleið dagana 28., 29. og 30. ágúst 2014. Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Af gögnum málsins má sjá að um tvö aðskilin tilvik er að ræða varðandi heimildir Vegagerðarinnar fyrir lokun Nesjavallarvegar dagana 28., 29. og 30. ágúst 2014. Varðandi fyrra tilvikið barst Vegagerðinni umsókn um leyfi til lokunar á umræddum vegkafla vegna kvikmyndatöku. Heimilaði Vegagerðin takmörkun umferðar dagana 28. og 29. ágúst 2014 með tölvubréfi þann 27. ágúst 2014 að því tilskildu að lokunin yrði vel auglýst með lokunarskiltum þar sem bent væri á hjáleiðir. Í seinna tilvikinu, þann 30. ágúst 2014, heimilaði Vegagerðin lokun á umræddum vegi vegna aksturskeppni.

Ákvörðun Vegagerðarinnar var kærð til ráðuneytisins með bréfi GK mótteknu þann 15. október 2014. Var kæran ítrekuð með tölvubréfi GK þann 13. janúar 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. janúar 2015 var Vegagerðinni gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar dags. 11. febrúar 2015. 

Með bréfi ráðuneytisins dags. 16. febrúar 2015 var GK gefinn kostur á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar Vegagerðarinnar. Bárust þau andmæli með bréfi GK mótteknu þann 19. febrúar 2015.

Með bréfi dags. 27. mars 2015 tilkynnti ráðuneytið GK að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök GK

GK vísar til þess að hann telji að lagaheimild þurfi til að loka og um leið nýta þjóðvegi landsins til annarra hluta en samgangna (almennings) og skyldra verkefna. Nesjavallaleið (435) hafi verið lokuð 28. og 29. ágúst 2014 vegna kvikmyndatöku eins og fram hafi komið á heimasíðu Vegagerðarinnar. Þann 30. ágúst 2014 hafi veginum verið lokað vegna aksturkeppni eins og komið hafi fram á vegskilti staðsettu við Dalland en ekki hafi verið upplýsingar um þá lokun á heimasíðu Vegagerðarinnar.

GK telur að ekki sé heimilt að loka veginum vegna gæluverkefna. Við slíkt sé ekki búandi fyrir þá sem noti samgöngumannvirkið að staðaldri. Kveðst GK hafa kvartað til Vegagerðarinnar með tölvubréfi þann 29. ágúst 2014 og fengið það svar að leyfin væru gefin í samráði Vegagerðar og lögreglu á hverjum tíma. Þá kveðst GK hafa leitað til Samgöngustofu en verið vísað þar á Vegagerðina. Hafi Vegagerðin sent GK svar sem rakið er í kærubréfi. Kveðst GK ekki sáttur við skilgreiningu Vegagerðarinnar um yfirráð og ráðstöfun samgöngumannvirkja og þá sé í bréfi Vegagerðarinnar rangt farið með lokunartíma vegarins vegna aksturskeppni. Þá tekur GK fram að engin hjáleið sé að landar- og sumarbústaðaeign hans.

Í andmælum sínum vísar GK til þess að hann telji sig hafa rétt til að kæra ákvörðun Vegagerðarinnar til ráðuneytisins. Vísar GK til þess að hann sé þeirrar skoðunar að samgöngumannvirki sem eru fyrst og síðast fjármögnuð af skattfé landsmanna til samgangna eigi að notast á þann hátt. Einstakir embættismenn geti ekki ráðskast með slík mannvirki vegna gæluverkefna sem séu samgöngum óviðkomandi. Þá bendir GK á að hann og eiginkona hans eigi sumarbústað og land við […] og eina akfæra leiðin sé um Nesjavallaveg. Engin hjáleið sé möguleg. Búi hjónin yfir sumartímann í þessari eign. Þá hafi þau boðið fjölda manns til samkomu á laugardeginum 30. ágúst 2014 með löngum fyrirvara. Með ákvörðun Vegagerðarinnar hafi fjöldi gesta þurft frá að hverfa og þ.a.l. orðið lítið úr löngum undirbúningi. Nokkrir hafi þó virt lokunarskiltin að vettugi og ekið sem leið lá að […]. Sé kæran fyrst og fremst hugsuð til að komast hjá slíkum uppákomum í framtíðinni.

 

IV.    Umsögn Vegagerðarinnar

Í umsögn Vegagerðarinnar er að því vikið að stofnunin telur að einstaklingur geti einungis kært ákvörðun stjórnvalds þegar hann á einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. GK tilgreini hvorki hverra hagsmuni hann hafi að gæta né með hvaða hætti hann tengist úrlausn málsins.

Varðandi málavexti vísar Vegagerðin til þess að um sé að ræða tvö aðskilin tilvik. Annars vegar sé um að ræða lokun þjóðvegar vegna kvikmyndatöku og hins vegar lokun vegna aksturskeppni.

Varðandi fyrra tilvikið hafi Vegagerðinni borist umsókn um leyfi til lokunar á Nesjavallaleið vegna kvikmyndatöku. Þar hafi m.a. komið fram að fyrirhugað væri að framkvæma og taka upp umfangsmikið atriði og því væri nauðsynlegt að geta verið í næði á hluta Nesjavallaleiðar í 6-8 tíma á fimmtudeginum 28. ágúst og föstudeginum 29. ágúst á tímabilinu frá kl. 6:00 til 22:30. Vegagerðin hafi heimilað þessa takmörkun umferðar á þjóðvegi með tölvubréfi þann 27. ágúst 2014 að því tilskildu að lokunin yrði vel auglýst með lokunarskiltum þar sem bent væri á hjáleiðir. Þá hafi verið tekið fram að nauðsynlegt væri að vera í sambandi við lögreglu og neyðarlínu þegar nákvæmar tímasetningar lægju fyrir. Jafnframt hafi Vegagerðin tilkynnt um þessar takmarkanir á umferð á heimasíðu stofnunarinnar ásamt því að þær hafi verið auglýstar á samtengdum rásum ríkisútvarpsins frá 27. til 29. ágúst.

Vegagerðin vísar til þess að skapast hafi hefð fyrir því að stofnunin heimili takmörkun á umferð á þjóðvegum eða lokun um skamman tíma ef nauðsyn krefur vegna atvinnustarfsemi enda sé þess gætt að sem minnst truflun verði á almennri umferð. Samkvæmt 13. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé Vegagerðin veghaldari þjóðvega og verði að líta svo á að stofnunin hafi heimild til að takmarka umferð á þjóðvegum þegar nauðsyn krefur vegna atvinnustarfsemi. Í þessu tilviki hafi verið óskað takmarkana á umferð í lengri tíma en venjulegt er og hafi Vegagerðin fallist á að hún væri nauðsynleg í þágu umræddrar starfsemi vegna umfangs þess atriðis sem um var að ræða og öryggishagsmuna í tengslum við það. Hafi því verið lögð mikil áhersla á að lokunin yrði vel auglýst á heimasíðu Vegagerðarinnar, í fjölmiðlum og með skiltum þar sem jafnframt væri bent á hjáleiðir. Að auki hafi verið ákveðið að umsjónaraðili tökunnar skyldi leyfa tilfallandi umferð, t.d. þeirra aðila sem hefðu samband við Vegagerðina og gerðu athugasemdir vegna lokunarinnar. Hafi þeim verið gefið upp símanúmer hjá umsjónaraðilum tökunnar sem hafi kveðist myndu hleypa aðilum um veginn sem nauðsynlega þyrftu að fara um og óskuðu þess sérstaklega. Vegagerðin telji sig því hafa gætt þess að röskun á almennri umferð hafi verið með minnsta móti miðað við aðstæður. Þó megi fallast á að vegna umfangs þeirrar lokunar sem um ræðir að betur hefði mátt skoða hvernig staðið skyldi að henni, einkum þegar kemur að sérstakri tilkynningu til land- og sumarhúsaeigenda á svæðinu og hafi verklagið verið endurskoðað síðan þá með þau atriði að leiðarljósi.

Varðandi seinna tilvikið, þann 30. ágúst 2014, hafi lokun á Nesjavallaleið verið vegna aksturskeppni. Það leyfi fari fram á grundvelli reglugerðar nr. 507/2007 um akstursíþróttir og aksturskeppni sem sett er á grundvelli 34. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þar komi fram að leita skuli leyfis lögreglustjóra til að halda aksturskeppni og sé þá áskilið að Vegagerðin samþykki hana ef hún er á þjóðvegi. Þetta leyfi sé því í raun í höndum lögreglustjóra þar sem aflað er samþykkis Vegagerðarinnar fyrir keppninni og hafi það verið veitt í umræddu tilviki. Borist hafi umsókn þann 23. febrúar 2014 þar sem sjá megi í tímaáætlun að fyrirhuguð lokun hafi verið á Nesjavallaleið á leið „Hengill austur“ frá kl. 7:00 til 8:30 og „Hengill vestur“ frá kl. 10:45 til 12:15 þann 30. ágúst 2014. Starfsmaður Vegagerðarinnar hafi samþykkt lokun f.h. stofnunarinnar þann 25. febrúar 2014. Aksturskeppnin fari fram á grundvelli reglugerðar nr. 507/2007 og vísist alfarið til hennar að öðru leyti varðandi framkvæmd.

 

V.    Niðurstaða ráðuneytisins

Hvað varðar aðild GK liggur fyrir að hann átti ekki beina aðild að hinum kærðu ákvörðunum. Hins vegar liggur fyrir að GK er eigandi sumarbústaðar og lands við […] og að hans sögn er eina akfæra leiðin þangað um Nesjavallaveg. Er það mat ráðuneytisins að GK kunni því að hafa hagsmuna að gæta og því sé rétt að játa honum kæruaðild.

Hvað varðar hinar kærðu ákvarðanir liggur fyrir að um tvö aðskilin tilvik er að ræða. Í fyrra tilvikinu er um að ræða ákvörðun Vegagerðarinnar um að heimila lokunar Nesjavallavegar vegna kvikmyndatöku dagana 28. og 29. ágúst 2014. Seinna tilvikið varðar heimild til lokunar Nesjavallavegar vegna aksturskeppni þann 30. ágúst 2014.

Hvað varðar lokunina dagana 28. og 29. ágúst 2014 liggur fyrir að sótt var um leyfi fyrir lokun Nesjavallavegar til Vegagerðarinnar. Með tölvubréfi Vegagerðarinnar þann 27. ágúst 2014 var veitt heimild til lokunarinnar. Náði heimildin til þess að veginum yrði lokað í 6-8 klukkustundir, á tímabilinu frá klukkan 6:00 til 22:30, þessa tvo daga. Þá kemur fram í tölvubréfinu að mikilvægt sé að umsækjandi auglýsi lokunina vel til almennings með fyrirvara og bendi á hjáleiðir. Einnig skyldi lokunin vel merkt með lokunarskiltum auk þess sem nauðsynlegt væri að vera í sambandi við lögreglu og neyðarlínu varðandi nákvæmari tímasetningar þegar þær lægju fyrir. Liggur fyrir að Vegagerðin tilkynnti um takmarkanirnar á heimasíðu stofnunarinnar auk þess sem þær voru auglýstar á samtengdum rásum ríkisútvarpsins.

Ráðuneytið tekur undir það með Vegagerðinni að stofnunin hafi heimild til að takmarka umferð á þjóðvegum þegar nauðsyn krefur vegna atvinnustarfsemi enda fer Vegagerðin með veghald þjóðvega samkvæmt 13. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þegar slík heimild sé veitt beri hins vegar að gæta þess að sem minnst truflun verði á almennri umferð. Telur ráðuneytið að fallast beri á það með Vegagerðinni að rétt hafi verið að veita heimild fyrir lokun Nesjavallarvegar dagana 28. og 29. ágúst 2014 í þágu umræddrar starfsemi vegna umfangs þess atriðis sem um var að ræða og öryggishagsmuna í tengslum við það. Hafi Vegagerðin leitast við að auglýsa lokunina með fullnægjandi hætti. Þá hafi þess verið gætt að röskun á almennri umferð yrði með minnsta móti miðað við aðstæður. Í því sambandi vísar ráðuneytið til þess að ákveðið hafi verið að umsjónaraðili tökunnar myndi leyfa tilfallandi umferð, t.d. þeirra aðila sem hefðu samband við Vegagerðina og gerðu athugasemdir vegna lokunarinnar. Með vísan til þessa er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Vegagerðarinnar hvað þennan hluta kæru GK varðar. Hins vegar tekur ráðuneytið undir það sjónarmið Vegagerðarinnar að taka til endurskoðunar verklag vegna lokunar þegar um umfangsmiklar lokanir er að ræða, s.s. varðandi tilkynningar til landeigenda eða sumarhúsaeigenda þegar við á.

Hvað varðar lokun Nesjavallavegar þann 30. ágúst 2014 liggur fyrir að veitt var heimild til lokunarinnar vegna aksturskeppni. Er það leyfi veitt á grundvelli reglugerðar um akstursíþróttir og aksturskeppnir nr. 507/2007, sem sett er á grundvelli 34. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er leyfisveitingin í höndum lögreglustjóra þar sem aflað er samþykkis Vegagerðarinnar. Barst Vegagerðinni umsókn um lokun þann 23. febrúar 2014 og var hún samþykkt af Vegagerðinni þann 25. febrúar 2014. Með vísan til þess er það mat ráðuneytisins að Vegagerðinni hafi verið rétt að veita heimildina umrætt skipti og verður ákvörðun stofnunarinnar því staðfest hvað þennan þátt kærunnar varðar.

 

Úrskurðarorð:

Staðfestar eru ákvarðanir Vegagerðarinnar frá 25. febrúar 2014 og 27. ágúst 2014 um að heimila lokun á Nesjavallaleið dagana, 28., 29. og 30. ágúst 2014.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta