Mál nr. IRR13110170
Ár 2014, þann 4. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR13110170
Kæra MW
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru dagsettri 12. nóvember 2013 kærði [MW] (hér eftir nefndur MW, kt. [xxxxxx-xxxx], […], ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 6. nóvember 2013 um að hafna forskráningu bifreiðar af gerðinni Nissan Skyline. Af kæru verður ráðið að MW krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn hans um forskráningu tekin til greina.
Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Þann 4. nóvember 2013 barst SGS umsókn MW um forskráningu á notaðri bifreiða af gerðinni Nissan Skyline sem skráð er í Bretlandi. Þar sem SGS taldi að innflutningur bifreiðarinnar uppfyllti ekki skilyrði til undanþágu frá því að stýrishjól skuli vera vinstra megin var umsókninni hafnað með bréfi stofnunarinnar dags. 6. nóvember 2013.
Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi MW dags. 12. nóvember 2013.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. nóvember 2013 var SGS gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi stofnunarinnar dags. 5. desember 2013.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 12. desember 2013 var MW gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með tölvubréfi MW dags. 6. janúar 2014.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 29. janúar 2014 var MW tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök MW
MW greinir svo frá að hann hafi keypt umrædda bifreið af gerðinni Nissan Skyline í maí 2013. Hann hafi búið í eitt og hálft ár í Bretlandi en flutt til Íslands haustið 2013. Kveðst MS hafa haft samband við SGS og verið sagt að engin vandkvæði væru á því að skrá bílinn. Þegar MW hafi síðan ætlað að skrá bílinn á Íslandi hafi komið í ljós að hann hafi fengið rangar upplýsingar þar sem hann hafi þurft að vera eigandi bílsins í eitt ár. Kveðst MW hafa átt bílinn í sjö mánuði þegar hann sótti um forskráningu.
Í andmælum sínum frá 6. janúar 2014 kveðst MW hafa keypt bílinn þann 29. júlí 2013. Hafi bíllinn ekki verið á númerum þar sem hann var bilaður. Þegar bíllinn hafi loks verið gangfær hafi komið í ljós að hann hafi verið afskráður sem þýði að bíllinn sé ekki lengur skráður í Bretlandi og MW geti ekki skráð hann á sig.
IV. Ákvörðun og umsögn SGS
Í ákvörðun SGS frá 6. nóvember 2013 kemur fram að athugun SGS á bifreiðinni hafi leitt í ljós að stýrishjól hennar væri staðsett hægra megin. Í ákvæði 05.10. (8) reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 sé kveðið á um að stýrishjól bifreiða skuli vera vinstra megin. Í sérstökum tilfellum geti SGS veitt undanþágu frá þessari reglu. Slíkar undanþágur hafi verið veittar í þeim tilfellum sem bifreið sé hluti af búslóð aðila sem standi í flutningum til Íslands. Sé undanþágan aðeins veitt til að einstaklingur geti flutt inn og skrásett bifreið á Íslandi sem hann hafi átt áður en hann fluttist til landsins. Í öðrum tilfellum hafi undanþágu verið hafnað, t.d. þegar bifreiðar séu keyptar og fluttar til landsins eftir að viðkomandi einstaklingur sé fluttur til landsins. Í gögnum með umsókn MW sé að finna skráningarskírteini bifreiðarinnar frá Bretlandi sem sýni að MW hafi ekki verið skrásettur eigandi hennar við innflutning. Var það niðurstaða SGS að innflutningur bifreiðarinnar uppfyllti ekki skilyrði til undanþágu frá þeirri reglu að stýrishjól skuli vera vinstra megin og hafi umsókn MW um forskráningu því verið hafnað.
Í umsögn SGS er ítrekað að MW hafi ekki verið skráður eigandi bifreiðarinnar við innflutning heldur annar einstaklingur. Því hafi innflutningur bifreiðarinnar ekki uppfyllt skilyrði til undanþágu frá þeirri kröfu að stýrishjól skuli vera vinstra megin. Samkvæmt meginreglu um staðsetningu stýrishjóls í bifreiðum skuli stýrishjól vera vinstra megin, sbr. ákvæði 5.10 (8) reglugerðar nr. 822/2004. Í ákvæðinu komi fram að SGS geti í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá ákvæðinu. Í framkvæmd hafi undanþáguheimildin verið túlkuð svo að hún væri aðeins veitt þegar bifreið væri hluti af búslóð aðila sem stæði í búferlaflutningum til Íslands. Þá hafi túlkunin falið í sér að umsækjandi skuli vera skrásettur eigandi bifreiðarinnar við innflutning og hafi verið miðað við að hann hafi átt bifreiðina í a.m.k. eitt ár. Sé undanþágan veitt í þeim tilgangi að einstaklingur geti flutt inn og skrásett bifreið á Íslandi sem hann hafi átt áður en hann flutti til landsins. Í öðrum tilvikum hafi undanþágunni verið hafnað.
Í forskráningargögnum sé að finna skráningarskírteini bifreiðarinnar frá Bretlandi sem sýni að MW hafi ekki verið skrásettur eigandi hennar við innflutning. Þegar af þeirri ástæðu geti SGS ekki litið svo á að bifreiðin tilheyri búslóð MW og uppfylli skilyrði til undanþágu frá þeirri meginreglu að stýrishjól skuli vera vinstra megin. Er á það bent að á skráningarskírteini megi sjá nafn MW handskrifað ásamt kroti sem ekki verði greint hvaða upplýsingar standi undir. Hafi SGS litið á upplýsingarnar sem fram komi undir þessum lið sem ófullnægjandi og ómarktækar þar sem þær byggist ekki á opinberri ökutækjaskráningu í Bretlandi sem prentaðar séu á skráningarskírteinið. Hafi MW þannig ekki verið skrásettur eigandi bifreiðarinnar við innflutning heldur hafi nafn hans aðeins komið fram á handskrifað svæði skírteinisins sem ekki hafi verið talið til fullnægjandi upplýsinga. Þá komi ekki fram neinar upplýsingar um að MW hafi átt bifreiðina í sjö mánuði líkt og hann haldi fram. Þá bendir SGS á að þær kröfur sem reglugerð nr. 822/2004 mæli fyrir um við forskráningu séu settar í þeim tilgangi að skráning ökutækja verði sem best, áreiðanlegust og að við skráningu sé með tryggum hætti sýnt fram á að viss tæknileg atriði fullnægi skilyrðum reglugerðarinnar. Séu kröfurnar þannig allt í senn til þess fallnar að tryggja aukið umferðaröryggi og aukna neytendavernd. Þá byggi kröfurnar á tilskipun nr. 2007/46/EB um ramma á viðurkenningu á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar séu í slík ökutæki.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Til umfjöllunar er ákvörðun SGS frá 6. nóvember 2013 um að synja MW um forskráningu bifreiðar af gerðinni Nissan Skyline þar sem stýrishjól bifreiðarinnar er hægra megin. Hafa sjónarmið MW og SGS verið rakin hér að framan.
Í ákvæði 5.10 (8) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004, eins og ákvæðið var á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að stýrishjól bifreiðar skuli vera vinstra megin. Geti SGS í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá ákvæðinu. Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun og umsögn SGS hefur stofnunin veitt slíkar undanþágur í þeim tilvikum þar sem bifreið er hluti af búslóð aðila sem standi í flutningum til Íslands. Sé undanþágan þannig veitt í þeim tilgangi að einstaklingur geti flutt inn og skrásett bifreið á Íslandi sem hann átti áður en hann flutti til landsins. Þá hafi SGS litið svo á að umsækjandi þyrfti að vera skrásettur eigandi bifreiðarinnar við innflutning og hafi verið miðað við að hann hafi átt bifreiðina í a.m.k. eitt ár. Byggðist synjun SGS á því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi legið fyrir að MW hafi ekki verið skrásettur eigandi bifreiðarinnar samkvæmt skráningarskírteini og því hafi ekki komið til álita að heimila undanþágu frá tilgreindu ákvæði reglugerðarinnar.
Áður en lengra er haldið telur ráðuneytið rétt að taka fram að tilgreindu ákvæði gr. 5.10 (8) hefur nú verið breytt með reglugerð nr. 236/2014 um breytingu á reglugerð n. 822/2004 og tók breytingin gildi þann 4. mars 2014. Samkvæmt 2. ml. ákvæðisins getur SGS nú veitt undanþágu frá ákvæðinu þegar um búslóðaflutning er að ræða og innflytjandi hefur verið skráður eigandi bifreiðarinnar í a.m.k. sex mánuði samkvæmt skráningarskírteini fyrra ríkis. Hefur því að nokkru verið sett í reglugerð sú framkvæmd sem tíðkast hefur af hálfu SGS og rakin hefur verið í ákvörðun og umsögn stofnunarinnar.
Ráðuneytið tekur undir það með SGS að almenna reglan sé sú að stýrishjól bifreiðar skuli vera vinstra megin, sbr. ákvæði 5.10 (8) reglugerðar nr. 822/2004. Beri að túlka allar undanþágur frá því ákvæði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Telur ráðuneytið að fallast beri á það með SGS að þegar bifreið uppfyllir ekki umrætt skilyrði sé stofnuninni rétt að gera áskilnað þess efnis að umsækjandi um forskráningu skuli vera skrásettur eigandi við innflutning hennar, þrátt fyrir að ekki hafi verið kveðið á um það með skýrum hætti í ákvæðinu á þeim tíma sem umsókn MW var til umfjöllunar með sama hætti og eftir breytinguna sem gerð var með reglugerð nr. 236/2014. Þar sem fyrir liggur að MW var ekki skráður eigandi bifreiðarinnar við innflutning samkvæmt skráningarskírteini bifreiðarinnar frá Bretlandi er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með SGS að bifreiðin geti ekki talist uppfylla skilyrði um undanþágu frá því að stýrishjól bifreiðar skuli vera vinstra megin. Þau gögn sem MW hefur lagt fram við meðferð málsins hjá ráðuneytinu breyta í engu framangreindum upplýsingum sem fram koma í skráningarskírteininu. Með vísan til þessa er það mat ráðuneytisins að þegar af þessari ástæðu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 6. nóvember 2013 um að hafna umsókn MW um forskráningu bifreiðar af gerðinni Nissan Skyline.