Úrskurður í máli nr. SRN19010085
Ár 2019, þann 31. október, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. SRN19010085
Kæra X
á ákvörðun
Vegagerðarinnar
I. Kröfur og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru móttekinni 18. janúar 2019 kærði X (hér eftir kærandi), kt. 000000-0000, fyrir sína hönd og eigenda á bæjunum A, B, C, D, E, F og 50% eigenda G ákvörðun Vegagerðarinnar frá 28. nóvember 2018 um niðurfellingu vegar X af vegaskrá. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt með bréfi Vegagerðarinnar dags. 12. júlí 2018 um að fyrirhugað væri að fella veg X af vegaskrá þar sem hann uppfyllti ekki lengur skilyrði c-liðar 2. mgr. 8. gr. vegalaga um héraðsvegi. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 9. ágúst 2018. Með ákvörðun Vegagerðarinnar þann 28. nóvember 2018 var kæranda tilkynnt um niðurfellingu vegar X af vegaskrá.
Ákvörðun Vegagerðarinnar var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu 18. janúar 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 29. janúar 2019 var Vegagerðinni gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar mótteknu 22. febrúar 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 1. mars 2019 var kæranda gefinn kostur á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar Vegagerðarinnar. Engar athugasemdir bárust.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kemur fram að þess sé krafist að hætt verði við niðurfellinguna og þess í stað verði hafist handa við að laga veginn. Bendir kærandi á að engir þeir sem eigi fasteignir við veginn hafi fengið tilkynningu um niðurfellinguna, utan eiganda B. Er á það bent að margir hafi hagsmuni af því að komast um veginn og stöðvi það frekari uppbyggingu að missa hann úr vegaskrá. Í því sambandi bendir kærandi á atvinnustarfsemi á svæðinu, s.s. heynytjar, nytjaskógrækt og fyrirhugaða skógrækt. Þá séu einnig gríðarlegir möguleikar í ferðaþjónustu á svæðinu. Varðandi A er á það bent þar sé fyrirhuguð uppbygging þar sem farin sé ökubrú sem sé nauðsynleg til að komast inn á landið. Varðandi B er tekið fram að þar séu nytjuð tún af bændum á F. Miklir möguleikar séu í skógrækt og tveir sumarbústaðir séu á landinu. Varðandi C séu einnig nytjuð tún af bændum á F. Þar hafi Skógræktin ásamt eigendum stundað skógrækt og muni það standa í a.m.k. 40 ár. Varðandi D séu einnig nytjuð tún af bændum á F. Þar sé stunduð nytjaskógrækt og muni verða svo í a.m.k. 40 ár. Þar hafi verið mikil uppbygging og kominn mjög góður húsakostur og aðstaða fyrir skógrækt. Varðandi X þá séu þar nytjuð tún af bændum á E. Þar eigi tveir einstaklingar lögheimili auk þess sem þar sé einn sumarbústaður. Þá kemur fram að X noti veginn þar sem mölin tekur við af malbikinu, en þar séu þrír sumarbústaðir. Þá sé F í landi C og sé það m.a. nýtt sem vélageymsla.
IV. Umsögn og ákvörðun Vegagerðarinnar
Í ákvörðun Vegagerðarinnar frá 18. nóvember 2018 kemur fram að vegur X uppfylli ekki lengur skilyrði c-liðar 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007 og verði því felldur út af vegaskrá sem þjóðvegur frá og með næstu áramótum, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um héraðsvegi nr. 774/2010, sbr. 3. mgr. 8. gr. vegalaga. Hins vegar sé landeiganda bent á að hægt sé að sækja um að vegurinn verði tekinn inn á vegaskrá sem héraðsvegur þegar það sé komin föst búseta og lögheimili.
Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega og hafi það hlutverk samkvæmt 7. gr. vegalaga að halda skrá yfir alla þjóðvegi, svo nefnda vegaskrá. Í ákvæði c-liðar 2. mgr. 8. gr. vegalaga sé vikið að héraðsvegum. Þar komi fram að héraðsvegir séu vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis. Þeir séu ákveðnir í staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Þá segir jafnframt að heimilt sé að taka í tölu héraðsvega vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja a.m.k. 30 bústaði við þjóðveg. Þeir vegir sem uppfylla skilyrði c-liðar 2. mgr. 8. gr. vegalaga séu ekki sjálfkrafa teknir í tölu héraðsvega, heldur einungis að undangenginni umsókn viðkomandi landeigenda þeirrar jarðar sem vegurinn liggur að og með samþykki landeigenda þeirra jarða sem vegurinn liggur um, sé um mismunandi aðila að ræða. Í 5. gr. reglugerðar um héraðsvegi séu tilgreind þau skilyrði sem umsókn um nýjan héraðsveg þarf að uppfylla. Í e-lið 1. mgr. 5. gr. sé kveðið á um að umsækjandi skuli rökstyðja hvort skilyrði þess að vegur teljist til héraðsvega samkvæmt vegalögum séu uppfyllt. Þegar sótt er um héraðsveg á grundvelli starfrækslu atvinnufyrirtækja hafi Vegagerðin, í samræmi við framangreindar kröfur, farið fram á að umsækjandi skili gögnum sem sýna fram á að um sé að ræða sjálfstæða starfsemi sem rekin er reglubundið, í nokkru umfangi og í hagnaðarskyni, sbr. b-liður 3. gr. reglugerðarinnar. Í því skyni hafi Vegagerðin m.a. leiðbeint umsækjendum um að leggja fram staðfestingu tilkynningarskyldrar starfsemi til skattstjóra, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, skattframtöl rekstraraðila eða önnur sambærileg gögn.
Vegagerðin tekur fram að landeigendur hafi frumkvæði að því að óska eftir héraðsvegi að jörð sinni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. c-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga. Þegar Vegagerðin verði þess áskynja að vegur uppfylli ekki lengur skilyrði vegalaga til að teljast héraðsvegur sé þeim landeigendum sem eiga jörðina sem vegurinn liggur að tilkynnt um fyrirhugaða niðurfellingu og gefinn kostur á að koma að andmælum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og 7. gr. reglugerðar um héraðsvegi. Engar slíkar athugasemdir hafi borist. Þá tekur Vegagerðin fram að kærandi sé eigandi 52,77% jarðarinnar A en fyrst hafi orðið ljóst þar um þann 12. desember 2018. Í framhaldinu hafi kæranda verið gefinn kostur á að koma að gögnum sem sýndu fram á að skilyrði vegalaga væru uppfyllt, en fram hafi komið af hálfu kæranda að hann væri með skógrækt. Þá hafi kæranda verið leiðbeint um umsóknarferli héraðsvega en hafi hvorki skilað inn formlegri umsókn né lagt fram gögn til stuðnings fullyrðingu sinni um að atvinnufyrirtæki sé á staðnum. Telur Vegagerðin að málsmeðferðin hafi uppfyllt fyrirmæli stjórnsýslulaga um rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu gagnvart kæranda. Einnig tekur Vegagerðin fram að þann 17. desember 2018 hafi landeigendur Holts óskað eftir að vegurinn að þeirra býli yrði gerður að héraðsvegi. Landeigendur annarra jarða við veg X hafi ekki sótt um héraðsvegi að starfsemi sinni, býli eða sumarhúsum og hafi þ.a.l. ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum til að hægt sé að taka umsókn til afgreiðslu. Slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir hjá Vegagerðinni og telur stofnunin það ekki hluta af rannsóknarskyldu sinni að kanna hvort aðrir landeigendur, sem ekki hafi að eigin frumkvæði sótt um héraðsveg, kunni að vilja sækja um slíkt. Bendir Vegagerðin á að landeigendur geti ávallt sótt um héraðsveg að landi sínu og skilað inn tilskyldum gögnum umsókn sinni til stuðnings. Þegar umsókn berst sé farið yfir framlögð gögn og umsækjanda leiðbeint um framlagningu frekari gagna ef þörf er á. Telur Vegagerðin framangreinda málsmeðferð vera í samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Er það mat Vegagerðarinnar að stofnunin hafi farið eftir lögum og reglum þegar vegur X var felldur af vegaskrá og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi ekki verið brotnar. Telur Vegagerðin að stofnunin hafi gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við niðurfellingu vegar X af vegaskrá gagnvart landeigendum B og hafi leiðbeint kæranda um umsóknarferli og skilyrði þess að vegurinn verði tekinn í tölu héraðsvega og hvaða gögn sé nauðsynlegt að fylgi slíkri umsókn.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Um flokkun vega er fjallað í III. kafla vegalaga nr. 80/2007. Um þjóðvegi er fjallað í 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. eru þjóðvegir þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. er þjóðvegum skipað í þar til greinda flokka. Eru héraðsvegir einn þeirra flokka, sbr. c-liður 2. mgr. 8. gr. Eru héraðsvegir þar skilgreindir sem vegir sem liggja að býlum, atvinnustarfsemi, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis sem ákveðnir eru á staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Í 3. mgr. 8. gr. laganna kemur síðan fram að uppfylli vegur ekki lengur skilyrði laganna til að geta talist þjóðvegur skuli Vegagerðin tilkynna aðilum að fyrirhugað sé að fella hann af vegaskrá frá og með næstu áramótum og þar með sé veghald hans ekki lengur á ábyrgð Vegagerðarinnar.
Á grundvelli vegalaga hefur verið sett reglugerð um héraðsvegi nr. 774/2010. Í 3. gr. reglugerðarinnar eru héraðsvegir skilgreindir á sama hátt og í c-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau skilyrði sem umsókn um nýjan héraðsveg þarf að uppfylla og samkvæmt e-lið 1. mgr. 5. gr. skal umsækjandi rökstyðja á hvern hátt skilyrðin séu uppfyllt.
Líkt og fram kemur í umsögn Vegagerðarinnar tilkynnti Vegagerðin landeigendum um fyrirhugaða niðurfellingu vegar X af vegaskrá þegar stofnunin varð þess áskynja að vegurinn uppfyllti ekki lengur skilyrði vegalaga til að teljast héraðsvegur, sbr. 3. mgr. 8. gr. vegalaga og c-liður 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Í kjölfarið tilkynnti Vegagerðin um niðurfellingu vegarins af vegaskrá með hinni kærðu ákvörðun þar sem stofnunin mat það svo að skilyrði vegalaga varðandi héraðsvegi væru ekki uppfyllt. Þá var kæranda og öðrum landeigendum leiðbeint um að teldu þeir að skilyrði vegalaga fyrir því að vegur X yrði tekinn á ný í tölu héraðsvega væru uppfyllt gætu þeir lagt fram umsókn til Vegagerðarinnar þar um. Þá veitti Vegagerðin einnig leiðbeiningar um hvaða gögn væri nauðsynlegt að fylgdu slíkri umsókn.
Það er mat ráðuneytisins að fallast beri á það með Vegagerðinni að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að skilyrði fyrir því að vegur X væri skráður á vegaskrá sem héraðsvegur hafi ekki verið uppfyllt, sbr. c-liður 2. mgr. 8. gr. vegalaga. Hafi Vegagerðinni því verið rétt að fella veginn út af vegaskrá sem þjóðvegur, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um héraðsvegi, sbr. og einnig 3. mgr. 8. gr. vegalaga. Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram við meðferð málsins hjá ráðuneytinu breyta í engu framangreindu mati þess. Þá hefur ráðuneytið yfirfarið málsmeðferð Vegagerðarinnar og telur að stofnunin hafi farið í einu og öllu eftir gildandi lögum og reglum við töku hinnar kærðu ákvörðunar og fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga í hvívetna. Þá áréttar ráðuneytið einnig það sem fram kemur í umsögn Vegagerðarinnar sem og einnig í hinni kærðu ákvörðun, að telji kærandi eða aðrir landeigendur sem hagsmuna hafa að gæta að vegur X uppfylli skilyrði þess að vera tekinn í tölu héraðsvega að nýju geta þeir eftir sem áður lagt fram umsókn til Vegagerðinnar þess efnis. Um hvaða gögn þurfa að fylgja slíkri umsókn vísast til leiðbeininga Vegagerðarinnar þar um.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Vegagerðarinnar frá 28. nóvember 2018 um niðurfellingu vegar X af vegaskrá.