Úrskurður vegna eftirvinnslustyrks úr Kvikmyndasjóði
Ár 2020, þriðjudaginn 19. maí, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneyti svofelldur
ÚRSKURÐUR
í stjórnsýslumáli nr. MMR19040236
I.
Kæra, kröfur og kæruheimild
Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst hinn 23. apríl 2019 erindi [X] f.h. [Y] ehf. (hér eftir kærandi). Erindi kæranda er stjórnsýslukæra þar sem krafist er ógildingar á synjun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um eftirvinnslustyrk úr Kvikmyndasjóði, sbr. 9. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð, nr. 229/2003, með síðari breytingum, vegna verkefnisins [Z].
Kæruheimild vegna ákvörðunar Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í fyrirliggjandi máli er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir nefndur stjórnsýslulög).
II.
Málsatvik
Kærandi sótti um eftirvinnslustyrk fyrir kvikmyndaverkefnið [Z] úr Kvikmyndasjóði með umsókn, dags. 4. nóvember 2017. Greint var frá því að umsókninni hafi verið hafnað af hálfu framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvarinnar hinn 5. júní 2018 með hliðsjón af umsögn kvikmyndaráðgjafans (hér eftir nefndur kvikmyndaráðgjafi A). Í ákvörðuninni var kæranda bent á að hann gæti sótt um styrk að nýju ef einhverjar breytingar yrðu á verkefninu og/eða hann hefði áhuga á að fá umsögn annars ráðgjafa. Þá var kæranda boðið að koma á fund með fulltrúum Kvikmyndamiðstöðvar og kvikmyndaráðgjafa þar sem farið yrði yfir forsendur niðurstöðunnar, kæmi slík ósk innan tíu daga frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Loks var kæranda boðið að kynna sér umsögn ráðgjafa um verkefnið.
Í kjölfarið óskaði kærandi eftir umsögn kvikmyndaráðgjafans með tölvupósti, dags. 5. júní 2018, sem Kvikmyndamiðstöð sendi síðar sama dag. Kærandi kom á framfæri andmælum og spurningum sínum við umsögn kvikmyndaráðgjafans með tölvupósti, dags. 8. júní 2018, auk þess að óska eftir fyrri umsögn kvikmyndaráðgjafa sem var kæranda jákvæð. Þá óskaði kærandi eftir fundi með fulltrúum Kvikmyndamiðstöðvar og kvikmyndaráðgjafa með tölvupósti, dags. 11. júní 2018. Tímasetning fundar var ákveðin og staðfest samdægurs með tölvupósti af báðum aðilum og kærandi ítrekar fyrirspurn sína um jákvæðu umsögn kvikmyndaráðgjafa A frá fyrri stigum máls. Fyrri umsögn kvikmyndaráðgjafans A og umsögn kvikmyndaráðgjafans (hér eftir nefndur kvikmyndaráðgjafi B) voru sendar kæranda með tölvupósti, dags. 20. júní.
Samkvæmt leiðbeiningum Kvikmyndamiðstöðvar sendi kærandi inn nýja umsókn um eftirvinnslustyrk hinn 18. desember 2018 fyrir sama verkefni þar sem óskað var umsagnar annars ráðgjafa. Móttaka umsóknarinnar var staðfest af hálfu Kvikmyndamiðstöðvar með tölvupósti dags. 27. desember 2018. Umsóknin var send öðrum kvikmyndaráðgjafa til umsagnar samdægurs, (hér eftir nefndur kvikmyndaráðgjafi C, en hún veiktist skyndilega í febrúar 2019. Var því umsóknin send (hér eftir nefndur kvikmyndaráðgjafi D), kvikmyndaráðgjafa, til umsagnar með tölvupósti dags. 7. mars 2019 og var kærandi upplýstur um stöðu mála samdægurs. Neikvæð umsögn kvikmyndaráðgjafans D barst með tölvupósti dags. 19. mars 2019 og var kæranda tilkynnt samdægurs um synjun á eftirvinnslustyrk með tölvupósti auk neikvæðrar umsagnar kvikmyndaráðgjafans D.
III.
Málsmeðferð
Eins og áður segir kærði kærandi synjun Kvikmyndamiðstöðvar, dags. 19. mars 2019, til ráðuneytisins hinn 23. apríl 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 2. maí 2019, var Kvikmyndamiðstöð upplýst um framangreinda kæru, auk þess sem óskað var eftir umsögn og afstöðu Kvikmyndamiðstöðvar, auk annarra gagna eða upplýsinga sem málið kunna að varða. Umsögn og afstaða Kvikmyndamiðstöðvar vegna stjórnsýslukæru kæranda barst hinn 8. júní 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. júní 2019 var kæranda gefinn kostur á að bregðast við efni umsagnarinnar. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu hinn 9. júlí 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 21. ágúst 2019 var afgreiðslu málsins frestað um þrjá mánuði sökum fjölda mála sem til meðferðar voru hjá ráðuneytinu.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 25. nóvember 2019 var Kvikmyndamiðstöð gefið tækifæri til að koma með athugasemdir við andsvar kæranda frá 9. júlí 2019. Viðbótarumsögn Kvikmyndamiðstöðvar barst ráðuneytinu með tölvupósti dags. 16. desember 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 17. desember 2019 var kæranda gefinn kostur á að bregðast við athugasemdum Kvikmyndamiðstöðvar frá 16. desember 2019. Svar kæranda barst ráðuneytinu með tölvupósti dags. 6. janúar 2020 þar sem engar athugasemdir voru gerðar við athugasemdir Kvikmyndamiðstöðvar.
IV.
Málsástæður
Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga verður hér einungis fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.
Málsástæður kæranda í kæru dags. 23. apríl 2019.
Kærandi telur málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar við synjun á umsókn hans um styrk úr Kvikmyndasjóði brjóta gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga, rétti kæranda til að fá fullnægjandi rökstuðning fyrir synjuninni sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, vanrækt leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga, og að lokum málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi kvikmyndaráðgjafann K ekki uppfylla skilyrði síðari málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð og dregur óhlutdrægni hans í efa, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi gerir eftirfarandi athugasemdir við málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar:
Kærandi gerir athugasemd við að jákvæð umsögn kvikmyndaráðgjafans A hafi legið fyrir 28. nóvember 2017 en sex mánuðum síðar, þann 5. júní 2018 hafi kæranda verið tilkynnt um synjun á styrkbeiðni kæranda. Óskaði kærandi eftir því að fá umsögn kvikmyndaráðgjafans A afhenta og hafi þá fengið umsögn hans sem var orðin neikvæð og kvikmyndaráðgjafans B sem einnig var neikvæð.
Í tilkynningu frá framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar hafi hvergi komið fram rökstuðningur fyrir synjuninni, hvorki í fyrri né seinni synjun, umfram það sem fram kom í umsögnum kvikmyndaráðgjafa. Að sama skapi hafi kæranda ekki verið veittur neinn heildstæður rökstuðningur með vísan til umsagna kvikmyndaráðgjafanna beggja og framleiðsluþáttar verkefnisins.
Hvergi sé hægt að sjá að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar hafi tekið efnislega afstöðu til málsins.
Að kæranda hafi ekki verið gefið færi á að taka afstöðu til atriða í umsögnum kvikmyndaráðgjafa sem kynnu að hafa áhrif á niðurstöðu málsins.
Að í neikvæðri umsögn kvikmyndaráðgjafans A komi fram að enginn samframleiðslusammingur sem taki til samframleiðslunnar í heild fylgi umsókninni. Bendir kærandi á að Kvikmyndamiðstöð hafi ekki óskað eftir heildar samframleiðslusamningi á neinu stigi málsins og kærandi ekki verið meðvitaður um þessa kröfu sjóðsins. Hvergi sé gerð krafa um slíkan samning í lögum né reglugerð. Kærandi hafi lagt fram þá tvo samframleiðslusamninga um verkefnið í samræmi við leiðbeiningar Kvikmyndamiðstöðvar og 2. mgr. 11. gr. nr. 229/2003 um Kvikmyndasjóð (hér eftir nefnd reglugerð um Kvikmyndasjóð).
Þá hafi kvikmyndaráðgjafinn A talið litlar sem engar líkur á að réttur fengist til notkunar á tveim atriðum úr vinsælum teiknimyndum sem klippt hafi verið inn í myndina og kvikmyndaráðgjafinn B sett spurningu við hvort aðstandendur myndarinnar vissu að ekki væri hægt að dreifa eða selja myndinni fyrr en leyfi og samningar fengjust fyrir notkun umræddra atriða. Bendir kærandi á að í umsóknargögnum hafi komið fram að búið væri að gera ráðstafanir vegna þess efnis sem ekki væri búið að fá heimild til að nota í myndinni. Einnig að þegar neikvæð umsögn kvikmyndaráðgjafans A hafi legið fyrir þá hafi óformlegt samþykki fyrir notkun á efni úr annarri teiknimyndinni legið fyrir og nokkru síðar barist formlegt leyfi. Kvikmyndamiðstöð hafi ekki óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hvort leyfi fyrir notkuninni hafi fengist heldur hafi kvikmyndaráðgjafinn A gefið sér að slíkt leyfi muni ekki fást og það verði ekki annað séð en að það hafi haft mikið vægi í neikvæðri umsögn hans. Í fyrri jákvæðri umsögn kvikmyndaráðgjafans A hafi honum ekki þótt þetta vera „einn af meinbugum myndarinnar“.
Þá gerir kærandi athugasemd við neikvæða umsögn kvikmyndaráðgjafans A er varðar fjármögnunarlið umsóknarinnar. Bendir kærandi á að þegar jákvæð umsögn kvikmyndaráðgjafans A hafi legið fyrir hafi þáverandi framleiðslustjóri Kvikmyndamiðstöðvar tilkynnt kæranda um hana en óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum um framleiðsluhlutann meðal annars að kærandi færði víkjandi framlög inn í kostnaðaráætlun þar sem kvikmyndaráðgjafi A teldi það eðlilegra og gæfi réttari mynd af framleiðsluhlutanum. Kærandi hafi gert það og telur að kvikmyndaráðgjafi A hafi gefið þessu misræmi mikið vægi við neikvæða umsögn sína um verkið. Þá hafi Kvikmyndamiðstöð ekki kallað eftir frekari útskýringum á þessu og ekki gefið kæranda færi á skýra hvað olli breytingunni heldur notað hana gegn kæranda þótt hún hafi verið gerð á grundvelli leiðbeininga frá fyrrum starfsmanni Kvikmyndamiðstöðvar.
Þegar kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi við seinni synjun hafi hann fengið eftirfarandi svar: „Í raun er aldrei nein ein ástæða höfnunar – niðurstaðan byggir á þó nokkrum þáttum eins og komið hefur fram, enda hefur sjóðurinn úr takmörkuðu fjármagni að spila og berast margar góðar umsóknir.“ Telur kærandi ekki um fullnægjandi rökstuðning að ræða.
Þá telur kærandi kvikmyndaráðgjafann D vera vanhæfa á grundvelli síðari málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð og 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.
Að lokum gerir kærandi athugasemd við að fyrri hluti umsóknarferlisins hafi tekið sjö mánuði.
Málsástæður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands dags. 8. júní 2019 vegna kæru kæranda dags. 23. apríl 2018.
Kvikmyndamiðstöð bendir á að kærandi hafi verið upplýstur um að áætlað hafi verið að umsagnarferlið tæki í kringum 8-10 vikur og komið hafi skýrt fram að mögulegt væri að óskað yrði eftir frekari gögnum. Eðli máls samkvæmt gæti slíkt lengt málsmeðferðina sem og það gerði þar sem ítrekað hafi þurft að biðja kæranda um viðbótargögn og skýringar vegna vankanta á umsókninni.
Kvikmyndamiðstöð bendir á að kvikmyndaráðgjafanum A var falið að meta umsókn kæranda og var upphaflegt mat hans að fallast bæri á að veita verkefni kæranda styrk. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar hafi hins vegar á grundvelli 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð talið nauðsynlegt að afla frekari gagna og skýringa frá kæranda áður en mögulegt væri að taka endanlega ákvörðun. Eftir að viðbótargögn bárust hafi kvikmyndaráðgjafinn A talið að verkefnið ætti ekki að hljóta styrk og var forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar sömu skoðunar. Þá bendir Kvikmyndamiðstöð á að forstöðumaður hafi, líkt og við fyrri umsókn kæranda, farið yfir umsóknina í heild sinni auk umsagnar ráðgjafans og tekið efnislega afstöðu á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Þar sem forstöðumaður hafi verið efnislega sammála afstöðu kvikmyndaráðgjafans D hafi verið vísað til rökstuðnings hennar fyrir höfnuninni. Þá hafi kærandi verið sérstaklega upplýstur um afstöðu Kvikmyndamiðstöðvar þar sem fram kom að Kvikmyndamiðstöð bærust „mun fleiri umsóknir um framlög en fjárframlög leyfa“. Hafi kæranda einnig verið leiðbeint um kæruheimild og kærufrest sem og aðgangur að umsögn kvikmyndaráðgjafans D.
Þá bendir Kvikmyndamiðstöð á að við meðferð málsins hafi verið leitast við að taka ákvörðun á grundvelli réttra og fullnægjandi upplýsinga. Hafi því verið endurtekið óskað eftir frekari gögnum og skýringum frá kæranda til að upplýsa málið og honum gefinn kostur á að koma frekari skýringum að í samræmi við leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga og rannsóknar- og andmælareglu sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga.
Hvað varðar rökstuðning Kvikmyndamiðstöðvar á synjun á umsókn kæranda er tekið fram að athygli kæranda var vakin á að honum stæði til boða að fá umsögn annars kvikmyndaráðgjafa auk þess sem honum var boðið að fá afrit af umsögn ráðgjafans á verkefninu. Umsögn var síðan send kæranda samdægurs og skipulagður fundur með kæranda 27. júní 2018 þar sem ráðgert var að fara yfir rökstuðning Kvikmyndamiðstöðvar. Kvikmyndamiðstöð vísar því næst til 22. gr. stjórnsýslulaga og rekur atriði er koma í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum. Þá er einnig tekið fram að þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna til listsköpunar þarf ekki að rökstyðja synjun sérstaklega. Þá hafi í umsögn ráðgjafans sem forstöðumaður studdist við, við ákvarðanatökuna, verið sérstaklega vikið að ástæðum að baki hinu neikvæða mati. Var þar talið skipta mestu máli að kostnaðaráætlun og fjármögnun verkefnisins var verulega ábótavant. Auk þess var talið að verkefnið samrýmdist illa markmiði sjóðsins um að stuðla að jöfnun á stöðu karla og kvenna í kvikmyndagerð sbr. reglugerð nr. 1147/2016 um breytingu á reglugerð um Kvikmyndasjóð nr. 229/2003. Telur Kvikmyndamiðstöð að samkvæmt framangreindu hafi 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga verið uppfyllt í málinu.
Þá hafnar Kvikmyndamiðstöð að málshraðaregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Ástæðu langs málsmeðferðartíma í þessu máli megi rekja til ófullnægjandi umsóknar kæranda og nauðsynjar á frekari gagnaframlagningu af hans hálfu. Síðari umsókn kæranda hafi verið send kvikmyndaráðgjafanum C fljótlega eftir viðtöku. Afgreiðsla málsins hafi hins vegar tafist sökum skyndilegra veikinda kvikmyndaráðgjafans C, en þá hafi verið leitað til kvikmyndaráðgjafans D. Hafi kærandi verið upplýstur um þetta.
Þá bendir Kvikmyndamiðstöð á að í neikvæðri umsögn kvikmyndaráðgjafans D hafi verið farið vel yfir verkefnið og fundið að ýmsum atriðum m.a. að höfundum „tekst ekki að skapa sannfærandi, sjálfstæðan söguheim. Honum tekst ekki heldur að sýna okkur þróun eða dýpt í samskiptum lykilpersóna“. Efnistök myndarinnar séu talin ófrumleg og staðfærslan hvorki nógu sannfærandi eða nýstárleg og verkefnið ekki talið til þess fallið að jafna hlut kynjanna.
Hvað varðar meint vanhæfi kvikmyndaráðgjafans D telur Kvikmyndamiðstöð að ekki sé um að ræða vanhæfi og vísar þar til 2. mgr. 7. gr. kvikmyndalaga þar sem segir að kvikmyndaráðgjafar skuli hafa þekkingu eða reynslu á sviði kvikmynda en að öðru leyti vísað til ssl. Þá er einnig vísað til kvikmyndareglugerðar. Tekur Kvikmyndamiðstöð fram að kvikmyndaráðgjafinn D sé í fyrirsvari fyrir félögin Sumarmál ehf. og Ljósband ehf. og eigi helmingshlut í því síðarnefnda. Þá er tekið fram að hvorugt félaganna séu með umsóknir í ferli hjá Kvikmyndamiðstöð og eigi því enga hagsmuni að gæta við úrlausn þessarar umsóknar.
Athugasemdir kæranda dags. 9. júlí 2019 við málsástæður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands dags. 8. júní 2019.
Kærandi vekur athygli á að Kvikmyndamiðstöð hafi ekki vikið að athugasemd kæranda í kæru þar sem vöntun á samframleiðslusamningi er metin kæranda í óhag þrátt fyrir að ekki hafi verið kallað eftir honum. Einnig að ekki hafi verið svarað athugasemdum er varða leyfi til sýningar á efni úr tilteknum teiknimyndum þar sem kærandi kvartaði yfir því að fá ekki að koma sínum athugasemdum á framfæri við fullyrðingar kvikmyndaráðgjafans A og kvikmyndaráðgjafans D. Þá hafi Kvikmyndamiðstöð ekki vikið að athugasemdum kæranda í kæru er vörðuðu kostnaðaráætlun verkefnisins og það að eftirfylgni við leiðbeiningar fyrrum starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar hafi verið metin þeim í óhag.
Kærandi ítrekar einnig fyrri athugasemd um að hafa ekki fengið fullnægjandi rökstuðning fyrir synjuninni. Kærandi sé ekki að gera kröfu um að kvikmyndaráðgjafar rökstyðji listrænt mat heldur að hægt sé að sjá að lagt hafi verið heildstætt mat á umsagnir kvikmyndaráðgjafanna. Þá ítrekar kærandi að hvergi hafi verið hægt að sjá að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar hafi tekið efnislega afstöðu til málsins og kæranda hafi ekki verið gefið færi á að taka afstöðu til atriða í umsögnum kvikmyndaráðgjafanna áður en íþyngjandi ákvörðun var tekin.
Kærandi bendir einnig á að við synjun er ítrekað vísað til þess að verkefnið sé ekki til þess fallið að jafna hlut kvenna í kvikmyndagerð og þar vísað til Samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016-2019. Vekur kærandi athygli á þeirri grein er kemur á eftir grein 2.4. er fjallar um að jafna hlut kvenna en þar er vísað til þess að styðja eigi sérstaklega við konur og karla sem séu að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð. Telur kærandi að Kvikmyndamiðstöð hafi ekki gefið þeirri grein nægilegt vægi heldur notað reynsluleysi kæranda gegn honum í stað og vísar því til stuðnings til óbirtrar umsagnar kvikmyndaráðgjafans A frá 15. maí. Þá bendir kærandi á að í umræddri umsögn sé vísað til gagna sem gerð voru að beiðni og samkvæmt leiðbeiningum fyrrum starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar.
Bendir kærandi á þeim mun sem er á mati framleiðslustjóra og kvikmyndaráðgjafans A á framleiðsluþætti verkefnisins. Framleiðslustjóri telji öll gögn fullnægjandi dags. 13. apríl 2018 og fjármögnunin í lagi gagnvart Kvikmyndamiðstöð. Kvikmyndaráðgjafinn A telji hins vegar 15. maí 2018 málið vera „algerlega vonlaust“. Telur kærandi ekkert útskýra af hverju forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar taldi nauðsynlegt að kvikmyndaráðgjafinn A endurskoðaði áður jákvæða umsögn sína sem og að kalla eftir umsögn annars ráðgjafa, kvikmyndaráðgjafans B.
Að lokum gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Kvikmyndamiðstöðvar um hæfi kvikmyndaráðgjafans D. Vekur kærandi einnig athygli á því að […] ehf. hafi fengið styrk frá Kvikmyndamiðstöð vegna kvikmyndahátíðar erlendis árið 2018. Þá telur kærandi tengsl kvikmyndaráðgjafans D við þessi félög og hverjir viðskiptafélagar hennar eru einnig vera til þess fallin að draga óhlutdrægni hennar í efa sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga enda hafi viðskiptafélagar kvikmyndaráðgjafans D hlotið umtalsverðar fjárhæðir frá Kvikmyndamiðstöð.
Andsvör Kvikmyndamiðstöðvar Íslands dags. 16. desember 2019.
Kvikmyndamiðstöð fellst ekki á að vöntun á samframleiðslusamningi, líkur á að kærandi fengi leyfi til að nota tiltekið efni úr erlendum teiknimyndum og illskiljanleg kostnaðaráætlun vegna víkjandi framlaga hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöðu Kvikmyndamiðstöðvar. Synjunin hafi verið byggð á öðrum forsendum heldur en þessum.
Einnig er áréttað að af umsögn kvikmyndaráðgjafanna megi ráða að ofangreind atriði hafi ekki ráðið úrslitum um að hafna umsókninni. Mikil eftirspurn sé eftir fjármunum Kvikmyndamiðstöðvar og því þurfi að forgangsraða, auk þess sé kynjahalli á kvikmyndinni.
Kvikmyndamiðstöð bendir á að það sem kærandi kalli eftir, að koma með heildstæðan rökstuðning með vísan til umsagna kvikmyndaráðgjafanna og framleiðsluþáttar verkefnisins styðjist ekki við regluverk Kvikmyndamiðstöðvar eða framkvæmd um úthlutanir úr Kvikmyndasjóði.
V.
Rökstuðningur fyrir niðurstöðu
Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um styrk til einstaklings eða lögaðila verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Stjórnsýslukæra kæranda í máli þessu verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.
Um Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndasjóð gilda kvikmyndalög nr. 137/2001. Samkvæmt 2. gr. laganna fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn kvikmyndamála. Í 6. gr. segir að Kvikmyndasjóður starfi á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og er hlutverk sjóðsins að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi. Samkvæmt 7. gr. tekur forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn, að fenginni umsögn Kvikmyndaráðs, sbr. 4. gr. laganna. Kvikmyndamiðstöð heyrir þannig stjórnarfarslega undir mennta- og menningarmálaráðherra og er stofnunin og forstöðumaður hennar því lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Hin kærða ákvörðun er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytis, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Eins og áður segir tekur forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. kvikmyndalaga skal í reglugerð, sem mennta- og menningarmálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs, kveðið á um skilyrði fyrir framlögum úr sjóðnum með styrkjum, lánum eða veitingu tímabundinna vilyrða fyrir stuðningi. Jafnframt skulu sett ákvæði m.a. um undirbúning úthlutunnar og greiðslur úr sjóðnum. Þar skal enn fremur kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar, svo og um tilhögun mats á umsóknum, störf úthlutunarnefnda og um kvikmyndaráðgjafa.
Á grundvelli framangreinds ákvæðis kvikmyndalaga hefur mennta- og menningarmálaráðherra sett reglugerð um Kvikmyndasjóð, nr. 229/2003. Um mat á styrkumsóknum og kvikmyndaráðgjafa er fjallað í 3. gr. reglugerðarinnar.
Eins og áður segir beinist kvörtun kæranda meðal annars að því að málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar hafi brotið gegn almennum reglum stjórnsýslulaga og ákvæðum reglugerðar um Kvikmyndasjóð. Athugun ráðuneytisins sem liggur úrskurði þessum til grundvallar beindist að ákveðnum atriðum sem kærandi víkur að í kvörtun sinni eða vöktu athygli ráðuneytisins við rannsókn á gögnum málsins. Verður hér nánar vikið að þeim atriðum.
1. Málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar, kvikmyndalaga og reglugerðar um Kvikmyndasjóð vegna synjunar um eftirvinnslustyrk dags. 5. júní 2018 og 19. mars 2019.
a. Leiðbeiningarskylda stjórnsýslulaga, sbr. 7. gr. laganna.
Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar um þau mál sem snerta starfssvið þess. Í athugasemdum við 7. gr. í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/1992 kemur fram að skyldan nái til þess að leiðbeina um hvaða gögn aðila beri að leggja fram. Þá tengist leiðbeiningarskyldan rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sem kveður á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá hefur einnig verið talið að í leiðbeiningarskyldu stjórnvalda felist skylda fyrir stjórnvöld til þess að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Af framangreindu leiðir að telji stjórnvald að upplýsingar eða gögn skorti til þess að skilyrði sé uppfyllt ber því samkvæmt leiðbeiningarskyldu 7. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að óska eftir þeim upplýsingum eða gögnum frá aðila máls og gera honum grein fyrir þeim afleiðingum sem kunna að hljótast af því ef upplýsingarnar eða gögnin eru ekki veitt eða þær eru ekki fullnægjandi.
Í neikvæðri umsögn kvikmyndaráðgjafans A er gerð athugasemd við að í umsókn kæranda sé ekki að finna samframleiðslusamning er tekur til samframleiðslunnar í heild sinni. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins er að finna tölvupóstsamskipti þar sem upp eru talin ákveðin gögn sem Kvikmyndamiðstöð þarfnast til að meta fjárhagslega hluta umsóknarinnar. Samframleiðslusamningur er tekur til samframleiðslunnar í heild sinni er ekki meðal þeirra gagna sem óskað var eftir en ljóst er af gögnum máls að vöntun slíks samnings hafi verið tekin inn í matið við ákvörðun um synjun þó Kvikmyndamiðstöð hafi áréttað að vöntun samningsins hafi ekki haft úrslitaáhrif um ákvörðun um að synja um eftirvinnslustyrk.
Í 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð eru tæmandi talin gögn þau er þurfa að fylgja umsóknum. Af lestri ákvæðisins verður ekki séð að gerður sé greinarmunur á samframleiðslusamningi og samframleiðslusamningi er taki til samframleiðslunnar í heild sinni. Óumdeilt er að kærandi lét í té samframleiðslusamning um verkefnið. Á grundvelli leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga hefði Kvikmyndamiðstöð verið í lófa lagið að óska eftir samframleiðslusamningi er tæki til samframleiðslunnar í heild sinni, sé það almenn krafa á grundvelli 11. gr. reglugerðarinnar, til að taka af allan vafa um túlkun ákvæðisins. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 4. Apríl 2007 í máli nr. 4585/2005 kemur fram að ríkari skylda hvíli á stjórnvöldum að leiðbeina umsækjendum um kröfur til styrkveitinga, leiði þær ekki skýrt af þeim reglum sem um styrkina gilda.
Þá er það mat ráðuneytisins að hafi þessi atriði ekki haft þýðingu við mat á hvort veita ætti eftirvinnslustyrk vegna verkefnisins hefði, með hliðsjón af meginreglunni um vandaða stjórnsýsluhætti, sú afstaða átt að koma skýrar fram í umsögn kvikmyndaráðgjafa og/eða ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar.
b. Málshraðaregla stjórnsýslulaga, sbr. 9. gr. laganna.
Á grundvelli málshraðareglu stjórnsýslulaga sbr. 9. gr. laganna skal taka ákvarðanir svo fljótt sem unnt er. Í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að sum erindi séu þess eðlis að fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla þeirra muni taka nokkurn tíma, svo sem mál þar sem þörf er á að afla umsagna og gagna. Þá er mælt fyrir um að aðilum máls skuli vera upplýst um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Málshraðareglan skal þó almennt skoðuð með rannsóknarreglu stjórnsýslulaga sbr. 10. gr. laganna enda ákveðin togstreita á milli þeirra tveggja. Stjórnvald skal taka ákvarðanir svo fljótt sem unnt er á grundvelli málshraðareglu 9. gr. en jafnframt sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á afgreiðslutíma máls þarf meðal annars að taka mið af eðli og umfangi málsins, mikilvægi réttinda sem í húfi eru, skipulag stjórnvalds og reglur um málsmeðferð og mönnun og álag hjá viðkomandi stjórnvaldi.
Af gögnum málsins má ráða að frá því umsókn barst hafi átt sér stað stöðug samskipti á milli kæranda og Kvikmyndamiðstöðvar. Þá hafi verið óskað eftir viðbótargögnum sem eðli málsins samkvæmt þarf að meta á grundvelli rannsóknarreglunnar. Gera má athugasemd við þann tíma sem leið eftir að önnur umsögn kvikmyndaráðgjafans A barst og ákvörðun var tekin í málinu. Þá hafi kvikmyndaráðgjafinn A skilað hinni þriðju umsögn í millitíðinni sem engin gögn málsins sýna fram á ástæðu fyrir. Á því tímabili hafi kærandi ekki verið upplýstur um framgang máls heldur hafi verið að vænta svars. Í tölvupósti sínum er var svar við fyrirspurn kæranda um spurnir um framgang málsins baðst framleiðslustjóri Kvikmyndamiðstöðvar afsökunar á löngum afgreiðslutíma. Má Kvikmyndamiðstöð því vera ljóst að málsmeðferðartími væri orðinn lengri en vanalegt væri. Verður hins vegar að telja þann drátt sem varð á málinu ekki það verulegan að Kvikmyndamiðstöð teljist hafa brotið gegn málshraðareglu stjórnsýslulaga.
c. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. laganna.
Þegar hefur verið fjallað um tengsl leiðbeiningarreglu 7. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að í rannsóknarreglu stjórnsýslulaga felist að stjórnvaldi ber skylda til að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin.
Kærandi gerði athugasemd við umsögn kvikmyndaráðgjafans B og seinni umsögn kvikmyndaráðgjafans A er varðaði þann hluta umsagnanna er fjallar um notkun á efni úr vinsælum, erlendum teiknimyndum. Í ljósi þess að kærandi var einungis upplýstur um jákvæða umsögn kvikmyndaráðgjafans A hafði kærandi réttmætar væntingar til þess að listrænt mat kvikmyndaráðgjafans myndi ekki breytast með eins afdrifaríkum hætti og raun var, án þess að aflað yrði frekari upplýsinga frá kæranda og honum gefinn réttur til andmæla á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga.
Á grundvelli 15. tölul. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð hefði kvikmyndaráðgjöfunum verið unnt að kalla eftir samningum við rétthafa verkefnisins en ekki verður séð af gögnum málsins að það hafi verið gert heldur einungis gert ráð fyrir að kærandi teldi sig geta notað efnið án samnings við rétthafa efnisins eða slíkt leyfi myndi ekki fást.
Þess ber einnig að geta að á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga væri eðlilegra að gefa umsækjendum tækifæri á að fá umsögn annars ráðgjafa áður en ákvörðun er tekin, hafi umsögn fyrri ráðgjafa verið neikvæð, í stað þess að bjóða upp á það eftir að ákvörðun um synjun er tekin. Það verklag sem til staðar var í máli þessu, þ.e. að bjóða umsækjanda að sækja um aftur, óski hann álits annars ráðgjafa, fyrirgerir rétti hans til að kæra synjunina til ráðuneytisins fyrr en framangreint hefur verið gert. Með þessum hætti lengist málsmeðferð hjá lægra settu stjórnvaldi umtalsvert og gerir upphaf og endi hverrar málsmeðferðar óskýrari.
Er það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir að framangreint hafi ekki haft úrslitaáhrif á niðurstöðu þá megi af lestri umsagnanna ráða að umræddu atriði hafi verið gefið töluvert vægi í umsögnum beggja ráðgjafa.
d. Andmælaregla stjórnsýslulaga sbr. 13. gr. laganna.
Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 4. apríl 2007 í máli nr. 4585/2005 bendir hann á að ljóst sé að umsagnir kvikmyndaráðgjafa geti haft verulega þýðingu við ákvörðun um hvort verða eigi við umsókn um styrk úr Kvikmyndasjóði. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum við IV. kafla frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum segir að í reglunni felist að aðili máls, sem til meðferðar er hjá stjórnvaldi, á að eiga kost á því að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Enn fremur segir að tilgangur reglunnar sé einnig að stuðla að því að mál verði betur upplýst og þannig tengist hún rannsóknarreglunni. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins kemur fram að þegar aðili máls hefur sótt um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum og fyrir liggur afstaða hans þarf almennt ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málsefni. Þegar aðila er hins vegar ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Með hliðsjón af þessu taldi umboðsmaður Alþingis í áðurnefndu áliti að veita ætti umsækjanda um styrk úr Kvikmyndasjóði færi á að koma andmælum við umsögn þegar aflað er umsagnar kvikmyndaráðgjafa við málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar sem ekki er umsækjanda að öllu leyti hagstæð. Benti hann jafnframt á í þessu sambandi að „andmælareglan takmarkast ekki við rétt aðila til að tjá sig um atvik máls og þar með staðreyndir heldur á aðilinn einnig rétt á að koma að athugasemdum sínum í tilefni af upplýsingum um matskennd atriði sem stjórnvald hefur aflað við meðferð máls“ (sjá einnig álit UA frá 22. desember 2006 í máli nr. 4316/2005 og álit UA frá 11. mars 2002 í máli nr. 3306/2001). Af þessu leiðir að afli stjórnvald umsagna við meðferð máls sem er málsaðila í óhag og hefur verulega þýðingu við úrlausn þess, er stjórnvaldi skylt að gefa aðila kost á að koma að athugasemdum sínum við þá umsögn áður en ákvörðun er tekin í málinu.
Af gögnum málsins verður ekki séð að Kvikmyndamiðstöð hafi gefið kæranda kost á að gera athugasemdir við umsagnir kvikmyndaráðgjafa en telja verður að kærandi hafi haft enn ríkari ástæðu til þess í ljósi fyrri jákvæðrar umsagnar kvikmyndaráðgjafans A. Kæranda var einungis boðið í bréfum um tilkynningu á synjun styrks dags. 5. júní 2018 og 19. mars 2019 að fá umsagnir kvikmyndaráðgjafa og koma á fund með honum. Í ljósi framangreindrar umfjöllunar er slíkt ekki nægilegt heldur verður að gefa málsaðila tækifæri til að gera athugasemdir við neikvæðar umsagnir kvikmyndaráðgjafa áður en ákvörðun er tekin.
Ráðuneytið hefur áður fjallað um sambærilegt tilvik og sett framangreind sjónarmið fram í úrskurði ráðuneytisins frá 10. október 2018 vegna kæru á málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar. Verður því að gera enn ríkari kröfu til Kvikmyndamiðstöðvar í þessum efnum er varðar seinni hluta málsmeðferðarinnar er lauk með synjun styrks dags. 19. mars 2019.
Þá ber einnig að nefna að í tölvupósti dags. 13. apríl 2018 frá framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar til kvikmyndaráðgjafans A hafi framleiðslustjóri greint frá því að fjármögnunarhliðin væri í lagi gagnvart Kvikmyndamiðstöð. Þrátt fyrir það, hafi verið óskað álits annars kvikmyndaráðgjafa (kvikmyndaráðgjafans B) sem veitti verkefninu neikvæða umsögn. Í kjölfarið hafi kvikmyndaráðgjafinn A hinn 15. maí 2018 veitt verkefninu aðra umsögn sem var neikvæð og talið ástæðu til að veita verkefninu þriðju umsögnina dags. 1. júní 2018 sem einnig var neikvæð. Hafði listrænt mat kvikmyndaráðgjafans A breyst til muna frá fyrstu umsögn til þriðju umsagnar þó verkið í eðli sínu væri óbreytt. Aðila máls var hvergi á tímabilinu tilkynnt um þessa breyttu afstöðu kvikmyndaráðgjafans og gefið tækifæri til að koma andmælum sínum á framfæri. Þá er ekkert í gögnum málsins er gefur til kynna eða útskýrir þessa breyttu afstöðu, í fyrsta lagi frá fyrstu umsögn kvikmyndaráðgjafans A til hinnar þriðju, í öðru lagi þær viðhorfsbreytingar til fjárhagslegu hliðar verkefnisins er verða frá tölvupósti framleiðslustjóra til umsagnar ráðgjafanna og í þriðja lagi hvers vegna hafi verið talin þörf á að afla umsagnar annars ráðgjafa (kvikmyndaráðgjafans B).
e. Rökstuðningur ákvörðunar.
Kærandi telur sig ekki hafa fengið fullnægjandi rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga getur aðili máls krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var kynnt. Þannig er ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld verði að rökstyðja stjórnvaldsákvarðanir samhliða tilkynningu til aðila, heldur að aðili geti óskað eftir rökstuðningi eftir á. Réttur aðila til að krefjast rökstuðnings á þó ekki við þegar um er að ræða styrki á sviði lista, menningar eða vísinda, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna. Í athugasemdum við 21. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að það sé vegna þess að slíkar ákvarðanir eru mjög háðar mati og því oft og einatt erfitt að rökstyðja þær með hlutlægum hætti.
Kvikmyndamiðstöð var því ekki skylt að rökstyðja ákvörðun sína um að synja kæranda um eftirvinnslustyrk úr Kvikmyndasjóði. Engu að síður gekk stofnunin lengra en skyldur báru til með því að gera kæranda kleift að hitta fulltrúa Kvikmyndamiðstöðvar og kvikmyndaráðgjafa á fundi ef þess væri óskað, sem og var gert í kjölfar synjunar um eftirvinnslustyrk dags. 5. júní 2018. Þá hafi kæranda einnig í kjölfar synjunar um eftirvinnslustyrk 19. mars. 2019 verið gert kleift að hitta fulltrúa Kvikmyndamiðstöðvar og kvikmyndaráðgjafann D á fundi, væri þess óskað. Að mati ráðuneytisins hefur Kvikmyndamiðstöð því uppfyllt skyldur sínar skv. stjórnsýslulögum hvað þetta atriði varðar.
2. Mögulegt vanhæfi kvikmyndaráðgjafa
Kærandi gerir athugasemdir við hæfi kvikmyndaráðgjafa vegna viðskiptalegra hagsmuna og tengsla hans. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð er fjallað um hæfi og hæfni kvikmyndaráðgjafa og er hið fyrrnefnda til skoðunar í máli þessu. Í ákvæðinu kemur fram að kvikmyndaráðgjafar „[…] mega ekki hafa hagsmuna að gæta varðandi úthlutun eða gegna störfum utan Kvikmyndamiðstöðvar sem tengjast íslenskri kvikmyndagerð“. Þá er í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga tekið fram að starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Ákvæðið inniheldur hina svo kölluðu matskenndu hæfisreglu stjórnsýslulaga. Í frumvarpi til laga þess sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að svo starfsmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu 6. tölul. verður hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Hér koma einnig til skoðunar hagsmunir venslamanna og annarra þeirra sem eru í svo nánum tengslum við starfsmanninn að almennt verður að telja hættu á að þau geti haft áhrif á hann. Þá verður eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins. Þá segir loks að meta verði hverju sinni, miðað við allar aðstæður, er hvort hagsmunirnir eru einstaklegir, hversu verulegir þeir eru og hversu náið þeir tengjast starfsmanninum og úrlausnarefni málsins.
Kærandi bendir á að kvikmyndaráðgjafinn D sé skráður stjórnarformaður tveggja félaga innan kvikmyndaiðnaðarins sem bæði séu skráð í „ÍSAT 59.11.0 Framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni“. Líkt og komið hefur fram fékk annað fyrirtækjanna kynningarstyrk frá Kvikmyndasjóði […]. Þá hafi annar fyrirsvarsaðili félaganna tveggja og fyrrum aðalframleiðandi tveggja kvikmynda við hlið kvikmyndaráðgjafans D fengið annars vegar þróunarstyrk og vilyrði fyrir eftirvinnslustyrk fyrir eitt verkefna sinna að sameiginlegri upphæð […] kr. á meðan umsókn kæranda var til meðferðar. Telur kærandi það stangast á við þann rökstuðning er honum var gefinn „að vegna takmarkaðs fjármagns til sjóðsins væri einungis hægt að styrkja hluta þeirra verkefna sem sótt er um styrk fyrir“.
Með hliðsjón af gögnum málsins, ákvæðum reglugerðar um Kvikmyndasjóð og stjórnsýslulögum verður að telja hagsmuni og tengsl kvikmyndaráðgjafans D það veigamikil að þau leiði til þess að hann teljist vanhæfur á grundvelli 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð og 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.
3. Aðkoma forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar
Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð tekur forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar endanlega ákvörðun um styrkveitingu úr Kvikmyndasjóði, að fengnu skriflegu listrænu mati kvikmyndaráðgjafa sbr. 3. gr.
Í gögnum málsins er hvergi að sjá að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar hafi tekið ákvörðun um synjun á umsókn kæranda. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar skrifar ekki undir ákvörðun um synjun og kemur nafn forstöðumanns hvergi fyrir í bréfi til kæranda. Kæranda er tilkynnt um synjun á styrk með tölvupósti frá framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar sem einnig ritar undir synjunarbréf. Forstöðumanni Kvikmyndamiðstöðvar hefði verið í lófa lagið að skrifa undir synjunarbréf það er kærandi fékk afhent. Þá er ósamræmi í gögnum málsins og málsástæðna Kvikmyndamiðstöðvar Íslands dags. 8. júní 2019 um aðkomu forstöðumanns. Í gögnum málsins er hvergi að finna tölvupósta frá forstöðumanni, hvorki til kvikmyndaráðgjafa né annarra starfsmanna Kvikmyndamiðstöðvar með fyrirmælum til þeirra.
Eðli málsins samkvæmt er það lágmarkskrafa að forstöðumaður sem taka á endanlega ákvörðun skrifi undir ákvarðanir á grundvelli stöðu sinnar og umboðs. Aðili máls hefur að öðrum kosti enga leið að vita að forstöðumaður hafi tekið hina endanlegu ákvörðun og lögum verið fylgt. Verður að telja að málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar hafi brotið gegn 3. mgr. 2. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð hvað þetta varðar.
Að öllu framangreindu virtu verður að telja að þeir formlegu annmarkar sem á málsmeðferðinni voru séu það veigamiklir að ekki er annað hægt en að ógilda ákvörðun Kvikmyndmiðstöðvar Íslands um synjun á eftirvinnslustyrk vegna verkefnisins [Z].
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands dags. 19. mars 2019 þess efnis að synja [Y] um eftirvinnslustyrk er felld úr gildi.