Úrskurður v. skráningar í fyrirtækjaskrá. Skráning í fyrirtækjaskrá, álagning dagsekta, afmörkun sakarefnis, kæruheimild, breytt stjórnsýsluframkvæmd.
Föstudaginn, 25. febrúar 2022, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Stjórnsýslukæra
Vísað er til stjórnsýslukæru [A] lögmanns fyrir hönd [B] ehf. (hér eftir kærandi), kt. […], dags. 19. mars 2021 þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá (hér eftir fyrirtækjaskrá) frá 21. desember 2020 um að hafna því að fella niður álagðar dagsektir á kæranda vegna brots á skráningarskyldu samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kröfur
Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að álagðar dagsektir 363.500 kr. verði felldar niður.
Málsatvik
Þann 10. október 2019 sendi fyrirtækjaskrá kæranda bréf þar sem fram kemur að fyrirtækjaskrá hafi borist ábendingar um að skráðar upplýsingar um félagið í skránni séu rangar, m.a. að því er varðar það hver sinnir endurskoðun fyrir félagið. Er í bréfinu skorað á kæranda að yfirfara gögn og upplýsingar um félagið í fyrirtækjaskrá og bregðast við séu upplýsingar rangar og tilkynna breytingar til fyrirtækjaskrár.
Þann 12. desember 2019 sendi fyrirtækjaskrá kæranda bréf þar sem félaginu er tilkynnt um fyrirhugaða álagningu dagsekta þar sem ekki hafi borist uppfærðar upplýsingar. Veittur var frestur til 3. janúar 2020 til að láta umbeðin gögn í té.
Þann 2. september 2020 sendi fyrirtækjaskrá kæranda bréf þar sem upplýst er að fyrirhugað sé að leggja dagsektir á kæranda þar sem umbeðnar upplýsingar hafi ekki borist en kæranda er veittur frestur til andmæla til 9. september 2020.
Þann 10. september 2020 úrskurðaði ríkisskattstjóri um álagningu dagsekta að fjárhæð 10.000 kr. frá og með 17. september 2020 þar sem skráningu eða tilkynningu hefur ekki verið sinnt og skyldu dagsektir lagðar á fyrir hvern dag sem líður þar til fullnægjandi upplýsingum hafi verið skilað til fyrirtækjaskrár. Í úrskurði er bent á að dagsektir falli ekki niður þótt aðili verði síðar við kröfum.
Þann 22. október 2020 uppfærði kærandi upplýsingar um félagið í fyrirtækjaskrá með tilkynningu um breytingu á endurskoðendum.
Með bréfi til fyrirtækjaskrár dags. 7. nóvember 2020 óskaði kærandi eftir endurskoðun ákvörðunar um álagningu sekta.
Þann 21. desember 2020 hafnaði fyrirtækjaskrá því með bréfi til kæranda að fella dagsektirnar niður.
Með erindi þann 19. mars 2021 kærði [A] lögmaður fyrir hönd [B] ehf. ákvörðun fyrirtækjaskrá frá 21. desember 2020.
Með bréfi dags. 26. júní 2021 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um kæruna.
Umsögn fyrirtækjaskrár barst með bréfi dags. 8. júlí 2021.
Með bréfi dags. 12. júlí 2021 gaf ráðuneytið kæranda færi á að tjá sig um umsögn fyrirtækjaskrár.
Andmæli kæranda bárust með tölvubréfi [A] 16. ágúst 2021.
Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.
Sjónarmið kæranda
Í kæru er vísað til beiðni félagsins um endurupptöku málsins hjá fyrirtækjaskrá dags. 7. nóvember 2020. Ráðuneytinu bárust einnig andmæli kæranda í málinu þann 16. ágúst 2021.
Í framangreindu bréfi kæranda kemur fram að félagið hafi verið stofnað árið 2005 af einkahlutafélaginu [D] ehf. en það félagi hafi verið í eigu [A] og [E] sem hvor átti helming hlutafjárins. Við stofnun kæranda hafi [F] löggiltur endurskoðandi verið kjörinn endurskoðandi félagsins. Fram kemur að [D] ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota en að [A] hafi keypt dótturfélagið [B] ehf. af þrotabúinu. Hinn 12. janúar 2018 sendi kærandi hlutafélagaskrá tilkynningu um breytingu á stjórn og tilkynningu um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru. Fram kemur að ekki hafi verið gerðar breytingar á endurskoðanda kæranda á þeim tímapunkti þar sem nýir eigendur og stjórnarmenn hafi talið að [F] myndi áfram gegna starfanum þar sem hann hafði ekki tilkynnt stjórnendur kæranda um annað eða lýst sig andsnúinn því að gefna því starfi. Því hafi ekki verið kjörinn nýr endurskoðandi félagsins. Hafi stjórnendur kæranda því verið í góðri trú um að skráningin í hlutafélagaskrá væri ekki ábótavant og þeir því ekki sekir um vanrækslu. Í bréfinu kemur einnig fram að [F] hafi gengt starfi endurskoðanda kæranda samfellt í 14 ár og hann hafi ekki tilkynnt stjórn um afsögn sína. Í gögnum málsins kemur fram að enginn hafi verið skráður í stjórn félagsins þegar núverandi eigendur félagins tóku við því í nóvember 2017 en [F] hafi þá verið skráður endurskoðandi félagsins. Einnig kemur fram að breyting hafi verið gerð á skráningu stjórnar í janúar 2018 og henni þá komið í lögmælt horf 12. janúar 2018. Ekki var um brot á lögum nr. 17/2003 að ræða þar sem endurskoðandinn hafi ekki tilkynnt stjórn félagsins um afsögn sína og stjórnin því í góðri trú um að hann vildi gegna starfinu áfram. Þá kemur fram í gögnum málsins að það hefði talist góð stjórnsýsla að tilkynna með sannanlegum hætti um afsögn endurskoðandans og veita kæranda frest til úrbóta.
Í bréfinu kemur fram að kæranda hafi ekki borist bréf fyrirtækjaskrár dags. 11. október 2019, 12. desember 2019 og 2. september 2020. Í bréfinu kemur fram að kærandi telji að sakarefni sé ekki skýrt afmarkað í bréfum fyrirtækjaskrár en að til þess að tilkynning eins og þær sem um ræðir í máli þessu geti verið grundvöllur íþyngjandi ákvörðunar verði að afmarka sakarefni stjórnsýslumálsins skýrlega í tilkynningu. Þannig telur kærandi að bréfið dags. 2. september 2019 megi skilja þannig að það taki til allra skráningarskyldra atriða skv. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003 en að það hafi ekki verið raunin. Um framangreint vísar kærandi til álita umboðsmanns Alþingis, t.d. í málum nr. UA2896/1999 og UA2954/2000. Vísar kærandi til þess að í úrskurði fyrirtækjaskrár í málinu sé vísa til 4. gr. laga um fyrirtækjaskrár í heild sinni og þannig sé ekki skýrt fyrir hvaða vanrækslu dagsetningarnar séu lagðar á og telur kærandi að þannig sé úrskurðinn haldinn ágalla þar sem í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá séu ekki fyrirmæli um skráningu upplýsinga um endurskoðanda en 12. tölul. 4. gr. sé vísað til annarra atriða sem skylt er að skrá samkvæmt öðrum lögum. Þá vísar kærandi til 122. gr. laga um einkahlutafélög segi að og 123. gr. sömu laga.
Í gögnum málsins kemur m.a. fram að bréf fyrirtækjaskrár sem send voru kæranda á tímabilinu 10. október 2019 – 10. september 2020 hafi ekki borist félaginu og að fyrirsvarsmanni kæranda hafi ekki verið dagsektarkrafan ljós fyrr en 21. október 2020 þegar stefnuvottur kom með greiðsluáskorun á heimili hans.
Ekki gerð grein fyrir kæruheimild í hinum kærða úrskurði sem sé aðfinnsluvert og einungis fullyrt að höfða verði mál til ógildingar álagningu dagsekta.
Í gögnum málsins koma fram þau sjónarmið kæranda að með því að gefa endurskoðendum færi á að segja sig frá endurskoðun lögaðila án þess að krefja viðkomandi við lögboðið breytingagjald hafi fyrirtækjaskrá breyttri stjórnsýsluframkvæmd að þessu leyti og að slíka breytingu hafi borið að kynna opinberlega þar sem um grundvallarbreytingu á stjórnsýsluframkvæmd er að ræða. Telur kærandi að fyrirtækjaskrá hefði átt að upplýsa að skránni hefði borist tilkynning frá endurskoðanda um að hann starfi ekki lengur fyrir félagið og hefði það verið góð stjórnsýsla.
Þá kemur fram að kærandi telji að fyrirtækjaskrá hafi heimild til að breyta ákvörðun um dagsektir og vísar um það til 4. mgr. 10. gr. laga um fyrirtækjaskrá, sbr. g-liður 22. gr. laga nr. 82/2019. Telur kærandi að lagaheimild skv. framangreindum g-lið sé rýmri og opnari en heimild til endurákvörðunar dagsekta skv. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 82/2019. Bendir kærandi bæði á texta framangreindra lagagreina sem og lögskýringargögn því til stuðnings.
Um sjónarmið kærenda vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru og andmælabréfi.
Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Í ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 21. desember 2020 kemur m.a. fram að með bréfum dags. 12. desember 2019 og 22. janúar 2020 hafi verið óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum til að tryggja rétta skráningu kæranda í fyrirtækjaskrá. Kæranda var veittur frestur til að bregðast við framangreindum bréfum og láta umbeðin gögn í té til 24. febrúar 2020. Kæranda var sent bréf dags. 2. september 2020 þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða álagningu dagsekta. Ríkisskattstjóri úrskurðaði um álagningu dagsekta þann 10. september 2020. Í ákvörðun fyrirtækjaskrár frá 21. desember 2020 kemur fram að framangreindur úrskurður hafi verið sendur með ábyrgðapósti á skráð heimilisfang félagsins að […] Reykjavík, og hafi úrskurðurinn jafnframt verið birtur á þjónustusvæði félagsins á skattur.is. Frestur til að skrá umbeðnar upplýsingar var til 9. september 2020 og voru lagðar á dagsektir frá 17. september til 21. október 2020 þegar skráningu var sinnt.
Fjallað er stuttlega um ákvæði 10. gr. laga um fyrirtækjaskrá um heimild til álagningar dagsekta veiti tilkynningaskyldur aðili ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni kröfu um úrbætur innan hæfilegs frests. Og að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður þó að aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra nema hann samþykki lækkun eða niðurfellingu með úrskurði.
Þá er í ákvörðuninni vísað til þess að eins og atvikum málsins hátti þá séu skilyrði til að lækka eða fella niður dagsektir ekki fyrir hendi.
Í umsögn fyrirtækjaskrár dags. 8. júlí 2021 kemur m.a. fram að kæranda hafi verið sendar tilkynningar dags. 11. október og 12. desember 2019 þar sem óskað hafi verið eftir tilteknum upplýsingum og gögnum til að tryggja rétta skráningu í fyrirtækjaskrá. Tilefni framangreindra bréfaskrifta hafi verið bréf fyrrum endurskoðanda félagsins dags. 19. september 2019 þess efnis að hann starfaði ekki lengur fyrir félagið. Fram kemur að kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi dags. 2. september 2020 um fyrirhugaða álagningu dagsekta þar sem ekki hafði verið brugðist við framangreindum erindum dags. 11. október og 12. desember 2019. Úrskurður í málinu dags. 10. september 2020 hafi verið sendur félaginu en þar var tilkynnt að sektir myndu leggjast á félagið frá og með 17. september 2020 ef félagið uppfyllti ekki skráningarskyldu sína í samræmi við ákvæði 4. og 7. gr. laga um fyrirtækjaskrá.
Hvað varðar þau sjónarmið kæranda að í úrskurði komi ekki skýrt fram hvert sakarefni stjórnsýslumálsins sé þá bendir fyrirtækjaskrá á að í tilkynningunni frá 11. október 2019 komi fram að skránni hafi borist ábending þess efnis að skráðar upplýsingar félagsins í fyrirtækjaskrá væru rangar, m.a. að því er varðar hver sinnir endurskoðun fyrir félagið. Þannig hafi kæranda mátt vera ljóst hverju væri ábótavant í skráningu félagsins hjá fyrirtækjaskrá.
Hvað varðar þau sjónarmið kæranda að stjórnendur félagsins hafi verið grandlausir um afsögn endurskoðanda þess og að ný stjórnsýsluframkvæmd fyrirtækjaskrár hafi ekki verið kynnt bendir skráin á að embættið tilkynni félögum ekki sérstaklega um úrsagnir en þeir aðilar sem segja sig úr félagi ber að tilkynna félaginu um úrsögn sína. Þannig hafi framkvæmdin í þessu tilfelli við afskráningu endurskoðanda ekki verið öðruvísi gagnvart félaginu hefðbundið er þegar um úrsögn er að ræða. Þá bendir fyrirtækjaskrá á að það að endurskoðandi hafi ekki tilkynnt félaginu um úrsögn sína hafi ekki áhrif á þær skyldur sem lagðar eru á herðar félaga samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá um að sinna skráningarskyldu sinni, sbr. 4. og 7. gr. laganna.
Hvað varðar þau sjónarmið kæranda um að hér sé um að ræða breytingu á stjórnsýsluframkvæmd sem hefði átt að kynna þá bendir fyrirtækjaskrá á að breytingin byggir á nýrri löggjöf, þ.e. lög nr. 82/2019 þar sem m.a. voru gerðar breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá hvað álagningu dagsekta varðar.
Hvað varðar tilvísun kæranda til heimildar fyrirtækjaskrár til lækkunar eða niðurfellingar sektar sbr. 4. mgr. 10. gr. laga um fyrirtækjaskrá þá telur fyrirtækjaskrá að það geti ekki talist fullnægjandi ástæða lækkunar eða niðurfellingar álagðra dagsetka að kærandi hafi verið grandlaus um afsögn endurskoðanda.
Gerir fyrirtækjaskrá þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár vísast að öðru leyti til þess sem segir í ákvörðun og umsögn fyrirtækjaskrár í málinu.
Með vísan til 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en ráðuneytið hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Forsendur og niðurstaða
Eins og að framan greinir var stjórnsýslukæran borin upp hinn 19. mars 2021 við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Vegna breytinga á skipulagi Stjórnarráðsins, sbr. forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra, nr. 7/2022, heyra verkefni er varða skráningu fyrirtækja og félaga og málefni fyrirtækjaskrár nú undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðherra.
I.
Stjórnsýslukæra [A] lögmanns fyrir hönd [B] ehf. barst ráðuneytinu innan kærufrests og er því löglega fram komin. Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
II.
Um skráningu einkahlutafélaga gilda ákvæði laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, og laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, sem og laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.
Í máli þessu er um að ræða álagningu dagsekta á kæranda þar sem hann hafði ekki sinnt skráningu í fyrirtækjaskrá með fullnægjandi hætti og er í úrskurði fyrirtækjaskrár dags. 10. september 2020 vísað til 1., 3. og 4. mgr. 4. gr., 7. gr., 9. gr. a og 1. mgr. 10. gr. laga um fyrirtækjaskrá, sbr. 22. gr. laga nr. 82/2019.
III.
Í kæru og andmælabréfi kemur fram það sjónarmið kæranda að sakarefnið sé ekki nægilega skýrt afmarkað í bréfum fyrirtækjaskrár til að slíkar tilkynningar geti verið grundvöllur íþyngjandi ákvörðunar. Til að svo
sé þurfi að vera skýrt afmarkað hvert sakarefni stjórnsýslumáls sé. Tekur kærandi fram að bréf fyrirtækjaskrár hafi ekki borist honum og telur hann að þó að bréfin hefði borist viðtakanda þá hefði ekki verið nokkur leið að átta sig á um hvað málið snerist.
Samkvæmt 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá skal halda skrá, fyrirtækjaskrá, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá og annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga.
Í 1. tölul. 2. gr. laganna segir að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna skal fyrirtækjaskrá hafa að geyma upplýsingar um félög, félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, samtök og aðila, aðra en einstaklinga, sem hafa með höndum eignaumsýslu, eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur, erlenda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila.
Samkvæmt 3. gr. laganna skal í fyrirtækjaskrá halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, samlagsfélög, firmu eins manns, félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum sem gilda um þessi félög og stofnanir.
Í 4. gr. laganna eru taldar upp þær upplýsingar sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en samkvæmt 12. tölul. skal skrá, eftir því sem við á, önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings.
Í 3. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá segir að ríkisskattstjóri meti hvort veittar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi og krefur eftir því sem við á tilkynningarskylda aðila um frekari upplýsingar eða aflar þeirra sjálfstætt.
Í 4. mgr. 4. gr. laganna er að finna ákvæði sem skyldar einstaklinga og lögaðila til að láta ríkisskattstjóra í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem honum eru nauðsynlegar til að tryggja rétta skráningu samkvæmt lögunum.
Samkvæmt 1. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, skráir ríkisskattstjóri íslensk einkahlutafélög og útibú erlendra einkahlutafélaga og starfrækir hlutafélagaskrá í því skyni. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 122. gr. laga um einkahlutafélög skal tilkynning um stofnun slíks félags m.a. greina nöfn, kennitölu og heimilisföng endurskoðenda eða skoðunarmanna félagsins. Í 123. gr. laganna segir að tilkynna skuli um breytingar á félagssamþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið innan mánaðar sé ekki kveðið á um annað í lögunum. Ákvæði um skráningu í hlutafélagaskrá er einnig að finna í lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.
Í lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, er einnig fjallað um skráningu í fyrirtækjaskrá en samkvæmt 1. gr. laganna skal í fyrirtækjaskrá halda verslanaskrár og rita í þær tilkynningar sem um getur í lögunum eða heimilað er samkvæmt öðrum lögum að setja í skrárnar.
Í bréfi fyrirtækjaskrár dags. 11. október 2019 segir: „Fyrirtækjaskrá hefur borist ábending um að skráðar upplýsingar félagsins í fyrirtækjaskrá séu rangar, m.a. að því er varðar hver sinnir endurskoðun/skoðun fyrir félagið.“ Í bréfinu er vísað til 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá en eins og fyrr segir eru þar taldar upp þær upplýsingar sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en samkvæmt 12. tölul. skal skrá, eftir því sem við á, önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings. Upplýsingar um endurskoðendur/skoðunarmenn einkahlutafélaga ber því að skrá
í fyrirtækjaskrá (hlutafélagaskrá) og uppfæra samkvæmt lögum um einkahlutafélög. Í framangreindu bréfi er félaginu sérstaklega bent á að skránni hafi borist ábending um að upplýsingar um það hver sinni endurskoðun/skoðun séu ranglega skráðar. Krafist er úrbóta og jafnframt skorað á félagið að yfirfara gögn og upplýsingar sem skráðar eru um félagið í fyrirtækjaskrá.
Hvað varðar tilvísun kæranda í álit umboðsmanns Alþingis í máli UA2896/1999 og UA2954/2000 þá er rétt að vísa einnig til þess sem fram kemur í kafla VI hér á eftir en þar er fjallað um erindi sem fyrirtækjaskrá sendi kæranda á tímabilinu 10. október 2019 – 10. september 2020 varðandi málið. Af þeirri umfjöllun má ljóst vera að fyrirtækjaskrá sendi kæranda fjögur bréf á framangreindu tímabili þar sem vakin var athygli kæranda á málinu og honum gefið færi á að bregðast við og veita andmæli.
Með vísan til þess sem að framan greinir getur ráðuneytið ekki fallist á það með kæranda að sakarefnið hafi ekki verið nægilega skýrt afmarkað í bréfum fyrirtækjaskrár þar sem sérstaklega er vikið að því að ábendingar hafi borist um að skráning endurskoðanda/skoðunarmanns sé röng. Þannig hafi kæranda mátt vera sakarefnið ljóst.
IV. Í kæru er vísað til þess að [F] hafi verið kjörinn endurskoðandi kæranda við stofnun hans og að [F] hafi ekki tilkynnt félaginu um að hann væri andsnúinn því að gegna því starfi og því hafi kærandi verið í góðri trú um að skráningin í hlutafélagaskrá væri ekki ábótavant. Nýr endurskoðandi hafi því ekki verið kjörinn og séu stjórnendur félagsins ekki sekir um vanrækslu á tilkynningum til hlutafélagaskrár.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 96. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, kýs aðalfundur félags sem fellur undir gildissvið laganna einn eða fleiri endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki í samræmi við lögin og samþykktir félagsins til að endurskoða ársreikning félagsins. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar kýs aðalfundur félags sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda samkvæmt lögunum eða samþykktum sínum einn eða fleiri endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn ársreikninga. Samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga um ársreikninga eru félög sem nýta sér heimild í 3. gr. laganna til að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðum á skattframtali félagsins undanþegin skyldu til að kjósa endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn ársreikninga.
Samkvæmt framansögðu er það félagið sem um ræðir sem ber ábyrgð á því að kjósa endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmann til að endurskoða eða yfirfara ársreikning félagsins. Þeir aðilar sem kjörnir eru á aðalfundi félags til að sinna framangreindum starfa ber að sinna þeim starfa. Taki annar aðili við starfanum þarf sú breyting að vera í samræmi við ákvæði 96. gr. laga um ársreikninga og ber að tilkynna þá breytingu til hlutafélagaskrár, sbr. 123. gr. laga um einkahlutafélög og 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Af ársreikningum kæranda vegna reikningsáranna 2012, 2015 og 2018 má ráða að [G] og/eða [H] sf. hafi verið fengin til að gegna starfi skoðunarmanns félagsins þar sem framangreindur aðili staðfestir að hafa samið ársreikning félagsins fyrir þau reikningsár.
Af gögnum málsin má því ráða að [F] hafi ekki gengt starfi endurskoðanda félagsins í nokkurn tíma áður en fyrsta bréf Skattsins var sent félaginu hinn 10. október 2019. Ráðuneytið getur því ekki fallist á það sjónarmið kæranda að hann hafi verið grandlaus um að [F] endurskoðandi hafi ekki viljað sinna starfi endurskoðanda félagsins þar sem af gögnum málsins má ráða að félagið hafi þegar leitað til annars aðila til að gegna starfi skoðunarmanns þess. Í því sambandi er bent á að skráning í fyrirtækjaskrá, hvort heldur er skráning stjórnenda einkahlutafélags eða skráningu endurskoðanda/skoðunarmanna skal endurspegla það hverjir kjörnir hafa verið til að gegna framangreindum störfum fyrir viðkomandi félag á hverjum tíma.
V.
Í gögnum málsins bendir kærandi á að það sé aðfinnsluvert að í hinum kærða úrskurði hafi ekki verið gerð grein fyrir kæruheimild heldur hafi komið fram að til ógildingar álagningu dagsekta þurfi að höfða mál.
Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald tilkynna í skriflegri ákvörðun kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert skuli beina kæru. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki hafi verið upplýst um framangreind atriði úr úrskurði sem dagsettur er 10. september 2020. Rétt hefði verið af fyrirtækjaskrá að upplýsa um kæruheimild og kærufresti í ákvörðun og er ákvörðunin þannig haldin annmarka að lögum. Þau atriði sem skipta mestu máli við mat á því hvort ákvörðun sé haldin ógildingarannmarka eru í fyrsta lagi hvort annmarkar séu á formi ákvörðunar eða efni; í öðru lagi hvort annmarki á ákvörðun sé verulegur og í þriðja lagi hvort veigamiklar ástæður mæla gegn því að ákvörðun verði afturkölluð. Við mat á því hvort annmarki teljist verulegur kemur til greina að nota tvenns konar mælikvarða. Annars vegar er hægt að nota almennan mælikvarða og miða við að annmarki sé verulegur ef réttarregla sú, sem ekki var virt, verður almennt talin veita meira öryggi fyrir því að efni stjórnvaldsákvörðunar verði bæði rétt og lögmætt. Hins vegar er hægt að nota sérstakan mælikvarða og telja að annmarki leiði því aðeins til ógildingar ef hann hefur leitt til rangrar niðurstöðu í viðkomandi máli. Í framkvæmd virðast dómstólar feta veginn á milli þessara sjónarmiða og miða við að ef annmarki á meðferð máls telst almennt til þess fallinn að hafa áhrif á efni ákvörðunar telst hún ógildanleg, nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar. Ráðuneytið telur að annmarki á úrskurði fyrirtækjaskrár sem fólst í því að ekki var upplýst um kæruheimild og kæruleið í ákvörðun sé þess eðlis að ekki sé um ógildingarannmarka að ræða og horfir ráðuneytið þá til þess að í málinu er um að ræða annmarka sem hefur í raun ekki áhrif á efni ákvörðunarinnar.
VI.
Í kæru kemur m.a. fram að bréf fyrirtækjaskrár sem send voru kæranda á tímabilinu 10. október 2019 – 10. september 2020 hafi ekki borist félaginu og að fyrirsvarsmanni kæranda hafi ekki verið dagsektarkrafan ljós fyrr en 21. október 2020 þegar stefnuvottur kom með greiðsluáskorun á heimili hans.
Í 9. gr. a. laga um fyrirtækjaskrá segir að komi í ljós að tilkynningarskyldur aðili fylgi ekki ákvæðum laganna skuli ríkisskattstjóri krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um fyrirtækjaskrá getur ríkisskattstjóri lagt dagsektir á tilkynningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Dagsektir greiðast þar til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra og geta þær numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag en heimilt er að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri tilkynningarskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skulu dagsektir ákveðnar með úrskurði ríkisskattstjóra. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. falla óinnheimtar dagsektir ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra nema ríkisskattstjóri samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra með úrskurði.
Í bréfi fyrirtækjaskrár til kæranda dags. 10. október 2019 kemur fram að lögaðilum beri að veita fyrirtækjaskrá upplýsingar sem tilgreindar eru í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá sem og að tilkynna um allar breytingar sem orðið hafa á áður skráðum upplýsingum sbr. 7. gr. laganna. Fram kemur í bréfinu að skránni hafi borist ábending um að skráðar upplýsingar félagsins í fyrirtækjaskrá séu rangar, m.a. að því er varðar hver sinni endurskoðun/skoðun fyrir félagið. Er skorað á félagið að yfirfara gögn og upplýsingar sem skráðar eru í fyrirtækjaskrá um félagið og tilkynna um breytingar eigi síðar en 29. nóvember 2019. Með bréfi dags. 12. desember 2019 er vísað til fyrra bréfs og upplýst að til skoðunar sé að beita dagsektum í máli kæranda. Skorar RSK aftur á félagið að senda inn umbeðin gögn eigi síðar en 3. janúar 2020. Með bréfi dags. 2. september 2020 er vísað til fyrri bréfa og boðar RSK álagningu dagsekta frá og með 17. september 2020 hafi ekki verið orðið við beiðni um upplýsingar og gögn þann 9. september 2020. Með bréfi dags. 10. september 2020 úrskurðaði fyrirtækjaskrá um álagningu dagsekta frá og með 17. september 2020 að fjárhæð 10.000 kr. fyrir hvern dag þar til fullnægjandi upplýsingum hafi verið skilað til fyrirtækjaskrár.
Framangreind fjögur bréf sem send voru kæranda á tímabilinu 10. október 2019 – 10. september 2020 eru stíluð á kæranda á skráð lögheimili hans samkvæmt fyrirtækjaskrá og voru samkvæmt hinni kærðu ákvörðun send félaginu í ábyrgðapósti. Framangreind bréf voru jafnframt birt á þjónustusvæði félagsins á vefnum skattur.is.
Ráðuneytið fær ekki séð annað en að kæranda hafi verið send fjögur bréf á tímabilinu 10. október 2019 – 10. september 2020 vegna málsins þar sem krafist var úrbóta á skráningu í fyrirtækjaskrá og kæranda gefinn frestur til að bregðast við. Í bréfi fyrirtækjaskrár dags. 2. september 2020 er vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum í málinu. Ekki verður betur séð en að framangreind bréf hafi verið send á skráð heimilisfang kæranda í fyrirtækjaskrá og að kærandi hafi ekki brugðist við bréfunum og því hafi komið til álagningar dagsekta frá 17. september 2020. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þeir aðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá verða að gæta að því að heimilisfang þeirra sé rétt skráð og að þeir geti tekið á móti pósti á skráð lögheimili sitt með viðeigandi merkingum ef við á, eða að gera breytingu á lögheimili eða póstfangi svo þeim aðilum sem eru í fyrirsvari fyrir viðkomandi félag berist þau erindi sem beint er til félagsins.
VII.
Í gögnum málsins koma fram þau sjónarmið kæranda að með því að gefa endurskoðendum færi á að segja sig frá endurskoðun lögaðila án þess að krefja viðkomandi um lögboðið breytingagjald hafi fyrirtækjaskrá breyttri stjórnsýsluframkvæmd að þessu leyti og að slíka breytingu hafi borið að kynna opinberlega þar sem um grundvallarbreytingu á stjórnsýsluframkvæmd er að ræða.
Hvað varðar breytta stjórnsýsluframkvæmd þá er rétt að taka fram að með lögum nr. 82/2019 voru m.a. gerðar breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 82/2019 segir m.a. um breytinguna að hún sé gerð til að styrkja heimildir ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá og því sé lagt til að ríkisskattstjóri fái heimild til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir veiti tilkynningaskyldur aðili ekki upplýsingar skv. lögunum og verði ekki við kröfu um úrbætur. Lög nr. 82/2019 tóku gildi hinn 6. júlí 2019. Í kjölfar lagabreytingarinnar hóf fyrirtækjaskrá skoðun á því hvort skráðar upplýsingar um félög/lögaðila í fyrirtækjaskrá væru réttar og tók við þá vinnu m.a. við ábendingum frá endurskoðendum sem skoðaðar voru nánar og úrbóta krafist þar sem þess var talin þörf, s.s. í tilviki kæranda.
Ráðuneytið fær ekki betur séð en að framangreind framkvæmd fyrirtækjaskrár í máli kæranda sé byggð á þeirri lagabreytingu sem gerð var með lögum nr. 82/2019 og því hafi ekki verið sérstök þörf á því að kynna breytinguna sérstaklega opinberlega.
VIII.
Með vísan til þess sem að framan greinir telur ráðuneytið að ekki séu forsendur til að fella niður eða lækka dagsektir þær sem lagðar voru á kæranda með úrskurði fyrirtækjaskrár dags. 10. september 2020.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá dags. 21. desember 2020 um að hafnað beiðni um niðurfellingu dagsekta sem lagðar voru á kæranda með úrskurði dags. 10. september 2020.
Ráðuneytið biðst velvirðingar á hve afgreiðsla málsins hefur dregist.
Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá, dags. 21. desember 2020, um að hafna beiðni [B] ehf. um niðurfellingu dagsekta sem lagðar voru á kæranda með úrskurði 10. september 2020, er hér með staðfest.