Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Skot Productions, kærir, höfnun endurgreiðslu vegna Hásetar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur 18. október 2017 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. júní 2017, kærði Hlynur Sigurðsson, fyrir hönd Skot Productions ehf., hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar (hér eftir nefndin), dags. 5. júní  2017, um að hafna umsókn um endurgreiðslu vegna verkefnisins Hásetar.

Kæranda er heimilt að kæra ákvörðun nefndarinnar skv. 1. mgr. 6. gr. laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, til ráðuneytis ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 43/1999. 

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Hinn 6. mars 2017 sótti kærandi um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar vegna verkefnisins Hásetar. Hinn 25. apríl 2017 óskaði nefndin eftir upplýsingum frá kæranda. Með bréfi dags. 25. apríl 2017 sendi kærandi inn athugasemdir til nefndarinnar þar sem kærandi útskýrði framleiðsluferlið. Umsókn kæranda var hafnað með stjórnvaldsákvörðun 5. júní 2017. Kærandi kærði þá ákvörðun til ráðuneytisins 22. júní 2017. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn nefndarinnar sem barst 18. ágúst 2017. Hinn 29. ágúst 2017 sendi innkaupastjóri RÚV inn bréf til ráðuneytisins og nefndarinnar með athugasemdum um niðurstöðu nefndarinnar. Kærandi skilaði inn athugasemdum við umsögn nefndarinnar 15. október  2017.  

Ekki bárust frekari gögn í málinu og því er málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsástæður og lagarök

Um er að ræða umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar vegna verkefnis sem nefnist Hásetar sem felur í sér framleiðslu á sex 25 mínútna þáttum um tvo nafngreinda einstaklinga sem fara um borð í skip og vinna þar sem hásetar. Í gögnum málsins kemur fram að tökur af þáttunum hafi hafist í október 2016 og gert er ráð fyrir því að 25 til 30 % af myndefni þáttanna hafi verið náð á þessum tíma. Kærandi sótti um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar vegna verkefnisins 6. mars 2017. 

 Í gögnum málsins kemur fram að upptökur á þáttunum hafi hafist um borð í togaranum Hrafni Sveinbjarnasyni GK 255 í lok október 2016. Ákvörðun nefndarinnar byggist á því að samkvæmt 3. gr. laga nr. 43/1999 skuli umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar berast nefndinni áður en framleiðsla hefst hér á landi. Í þágildandi reglugerð nr. 622/2012 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi kemur sama skilyrði fram í 2. gr. reglugerðarinnar. Umsókn kæranda um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar var hafnað því kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. gr. laga nr. 43/1999 um að umsóknin hafi borist áður en framleiðsla hófst. 

Kærandi vísar í málinu sínu til yfirvofandi verkfalls sjómanna og að kærandi hefði þurft að bregðast fljótt við og taka pláss um borð á togara með stuttum fyrirvara. Kærandi vísar í markmið laganna, lögin eigi ekki að vera hamlandi og ákveðin verkefni séu þess eðlis að ekki verði strax ljóst að upptökur séu efni í kvikmynd eða sjónvarpsþætti. Það gangi ekki upp að öll verkefni séu undanskilin endurgreiðslu á framleiðslukostnaði vegna þess eins að umsókn var ekki skilað áður en fyrstu skref framleiðslunnar voru tekin. Ytri aðstæður sem kærandi hafði enga stjórn á leiða til þess að taka þurfti ákvörðun eins og þá sem kærandi þurfti að taka, þ.e. að hefja tökur á þættinum áður en umsókn var send. Það geti ekki leitt til þess að kærandi afsali sér með öllu tækifæri til að fá endurgreiðslu vegna framleiðslunnar. 

Ennfremur vísar kærandi til orðalagsins "hér á landi" í 1. mgr. 3. gr. laganna og að upptökur hafi ekki farið fram hér á landi enda var togarinn ekki innan landhelgi. Með fyrrgreindum rökum og öðrum þá krefst kærandi þess að ráðuneytið endurskoði niðurstöðu nefndar, dags. 5. júní 2017, skv. 3. gr. laga nr. 43/1999 og samþykki umsókn kæranda um endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna framleiðslu sjónvarpsefnisins Hásetar.

Niðurstaða

Fyrir liggur að upptökur þáttanna Hásetar hófust í lok október 2016 og að umsókn um endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar barst nefndinni í mars 2017. 

Í 3. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, kemur fram að umsókn skuli send nefndinni áður en framleiðsla hefst hér á landi. 

Í lögskýringargögnum með fyrrgreindum lögum er það nefnt sem skilyrði að beiðnin berist ráðuneytinu, nú nefndinni, áður en framleiðsla hefst svo að meta megi umsóknina, áætlun um kostnað og fjármögnum o.fl. 

Orðalagið "hér á landi" í ákvæðinu er tilvísun til þess að endurgreiðslan er þátttaka ríkissjóðs til að greiða hlutfall af kostnaði sem fellur til hér á landi.

Ekki er að finna neinar undantekningar frá fyrrgreindu ákvæði 3. gr. laganna eða 2. gr. reglugerðar nr. 622/2012. Ákvæðin eru afdráttarlaust um að umsókn skuli berast fyrir framleiðslu hér á landi.

Líta ber svo á að framleiðsla sé hafin þegar kvikmyndatökur vegna verkefnis eru hafnar. Ráðuneytið fellst á lagatúlkun nefndarinnar um að ekki verði annað séð en að framleiðsla umrædds verkefnis hafi hafist á árinu 2016 og hefði umsókn um endurgreiðslur vegna þess því þurft að berast áður en kvikmyndatökur verkefnisins hófust. 

ÚRSKURÐARORÐ

Með vísan til framgreinds er ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar frá 5. júní 2017, vegna verkefnisins Hásetar, staðfest. 

 

Fyrir hönd ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

 

Ingvi Már Pálsson

Baldur Sigmundsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta