Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður vegna umsóknar um rekstrarleyfi gististaðar í flokki II

Mánudaginn, 29. ágúst 2022, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 2. september 2020 bar [A] fram kæru f.h. [B] (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 29. júní 2020 um að synja umsókn um endurnýjun rekstrarleyfis fyrir gististað í fl. II að [D]

 

Stjórnsýslukæran er byggð á kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

 

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og sýslumanni verði gert að taka umsókn kæranda fyrir að nýju.

 

Málsatvik

Upphaf málsins má rekja til umsóknar kæranda dags. 4. mars 2020 um endurnýjun rekstrarleyfis fyrir gististað í fl. II að [D]

 

Umsóknin fór í lögbundið umsagnarferli skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

 

[E] lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 5. maí 2020 með vísan til þess að staðsetning samræmist ekki deiluskipulagi.

 

Með bréfi dags. 2. maí 2020 tilkynnti sýslumaður kæranda að fyrirhugað væri að synja umræddri umsókn á grundvelli fyrirliggjandi umsagnar. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri andmælum eða athugasemdum áður en ákvörðun yrði tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Þann 11. maí 2020 bárust sýslumanni andmæli frá kæranda. Voru andmæli m.a. reist á því að í deiluskipulagi [E] fyrir 2015-2033 væri ekki að finna neinar breytingar sem kæmu í veg fyrir áframhaldandi gististarfsemi á svæðinu og ekki fengist annað séð en að kærandi uppfyllti skilyrði til útgáfu leyfis. Þá taldi kærandi að hin neikvæða umsögn [E] hafi ekki verið veitt á faglegum forsendum.

 

Þann 12. maí 2020 leitaði sýslumaður eftir afstöðu [E] til framkominna athugasemda.

 

Þann 8. júní 2020 barst sýslumanni erindi frá sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs [E]. Í erindinu kom fram að afstaða bæjarins væri óbreytt.

 

Með bréfi dags. 29. júní 2020 synjaði sýslumaður umsókn kæranda.

 

Þann 11. september 2020 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra dags. 2. september 2020 vegna synjunar sýslumanns á umræddri umsókn.

 

Með bréfi dags. 17. september 2020 óskaði ráðuneytið umsagnar sýslumanns um kæruna. Þá fór ráðuneytið fram á að fá send gögn málsins.

 

Í ljósi þess að andmæli kæranda snúast að stórum hluta um málsmeðferð [E] leitaði sýslumaður eftir afstöðu [E] til framkominna athugasemda.

 

Með tölvupósti dags. 12. mars 2021 upplýsti [E] sýslumann um að erindið hafi verið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 10. mars 2021. Í framlagðri bókun kemur fram að nefndin telji að ekki hafi verið unnt að veita jákvæða umsögn um endurnýjun leyfisins, m.a. þar sem slíkur rekstur væri andstæður ákvæðum aðalskipulags en upphaflegt leyfi hafi verið veitt fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags.

 

Umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum bárust með bréfi dags. 15. mars 2021.

 

Umsögn sýslumanns var send kæranda til athugasemda í kjölfarið. Með bréfi dags. 10. maí 2021 bárust ráðuneytinu athugasemdir kæranda við umsögn sýslumanns.

 

Málið hefur hlotið umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

 

Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns dags. 29. júní 2020 um endurnýjun rekstrarleyfis verði felld úr gildi og sýslumanni verði gert að taka umsókn kæranda fyrir að nýju. 

 

Í kæru kemur fram að kærandi hafi rekið gistiheimili í fl. II að [D] samkvæmt útgefnu rekstrarleyfi. Um sé að ræða skammtímaleigu á hluta hæðar í einbýlishúsi.

 

Í kæru er vísað til þess að á [E] sé í gildi aðalskipulag 2015-2033 sem var staðfest af skipulagsstofnun þann 21. febrúar 2017. Í kafla 3 í aðalskipulagi er fjallað um landnotkun þar sem skipulagssvæðinu hefur verið skipt upp í landnotkunarreit og þar tilgreindir skilmálar fyrir hvern þeirra. Húseign sú sem ræðir um í máli þessu er staðsett á reit ÍB-9.

 

Í kafla 3.1. í aðalskipulagsinu kemur fram að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þó sé gert ráð fyrir að þar geti einnig verið atvinnustarfsemi, svo fremi sem hún valdi óverulegum óþægindum.

 

Kærandi telur að ekki verði annað ráðið af gildandi aðalskipulagi en að áframhaldandi gististarfsemi hans í húsinu samræmist þeirri landnotkun sem þar er ráðgerð.

 

Kærandi telur að afgreiðsla bæjarins við veitingu umsagnar til sýslumanns hafi verið ólögmæt að formi og efni. Virðist afstaða bæjarins eingöngu byggjast á því að umrædd gististarfsemi hafi ekki samræmst gildandi deiluskipulagi. Þá hafi bæjarfulltrúi setið hjá við afgreiðsluna en umræddur bæjarfulltrúi býr í sömu götu og fyrirhuguð gististarfsemi.

 

Kærandi telur að afstaða bæjarins sé órökstudd. Í umsögn bæjarins sé ekki skýrt á hvaða hátt starfsemi kæranda fari í bága við gildandi skipulag. Kærandi telur að slíkt hafi verið nauðsynlegt enda laut umsókn hans í raun að endurnýjun rekstrarleyfis.

 

Kærandi bendir á að skipulagið á svæðinu hafi verið í gildi frá 2015, þ.e. frá því áður en kærandi fékk fyrst útgefið rekstrarleyfi.

 

Í umsögn bæjarins hafi ekki verið vikið að hugsanlegum aðgerðum sem ráðast mætti í til að umsókn kæranda yrði samþykkt líkt og heimilt er skv. 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Kærandi telur að slík afgreiðsla hefði verið í anda meðalhófsreglu og vandaðra stjórnsýsluhátta.

 

Kærandi bendir á að hann hafi lagt fram efnisleg andmæli og athugasemdir við meðferð málsins hjá sýslumanni. Sýslumaður hafi svo leitað afstöðu [E] til framkominna athugasemda. Eina afstaða bæjarins hafi birst í því að árétta höfnun leyfisins án þess að fjalla efnislega um andmæli kæranda. Kærandi telur að með því móti hafi andmælaréttur hans verið að engu hafður og útilokað fyrir leyfisveitanda að staðreyna hvort rétt væri með farið og hvaða forsendur hefðu breyst frá fyrra mati þegar rekstrarleyfið var fyrst gefið út á árinu 2016.

 

Kærandi byggir á því að umsögn sveitarfélagsins þurfi að byggja á lögum og málefnalegum forsendum. Þá verði leyfisveitandi að geta metið sjálfstætt hvort afstaða umsagnaraðila byggi á traustum og málefnalegum lagagrunni eða huglægu mati þar sem slíkt kunni að eiga við en þá þurfi að gæta að meðalhófi.

 

Kærandi telur jafnframt að synjun sýslumanns á umsókn um endurnýjun hafi farið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

 

Af fyrirliggjandi afgreiðslu [E] á veitingu umsagnar telur kærandi útilokað að leyfisveitandi hafi haft nægjanlega traustan grundvöll til að geta tekið upplýsta ákvörðun í málinu. Hafi það leitt til þess að brotið hafi verið á andmælarétti kæranda auk þess sem brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

 

Kærandi bendir á að reglur þurfi að vera skýrar og efalausar og allur vafi skuli skýrður borgurum í vil. Er það sérstaklega mikilvægt þegar kemur að takmörkunum á atvinnustarfsemi. Kærandi bendir á að slíkar takmarkanir þurfi að vera gagnsæjar og skýrar og gerðar í þeim tilgangi að þjóna borgurum m.a. m.t.t. fyrirsjáanleika. Kærandi telur mikilvægt að borgarar megi treysta því að geta haldið áfram starfsemi sem þeir hafi áður sinnt, en kærandi hafi lagt í veruleg fjárútlát til að útbúa húsnæði sitt sem gististað og hefði mátt treysta því að ekki yrðu lagðar frekari hömlur á starfsemi hans.

 

Kærandi telur að þeir skipulagsskilmálar sem gilda um íbúðarbyggð gefi ekki tilefni til að ætla að starfsemi kæranda fari í bága við þá. Í því samhengi hafi kærandi stundað gististarfsemi í umræddu húsnæði um árabil á grundvelli útgefins rekstrarleyfis. Hefði sýslumanni því borið vegna breyttrar afstöðu bæjarins að leita sérstaklega eftir því hvort og þá með hvaða hætti reglur hefðu breyst er varðað gætu atvinnustarfsemi kæranda.

 

Kærandi telur að umsögn [E] uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um að umsagnir skuli vera skýrar og rökstuddar. Kærandi bendir á að mikilvægt sé að leyfisveitandi geti farið yfir umsagnir og staðreynt réttmæti þeirra. Kæranda virðist sem sýslumaður hafi brotið á rétti hans með því að taka ákvörðun án þess að rökstuðningur bæjarins hafi legið fyrir, þótt greina megi af ákvörðuninni að sýslumaður hafi ítrekað reynt að fá frekari rökstuðning án árangurs.

 

Sjónarmið sýslumanns

Í framhaldi þess að kæra barst óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 15. mars 2021.

 

Sýslumaður bendir á að skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsagna um rekstrarleyfi. Í 5. mgr. 10. gr. laganna segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess. Eru umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni. 

 

Sýslumaður bendir á að í 2. gr. laga nr. 85/2007 komi m.a. fram að markmið laganna sé að tryggja að sú starfsemi sem lögin taka til falli að skipulagi viðkomandi sveitarfélags hverju sinni. Fjallað er um hlutverk umsagnaraðila í 4. mgr. 10. gr. laganna. Þar kemur fram að hlutverk sveitarstjórnar sé m.a. að staðfesta að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. 

 

Sýslumaður áréttar að umrædd synjun umsóknar kæranda er byggð á neikvæðri umsögn lögbundins umsagnaraðila sbr. 10. gr. laga nr. 85/2007.

 

[E] hafi lagst gegn útgáfu leyfisins. Í umsögn bæjarins dags. 5. maí 2020 sagði:

 

„Afgreiðsla: Hafnað, samræmist ekki deiluskipulagi.“

 

Í samræmi við 14. gr. laga nr. 85/2007 hafi sýslumaður tilkynnt kæranda að fyrirhugað væri að synja umsókn kæranda með bréfi dags. 7. maí 2020.

 

Í kjölfar andmæla kæranda hafi sýslumaður óskað eftir afstöðu [E] til framkominna athugasemda.

 

Þann 8. júní 2020 barst sýslumanni erindi frá [E] þar sem fram kom að afstaða bæjarins væri óbreytt.

 

Sýslumaður bendir á að [E] hafi í tvígang veitt umsögn í máli þessu, nánar tiltekið þann 5. maí 2020 í kjölfar umsagnarbeiðni sýslumanns og einnig þann 8. júní 2020 í kjölfar andmæla kæranda við fyrirhugaða synjun umsóknar hans. Þá bendir sýslumaður á að einnig liggi fyrir afstaða bæjarins frá 10. mars 2021 þar sem lagst var gegn endurnýjun rekstrarleyfis kæranda.

 

Það er mat sýslumanns að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem hróflað hafi við skyldubundnu mati lögbundins umsagnaraðila.

 

Þá er það mat sýslumanns að rannsóknarskyldu hafi verið fullnægt við meðferð málsins og meðferð málsins hjá sýslumanni hafi verið í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti.

 

Í ljósi þess telur sýslumaður að lagaskilyrði hafi brostið til útgáfu leyfisins.

 

Viðbótarsjónarmið kæranda

Umsögn sýslumanns var send kæranda til athugasemda. Með bréfi dags. 10. maí 2021 kom kærandi á framfæri frekari sjónarmiðum og athugasemdum.

 

Kærandi bendir á að í umsögn sýslumanns komi fram að ítrekað hafi verið kallað eftir því að [E] gæfi skýra og rökstudda umsögn vegna umsóknar um endurnýjun rekstrarleyfis. Þann 12. mars 2021 hafi sýslumanni borist erindi frá [E] þar sem fram kom að á fundi skipulagsnefndar þann 10. mars 2021 hefðu umsagnir nágranna verið lagðar fram ásamt umsögn [L]. Skipulagsnefnd taldi ekki unnt að veita jákvæða umsögn með vísan til andmæla nágranna og umsagnar [L]. Þá kom fram að fyrirhugaðar rekstur væri andstæður ákvæðum gildandi aðalskipulags en að fyrra leyfi hafi verið gefið út fyrir gildistöku þess.

 

Kærandi telur að meðferð [E] á umsókn hans fari í bága við stjórnsýslulög og vandaða stjórnsýsluhætti.

 

Kærandi bendir á að gögn málsins beri með sér að [E] hafi lagst gegn útgáfu leyfisins með umsögn dags. 5. maí 2020 sem ítrekuð hafi verið þann 8. júní 2020. Kærandi ítrekar að umræddar umsagnir hafi verið með öllu órökstuddar en svo virðist sem bærinn hafi við frekari meðferð málsins gerbreytt grundvelli þeim er upphafleg niðurstaða byggði á. Í því samhengi bendir kærandi á að upphafleg höfnun hafi verið byggð á því að starfsemin samræmdist ekki deiluskipulagi en síðar því að starfsemin væri andstæð ákvæðum aðalskipulags. Þá hafi síðari afstaða bæjarins verið byggð á andmælum nágranna og umsagnar [L].

 

Kærandi vísar til þess að honum hafi ekki verið veitt færi á að koma á framfæri andmælum vegna framangreinds.

 

Kærandi bendir á að engar kvartanir hafa borist vegna starfsemi sinnar eins og hún var rekin frá 2016 til 2020 né heldur vegna heimagistingar sem kærandi hefur rekið í sama húsnæði frá júlí 2020.

 

Kærandi bendir á að í málinu liggi fyrir jákvæð umsögn frá [H] dags. 16. apríl 2020.

 

Kærandi mótmælir því að starfsemi hans standist ekki ákvæði aðalskipulags. Í því samhengi vísar kærandi sérstaklega til umsagnar [L] þar sem fram komi að grenndaráhrif séu líklega ekki veruleg en að í aðalskipulagi komi fram að gert sé ráð fyrir því að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi sem hún valdi óverulegum óþægindum. Þá bendir kærandi á að ferðamenn komi og fari á dagvinnutíma þar sem kærandi bjóði ekki fram á næturþjónustu.

 

Kærandi telur að röksemdir um að fyrra leyfi hafi verið veitt fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags standist ekki nánari skoðun. Í því samhengi bendir kærandi á að í eldri skipulagsmálum hafi ekki verið að finna bein jákvæð ákvæði sem heimiluðu atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð ólíkt því sem heimilað er í núgildandi aðalskipulagi.

 

Forsendur og niðurstaða

Sem fyrr greinir synjaði sýslumaður umsókn kæranda um endurnýjun á leyfi til reksturs gististaðar í fl. II að [D].

 

Með bréfi dags. 2. september 2020 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna umræddrar ákvörðunar.

 

Sýslumaður veitti umsögn um kæruna með bréfi, dags. 15. mars 2020. Þá bárust viðbótarsjónarmið og athugasemdir frá kæranda með bréfi dags. 10. maí 2021.

 

Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.

 

Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsókna um rekstrarleyfi. Í 5. mgr. 10. gr. laganna segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess. Eru umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni. 

 

Samkvæmt gögnum málsins grundvallast synjun sýslumanns á neikvæðri umsögn [E]. Kemur þá til skoðunar hvort að umsögnin hafi verið haldin slíkum annmörkum að sýslumanni hafi verið rétt að víkja henni til hliðar eða afla nýrra umsagna.

 

Um hlutverk umsagnaraðila er fjallað í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Samkvæmt ákvæðinu er hlutverk sveitarstjórnar m.a. að staðfesta að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 kemur fram að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélags kveður á um.

 

Í málinu liggur fyrir að [E] lagðist gegn endurnýjum hins umrædda rekstrarleyfis þann 5. maí 2020, með eftirfarandi rökstuðningi:

 

„Afgreiðsla: Hafnað, samræmist ekki deiluskipulagi.“

 

[E] ítrekaði umrædda afstöðu með erindi dags. 8. júní 2020.

 

Líkt og fram hefur komið byggir kærandi á því að umsögn [E] uppfylli tæpast áskilnað 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um að umsagnir skuli vera skýrar og rökstuddar.

 

Kærandi bendir á að í kafla 3.1. í gildandi aðalskipulagi komi fram að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þótt sé gert ráð fyrir að þar geti einnig verið atvinnustarfsemi svo fremi sem hún valdi óverulegum óþægindum. Kærandi telur að ekki verði annað ráðið af gildandi aðalskipulagi að áframhaldandi gististarfsemi hans í húsinu samræmist þeirri landnotkun sem þar er ráðgerð.

 

Í kæru er m.a. byggt á því að reglur sem feli í sér takmarkanir á atvinnustarfsemi skuli vera skýrar og efalausar og allur vafi skuli skýrður borgurum í vil.

 

Kærandi telur mikilvægt að borgarar megi treysta því að geta haldið áfram starfsemi sem þeir hafi áður sinnt, en kærandi hafi lagst í veruleg fjárútlát til að útbúa húsnæði sitt sem gististað og hafi hefði mátt treysta því að ekki yrðu lagðar frekari hömlur á starfsemi hans.

 

Kærandi telur að þeir skipulagsskilmálar sem gilda um íbúðarbyggð kæranda gefi ekki tilefni til að ætla að starfsemi kæranda fari í bága við þá. Í því samhengi hafi kærandi stundað gististarfsemi í umræddu húsnæði um árabil á grundvelli útgefins rekstrarleyfis. Hefði sýslumanni því borið vegna breyttrar afstöðu bæjarins að leita sérstaklega eftir því hvort og þá með hvaða hætti reglur hefðu breyst er varðað gætu atvinnustarfsemi kæranda.

 

Af fyrirliggjandi afgreiðslu [E] á veitingu umsagnar telur kærandi útilokað að leyfisveitandi hafi haft nægjanlega traustan grundvöll til að geta tekið upplýsta ákvörðun í málinu. Hafi það leitt til þess að brotið hafi verið á andmælarétti kæranda auk þess sem brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

 

Sú gististarfsemi sem stjórnsýslukæra þessi snýr að er staðsett að [D]. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2015. Í umræddu deiliskipulagi er ekki að finna sérstakar takmarkanir á gististarfsemi.

 

Í upphaflegri umsögn [E] og viðbótarskýringum er hvorki vísað til þeirra réttarreglna sem eða skipulagsskilmála sem afstaða sveitarfélagsins er byggð á. Þá verður ekki séð að [E] hafi með fullnægjandi hætti greint frá þeim meginsjónarmiðum sem lágu til grundvallar umrædds mats.

 

Kærandi telur að með því móti hafi andmælaréttur hans verið að engu gerður og útilokað fyrir leyfisveitanda að staðreyna hvort að rétt væri með farið og hvaða forsendur hefðu breyst frá fyrra mati þegar rekstrarleyfið var fyrst gefið út á árinu 2016.

 

Með vísan til alls framangreinds, atvika máls og í ljósi þess að um var að ræða synjun um endurnýjun á áður útgefnu rekstrarleyfi kæranda, tekur ráðuneytið undir sjónarmið kæranda um að umsagnaraðila hafi verið skylt að rökstyðja afstöðu sína með skýrari hætti. Ráðuneytið telur að áðurnefnd umsögn [E] dags. 5. maí 2020 sem ítrekuð var þann 8. júní 2020, uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um að umsagnir skuli vera skýrar og rökstuddar.

 

Með bréfi, dags. 17. september 2020, óskaði ráðuneytið umsagnar sýslumanns um kæruna. Þá fór ráðuneytið fram á að fá send gögn málsins. Í ljósi þess að andmæli kæranda snúast að stórum hluta um málsmeðferð [E] leitaði sýslumaður eftir afstöðu [E] til framkominna athugasemda.

 

Með tölvupósti dags. 12. mars 2021 upplýsti [E] sýslumann um að erindið hafi verið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 10. mars 2021. Í framlagðri bókun kemur fram að nefndin telji að ekki hafi verið unnt að veita jákvæða umsögn um endurnýjun leyfisins þar sem slíkur rekstur sé andstæður ákvæðum aðalskipulags, þá vísaði [E] til lögfræðiálits sem aflað var hjá [L] og neikvæðra umsagna nágranna sem síðar var aflað. Í umsögn [E] kom einnig fram að upphaflegt rekstrarleyfi kæranda hafi verið veitt fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags.

 

Með bréfi dags. 10. maí 2021 kom kærandi á framfæri viðbótarsjónarmiðum og athugasemdum.  Kærandi bendir á að bærinn hafi við frekari meðferð málsins gerbreytt þeim grundvelli er upphafleg niðurstaða byggði á. Í því samhengi bendir kærandi á að upphafleg höfnun hafi verið byggð á því að starfsemin samræmdist ekki deiliskipulagi en svo síðar að starfsemin væri andstæð ákvæðum aðalskipulags. Þá hafi síðari afstaða bæjarins verið byggð á andmælum nágranna og umsögn [L].

 

Kærandi vísar til þess að honum hafi ekki verið veitt færi á að koma á framfæri andmælum vegna framangreinds áður en ákvörðun var tekin.

 

Líkt og fram hefur komið synjaði sýslumaður kæranda um endurnýjun rekstrarleyfis með bréfi dags. 29. júní 2020. Því tekur ráðuneytið undir með kæranda að hann hafi ekki notið fulls andmælaréttar vegna annarra sjónarmiða sem lögð voru fram eftir að ákvörðun hafði nú þegar verið tekin á máli hans.

 

Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að umsagnir [E] séu haldnar slíkum formgöllum að fallast verði á kröfu kæranda um að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og sýslumanni gert að taka umsókn kæranda fyrir að nýju, að því gefnu að slík umsókn berist. 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu dags. 29. júní 2020 um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II að [D] er felld úr gildi. Sýslumaður skal taka umsókn kæranda fyrir að nýju, að því gefnu að slík umsókn berist.

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta