Rekstrarleyfi í flokki III – Tímabundin svipting rekstrarleyfis – Rannsóknarregla.
Stjórnsýslukæra
Með erindi, dags. 16. maí 2019, bar [A, lögmaður], fram kæru fyrir hönd [B ehf.] (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 13. maí 2019, um að svipta kæranda rekstrarleyfi veitingastaðar í flokki III að [C] tímabundið til 12 vikna.
Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Kærandi krefst þess einnig, ef ráðuneytið staðfestir ákvörðun sýslumanns, að kæranda verði veittur frestur til þriggja mánaða áður en rekstrarleyfi kæranda fellur tímabundið niður.
Málsatvik
Þann 28. júní 2018 veitti sýslumaður kæranda leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki III [C].
Þann 9. febrúar 2019 tilkynnti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir lögregla) sýslumanni að lögregla hefði stöðvað starfsemi kæranda aðfaranótt laugardagsins 9. febrúar 2019, m.a. vegna brota á ákvæðum laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Þann 12. febrúar 2019 barst sýslumanni skýrsla lögreglu, dags. 12. febrúar 2019, um eftirlit með veitingastað kæranda, ásamt samantekt um eftirlit með staðnum frá 1. janúar 2017. Í skýrslunni kemur fram sú afstaða lögreglu að kærandi hafi um langt skeið brotið gegn 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, um bann við nektarsýningum. Í umræddri skýrslu kemur einnig fram sú afstaða lögreglu að kærandi hafi brotið gegn skilmálum rekstrarleyfisins um leyfilegan afgreiðslutíma. Í umræddri skýrslu lögreglu, dags. 12. febrúar 2019, fylgdi minnisblað lögreglu dags. 10. janúar 2019. Í minnisblaðinu koma m.a. fram upplýsingar að lögreglu hafi verið sýnd myndbandsupptaka af veitingastað kæranda. Í minnisblaðinu segir að myndbandsupptakan sé af fáklæddri konu, berri að ofan og í kynferðislegum og ögrandi dansi, nærri þeim sem stjórnar upptöku. Þá kemur fram mat lögreglu, að konan á myndbandinu hafi ekki vitneskju um upptökuna. Loks segir að umrædd upptaka sé á vegum fréttamanns, en lögregla hafi ekki vitneskju um höfund myndbandsins.
Á grundvelli rannsóknar lögreglu, umræddrar lögregluskýrslu, myndbandsupptökunni, ásamt öðrum gögnum, svo sem vinnuskjali lögreglu dags. 11. mars 2019 um eftirlit með leyfilegum opnunartíma veitingastaðar kæranda, komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði brotið gegn ákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, um banni við nektardanssýningum, sem og skilmálum rekstrarleyfisins um leyfilegan afgreiðslutíma.
Þann 22. mars 2019 sendi sýslumaður kæranda erindi um fyrirhugaða tímabundna sviptingu rekstrarleyfis vegna veitingastaðar í flokki III að [C]. Var kæranda veittur 14 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til andmæla og athugasemda.
Þann 4. apríl 2019 bárust sýslumanni andmæli kæranda, þar sem fyrirhugaðri sviptingu var mótmælt, meðal annars með vísan til þess að skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 væru ekki uppfyllt. Í andmælum vísar kærandi einnig til 19. gr. siðareglna lögreglu.
Í kjölfar andmæla kæranda leitaði sýslumaður afstöðu lögreglu.
Þann 10. maí 2019 bárust sýslumanni athugasemdir lögreglu. Þar vísar lögregla til fyrirliggjandi gagna vegna rannsóknar lögreglu á starfsemi kæranda, sem að mati lögreglu, leiðir í ljós að stundaðar séu nektarsýningar á umræddum veitingastað kæranda í skilningi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Þá bendir lögregla á að umrætt ákvæði leggi bann við nektarsýningum, eða því að gert sé út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Þá bendir lögregla enn fremur á að eftirlit lögreglu með veitingastað kæranda hafi leitt í ljós að ítrekað hafi verið brotið gegn skilyrðum rekstrarleyfis um opnunartíma.
Þann 13. maí 2019 tók sýslumaður ákvörðun um að svipta kæranda rekstrarleyfi vegna reksturs veitingastaðar í flokki III að [C], til 12 vikna.
Þann 16. maí 2019 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem kærð er ákvörðun sýslumanns um að svipta kæranda rekstrarleyfi vegna reksturs veitingastaðar í flokki III að[C], til 12 vikna.
Þann 17. maí 2019 féllst ráðuneytið á kröfu kæranda um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Samhliða þeirri ákvörðun ráðuneytisins barst umsögn sýslumanns vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Þá var kæranda veittur framlengdur frestur til að koma að andmælum, en þau bárust með bréfi dags. 5. júní 2019. Í andmælum áréttaði kærandi sjónarmið sem fram komu í andmælum kæranda við fyrirhugaðri sviptingu sýslumanns dags. 22. mars 2019. Auk þess vísaði kærandi til rannsóknarreglu 10. gr. ssl. og stjórnarskrárvarinna réttinda kæranda sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944
Þann 20. júní 2019 óskaði ráðuneytið eftir viðbótargögnum, nánar tiltekið myndbandsupptöku frá lögreglu, sem sýslumaður vísar til í hinni kærðu ákvörðun, og varðar meint brot kæranda á ákvæði 4. mgr. 4. gr. laganna. Kæranda var veittur frestur til 27. júní 2019 til að kynna sér umrædda myndbandsupptöku í húsi lögreglu að Hverfisgötu 113, 105 Reykjavík, og koma athugasemdum á framfæri.
Þann 27. júní 2019 óskaði ráðuneytið eftir ítarlegri gögnum frá lögreglu, nánar tiltekið lögregluskýrslu, dags. 27. júní 2019 og skýrslutöku lögreglu dags. 1. apríl 2019, sem unnar eru úr og í tengslum við umrædda myndbandsupptöku. Frestur kæranda til að koma athugasemdum áleiðis var því framlengdur til 4. júlí 2019.
Þann 4. júlí var frestur til að koma að athugasemdum framlengdur til 9. júlí að beiðni kæranda.
Andmæli kæranda vegna viðbótargagna bárust ráðuneytinu 9. júlí 2019. Þar ítrekar kærandi að ágallar séu á hinni kærðu ákvörðun, meðal annars með vísan til 10. gr. ssl., sem og meðalhófsreglu og andmælareglu, sbr. 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafnar kærandi því að háttsemi sú er virðist koma fram á umræddri myndbandsupptöku sé vanaleg hegðun starfsmanns, og kveður með engu móti leyfilega í rekstri kæranda. Einnig bendir kærandi á að líklegast sé umrædd myndbandsupptaka fengin með ólögmætri tálbeituaðgerð.
Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Kærandi hafnar því að hafa brotið gegn skilmálum rekstrarleyfisins eða þeim lögum og reglum sem um reksturinn gilda.
Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að skilyrði fyrir tímabundinni sviptingu rekstrarleyfis, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007, séu ekki uppfyllt. Aðeins sé uppi grunur um meint brot kæranda á banni við nektarsýningum skv. ákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Kærandi telur orðalag ákvæðis 3. mgr. 15. gr. laganna leiða til þess að leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa þurfi að hafa gerst uppvísað misnotkun rekstrarleyfis, eða vanrækt skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum og reglum sem gilda um reksturinn, eða skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Kærandi telur grun um brot ekki uppfylla skilyrði ákvæðisins um sviptingu rekstrarleyfis. Kærandi bendir á að fyrrnefnd myndbandsupptaka sem lögregla hefur undir höndum, og lögð er til grundvallar meintu broti kæranda á ákvæði 4. mgr. 4. gr. laganna, sé aflað af utanaðkomandi aðila í leyfisleysi og án vitneskju kæranda. Myndbandið sé tekið úr samhengi og tekið upp í öðrum tilgangi en myndi leiða af rannsókn lögreglu, sem eftirlitsaðila, á starfsemi kæranda. Kærandi hafnar því að það sem virðist eiga sér stað á umræddri myndbandsupptöku sé fyrir tilstuðlan kæranda. Þá hafnar kærandi því að ljósmyndir, sem og grunn- og þverskurðarmyndir sem teknar voru í aðgerð lögreglu þann 8. febrúar 2019 gefi vísbendingar um að nokkuð slíkt eigi sér stað. Einnig byggir kærandi á því að sönnunargagn málsins (nánar tiltekið umrædd myndbandsupptaka) sé líklega fengin með ólögmætri tálbeituaðgerð af hálfu utanaðkomandi aðila. Vísar kærandi í því samhengi meðal annars til dóma Hæstaréttar frá 23. október 2008 í málum nr. 584/2007, 585/2007 og 609/2007.
Í öðru lagi telur kærandi að sýslumaður hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldur sínar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Vísar kærandi í því samhengi til rannsóknarreglu 10. gr. ssl. Kærandi byggir á því að engin sjálfstæð rannsókn hafi farið fram af hálfu sýslumanns við hina kærðu ákvörðun heldur hafi ákvörðun sýslumanns alfarið verið byggð á mati lögreglu. Kærandi bendir á að sýslumaður hafi ekki tekið sjálfstæða afstöðu til myndbandsupptöku þeirrar sem lögregla leggur til grundvallar meintu broti gegn ákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um bann við nektarsýningum. Kærandi bendir enn fremur á að umrædd myndbandsupptaka sé ekki hluti af gögnum málsins þrátt fyrir að byggt sé á henni hvað varðar meint brot. Þá hafi myndbandið verið tekið upp í leyfisleysi af utanaðkomandi aðila, slíkt athæfi brjóti gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Auk þess vísar kærandi til 19. gr. siðareglna lögreglu þar sem segir að lögregla megi ekki færa fram sakargögn sem aflað hefur verið með óheiðarlegum hætti.
Þá hafnar kærandi því að hafa brotið gegn skilmálum rekstrarleyfis um opnunartíma. Kærandi bendir á að meintar mannaferðir, utan leyfilegs opnunartíma skv. rekstrarleyfi (sbr. vinnuskjal lögreglu dags. 11. febrúar 2019) eigi sér eðlilegar skýringar. Eftir lokun sé fjöldi starfsfólks enn að störfum, til dæmis við þrif. Sá tími sem greint er frá í vinnuskjali lögreglu, að fólk yfirgefi veitingarstað kæranda, sem ákvörðun sýslumanns byggist m.a. á, sé starfsfólk kæranda. Hafi lögregla orðið vör við viðskiptavin yfirgefa veitingarstað utan leyfilegs opnunartíma sé um tilfallandi tilvik að ræða.
Kærandi telur meinta vanrækslu sýslumanns á rannsókn málsins hafa haft áhrif á andmælarétt kæranda sem kveðið er á um í 13. gr. ssl. Enn fremur telur kærandi að sýslumaður hafi ekki tekið mið af andmælum kæranda heldur afgreitt þau og hafnað án rökstuðnings.
Kærandi vísar til þess að atvinnurekstur kæranda njóti verndar af ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, á grundvelli 75. gr., sem og eignarréttarákvæðis 72. gr. Kærandi telur að þau lagaákvæði sem setja atvinnufrelsi skorður með vísan til almannahagsmuna, að vissum skilyrðum uppfylltum, þurfi að vera skýr, ótvíræð og túlkuð kæranda í hag. Auk þess þurfi skilyrði slíkra lagaákvæða að vera uppfyllt með ótvíræðum hætti.
Að lokum vísar kærandi, ofangreindum sjónarmiðum til stuðnings, til úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 11. júní 2019 (Fiskistofa) og ákvörðunar Samgöngustofu frá 9. maí 2019 [F].
Um málsmeðferð og sjónarmið aðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Sjónarmið sýslumanns
Í framhaldi stjórnsýslukærunnar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt öllum málsgögnum.
Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu 17. maí 2019.
Í fyrsta lagi telur sýslumaður kæranda hafa brotið gegn fyrrnefndu ákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Í öðru lagi byggir sýslumaður ákvörðun sína á því að kærandi hafi ítrekað brotið gegn skilmálum og skilyrðum rekstrarleyfis um leyfilegan afgreiðslutíma. Vísar sýslumaður m.a. til gagna og mats lögreglu sem eftirlitsaðila skv. 21. gr. laga nr. 85/2007 hvað meint brot varðar.
Sýslumaður telur að skilyrði sviptingar sbr. 3. mgr. 15. gr. séu uppfyllt. Vísar sýslumaður í því samhengi til gagna lögreglu, meðalhófs og vandaðra stjórnsýsluhátta. Enn fremur vísar sýslumaður til þess að kæranda hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða leyfissviptingu með bréfi dags. 22. mars 2019, og að andmæli kæranda vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar hafi borist sýslumanni 4. apríl. 2019. Á þeim grundvelli hafnar sýslumaður því að andmælaréttur kæranda skv. 13. gr. ssl. hafi ekki verið virtur.
Hvað varðar meint brot kæranda á 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 byggir sýslumaður á gögnum lögreglu. Sýslumaður vísar m.a. til bréfs lögreglu dags. 9. febrúar, þar sem sýslumanni er tilkynnt um stöðvun á starfsemi kæranda vegna rökstudds gruns lögreglu um brot kæranda á skilyrðum rekstrarleyfisins, sem og ákvæði 4. mgr. 4. gr. laganna. Þá bendir sýslumaður á skýrslu lögreglu frá 12. febrúar 2019 (sbr. einnig skýrslu lögreglu dags. 6. mars 2019) um eftirlit með veitingastað kæranda, en í umræddri skýrslu má m.a. finna ljósmyndir innan úr veitingastað kæranda, sem og grunn- og þverskurðarmyndir sem teknar voru í aðgerð lögreglu þann 8. febrúar 2019. Loks vísar sýslumaður til minnisblaðs lögreglu dags. 10. janúar 2019 og afstöðu lögreglu í bréfi til sýslumanns dags. 11. mars, um myndbandsupptöku af meintu broti kæranda á ákvæði 4. mgr. 4. gr. laganna.
Hvað varðar meint brot kæranda á skilyrðum rekstrarleyfis um opnunartíma byggir sýslumaður á gögnum tengdum rannsókn lögreglu á rekstri kæranda fyrir tímabilið 1. janúar 2017 til 11. febrúar 2019. Vísar sýslumaður m.a. til skráninga í málaskrá lögreglu þann 26. maí 2018 (hvað varðar skírteini dyravarða) og vinnuskjals lögreglu dags. 11. febrúar 2019 um skráð eftirlit með opnunartíma veitingastaðar kæranda.
Loks ítrekar sýslumaður að lögreglustjórar, á grundvelli 1. mgr. 21. gr. laga nr. 85/2007, hafi eftirlit með því að handhafi leyfis til reksturs veitinga- og skemmtistaða uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi, að fylgt sé skilyrðum sem leyfi er bundið, svo sem um dyravörslu, leyfilegan afgreiðslutíma og gestafjölda, og að fylgt sé ákvæðum laganna um dvöl ungmenna á veitingastöðum og um áfengisveitingar.
Um sjónarmið sýslumanns vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögn sýslumanns.
Forsendur og niðurstaða
Sem fyrr greinir er hin kærða ákvörðun til komin vegna ákvörðunar sýslumanns frá 13. maí 2019 um að svipta kæranda rekstrarleyfi veitingastaðar í flokki III, að [C], tímabundið til 12 vikna. Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra með bréfi, dags. 16. maí 2019 þar sem kærandi fer fram á að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Kærandi krefst þess einnig, að kæranda verði veittur þriggja mánaða frestur áður en leyfi fellur tímabundið niður, verði niðurstaða ráðuneytisins sú að staðfesta ákvörðun sýslumanns.
Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.
Í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald segir:
„Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.“
Í 3. mgr. 15. gr. sömu laga nr. 85/2007 segir:
„Leyfisveitanda er heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfi tímabundið verði hann eða forsvarsmaður hans uppvís að því að misnota rekstrarleyfið eða vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum sem um reksturinn gilda eða brjóti hann að öðru leyti gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Verði leyfishafi uppvís að ítrekuðum brotum samkvæmt þessari málsgrein er leyfisveitanda heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfinu að fullu.“
Af orðalagi 3. mgr. 15. gr. leiðir að leyfishafi þarf að gerast uppvís um brot gegn 4. mgr. 4. gr. laganna eigi að koma til sviptingar rekstrarleyfis á grundvelli ákvæðisins. Ákvæði 3. mgr. 15. gr. þarf að túlka með tilliti til hversu íþyngjandi beiting þess er, hvort sem um tímabundna eða varanlega sviptingu rekstrarleyfis er að ræða, sem og þess að atvinnurekstur nýtur verndar af fyrrnefndum ákvæðum stjórnarskrárinnar sbr. 75. og 72. gr. Við beitingu eins íþyngjandi ákvæðis og 3. mgr. 15. gr. er, þurfa stjórnvöld að gera strangar kröfur til málsmeðferðar og sjá til þess að mál sé rannsakað til hlítar og nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Einnig eru gerðar strangari kröfur í málum þar sem beita á viðurlögum við broti. Í slíkum tilvikum hvílir ríkari sönnunarbyrði á stjórnvöldum auk þess sem skýra ber sérhvern vafa málsaðila í hag. Það fer síðan eftir eðli stjórnsýslumáls, svo og réttarheimild þeirri sem er grundvöllur ákvörðunar, hvaða upplýsinga þarf að afla svo rannsókn þess teljist fullnægjandi. Ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn máls ber stjórnvöldum að leggja sérstaka áherslu á að rannsaka þann þátt þess.
Hvað varðar sönnunarreglur er meginregla stjórnsýsluréttar sú að fylgja ber sömu sönnunarreglum og í einkamálaréttarfari, þó með þeim tilbrigðum sem leiðir af leiðbeiningaskyldu og rannsóknaskyldu stjórnvalda, sbr. 7. og 10. gr. ssl.
Í 10. gr. ssl. segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið reglunnar er að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í ákvæðinu felst m.a. að afla þurfi nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik stjórnsýslumáls. Það er svo breytilegt eftir málum hverju sinni hvaða aðferðum er heppilegast að beita.
Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 85/2007 segir að lögregla hafi eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með því að leyfishafi uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi og því að fylgt sé skilyrðum sem leyfi er bundið. Ákvörðun sýslumanns byggir að miklu leyti á gögnum sem lögregla aflaði í viðamikilli rannsókn á starfsemi kæranda á tímabilinu 1. janúar 2017 til 11. febrúar 2019. Hluti umræddra gagna er minnisblað lögreglu, dags. 10. janúar 2019, þar sem fram kemur að lögreglan hafi undir höndum myndbandsupptöku sem sýnir konu, bera að ofan, í kynferðislegum og ögrandi dansi nálægt þeim er stýrir upptöku, inni á veitingastað kæranda. Þá kemur fram í skýrslu lögreglu, dags. 11. mars 2019, að brot úr umræddri myndbandsupptöku hafi verið spilað í fréttaskýringaþættinum „Kveik“ þann 5. mars 2019, sem og sú afstaða lögreglu að myndbandsupptakan sýni fram á brot kæranda á 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Auk þessarar afstöðu lögreglu, sem fram kemur í skýrslu lögreglu dags. 11. mars 2019, byggir ákvörðun sýslumanns á öðrum gögnum lögreglu, svo sem ljósmyndum teknum í aðgerð lögreglu þann 8. febrúar 2019, af veitingastað kæranda, sem og grunn- og þverskurðarmyndum af veitingastað kæranda. Á umræddum ljósmyndum má meðal annars sjá danssúlur og rými með upphækkunum. Á ljósmyndum af þriðju hæð veitingastaðarins má sjá sjö þröng rými, sniðin að tveimur einstaklingum, skipt niður með tjöldum til að draga fyrir og loka. Í hverju rými er leðursófi og borð.
Með bréfi dags 22. mars 2019 veitti sýslumaður kæranda 14 daga frest til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun um tímabundna sviptingu rekstrarleyfis, ásamt aðgangi að gögnum sem sýslumaður hafði undir höndum og urðu grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar. Andmæli kæranda bárust sýslumanni þann 4. apríl 2019, en sem fyrr segir er hin kærða ákvörðun dags. 13. maí 2019.
Hvað varðar rannsóknarreglu 10. gr. ssl., þá fer það meðal annars eftir mikilvægi máls, þýðingu upplýsinga og frá hverjum þær stafa, þegar kemur að mati á hversu rík skylda hvílir á stjórnvöldum til að staðreyna að upplýsingar séu réttar. Við mat á því hvort sýslumaður hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, verður að horfa til þess að upplýsingarnar koma frá lögreglu, sem hafði nýverið lokið viðamikilli rannsókn á starfsemi kæranda, en sem fyrr segir fer lögregla með eftirlit með framkvæmd laganna sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna. Að mati ráðuneytisins er ekki unnt að fallast á það með kæranda að sýslumaður hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína við töku hinnar kærðu ákvörðunar með því að byggja á gögnum lögreglu. Hins vegar, þeim mun meira íþyngjandi sem ákvörðun er, eru gerðar þeim mun strangari kröfur til stjórnvalds um að ganga úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Með vísan til þess, og að teknu tilliti til andmæla kæranda á kærustigi, og þeirrar meginreglu að æðra sett stjórnvald hefur heimild til að endurskoða alla þætti hinnar kærðu ákvörðunar til fulls, aflaði ráðuneytið viðbótargagna frá lögreglu, nánar tiltekið umræddrar myndbandsupptöku sem fjallað er um í gögnum lögreglu, lögregluskýrslu dags. 27. júní 2019, sem unnin er úr umræddri myndbandsupptöku, auk skriflegrar skýrslutöku lögreglu dags. 1. apríl 2019, sem einnig var unnin í tengslum við myndbandsupptökuna.
Í 6. mgr. 15. gr. ssl. er fjallað um undanþágu frá meginreglu 1. mgr. 15. gr ssl. um rétt aðila máls til aðgangs að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Ákvæði 6. mgr. 15. gr. ssl. tekur til atvika þegar mál, eða hluti máls, hefur verið lagður í farveg sakamáls, en um slík mál gilda m.a. lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Eftir að mál hefur verið lagt í þann farveg, líkt og hér um ræðir, fer um aðgang að gögnum eftir þeim lögum og kemur í hlut þar til bærra stjórnvalda að taka ákvarðanir um aðgang að gögnum. Þann 26. júní var lögmanni kæranda veitt heimild til að kynna sér umrædda myndbandsupptöku, í húsi lögreglu að Hverfisgötu 113, 105 Reykjavík. Þann 28. júní 2019 var kæranda veittur aðgangur að fyrrnefndri lögregluskýrslu, dags. 27. júní 2019, og skriflegri skýrslutöku lögreglu, dags. 1. apríl 2019. Þann 9. júlí bárust andmæli kæranda vegna umræddrar viðbótargagna, en fjallað er um andmæli kæranda hér að framan.
Það er mat ráðuneytisins að myndbandsupptakan, sem ráðuneytið aflaði við rannsókn málsins, sé tekin upp á veitingastað kæranda. Það er einnig mat ráðuneytisins að efni myndbandsins, nánar tiltekið frá mínútu 17:20 til mínútu 23, sýni háttsemi sem brjóti gegn 4. mgr. 4. gr., um bann við nektarsýningum, eða því að gert sé út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Í skýrslutöku lögreglu, dags. 1. apríl 2019, sem unnin var í tengslum við myndbandið, kemur fram játning starfsmanns kæranda, þess efnis að viðkomandi starfsmaður sjáist ber að ofan í einkadansi á þriðju hæð veitingastaðar kæranda á umræddu myndbandi.
Í andmælum vísar kærandi meðal annars til þess að háttsemi þess starfsmanns sem sést á myndbandinu sé óvanaleg og án leyfis rekstraraðila. Þau andmæli verða að teljast í ósamræmi við ljósmyndir lögreglu innan úr veitingastað kæranda, sem og markaðsefni á vefsíðu veitingastaðar kæranda. Hvað sem því líður, kemur skýrt fram í ákvæði 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2007, að forsvarsmaður ber ábyrgð á rekstrinum. Með vísan til framangreinds, rannsóknargagna lögreglu og viðbótargagna sem ráðuneytið aflaði við rannsókn málsins, umræddri myndbandsupptöku og viðurkenningu starfsmanns er sést á upptökunni (skýrsla lögreglu dags. 1. apríl 2019), er ekki unnt að fallast á andmæli kæranda um að einungis sé uppi grunur um brot gegn 4. mgr. 4. gr. laganna. Ekki er heldur unnt að fallast á þá röksemd kæranda að sá sem stjórnaði upptökunni hafi beitt starfsmann kæranda þrýstingi til að kalla fram þá háttsemi sem 4. mgr. 4. gr. laganna leggur bann við.
Í andmælum kæranda er vísað til úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðsins frá 11. júní 2019 (Fiskistofa) og ákvörðunar Samgöngustofu frá 9. maí 2019 [F] meðal annars hvað varðar rannsóknarreglu 10. gr. ssl. og meðalhófsreglu 12. gr. ssl.
Eins og fram kemur hér að ofan hefur það þýðingu við mat á því hversu rík skylda hvílir á stjórnvöldum að staðreyna að upplýsingar séu réttar, hversu mikilvægar upplýsingarnar eru og frá hverjum þær stafa. Í úrskurði ráðuneytisins frá 11. júní 2019 (Fiskistofa) taldi ráðuneytið að Fiskistofa hefði ekki uppfyllt rannsóknaskyldu sína skv. 10. gr. ssl. þar sem myndskeiðið sem Fiskistofa byggði meint brottkast á, sýndi ekki fisk fara í sjóinn, þá var ekki leitað skýringa hjá þeim aðila sem tók myndbandið né öðrum áhafnarmeðlimum. Einungis var talað við fyrrum áhafnarmeðlim sem ljóst var að átti í útistöðum við útgerðina og var ekki um borð í skipinu þegar myndbandið var tekið. Þá tók Fiskistofa heldur ekki afstöðu til málsástæðna kæranda um að myndbandið væri sviðsett. Ráðuneytið getur því ekki fallist á þær röksemdir kæranda að eins strangur mælikvarði skuli lagður til grundvallar við endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar og lagður var til grundvallar við endurskoðun á ákvörðun Fiskistofu í úrskurði ráðuneytisins frá 11. júní 2019, varðandi skyldu stjórnvalda til að rannsaka hvort upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.
Hvað varðar ákvörðun Samgöngustofu frá 9. maí 2019 [F], þá er það skilyrði samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja, að leyfishafa sé veittur frestur til að bæta úr annmörkum áður en kemur til niðurfellingar leyfis. Í ákvörðun Samgöngustofu frá 9. maí 2019 segir að Samgöngustofa líti á fyrirætlanir leyfishafa sem fullnægjandi tillögur til úrbóta sbr. 3. mgr. 11. gr laganna. Þá má einnig benda á að niðurfellingarákvæði 11. gr. laga nr. 65/2015 er bundið við brot ökutækjaleigu við útleigu ökutækja, en ekki sölu ökutækja.
Með vísan til alls framangreinds er það mat ráðuneytisins að skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 til sviptingar rekstrarleyfis tímabundið séu uppfyllt. Vakin er athygli á því að verði leyfishafi uppvís að ítrekuðum brotum er leyfisveitanda heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfinu að fullu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007.
Með erindi sýslumanns, dags. 22. mars 2019, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða tímabundna sviptingu rekstrarleyfis. Ekki er fallist á kröfu kæranda að veittur verði þriggja mánaða frestur áður en rekstrarleyfi kæranda fellur tímabundið úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 13. maí 2019, um að svipta kæranda tímabundið rekstrarleyfi vegna reksturs veitingastaðar í flokki III, [C], er hér með staðfest.