Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Rekstrarleyfi í flokki III – Frestun réttaráhrifa.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 16. maí 2019, bar [A, lögmaður], fram kæru fyrir hönd [B ehf.], (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 13. maí 2019, um að svipta kæranda tímabundið rekstrarleyfi veitingastaðar í flokki III, að [C].

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur

Þess er krafist að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi með vísan til þess að skilyrði fyrir sviptingu leyfis hafi ekki verið fyrir hendi, auk þess sem ákvæði stjórnsýslulaga, hvað varðar rannsókn máls, andmæli og meðalhóf, hafi verið brotin við meðferð málsins.

Þá krefst kærandi að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar sýslumanns þar til niðurstaða ráðuneytisins í kærumálinu liggur fyrir.

Sá hluti málsins er snýr að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa er hér með tekinn til ákvörðunar.

Málsatvik

Þann 28. júní 2018 veitti sýslumaður kæranda leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki III að [C].

Með bréfi dags. 9. febrúar 2019 tilkynnti lögregla leyfisveitanda að lögreglustjóri hefði stöðvað starfsemi kæranda aðfararnótt laugardagsins 9. febrúar 2019, m.a. vegna brota á ákvæðum laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Með bréfi dags. 12. febrúar 2019 barst sýslumanni skýrsla lögreglu um eftirlit með veitingastað kæranda, ásamt samantekt um eftirlit með staðnum frá 1. janúar 2017.

Á grundvelli umræddrar lögregluskýrslu, ásamt öðrum gögnum sem lögregla sendi sýslumanni, komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 85/2007, meðal annars 4. mgr. 4. gr. laganna, um bann við nektarsýningum.

Þann 22. mars 2019 sendi sýslumaður kæranda erindi um fyrirhugaða tímabundna sviptingu rekstrarleyfis vegna veitingastaðar í flokki III, að [C]. Var kæranda veittur 14 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til andmæla og athugasemda.

Andmæli  kæranda bárust sýslumanni með bréfi dags. 4. apríl 2019 þar sem fyrirhugaðri sviptingu var mótmælt, meðal annars með vísan til þess að skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 væru ekki uppfyllt. Þá vísar kærandi einnig til 19. gr. siðareglna lögreglu, meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðis stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 varðandi atvinnufrelsi leyfishafa.

Sýslumaður leitaði eftir afstöðu lögreglu í kjölfar andmæla kæranda.

Athugasemdir lögreglu bárust þann 10. maí 2019, þar sem vísað er til fyrirliggjandi gagna vegna rannsóknar lögreglu á starfsemi kæranda, sem að mati lögreglu leiðir í ljós að stundaður sé nektardans á umræddum veitingastað kæranda í skilningi, 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Þá bendir lögregla á að umrætt ákvæði leggi bann við nektarsýningum, eða gert sé út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Þá bendir lögregla á, að samkvæmt eftirliti lögreglu með veitingastað kæranda, hafi ítrekað verið brotið gegn skilyrðum rekstrarleyfis um opnunartíma.

Með hinni kærðu ákvörðun sýslumanns, dags. 13. maí 2019, var kærandi sviptur rekstrarleyfi vegna reksturs veitingastaðar í flokki III, að [C] til 12 vikna. Vísaði sýslumaður til fyrirliggjandi gagna og mats lögreglu um brot kæranda á umræddu rekstrarleyfi.

Þann 16. maí 2019 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem umrædd kærð er ákvörðun sýslumanns um að svipta kæranda tímabundið rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki III. Þá fór kærandi fram á frestun réttaráhrifa, en sem fyrr segir er hér einungis sá hluti málsins er snýr að frestun réttaráhrifa tekinn til ákvörðunar.

Með bréfi dags. 17. maí 2019 óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt gögnum málsins. Umsögn sýslumannsins barst ráðuneytinu með tölvupósti síðar sama dag. Umsögn sýslumanns var send kæranda til umsagnar samdægurs.

Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Vísar kærandi til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telur að um verulega og augljósa hagsmuni sé að ræða og skilyrði fyrir tímabundinni sviptingu rekstrarleyfis hafi ekki verið fyrir hendi.

Kærandi byggir á því að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð málsins. Vísar kærandi í því sambandi meðal annars til annmarka á rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Auk þess telur kærandi að ekki hafi verið veittur andmælaréttur nema að hluta og vísar þar til 13. gr. stjórnsýslulaga.

Byggir kærandi enn fremur á því, að hætt sé við, að hagsmunir kæranda verði liðnir undir lok þegar úrskurður ráðuneytisins, um ákvörðun sýslumanns að svipta kæranda rekstrarleyfi, liggur fyrir.

Um málsmeðferð og sjónarmið aðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

Sjónarmið sýslumanns

Í framhaldi stjórnsýslukærunnar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt öllum málsgögnum.

Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 17. maí 2019. Í þeim hluta umsagnarinnar sem snýr að frestun réttaráhrifa telur sýslumaður sig ekki geta tekið afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa skv. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Hins vegar vekur sýslumaður athygli á mati lögreglu sem fram kemur í skýrslu dags. 12. febrúar 2019 og fylgdi með umsögn sýslumanns, en þar kemur fram, að það sé mat lögreglu að meint brotastarfsemi í starfsemi kæranda muni halda áfram fái kærandi óbreytt rekstrarleyfi.

Um sjónarmið sýslumanns vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögn sýslumanns.

Forsendur og niðurstaða

Stjórnsýslukæra kæranda barst innan kærufrests. Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar hvað varðar frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í ákvæðinu er lögfest sú meginregla sem gilti áður en stjórnsýslulögin voru sett, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar.

Í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mælta með því. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993 kemur fram í umfjöllun um 2. mgr. 29. gr. að ákvæðið hafi mesta þýðingu þegar um er að ræða ákvarðanir sem fela í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila, s.s. boð eða bann. Fram kemur að fylgja beri málsmeðferðarreglum laganna þegar ákvörðun er tekin um það hvort fresta beri réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdunum kemur fram að í hverju tilviki verði að vega og meta hvort réttlætanlegt sé að fresta áhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Fram kemur að líta beri til þess hve langt er liðið frá því ákvörðun sú sem um ræðir var tilkynnt aðilum og hvort líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá segir í athugasemdunum að það mæli almennt á móti því að fallist sé á kröfu um frestun réttaráhrifa ákvörðunar ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta í málinu.

Í 4. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að ákveða skuli svo fljótt sem við verði komið hvort fresta skuli réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Sem fyrr segir fer kærandi fram á frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir þá meginreglu í íslenskum rétti að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, hefur æðra stjórnvald heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar, þar sem ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna.

Markmið undanþáguákvæðisins er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að aðili kærumáls verði fyrir tjóni á meðan mál er til meðferðar fyrir æðra stjórnvaldi.

Við skoðun á því hvort réttlætanlegt er að fresta réttaráhrifum ákvörðunar sýslumanns frá 13. maí 2019 verður að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem vegast að í málinu.

Í stjórnsýslukærunni, og gögnum málsins varðandi kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar, kemur m.a. fram, að tilgangurinn með kröfunni sé að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegt og augljóst tjón sem kæranda verði fyrir, þurfi kærandi að bíða eftir úrskurði ráðuneytisins hvað varðar þann hluta stjórnsýslukærunnar sem lítur að ákvörðun sýslumanns um að svipta kæranda umræddu rekstrarleyfi til 12 vikna. Telur kærandi að verði ekki orðið við beiðni um frestun réttaráhrifa, sé hætt á því að réttur kæranda til að kæra ákvörðun sýslumanns missi tilgang sinn, í ljósi þess að rekstur kæranda muni ekki standa af sér slíka leyfissviptingu.

Ráðuneytið telur, með vísan til atvika málsins í heild og þeirra hagsmuna sem eru í húfi fyrir kæranda, að rétt sé að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar þar til niðurstaða liggur fyrir í kærumálinu sem ráðuneytið hefur til meðferðar.

Með vísan til þess sem að framan greinir fellst ráðuneytið á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar sýslumanns, dags, 13. maí 2019, meðan kæran er til meðferðar hjá ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 13. maí 2019, um að svipta kæranda rekstrarleyfi vegna reksturs veitingastaðar í flokki III [C], þar til niðurstaða ráðuneytisins um stjórnsýslukæruna liggur fyrir.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta