Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður v. skráningar firmaheitis. Skráning firmaheitis, valdþurrð, lagagrundvöllur ákvörðunar, frestun réttaráhrifa.

Mánudaginn, 29. ágúst 2022, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


Stjórnsýslukæra
Með bréfi dags. 2. mars 2022 bar [A] lögmaður fram stjórnsýslukæru fyrir hönd [B] ehf., kt. […], (hér eftir kærandi) vegna ákvörðunar Skattsins sem starfrækir fyrirtækjaskrá (hér eftir fyrirtækjaskrá) dags. 17. febrúar 2022 um að firmaheitið [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D] og að fyrirtækjaskrá hyggist taka nafnið af skrá að liðnum 14 dögum frá dagsetningu ákvörðunarinnar.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir stjórnsýslulög) og barst hún innan kærufrests.


Kröfur
Í kærunni er þess krafist að ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022, um að firmaheitið [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D] og að nafnið skuli tekið af skrá, verði annað hvort felld úr gildi og vísað aftur til efnislegrar meðferðar, eða henni breytt kæranda í hag. Þá er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins í málinu liggur fyrir með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Sá hluti málsins sem snýr að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er hér með tekinn til ákvörðunar en ráðuneytið telur að ekki verði hjá því komist að taka einnig til ákvörðunar þann hluta málsins er snýr að því hvort ágreiningur þessa máls heyri undir fyrirtækjaskrá.


Málsatvik
Kærandi, félagið [E] ehf., kt. […], var stofnað hinn 1. mars 2015. Með tilkynningu sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá hinn 20. janúar 2016 var nafni félagsins breytt í [B] ehf.
Á tilkynningu um breytingu nafnsins [E] ehf. yfir í [B] ehf. kom fram nafnafyrirvari sem er svohljóðandi:
Framangreint nafn er skráð með þeim fyrirvara að það brjóti ekki í bága við rétt annarra til nafnsins. Undirritaðir skuldbinda sig til að hlutast til um nafnabreytingu, komi í ljós við nánari athugun að nafn félagsins fái ekki samrýmst betri rétti annarra. Hlutafélagaskrá áskilur sér rétt til að taka nafn af skrá ef svo er og undirritaðir skirrast við að láta breyta nafni að kröfu skrárinnar.


Hinn 13. september 2021 móttók fyrirtækjaskrá kröfu um afskráningu firmaheitis kæranda frá [F], lögmanni, fyrir hönd eigenda jarðarinnar [D] á […], lnr. […], þeim [G], kt. […], [H], kt. […], [I], kt. […], [J], kt. […] og [K], kt. […] (hér eftir gagnaðilar).


Eins og fyrr segir er ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 og barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna ákvörðunarinnar dags. 2. mars 2022. Í kærunni er þess krafist að ákvörðun fyrirtækjaskrár verði annað hvort felld úr gildi og vísað aftur til efnislegrar meðferðar, eða henni breytt kæranda í hag. Jafnframt er þess krafist að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar fyrirtækjaskrár þar til niðurstaða ráðuneytisins í málinu liggur fyrir.
Um atvik málsins vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.


Sjónarmið kærenda
Eins og fyrr segir er í stjórnsýslukæru krafist frestunar réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Til nánari rökstuðnings fyrir beiðni um frestun réttaráhrifa vísar kærandi til erindis sem móttekið var hjá ráðuneytinu dags. 28. febrúar 2022. Ráðuneytinu bárust einnig sjónarmið kæranda um kröfuna með erindi dags. 14. mars 2022.
Í framangreindum erindum kemur m.a. fram að ágreiningurinn í málinu lúti að því hvort skráning firmaheitisins [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D].


Kærandi byggir á því að veigamikil rök séu til staðar fyrir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar og vísar m.a. til ákvæðis 29. gr. stjórnsýslulaga til rökstuðnings þar um.
Þá er vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 9. júní 1992 (mál nr. 497/1991) þar sem m.a. kemur fram að ávallt þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig og hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum.


Kærendur telja öll rök hníga að því að fresta beri réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, þar sem ljóst er að kærandi verði bæði fyrir miklum óþægindum sem og miklu fjárhagslegu tjóni ef áhrif hennar ná fram að ganga.
Í gögnum málsins kemur einnig fram að kærandi telur ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 ekki eiga sér viðhlítandi lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Málið heyri ekki undir fyrirtækjaskrá og skráin sé því ekki bært stjórnvald til að taka ákvörðun í málinu. Kærandi telur ágreininginn fremur eiga heyra undir Örnefnanefnd með vísan til 2. málsl. 8. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð (hér eftir firmalög).
Um sjónarmið kæranda hvað kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærður ákvörðunar varðar, og hvort ágreiningur þessa máls heyri undir fyrirtækjaskrá, vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru dags. 2. mars 2022 og framangreindum erindum frá 28. febrúar 2022 og 14. mars 2022.


Sjónarmið fyrirtækjaskrár

Með bréfum dags. 3. og 15. mars 2022 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um stjórnsýslukæru og kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærður ákvörðunar. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins. Umsagnir fyrirtækjaskrár bárust með bréfum dags. 10. og 29. mars 2022.
Í umsögn skárinnar frá 10. mars 2020 kemur m.a. fram að heimild til frestunar réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar sé í höndum æðra stjórnvalds sem í þessu tilviki sé ráðuneytið og að fyrirtækjaskrá muni að svo stöddu ekki gera athugasemdir við beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa.


Í umsögn skrárinnar frá 29. mars 2022 kemur m.a. fram að Skatturinn starfræki fyrirtækjaskrá sem annast útgáfu á kennitölu til annarra en einstaklinga, sbr. 1. gr. laga nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá (hér eftir lög um fyrirtækjaskrá). Fyrirtækjaskrá beri að geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinurekstur eða sjálfstæða starfsemi sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Í 4. gr. sömu laga eru talin upp atriði sem skal skrá í fyrirtækjaskrá og ákvarðar fyrirtækjaskrá einungis í málum er varða skráningarskyld atriði. Fyrirtækjaskrá beri m.a. að skrá upplýsingar um heiti félaga samkvæmt nefndu ákvæði 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá og skal skráningin vera í samræmi við þær réttarheimildir sem gilda um skráninguna og viðkomandi félag. Við ákvörðun um skráningu firmaheita sé litið til áðurnefndra laga um fyrirtækjaskrá, firmalaga og laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.


Fyrirtækjaskrá hafnar því að ákvörðun skrárinnar eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Eitt af úrræðum skrárinnar sé að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á nafni ef tilkynningin er ekki í samræmi við lög eða aðrar réttarheimildir. Forsvarsmenn kæranda hafi þá undirritað nafnafyrirvara á tilkynningu um breytingu á firmaheiti félagsins er móttekin var hjá skránni hinn 20. janúar 2016.
Einnig vísar skráin til þess að orðið [D] sé ekki almennt orð skv. orðabók heldur nafn á jörð í eigu gagnaðila Firmaheitið hefði því ekki átt að skrá upphaflega án athugasemda.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár hvað varðar kröfu um frestun réttaráhrifa, og hvort ágreiningur þessa máls heyri undir fyrirtækjaskrá, vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögnum embættisins dags. 10. og 29. mars 2022.

Sjónarmið gagnaðila
Með bréfum dags. 3. og 15. mars 2022 gaf ráðuneytið gagnaðilum, eigendum jarðarinnar [D], færi á að koma að sjónarmiðum sínum um stjórnsýslukæru og kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. Sjónarmið gagnaðila í málinu bárust með bréfum dags. 13. og 29. mars 2022.


Í framangreindum erindum er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar mótmælt enda eigi hún ekki við rök eða lagaheimildir að styðjast. Þá er þess krafist að hin kærða ákvörðun fyrirtækjaskrár verði staðfest.
Gagnaðilar vísa til meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga um að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar og benda á að 2. mgr. ákvæðisins, sem kveður á um heimild til frestunar réttaráhrifa, feli í sér undantekningu frá nefndri meginreglu og beri þ.a.l. að túlka þröngt. Enn fremur beri að líta til þess að réttaráhrifum verði einungis frestað ef um sérstakar aðstæður er að ræða sem mæla með því. Frestun réttaráhrifa eigi því ekki að koma til álita nema brýnir og óafturkræfir hagsmunir þess aðila sem réttaráhrif beinast að séu í hættu.


Gagnaðilar telja kæranda ekki hafa sýnt fram á eða fært fyrir því nokkur haldbær rök um að kærandi verði fyrir tjóni ef ekki verði fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa.
Fram kemur að í ljósi þess að engin rök, staðreyndir eða mat á fjárhagstjóni liggi fyrir sé byggt á því að ekkert tjón hafi orðið, enda skorti alla sönnun fyrir því. Hagsmunir gagnaðila séu hins vegar ótvíræðir.
Byggt er á því að kærendur hafi brotið gegn 1. mgr. 10. gr. firmalaga og áréttað að kærandi hafi enga réttmæta hagsmuni af því að tilvitnuðum réttaráhrifum verði frestað.
Þá benda gagnaðilar á að engin haldbær rök eða lagaheimildir hafi verið færð fram af kæranda til stuðnings málsástæðu hans um að ákvörðun fyrirtækjaskrár eigi sér ekki lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Á tilkynningu um breytingu firmaheitisins [E] ehf. yfir í [D] ehf., sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá í byrjun árs 2016, kom fram nafnafyrirvari sem forsvarsmenn kæranda rituðu undir. Heimild fyrirtækjaskrár til að afmá firmaheiti kæranda úr skránni sé því fortakslaus.


Fram kemur að megintilgangur gagnaðila með andmælum við skráningu firmaheitisins [B] ehf. sé að gæta lögvarðra hagsmuna sinna og verja eignarrétt sinn að jarðarheitinu [D] og koma í veg fyrir ólögmæta notkun kæranda á heitinu.
Um sjónarmið gagnaðila hvað kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærður ákvörðunar varðar, og hvort ágreiningur þessa máls heyri undir fyrirtækjaskrá, vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru og framangreindum erindum frá 3. og 15. mars 2022.


Forsendur og niðurstaða
I.
Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin. Kæran var send í lögbundið umsagnarferli sem nú er lokið. Sá hluti málsins sem snýr að frestun réttaráhrifa og hvort ágreiningur þessa máls heyri undir fyrirtækjaskrá er hér með tekinn til ákvörðunar.


II.
Frestun réttaráhrifa
Í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í ákvæðinu er lögfest sú meginregla sem gilti áður en stjórnsýslulögin voru sett um að kæra fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar.

Í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram um 2. mgr. 29. gr. að ákvæðið hafi mesta þýðingu þegar um er að ræða ákvarðanir sem fela í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila, s.s. boð eða bann. Fram kemur að fylgja beri málsmeðferðarreglum laganna þegar ákvörðun er tekin um það hvort fresta beri réttaráhrifum ákvörðunar. Því beri stjórnvaldi að vekja athygli annarra aðila málsins á kröfunni og gefa þeim stuttan frest til að kynna sér málið og koma sjónarmiðum sínum um kröfuna á framfæri. Í athugasemdunum kemur fram að í hverju tilviki verði að vega og meta hvort réttlætanlegt sé að fresta áhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Gæta verði hagsmuna allra aðila málsins. Fram kemur að líta beri til þess hve langt er liðið frá því að ákvörðun sú sem um ræðir var tilkynnt aðilum og hvort líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.

Í 4. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga segir að ákveða skuli svo fljótt sem við verði komið hvort fresta skuli réttaráhrifum kærðar ákvörðunar.
Farið er fram á frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga. Eins og að framan greinir er það meginregla í íslenskum rétti að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi er hins vegar heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Markmið undanþáguákvæðisins er fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að aðili kærumáls verði fyrir tjóni á meðan mál er til meðferðar fyrir æðra stjórnvaldi.


Við skoðun á því hvort réttlætanlegt er að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 verður að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem vegast á í málinu.
Í umfjöllun í gögnum málsins um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar kemur m.a. fram af hálfu kæranda að fyrirsjáanlegt sé að hann verði bæði fyrir miklum óþægindum sem og miklu fjárhagslegu tjóni ef áhrif hennar ná fram að ganga.


Gagnaðilar benda á að ákvæði 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga sé undantekning frá meginreglu 1. mgr. um að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sem beri því að túlka þröngt skv. almennum lögskýringarreglum. Gagnaðilar telja kæranda þá ekki hafa sýnt fram á eða fært fyrir því haldbær rök að kærandi verði fyrir tjóni ef réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað. Gagnaðilar telja hagsmuni sína ótvíræða af því að meginreglan um að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sé látin gilda.
Það er mat ráðuneytisins að horfa beri til atvika málsins í heild, þ.á m. þess að kærumálið lítur að lögmæti tilkynningar um breytingu á firmaheiti kæranda sem var skráð hjá fyrirtækjaskrá í byrjun árs 2016. Eins og áður segir kveður hin kærða ákvörðun fyrirtækjaskrár á um að skráin hyggist taka firmaheiti kæranda af skrá og því ljóst að um breytta réttarstöðu kæranda er að ræða nái áhrif hennar fram að ganga. Ráðuneytið telur með vísan til atvika málsins í heild, þeirra röksemda sem að framan greinir og þeirra hagsmuna sem í húfi eru að rétt sé að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar þar til niðurstaða liggur fyrir í kærumálinu sem ráðuneytið hefur til meðferðar sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Rétt er að geta þess að gagnaðilar og fyrirtækjaskrá hafa þegar sent ráðuneytinu sjónarmið sín í málinu og kæranda hefur einnig verið gefið færi á að koma andmælum sínum að.
Með vísan til þess sem að framan greinir fellst ráðuneytið á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvörðunar fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022.


III.
Ágreiningur um hvort málið heyri undir fyrirtækjaskrá
Í XVII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög (hér eftir lög um einkahlutafélög) er fjallað um skráningu einkahlutafélaga.


Í 1. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög segir að ríkisskattstjóri skrái íslensk einkahlutafélög og útibú erlendra hlutafélaga og starfræki hlutafélagaskrá í því skyni.


Í 123. gr. laganna er kveðið á um að breytingar á félagssamþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið skuli tilkynna hlutafélagaskrá innan mánaðar frá því að breyting var gerð ef ekki er kveðið á um annað í lögunum.
Samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga um einkahlutafélög skal hlutafélagaskrá synja um skráningu tilkynningar ef tilkynning fullnægir ekki fyrirmælum laganna eða samþykkta viðkomandi einkahlutafélags eða ákvarðanir eru ekki teknar á þann hátt sem ákveðið er í lögum eða samþykktum.


Þann 20. ágúst 2016 var móttekin í fyrirtækjaskrá tilkynning um breytingu á firmaheiti kæranda og var tilkynningin í kjölfarið skráð. Hinn 13. september 2021 barst fyrirtækjaskrá krafa um afskráningu firmaheitisins af hálfu gagnaðila.


Kærandi telur ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 ekki eiga sér ekki viðhlítandi lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Kærandi byggir á því að málið heyri ekki undir fyrirtækjaskrá og skráin sé því ekki bært stjórnvald til að taka ákvörðun í málinu. Kærandi telur jafnframt að ágreiningur í málinu heyri undir Örnafnanefnd með vísan til 2. málsl. 8. gr. firmalaga.


Gagnaðilar telja engin haldbær rök eða lagaheimildir hafi verið færð fram af kæranda til stuðnings málsástæðu sinni um að ákvörðun fyrirtækjaskrár eigi sér ekki lagastoð og vísa m.a. til nafnafyrirvara sem forsvarsmenn kæranda rituðu undir á tilkynningu um breytingu firmaheitisins [E] ehf. yfir í [B] ehf., sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá í byrjun árs 2016.


Fyrirtækjaskrá bendir á að skráin ákvarði einungis í málum er varða skráningarskyld atriði. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá skal fyrirtækjaskrá skrá upplýsingar um heiti félaga og skal skráningin vera í samræmi við þær réttarheimildir sem gilda um skráninguna og viðkomandi félag. Eitt af úrræðum skrárinnar sé því að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á firmaheiti ef tilkynningin reynist ekki vera í samræmi við lög eða aðrar réttarheimildir.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá starfrækir Skatturinn fyrirtækjaskrá sem annast útgáfu kennitalna til annarra en einstaklinga. Skráin skal geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Fyrirtækjaskrá ber jafnframt að halda aðgreinanlegar skrár yfir hin ýmsu félagaform s.s. skrá yfir einkahutafélög, hlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, samlagsfélög o.fl.


Í ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá eru talin upp í 12 töluliðum þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en þar segir m.a. að skrá skuli upplýsingar um heiti. Fyrirtækjaskrá ber því að skrá upplýsingar um heiti félaga og skal skráningin vera í samræmi við þær réttarheimildir sem gilda um skráninguna og viðkomandi félag.
Fyrirtækjaskrá gegnir hlutverki skrásetningarvaldsmanns sbr. ákvæði 1-4. gr. firmalaga og ber því m.a. að tryggja firmanöfnum sem besta réttarvernd. Í máli þessu er uppi sú staða að fyrirtækjaskrá barst krafa hinn 13. september 2021 um afskráningu firmaheitis kæranda sem skráð var í fyrirtækjaskrá hinn 20. janúar 2016. Í ljósi lögbundins hlutverks fyrirtækjaskrár um skráningu firmaheita í fyrirtækjaskrá sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá og alls þess sem að framan greinir ber skránni að tryggja að skráning firmaheitis sé í samræmi við þær reglur og fyrirmæli laga sem um skráninguna gilda s.s. með því að hafna skráningu ófullnægjandi tilkynninga eða taka til meðferðar andmæli sem berast við þegar skráðum tilkynningum sbr. 1-2. mgr. 3. gr. firmalaga og 1. mgr. 124. gr. laga um einkahlutafélög.

Hvað varðar málsástæðu kæranda um að ágreiningur sá sem um ræðir ætti með réttu að heyra undir Örnefnanefnd sbr. 2. máls. 8. gr. firmalaga skal tekið fram að ákvæðið sem vísað er til fjallar um ágreining er varðar örnefni, sbr. núgildandi lög um örnefni, nr. 22/2015. Í ljósi þessa og með vísan til alls framanritaðs fellst ráðuneytið ekki á það með kærendum að sá ágreiningur sem um ræðir heyri ekki undir fyrirtækjaskrá.


Úrskurðarorð
Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar fyrirtækjaskrár, dags. 17. febrúar 2022, um að taka nafnið [B] ehf. af skrá, þar til niðurstaða ráðuneytisins um stjórnsýslukæruna liggur fyrir.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta