Akureyrarkaupstaður: Ágreiningur um ráðningu verkefnastjóra
Ár 2011, þann 6. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. IRR 11020279
Björk Sigurgeirsdóttir
gegn
Akureyrarkaupstað
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru dagsettri 9. febrúar 2011, kærði Björk Sigurgeirsdóttir (hér eftir nefnd BS), ákvörðun um ráðningu í starf verkefnastjóra atvinnumála hjá Akureyrarkaupstað. Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði að umrædd ráðning sé ólögmæt.
Kæran er borin fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvaða dag hin kærða ákvörðun var tekin en hins vegar verður af þeim ráðið að það hafi verið í lok október eða í upphafi nóvember 2010. Jafnframt liggur fyrir að BS óskaði rökstuðnings vegna ákvörðunarinnar og barst hann með bréfi, dags. 12. nóvember 2010. Í þeim tilfellum sem aðili máls óskar rökstuðnings skv. 21. gr. stjórnsýslulaga byrjar kærufrestur ekki að líða fyrr en rökstuðningurinn hefur verið kynntur honum, sbr. 3. mgr. 27. gr. laganna. Kæran barst ráðuneytinu með tölvubréfi þann 9. febrúar 2011 og er því ljóst að kæra var fram borin innan hins lögmælta kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Þann 20. ágúst 2010 var auglýst laust til umsóknar starf verkefnastjóra atvinnumála hjá Akureyrarkaupstað og var umsóknarfrestur til 30. ágúst sama ár. Umsækjendur um stöðuna voru alls 48 talsins en þar af voru 15 boðaðir í viðtal og 5 í annað viðtal og var BS ein af þeim. Að lokinni annarri umferð viðtala var það niðurstaða starfshóps Akureyrarstofu og framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að ráða Sævar Pétursson (hér eftir nefndur SP) í stöðuna.
BS óskaði í kjölfarið eftir rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar og barst hann með bréfi, dags. 12. nóvember 2010, þar sem gerð var nánari grein fyrir þeim umsækjanda er starfið hlaut og útskýrðar þær forsendur sem að baki ákvörðuninni lágu.
Með tölvubréfi, dags. 9. febrúar 2011, kærði BS umrædda ákvörðun til ráðuneytisins og bárust ráðuneytinu viðbótargögn frá henni með tölvubréfi þann 10. febrúar 2011. Með bréfi, dags. 14. febrúar 2011, óskaði ráðuneytið umsagnar Akureyrarbæjar um kæruna og afrits af gögnum málsins. Bárust umbeðin gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 14. mars 2011.
Með bréfi, dags. 17. mars 2011, gaf ráðuneytið BS færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar Akureyrarkaupstaðar og bárust slík andmæli ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 31. mars 2011.
Með bréfi, dags. 8. apríl 2011, óskaði ráðuneytið frekari upplýsinga frá sveitarfélaginu, einkum um upplýsingar sem kynnu að hafa komið fram munnlega við meðferð málsins og skráðar hefðu verið niður. Bárust ráðuneytinu gögn þar að lútandi með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Með bréfi, dags. 3. maí 2011, gaf ráðuneytið BS færi á að gæta andmælaréttar vegna þeirra gagna. Barst andsvar BS þar að lútandi ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 20. maí 2011.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök BS
BS tekur fram að ein grundvallarregla stjórnsýsluréttar feli í sér að ávallt skuli ráða hæfasta umsækjandann sem völ sé á í störf sem til umsóknar eru hjá opinberum aðilum og sé það staðfest með áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 382/1991. Þar komi fram að gerðar séu auknar kröfur til menntunar og starfsreynslu og að hæfustu einstaklingarnir skuli valdir til starfa án kynferðis. Telur BS að svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki og framhjá sér gengið.
Af hálfu BS kemur fram að í rökstuðningi starfshóps um atvinnumál hjá Akureyrarbæ segi að ákvörðun um veitingu á starfi feli jafnan í sér val milli tveggja eða fleiri umsækjenda þar sem leitast sé við að velja hæfasta umsækjandann í tiltekið starf. Þegar mál það sem hér er til umfjöllunar hafi verið skoðað í heild sinni þá hafi það meginsjónarmið starfshópsins verið ráðandi við val á SP umfram þá tvo sem einnig hafi komið vel til álita, að hann hefði menntun sem nýtist í starfið. Við þessa niðurstöðu getur BS ekki unað enda telur hún gróflega á sér brotið sem hæfari umsækjanda.
BS tekur fram að bæði hún og sá sem var ráðinn í stöðuna hafi háskólamenntun, B.Sc. í viðskiptafræði, en til viðbótar hafi hún lokið 90 einingum í Aarhus School of Buisness þar sem hún hafi lagt stund á árangursstjórnun (Buisness Performance Management). Þá hafi hún setið fjölda námskeiða sem tengjast atvinnuþróunarmálum sem nýtist beint í þeim geira.
Í starfsauglýsingu hafi verið tekið fram að reynsla af sambærilegum störfum væri kostur og í rökstuðningi starfshópsins segi að SP hafi beina reynslu af uppbyggingu fyrirtækja en einnig reynslu sem starfsmaður sveitarfélags. Eins og sjá megi í yfirliti yfir starfsreynslu beggja aðila, sem fylgir með kæru BS, hafi hún mun ríkari reynslu af sambærilegum störfum og því sem auglýst hafi verið. Vill hún í því sambandi sérstaklega benda á starf sitt sem verkefnastjóri hjá Þróunarfélagi Austurlands, sem ráðgjafi fyrir fyrirtæki, frumkvöðla og sveitarfélög og sem framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings Austurlands, þar sem hún hafi leitt fyrrnefnda aðila til samstarfs. Einnig bendir BS á þá þekkingu sem hún hafi öðlast á atvinnulífi á Eyjafjarðarsvæðinu sem verkefnastjóri mennta- og rannsóknaklasa Eyjafjarðar fyrir hönd Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) auk starfa við rannsóknir og greiningu fyrir hönd rannsóknastofnunarinnar.
Að auki sé ljóst að það sé tvennt ólíkt að hafa reynslu af sambærilegum störfum, eins og talað sé um í atvinnuauglýsingunni, eða að hafa reynslu af því að starfa fyrir sambærilegan vinnuveitanda eins og komi fram í rökstuðningi. Telur BS það því rangt mat samstarfshóps um atvinnumál hjá Akureyrarkaupstað að reynsla SP og fyrri verkefni nýtist betur en hennar í því að leita leiða til að efla atvinnulíf í sveitarfélaginu, kortleggja það og greina auk þess að móta stefnu bæjarins varðandi atvinnumál og samskipti við fyrirtæki á Akureyri.
Eitt þeirra atriða sem litið hafi verið til við ráðningu í starfið hafi samkvæmt rökstuðningi starfshópsins verið innsýn í atvinnulíf eða eins og segi í rökstuðningnum: ,,Hér var horft sérstaklega til reynslu og beinnar aðkomu að rekstri og uppbyggingu fyrirtækja, en einnig þekkingar á atvinnulífi á Akureyri.“ Í rökstuðningi starfshópsins sé einnig litið til tölvukunnáttu umsækjenda. Þar hafi verið spurt sérstaklega um reynslu af sjálfstæðri vinnu við greiningu hrárra upplýsinga og talnaefnis og getu til að setja fram slíkar upplýsingar á skiljanlegan hátt.
BS hafi verið eigandi í Andy's Carpet Cleaning um sjö ára skeið og tekið fullan þátt í rekstri og uppbyggingu þess fyrirtækis á því tímabili. Þar að auki hafi hún eins og fram hafi komið í gegnum starf sitt sem verkefnastjóri mennta- og rannsóknaklasa Eyjarfjarðar, öðlast yfirgripsmikla þekkingu á atvinnulífi Akureyrar og nágrenni. Hvað varði hæfileika hennar til að vinna og greina talnaefni á sjálfstæðan hátt og setja slíkar upplýsingar fram á skiljanlegan hátt þá telji hún nægilegt að líta þeirrar þekkingar og reynslu sem hún hafi öðlast í þeim störfum sem þegar hafi verið talin upp. Geti hún því til staðfestingar t.a.m. bent á útgefið efni á heimasíðu Háskólans á Akureyri.
Þá segi í rökstuðningi starfshópsins: ,,Ekki síður þótti mikilvægt að eftirtaldir þættir sem komu vel fram í viðtölum voru einnig studdir umsögnum: skipulagshæfileikar, hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæði og frumkvæði. Það var því heildarmynd af umsækjandanum fremur en einn einstakur þáttur sem réði úrslitum. Sú hæfni sem [SP] býr yfir þykir nýtast vel í starfinu og koma vel heim og saman vð þarfir Akureyrarbæjar með hliðsjón af verkefninu.“
Þarna séu nokkrir matskenndir þættir taldir SP í hag. BS telur hins vegar að hún geti a.m.k. jafnað SP á flestum ef ekki öllum þessum sviðum. Á starfsferli sínum hafi hún þurft að beita miklu skipulagi og átt í stöðugum samskiptum við fólk í tengslum við þau verkefni sem hún hafi unnið að hverju sinni með góðum árangri. Þá hafi hún stöðugt þurft að vera sjálfstæð í vinnubrögðum og sýna mikið frumkvæði enda hafi hún t.d. haft umsjón með 40-50 verkefnum á hverju ári sem framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings Austurlands og verkefnisstjóri Þróunarfélags Austurlands og komið að a.m.k. 150 verkefnum á ferli sínum þar.
Þá bendir BS á að í starfsauglýsingu séu tvær frumforsendur fyrir mati á hæfni umsækjenda samkvæmt grundvallarreglu í stjórnsýslurétti, menntun og starfsreynsla, taldar upp sem kostir. Það megi túlka sem svo að þessir lykilþættir séu í raun jafnvel ekki veigamiklir þegar allt komi til alls. Þetta skjóti skökku við þegar svo skýrt sé kveðið á um þessi atriði í starfsmannalögum.
Í andmælum sínum við umsögn Akureyrarkaupstaðar vill BS taka fram að þótt í umsögninni komi fram að háskólamenntun hafi ekki ráðið úrslitum við ráðningu í starfið þá hafi hún á setið fjölda námskeiða sem tengist atvinnuþróun sérstaklega og ætti því að vera metin hæfari í þessum lið.
Þá viðurkenni Akureyrarkaupstaður að BS hafi mikla yfirburði hvað varði reynslu af sambærilegum störfum en vísi jafnframt í reynslu SP af störfum fyrir sveitarfélag en ekki hafi verið óskað eftir reynslu af því að starfa fyrir sambærilegan vinnuveitanda í auglýsingu og því ætti það ekki að skipta máli í þessum tilfelli. Fyrir utan þá staðreynd að í auglýsingu sé ekki krafist reynslu af störfum fyrir sveitarfélag þá megi spyrja hvað sé svo einstakt við það að starfa hjá sveitarfélagi að það sé metið sem sérstök hæfni? Hvernig sé sú reynsla skilgreind og af hvaða eðlisþáttum markist hún?
Í umsögn Akureyrarkaupstaðar sé lögð áhersla á mikilvægi þess sem hluta af forsendum ráðningarinnar að sá sem ráðinn hafi verið hafi reynslu af uppbyggingu fyrirtækja og myndi þannig mótvægi við þá reynslu sem þegar sé til staðar hjá Akureyrarstofu. Samkvæmt ferilskrá sé þessi reynsla bundin við atvinnurekstur í tengslum við líkamsrækt og íþróttaiðkun sem segja megi að sé á afar þröngu sviði atvinnulífs og erfitt að sjá að slíkt veiti yfirgripsmikla og góða innsýn í atvinnulíf. Einnig sé vert að benda á að hvergi í atvinnuauglýsingu hafi verið tekið fram að reynsla af stofnun og rekstri fyrirtækja væri æskileg né hún spurð um hana í starfsviðtali.
Í því ljósi telur BS jafnframt rétt að taka fram að hún hafi einnig stofnað og rekið eigið fyrirtæki. Þá hafi hún komið í meira eða minna mæli að eflingu og hvatningu til samstarfs hjá eitt hundrað fyrirtækjum í velflestum geirum atvinnulífsins sem framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings Austurlands og þar á undan sem verkefnisstjóri hjá Vaxtarsamningi Eyjafjarðar, auk beinnar rekstrarráðgjafar fyrir einstök fyrirtæki sem ráðgjafi hjá Þróunarfélagi Austurlands.
Í umsögn Akureyrarkaupstaðar komi fram að reynsla BS sé góð en athugasemd sé gerð við að hún sé á því sviði sem þegar sé til staðar hjá Akureyrarstofu og sé í því sambandi horft til tveggja atriða. Annars vegar að öll nýleg reynsla hafi verið úr hinum opinbera geira en slík reynsla sé ráðandi hjá þeim sem nú starfi hjá Akureyrarstofu og hins vegar að flest verkefnanna sem unnin hafi verið á vegum Vaxtarsamnings Austurlands hafi verið á sviði ferðaþjónustu. Vissulega megi segja að þungi verkefna BS undafarin þrjú ár hafi tengst ferðaþjónustu en eins og sjá megi í ársskýrslum Vaxtarsamnings Austurlands fyrir árin 2008 og 2009 séu um 38% verkefna tengd þessari atvinnugrein og því augljóst að 62% starfsins hafi tengst öðrum atvinnugreinum. Í viðtalinu hafi BS verið spurð hvar þungamiðja verkefna Vaxtarsamnings Austurlands lægi og hafi svarið við því verið eins og tölurnar sýni að ferðaþjónusta sé þar stærra hlutfall en aðrar atvinnugreinar. Þá sé vert að benda aftur á reynslu BS af samstarfi við rúmlega eitt hundrað fyrirtæki í einkageiranum á starfsferli hennar við atvinnu- og samfélagsþróun undanfarin sex ár. Einnig hafi starfsreynsla hennar hjá RHA veitt umtalsverða innsýn í atvinnulíf eins og komi fram í röksemdafærslu í kæru hennar.
Þá bendir BS í þessu sambandi á úrskurð samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins frá 20. september 2010 í máli nr. 68/2009 en þar segi í 6. lið:
Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um það hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um veitingu á opinberu starfi þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa þau sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta.
Hvað varði skipulagshæfileika og hæfileika í mannlegum samskiptum þá sé tekið fram í umsögn Akureyrarkaupstaðar að hvorugur þátturinn hafi verið ráðandi við val á umsækjanda en þó tekið fram að sá sem ráðinn hafi verið hafi hlotið ,,afdráttarlausari jákvæða umsögn.“ Telur BS að hér væri gott að fá nánari útlistun á hvað felist í þessum orðum. Einnig hljóti þetta að vekja upp spurningar um trúverðugleika ráðningarferilsins þar sem þetta atriði virðist hafa haft mikið vægi við ákvarðantökuna og þá einkum í ljósi þess að í stjórnunarfræðum sé varað eindregið við trúverðugleika persónulegra umsagna.
Þá sé vert að benda á að í auglýsingu hafi komið fram krafa um að umsækjandi gæti hafið störf sem fyrst. Í ljósi þess að umsóknarfrestur hafi runnið út þann 30. ágúst 2010 en sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki hafið störf fyrr en í desember megi sjá að vikið hafi verið frá þeirri kröfu í ráðningarferlinu þar sem BS hafi tekið skýrt tekið fram að hún gæti þegar hafið störf. Telur BS því að röksemdafærsla sú sem sett sé fram um ráðninguna í greinargerð Akureyrarkaupstaðar standist ekki nánari skoðun og því ljóst að á henni hafi verið brotið þegar fram hjá henni hafi verið gengið við ráðningu í starf verkefnastjóra atvinnumála hjá Akureyrarkaupstað.
Sem fyrr segir óskaði ráðuneytið sérstaklega upplýsinga hjá Akureyrarkaupstað um atriði sem kynnu að hafa komið fram munnlega við meðferð málsins og skráð hefðu verið niður og var þar einkum átt við atriði sem komið hefðu fram í viðtölum og umsögnum. Gaf ráðuneytið BS sérstaklega færi á að gæta andmælaréttar vegna þeirra gagna.
Í því sambandi tekur BS m.a. fram að í starfsauglýsingu hafi komið fram að helstu verkefni starfsins væru eftirfarandi:
· Leita leiða til að efla atvinnulífið á Akureyri
· Kortlagning og greining á atvinnulífinu
· Móta stefnu bæjarins í atvinnumálum
· Samstarf við fyrirtæki á Akureyri
Ekki verði séð að SP hafi neina reynslu af sambærilegum störfum. Af ferilskrá BS megi hins vegar sjá að hún hafi mikla reynslu af öllum þessum þáttum. Telur hún því að við mat á reynslu af sambærilegum störfum hefði verið rétt að meta hæfni SP lægra. Einnig telur BS að við mat á heildarniðurstöðu hefði verið eðlilegt miðað við eðli þess starfs sem um ræðir að þessum þætti hefði verið gefið meira vægi en öðrum.
Hvað varði mat fulltrúa starfshópsins á skipulagshæfileikum umsækjenda þá telur BS að ekki séu fram komnar forsendur fyrir því mati að SP geti verið talinn hæfari varðandi þann þátt og að út frá framkomnum gögnum hefði verið rétt að meta þau jafnhæf í þessum lið. BS gerir ekki athugasemd við þann þátt er varðar sjálfstæði og frumkvæði enda byggi þau á huglægu mati og engin gögn liggi þar til grundvallar.
Hvað tölvufærni varði bendir BS á að í viðtali hafi hún sérstaklega verið spurð eins og komi fram í gögnum málsins um gagnavinnsluforritið SPSS sem hún hafi talsverða reynslu af auk fjölmargra annarra tölvuforrita. Engin gögn hafi hins vegar komið fram sem staðfesti mat á tölvufærni þess sem ráðinn var. Telur hún því að tölvufærni þess umsækjanda hafi verið ofmetin eða í besta falli ósönnuð á meðan tölvufærni hennar sé augljóslega vanmetin. Þá gerir BS ekki athugasemd varðandi þann þátt sem lýtur að því að viðkomandi þurfi að vera drífandi og kraftmikill einstaklingur enda um huglægt mat að ræða og engar forsendur komi fram í gögnum málsins.
Hvað varði innsýn í atvinnulíf/rekstur þá telur BS að niðurstaða matsins þar um sé röng. Innsýn SP varði fyrst og fremst rekstur og störf á sviði tómstunda og íþrótta. BS hafi aftur á móti auk rekstrarreynslu öðlast mun víðtækari sýn í atvinnulífið í heild sinni í gegnum starf sitt fyrir Vaxtarsamning Austurlands auk þess að vinna að uppbyggingu atvinnulífs á Eyjarfjarðarsvæðinu í gegnum starf sitt fyrir Vaxtarsamning Eyjafjarðar. Telur BS að niðurstaða matsins um þetta atriði hljóti að vera innsláttarvilla þar sem augljóslega megi sjá að hún hafi bæði sambærilega reynslu af uppbyggingu eigin fyrirtækis auk víðtækrar reynslu sem og reynslu af uppbyggingu atvinnulífs á sjálfu Eyjafjarðarsvæðinu. Hljóti stigagjöf til aðila að hafa víxlast og þó væri SP hátt metinn.
Þá gerir BS stórvægilegar athugasemdir við umsagnarferlið. Fyrst megi nefna að eðlilegt hefði verið að gefa umsækjanda tækifæri til andsvara við þau neikvæðu ummæli sem fram hafi komið. Þá sé gerð alvarleg athugasemd við þá óformlegu könnun sem gerð hafi verið sem og að ekki hafi verið gefið tækifæri til andsvara við þeim rógburði sem þar hafi komið fram. Telur BS ljóst við hvern hafi verið talað í hinni óformlegu könnun og vegna ástæðna sem ráðuneytið telur ekki ástæðu til að rekja hér með nákvæmum hætti geti val á þeim aðila í besta falli talist vafasamt og ljóst að umsögn hans geti aldrei talist sanngjörn né málefnaleg. Það sem gefi þessari athugasemd sinni aukið vægi sé að einum aðila í starfshópnum sem lagði mat á umsækjendur og framkvæmdi umrædda könnun, hafi mátt vera þetta ljóst.
IV. Málsástæður og rök Akureyrarkaupstaðar
Í umsögn Akureyrarkaupstaðar um kæru BS segir að í 63. gr. samþykktar um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp sveitarstjórnar, komi fram að embættismenn ráði forstöðumenn að fenginni umsögn viðkomandi fagnefndar. Verkefnastjórar hafi stöðu forstöðumanna samkvæmt samþykktinni. Samkvæmt 59. gr. samþykktarinnar heyri atvinnumál undir stjórn Akureyrarstofu. Framkvæmdastjóri Akureyrarstofu hafi því ráðningarvald að fenginni umsögn stjórnar Akureyrarstofu. Í þessu tilviki hafi stjórn Akureyrarstofu ákveðið að stofna starfshóp um stefnumótun í atvinnumálum sem jafnframt hafi verið framkvæmdastjóra Akureyrarstofu til aðstoðar við ráðningarferlið í stað þess að fela ráðningarstofu vinnuna.
Umsækjendur hafi verið 48 talsins. Fyrsta úrval hafi farið fram með þeim hætti að fulltrúar í stýrihópnum hafi lagt mat á umsóknir og við fyrsta mat hafi fyrst og fremst verið horft til reynslu umsækjenda af atvinnumálum, hvernig hún tengdist fyrirhuguðu starfi og hve löng hún hafi verið. Sameiginleg niðurstaða hópsins og framkvæmdastjóra Akureyrarstofu hafi verið að boða 15 umsækjendur í viðtöl.
Í viðtölum hafi verið kannaðir hefðbundnir þættir eins og styrkleikar og veikleikar að mati umsækjenda, samskiptahæfni, reynsla af greiningu talnaefnis, þátttaka í stefnumótunarverkefnum og almennt farið yfir reynslu og hæfni sem nýst gætu í starfinu. Að loknum fyrri viðtölum hafði það verið mat starfshópsins og framkvæmdastjóra að bjóða fimm umsækjendum til seinna viðtals.
Í seinna viðtali hafi verið farið enn dýpra ofan í þætti sem tengjast starfinu sjálfu, spurt um sýn umsækjenda til aðkomu sveitarfélaga að atvinnulífi, spurt sérstaklega um beina reynslu af af þátttöku í atvinnulífi og reynslu af samskiptum við stjórnendur fyrirtækja auk þess sem nánar hafi verið farið ofan í þætti eins og skipulagshæfileika og getu til sjálfstæðrar ákvarðanatöku. Í tengslum við undirbúning seinni viðtala hafi verið leitað til þeirra umsagnaraðila sem umsækjendur gáfu upp í umsóknum sínum.
Að loknu seinna viðtali hafi starfshópurinn og framkvæmdastjóri Akureyrarstofu í sameiningu valið þrjá umsækjendur sem hafi þótt skara fram úr. Að síðustu hafi verið bornar saman niðurstöður viðtala og umsagna ásamt því að fara í heild yfir mat á styrkleikum og veikleikum og gerður samanburður á þeim milli umsækjenda.
Í starfsauglýsingu hafi eftirtaldar hæfniskröfur komið fram:
- Háskólamenntun er kostur
- Reynsla af sambærilegu starfi er kostur
- Skipulagshæfileikar
- Hæfni í mannlegum samskiptum
- Sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum
- Góð tölvufærni
- Drífandi og kraftmikill einstaklingur með innsýn í atvinnulíf
Af hálfu Akureyrarkaupstaðar er tekið fram að við val á umsækjanda skipti máli hvaða kröfur séu gerðar í auglýsingu. Hæfniskröfur endurspegli þær væntingar sem gerðar hafi verið til verkefnastjórans í þessu tilviki. Þannig hafi háskólamenntun og reynsla af sambærilegum störfum eingöngu verið sett fram sem kostur en ekki skilyrði og sérstaklega hafi verið tiltekið að ein af hæfniskröfunum væri drífandi og kraftmikill einstaklingur með innsýn í atvinnulífið.
Með þessu hafi sveitarfélagið verið að gefa þeim tækifæri sem m.a. búi yfir reynslu af stofnun og rekstri fyrirtækja en ekki hafi mikla formlega menntun eða reynslu af störfum hjá hinu opinbera. Það hafi reyndar komið á daginn að einn af þeim þremur umsækjendum sem komið hafi til greina við lokaúrvinnslu umsókna hafi verið einstaklingur án háskólaprófs en með mikla reynslu af stjórnun fyrirtækja.
Með starfsauglýsingunni hafi því jafnt verið höfðað til þeirra sem hafa menntun og reynslu af sambærilegum störfum sem BS hafi uppfyllt en einnig til þeirra sem hafi reynslu af því að stofna og reka fyrirtæki eins og sá sem fyrir valinu varð. Með innsýn í atvinnulíf hafi ekki eingöngu verið höfðað til reynslu af störfum innan opinberrar stjórnsýslu, heldur ,,praktískrar” reynslu af því að hafa verið ,,hinum megin borðsins.“
Með vísan til hæfniskrafna hafi því verið lagðir að jöfnu umsækjendur sem höfðu reynslu af sambærilegum störfum innan stjórnsýslunnar og þeirra sem hafa reynslu af því að stofna og reka fyrirtæki á almennum vinnumarkaði. Áhersla á að fá starfsmann ,,af mörkinni“ hafi m.a. stafað af því að þeir starfsmenn sem fyrir séu á Akureyrarstofu hafi litla sem enga reynslu af því að reka fyrirtæki en því meiri reynslu af því að koma að uppbyggingu atvinnulífs frá sjónarhóli stjórnsýslunnar.
Í umsögn sveitarfélagsins er því næst vikið að þeim hæfniskröfum sem gerðar voru í auglýsingu og hvernig þau BS og SP voru metin samkvæmt þeim. Ekki hafi verið gert að skilyrði að umsækjendur hefðu háskólapróf en báðir þessir umsækjendur hefðu háskólapróf á sviði viðskiptafræði. Skortur á háskólaprófi hefði þó ekki útilokað að aðrir umsækjendur næðu jafnlangt. Háskólamenntun BS og þess einstaklings er starfið hlaut hefði því ekki ráðið úrslitum.
Reynsla af sambærilegum störfum hafi ekki verið gerð að skilyrði en segja megi að BS hafi reynslu af sambærilegum störfum sem verkefnastjóri hjá Þróunarfélagi Austurlands og framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings Austurlands. Sá sem hafi orðið fyrir valinu hafi hins vegar reynslu af að starfa sem stjórnandi innan stjórnsýslu sveitarfélags. BS hafi klárlega meiri reynslu af sambærilegum störfum en þar sem sú reynsla hafi ekki verið gerð að ótvíræðu skilyrði hafi það ekki ráðið úrslitum þegar valið var í starfið. Þar hafi m.a. verið horft til annars þáttar í hæfniskröfum sem sé innsýn í atvinnulíf.
Skipulagshæfileikar hafi verið metnir ámóta hjá báðum þessum umsækjendum en SP hafi þó fengið afdráttarlausari jákvæða umsögn á þessu sviði. Þessi þáttur hafi ekki verið ráðandi einn og sér. Hvað varði hæfni í mannlegum samskiptum þá hafi verið horft til reynslu og viðtala við umsækjendur og umsagnaraðila. Þessi þáttur hafi verið metinn álíka sterkur hjá báðum umsækjendum en SP hafi þó hlotið afdráttarlausari jákvæða umsögn á þessu sviði. Þessi þáttur hafi ekki verið ráðandi einn og sér. Hvað varði sjálfstæði og frumkvæði hafi verið horft til reynslu og viðtala við umsækjendur og umsagnaraðila. Ekki hafi verið gerður greinarmunur á BS og þeim sem starfið fékk að þessu leyti.
Tölvukunnátta hafi verið könnuð almennt en sérstaklega spurt um reynslu af sjálfstæðri vinnu við greiningu hrárra upplýsinga og talnaefnis og getu til að setja slíkar upplýsingar fram á skiljanlegan máta. Þegar á heildina hafi verið litið hafi ekki verið gerður greinarmunur á BS og SP þó að styrkleikar þeirra hafi að hluta legið á ólíkum sviðum.
Þá hafi verið gerð krafa um drífandi og kraftmiklan einstakling með innsýn í atvinnulíf. Er tekið fram af hálfu sveitarfélagsins að hér hafi almennt verið könnuð innsýn í atvinnulíf á Akureyri en sérstaklega horft til reynslu af beinni aðkomu að rekstri og uppbyggingu fyrirtækja. SP hafi verið metinn sterkari en BS að þessu leyti þar sem reynsla hans af uppbyggingu og rekstri fyrirtækja hafi verið meiri og nýrri en reynsla BS. Einnig hafi það vegið þungt að öll nýleg reynsla BS hafi verið úr hinum opinbera geira en slík reynsla sé ráðandi hjá þeim sem fyrir séu á Akureyrarstofu. Þá hafi og verið horft til þess að í viðtali við BS hafi komið skýrt fram að flest verkefnanna sem sem hún hafi unnið á vegum Vaxtarsamnings Austurlands hafi verið í tengslum við ferðaþjónustufyrirtæki. Slík vinna hafi verið ein af megináherslum í starfi Akureyrarstofu og þekking og reynsla á því sviði hafi byggst upp og sé til staðar. Það hafi því þótt kostur að sá sem starfið hlaut hafi haft ólíka reynslu en þá sem fyrir hafi verið á Akureyrarstofu en jafnframt reynslu af starfi hjá sveitarfélagi.
Þá tekur Akureyrarkaupstaður fram að ákvörðun um veitingu á starfi feli jafnframt í sér val milli tveggja eða fleiri umsækjenda þar sem leitast sé við að velja hæfasta umsækjandann í tiltekið starf. Þegar mál þetta hafi verið skoðað í heild sinni hafi þau meginsjónarmið verið ráðandi við val á SP umfram BS sem einnig hafi komið vel til álita, að hann hefði reynslu sem starfsmaður sveitarfélags og reynslu af því að vinna og greina talnaefni á sjálfstæðan hátt og setja fram á skiljanlegan máta. Ekki síður hafi þótt mikilvægt að eftirtaldir þættir sem hafi komið vel fram í viðtölum hafi einnig verið studdir umsögnum: skipulagshæfileikar, hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæði og frumkvæði. Það hafi því verið heildarmynd af umsækjandanum fremur en einn einstakur þáttur sem hafi ráðið úrslitum.
Sú hæfni sem SP búi yfir hafi þótt nýtast vel í starfið og komið heim og saman við þarfir Akureyrarkaupstaðar með hliðsjón af verkefninu. Þar sé m.a. horft til reynslu hans af því að stofna og reka fyrirtæki sem mótvægi við þá reynslu sem þegar sé til staðar hjá Akureyrarstofu. Reynsla BS sé góð en fyrst og fremst á því sviði sem þegar sé til staðar hjá Akureyrarstofu og teljist því ekki góð viðbót við þá reynslu sem starfsmenn búi nú þegar yfir. Ekki hafi reynt á ákvæði jafnréttislaga um jafna stöðu kynjanna við þessa ákvörðun þar sem meirihluti verkefnastjóra hjá Akureyrarkaupstað og á Akureyrarstofu séu konur.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
1. Ráðuneytið telur rétt þegar í upphafi málsins að víkja stuttlega að uppbyggingu stjórnkerfis Akureyrarkaupstaðar og hvernig ráðningarmálum er háttað í sveitarfélaginu með hliðsjón af því máli sem hér er til umfjöllunar. Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdastjóri Akureyrarstofu og sérstakur starfshópur er komið var á fót af stjórn Akureyrarstofu hafið annast ráðningu þá sem hér er deilt um.
Fjallað er um ráðningar starfsfólks sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 en þar segir í 1. mgr. 56. gr. að sveitarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veiti þeim lausn frá starfi. Í 2. mgr. 56. gr. segir svo að um ráðningar annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gefi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna. Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga er svo tekið fram að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ráðningarsamningum. Rétt er að taka fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 gilda ekki um starfsmenn sveitarfélaga.
Í samþykkt um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins, kemur m.a. fram í 59. gr. að bæjarstjórn kjósi stjórn Akureyrarstofu, sem telst ein af nefndum sveitarfélagsins skv. sama ákvæði, og skuli kjósa fimm aðalmenn og fimm til vara til setu í stjórninni. Í sama ákvæði kemur svo fram að nefndin fari með menningarmál, atvinnumál og málefni ferðaþjónustu ásamt kynningu og markaðssetningu bæjarfélagsins. Þá fari nefndin með störf stjórnar almenningsbókasafna.
Í 63. gr. samþykktarinnar kemur svo fram að bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar og að fenginni umsögn viðkomandi fagnefnda, ráði embættismenn sem heyri beint undir hann í skipuriti svo og framkvæmdastjóra fyrirtækja með sjálfstæðan fjárhag sem eru í eigu bæjarsjóðs. Embættismenn ráða forstöðumenn að fenginni umsögn viðkomandi fagnefndar. Embættismenn og forstöðumenn ráða aðra starfsmenn. Um Akureyrarstofu er svo nánar fjallað í samþykkt um stjórn Akureyrarstofu sem jafnframt er birt á heimasíðu sveitarfélagsins. Þar kemur m.a. fram í 13. gr. að bæjarstjóri ráði framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að fenginni umsögn stjórnar Akureyrarstofu. Framkvæmdastjóri ráði forstöðumenn að fenginni umsögn stjórnar Akureyrarstofu. Framkvæmdastjóri og forstöðumenn stofnana sem heyra undir stofuna ráði aðra starfsmenn.
Í umsögn Akureyrarkaupstaðar um kæru BS kemur fram að verkefnastjórar teljist hafa stöðu forstöðumanna skv. samþykktinni. Var það því á verksviði framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að ráða í stöðu verkefnastjóra atvinnumála að fenginni umsögn stjórnar Akureyrarstofu. Í því tilfelli sem hér um ræðir ákvað stjórn Akureyrarstofu að stofna starfshóp um stefnumótun í atvinnumálum sem jafnframt var framkvæmdastjóra Akureyrarstofu til aðstoðar við ráðningaferlið. Í fundargerð 76. fundar stjórnar Akureyrarstofu þann 23. júní 2010 segir þannig m.a. eftirfarandi um lið 7:
7. Starfshópur Akureyrarstofu um atvinnumál
2010060120
Lögð fram tillaga að skipun starfshóps um atvinnumál sem skipaður verði fulltrúum allra framboða í bæjarstjórn og drög að erindisbréfi fyrir hópinn.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa starfshóp um atvinnumál og að í honum sitji fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn. Stjórnin samþykkir fyrirliggjandi erindisbréf fyrir hópinn og óskar eftir því við bæjarráð að það heimili að ráðinn verði sérstakur starfsmaður að tillögu starfshópsins, sem vinni að verkefnum hans.
Bæjarráð Akureyrarkaupstaðar samþykkti svo umrædda tillögu á 3235. fundi sínum þann 19. ágúst 2010. Telur ráðuneytið því að starfshópnum hafi með réttum hætti verið falið í umboði stjórnar Akureyrarstofu að koma með tillögu um og annast ráðninguna ásamt framkvæmdastjóra Akureyrarstofu. Er því ljóst að málið hlaut rétta meðferð innan stjórnkerfis Akureyrarkaupstaðar að þessu leyti. Rétt er að geta þess að með vísan til þess fyrirkomulags sem viðhaft var í því máli sem hér til umfjöllunar telur ráðuneytið það ekki hafa sérstaka þýðingu hvort stjórn Akureyrarkaupstaðar hafi sjálf veitt framkvæmdastjóra umsögn um umsækjendur, svo sem gert er ráð fyrir í samþykktum um stjórn Akureyrarstofu, enda ljóst að starfshópurinn starfaði í hennar umboði.
2. Þá telur ráðuneytið rétt að víkja því næst að þeirri málsástæðu BS að mat á umsækjendum hafi ekki byggst á málefnalegum grundvelli sem aftur hafi leitt til þess að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn í starfið.
Í umsögn Akureyrarkaupstaðar er rakið með greinargóðum hætti hvernig ráðningarferlið fór fram og hvaða atriði voru ráðandi við val á umsækjanda. Þannig fóru fram tvær umferðir af starfsviðtölum og fengu umsækjendur sömu spurningar og verður ekki annað séð en að fram hafi farið heildstæður samanburður á umsækjendum svo sem rétt er. Þá skal þess getið að í 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, ber stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn máls og þær er ekki að finna í gögnum þess. Hefur verið litið svo á að af ákvæðinu leiði m.a. sú skylda að skrá niður þær upplýsingar sem koma fram í starfsviðtölum og umsögnum við ráðningar í opinber störf. Var þessa gætt af hálfu Akureyrarkaupstaðar í umræddu máli.
Það hefur verið talin meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að við veitingu opinberra starfa skuli leitast við að velja hæfasta umsækjandann um starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Þegar ekki er að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum leiðbeiningar um hvaða hæfniskröfur umsækjandi um starf skuli uppfylla er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun. Slík sjónarmið þurfa þó sem endranær að vera málefnaleg og lögmæt svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta (sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 382/1991, nr. 2701/1999, nr. 2793/1999, nr. 2862/1999). Þegar ekki er mælt fyrir um tiltekin hæfnisskilyrði í lögum eða öðrum reglum sem veitingarvaldshafi er bundinn af hefur hann því meira svigrúm en ella til að ákveða hvaða sjónarmiðum ákvörðun verður byggð á og hvert innbyrðis vægi þeirra skuli vera.
Ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um hæfnisskilyrði þeirra sem sinna starfi eins og því sem um ræðir í máli þessu en af gögnum málsins og umsögn Akureyrarkaupstaðar telur ráðuneytið ljóst að enginn einn þáttur hafi verið ráðandi við valið heldur hafi það byggst á heildarmati á umsækjendum. Var það þannig mat sveitarfélagsins að sú reynsla og þekking sem SP býr yfir hentaði þörfum sveitarfélagsins betur en reynsla BS. Eins og áður segir er meginreglan sú að stjórnvald ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðun um ráðningu sé ekki að finna leiðbeiningar um slíkt í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Verður enda að telja að viðkomandi ráðningarvaldshafi sé alla jafna í bestu aðstöðunni til þess að meta hvaða eiginleikum mikilvægast er að tilvonandi starfsmaður búi yfir og er það ekki hlutverk ráðuneytisins að endurskoða slíkt mat stjórnvalds eða hvaða ályktanir stjórnvald dregur um hæfni umsækjanda. Hefur stjórnvald því allnokkurt svigrúm við slíkt mat svo lengi sem það telst málefnalegt og byggist á lögmætum sjónarmiðum.
Að mati ráðuneytisins verður að telja það málefnalegt sjónarmið út af fyrir sig að velja umsækjanda eftir heildstætt mat og eftir atvikum að leggja áherslu á tiltekna þætti sem að mati ráðningarvaldshafa hentar viðkomandi starfi best á þann hátt sem gert var í því tilviki sem hér um ræðir. Að sama skapi telur ráðuneytið ekkert fram komið sem bendir til annars en að með þeirri málsmeðferð sem viðhöfð var í umræddu máli hafi verið stefnt að því að velja hæfasta umsækjandann í starfið. Á hinn bóginn verður að líta svo á að við ráðningu í starf beri stjórnvaldi skylda til að tryggja að öll málsmeðferð og undirbúningur sé framkvæmdur á forsvaranlegan hátt enda verður ekki talið að öðruvísi verði raunverulega upplýst um hver teljist hæfasti umsækjandinn að virtum þeim sjónarmiðum sem ákveðið er að leggja til grundvallar við ráðningu.
3. Þá telur ráðuneytið rétt að víkja næst að þeim athugasemdum er BS gerir við það umsagnarferli er fram fór en fyrir liggur að í tengslum við aðra umferð starfsviðtala var leitað umsagna þeirra aðila sem umsækjendur gáfu upp auk þess sem gerð var óformleg könnun. Af gögnum málsins verður ráðið að í þeirri óformlegu könnun sem gerð var varðandi hæfni BS hafi hún ekki fengið góða umsögn en ekki þykir ástæða til að rekja hana hér með nákvæmum hætti. Telur BS eðlilegt að henni hefði verið gefið tækifæri til að tjá sig um þau neikvæðu ummæli sem fram komu. Þá telur hún ljóst við hvern hafi verið talað í hinni óformlegu könnun og að val á þeim aðila geti í besta falli talist vafasamt og ljóst að umsögn þess aðila geti aldrei talist sanngjörn eða málefnaleg.
Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Verður því að telja að handhafa ráðningarvalds beri almennt að gefa umsækjanda um opinbert starf kost á því að kynna sér nýjar upplýsingar sem aflað hefur verið og hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og eru honum í óhag (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2787/999). Ráðuneytið telur ljóst að þær upplýsingar sem fram komu hjá umsagnaraðilum, þ.m.t. í óformlegum könnunum, hafi ekki haft úrslitaþýðingu við val á umsækjanda í því máli sem hér er til umfjöllunar. Hins vegar verður að líta svo á að telji stjórnvald nauðsynlegt að hafa samband við þá sem umsækjendur um störf vísa til sem meðmælenda eða umsagnaraðila eða aðra aðila, vegna fyrri starfa þeirra sé það byggt á því að stjórnvaldið telji þörf á slíku sem lið í rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 5949/2010 og 5959/2010).
Þegar litið er til atvika máls þessa verður ekki annað séð en að umsagnir umsagnaraðila hafi verið þáttur í heildarmati Akureyrarkaupstaðar á umsækjendum. Þannig er ljóst af gögnum málsins að a.m.k hafi verið horft til umsagna við mat á skipulagshæfileikum, hæfni í mannlegum samskiptum og sjálfstæði og frumkvæði. Er jafnframt tekið fram að SP hafi hlotið afdráttarlausari jákvæða umsögn á sumum þessara sviða. Þá hafi að síðustu verið bornar saman niðurstöður viðtala og umsagna, ásamt því að fara í heild yfir mat á styrkleikum og veikleikum og gerður samanburður á þeim milli umsækjenda.
Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið ekki útilokað að þær upplýsingar sem aflað var hjá umsagnaraðilum hafi haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þar af leiðandi hefði borið að gefa BS færi á að tjá sig um þær upplýsingar sem þar komu fram og voru henni í óhag. Var þeim mun mikilvægara að gæta að því þar sem Akureyrarkaupstaður framkvæmdi að eigin frumkvæði óformlega könnun sem BS var ekki kunnugt um þar sem kom fram mjög neikvæð umsögn. Er því óhjákvæmilegt að líta svo á að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti. Rétt er að taka fram að ráðuneytið telur ekki hafa sérstaka þýðingu í því sambandi við hvern var rætt í hinni óformlegu könnun enda verður að telja að framangreind skylda sé fyrir hendi óháð því hvaðan slík neikvæð umsögn kemur.
Í því ljósi er það niðurstaða ráðuneytisins að óhjákvæmilegt sé að telja hina kærðu ákvörðun Akureyrarkaupstaðar um ráðningu í starf verkefnastjóra atvinnumála ólögmæta enda getur stjórnvald sem veitir opinbert starf almennt ekki fullyrt að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn nema ákvörðun um ráðningu hafi verið undirbúin á forsvaranlegan hátt þannig að hún uppfylli skilyrði laga um undirbúning ákvörðunar. Með tilliti til þess er starfið hlaut verður hin kærða ákvörðun þó ekki felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Akureyrarkaupstaðar um ráðningu í starf verkefnastjóra atvinnumála er ólögmæt.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir
Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson