Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Reykhólahreppur: Ágreiningur um sölu vatnsveitu

 

Ár 2011 29. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli IRR10121590

Hafsteinn Guðmundsson

gegn

Reykhólahreppi

I.         Kröfur og kæruheimild

Þann 1. september 2010 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem Hafsteinn Guðmundsson (hér eftir nefndur HG) Læknishúsi í Flatey á Breiðafirði, kærði kvörðun hreppsnefndar Reykhólahrepps sem tekin var á fundi þann 20. maí 2010 að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar um rekstur brunns sem staðsettur er innan við Grænagarð í Flatey. Telur HG að ákvörðun hreppsnefndar sé ólögmæt og krefst hann þess að hún verði felld úr gildi. Þá gerir HG athugasemd við þá málsmeðferð Reykhólahrepps að svara ekki erindi hans er laut að beiðni um að kaupa fyrrgreindan brunn.

Kært er á grundvelli 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með tölvubréfi dags. 24. júlí 2009 til sveitarstjóra Reykhólahrepps ítrekuðu Hafþór Hafsteinsson og Lísa Kristjánsdóttir þá ósk HG að fá keyptan brunn í mýrinni fyrir neðan Grænagarð í Flatey. Í bréfi þeirra kemur fram að brunnmál í Flatey hafi tekið stakkaskiptum, sérstaklega yfir sumartímann, en örfá hús séu ekki tengd inn á vatnsveituna en það eru Læknishús, Sjávarslóð og Byggðarendi. Með tölvubréfi dags. 27. júlí 2009 til sveitarstjóra Reykhólahrepps er erindið áréttað en þá óska þeir Hafþór Hafsteinsson, búsettur á Sjávarslóð og Baldur Ragnarsson búsettur á Byggðarenda auk HG að kaupa brunninn í félagi. Með tölvubréfi dags. 18. ágúst 2009 er erindið ítrekað. Að sögn HG var beiðninni ekki svarað en hann hafði ítrekað samband við Reykhólahrepp haustið 2009 vegna málsins en var tjáð að sveitarstjóra og oddvita hefði verið falið að hafa samband við hann og þá sem málið varðaði til að lausnar þess. 

Í umsögn sveitarfélagsins dags. 8. desember 2010 til ráðuneytisins kom fram að svo virðist sem kauptilboði HG hafi aldrei verið formlega svarað af hálfu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafði tekið ákvörðun um að selja ekki brunninn en það sé óljóst hvers vegna sveitarstjóri, sem sá um öll samskipti við HG, tilkynnti honum ekki um þá ákvörðun formlega. Á síðari stigum málsins upplýsti sveitarfélagið hins vegar að komið hefði í ljós að á hreppsnefndarfundi þann 10. september 2009 hafnaði  hreppsnefnd Reykhólahrepps fyrrgreindu erindi HG. Var bókunin svofelld:

,,Erindinu hafnað, brunnurinn er ekki til sölu. Sveitarstjóra og oddvita falið að ræða við hlutaðeiganda aðila um framtíð Grænagarðsbrunnsins.”

Jafnframt upplýsti Reykhólahreppur að Hafþóri Hafsteinssyni og Lísu Kristjánsdóttur hefði verið ritað bréf þar sem þessi afstaða hreppsnefndar var kynnt þeim. Það bréf er dagsett 15. maí 2009, en að sögn Reykhólahrepps þá misritaðist ártalið í dagsetningu bréfsins en á réttilega að vera 2010 en ekki 2009. Lísa Kristjánsdóttir hafnar því að henni og Hafþóri hafi verið kynnt þessi afstaða hreppsnefndar og segir að fyrrgreint bréf hafi aldrei borist þeim og þau því ekki haft vitneskju um að hreppsnefnd hafi hafnað erindinu.  Þá hafi HG ekki verið tilkynnt um þessa afgreiðslu hreppsnefndar.

Með bréfi til Reykhólahrepps dags. 18. ágúst 2009 óskaði Vatnsveita Flateyjar eftir viðræðum við sveitarfélagið um að félagið tæki að sér umsjón með ,,Grænagarðsbrunni" í Flatey. Í bréfinu segir:

,,Forsagan er að Krákuvör, fjárhús Læknishúss, Stjórnarráðsbústaður, Grænigarður, Rarikbústaður, Sjávarslóð og frystihús eru tengd við Grænagarðsbrunn. Rekstur á brunninum hefur verið í höndum ábúenda en Reykhólahreppur hefur greitt rafmagn af dælu.

Á síðasta ári ákváðu eigendur Krákuvarvar, Grænagarðs, Rarik- og Stjórnarráðsbússtaða að tengjast Vatnsveitu Flateyjar og var lögð leiðsla frá dæluhúsi í þorpinu í þeim tilgangi. Jafnframt var lögð leiðsla frá Grænagarðsbrunni niður í dæluhús vatnsveitunnar til að hafa möguleika að tengja Grænagarðsbrunn við veituna. Við þessar breytingar verður Grænagarðsbrunnur ekki nýttur í bili af vatnsveitunni á sumrin þar sem allt vatn veitunnar er tekið úr tankinum á Tröllenda. Þetta eykur notagildi Grænagarðsbrunns fyrir þá sem standa utan Vatnsveitur Flateyjar á sumrin en yfir vetrartímann er hugmyndin að tengja brunninn inn á kerfi vatnsveitunnar.

Ýmis verkefni bíða varðandi Grænagarðsbrunn m.a. endurnýjun á tengi- og dæluhúsi auk þess að ganga frá þaki yfir brunninn sem er að hruni komið. Við teljum mikilvægt að einn aðili sé með ábyrgð á rekstri brunnsins jafnframt til að tryggja sjálfbæra nýtingu.

Í því ljósi að Grænagarðsbrunnur er orðinn hluti af veitukerfi Vatnsveitu Flateyjar er stjórn veitunnar reiðubúin að taka að sér rekstur brunnsins í umboði Reykhólahrepps. Við yfirtöku á brunninum yrði gegnið út frá núverandi notendum og kostnaði við endurnýjun og rekstur skipt á milli notenda á sanngjarnan hátt, með eða án þátttöku hreppsins. Nánari útfærsla á kostnaðarskiptingu yrði hluti af samkomulagi milli Vatnsveitunnar og hreppsins en öll samskipti við ábúendur vegna þessara breytinga yrðu á ábyrgð Reykhólahrepps.”

Í framhaldi af bréfi þessu hófust samningaviðræður milli vatnsveitu Flateyjar og Reykhólahrepps sem leiddu af sér eftirfarandi samþykkt í hreppsnefnd Reykhólahrepps þann 20. maí 2010:

,,Rekstur Grænagarðsbrunns í Flatey. Sveitarstjóra falið að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar um rekstur brunnsins á grundvelli þeirra samningsdraga sem liggja fyrir. Ekki skal innheimta stofngjald af þeim sem nú þegar eru tengdir brunninum.”

Þann 28. maí 2010 ritar Lísa Kristjánsdóttir tölvubréf til sveitarstjóra Reykhólahrepps þar sem lýst er yfir undrun vegna fyrrgreindrar bókunar hreppsnefndar og ítrekað að erindi HG frá því í júlí 2009 hafi ekki enn verið svarað.  Í lok bréfsins segir síðar:

,,Skal engan furða að óánægja ríki með þessi vinnubrögð og hljótum við að kalla á svör við þessu á allra næstu dögum.”

Svar barst ekki við þessu bréfi.

Með stjórnsýslukæru dags. 30. ágúst 2010 kærði HG þá ákvörðun hreppsnefndar Reykhólahrepps að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar um rekstur ,,Grænagarðsbrunns” og þá málsmeðferð er erindi hans o.fl. er laut að kaupum á fyrrgreindum brunni hlaut hjá sveitarfélaginu. Ráðuneytið staðfesti móttöku kærunnar 1. september 2010.

Með bréfi dags. 8. september 2010 ritaði ráðuneytið HG bréfi og óskaði nánari skýringa á tilteknum atriðum m.a. um ástæður þess að ekki var kært innan þriggja mánaða frá því að hin kærða ákvörðun var tekin. Var það bréf ítrekað 27. september 2010 og barst ráðuneytinu svar í tölvubréfi þann 8. október 2010.

Með bréfi dags. 12. október 2010 var Reykhólahreppi gefinn kostur á að veita umsögn vegna kærunnar auk þess sem óskað var skýringa á tilteknum atriðum. Þann 3. nóvember 2010 bárust ráðuneytinu athugasemdir hreppsnefndar Reykhólahrepps vegna bréfs ráðuneytisins. Þar sem það bréf innihélt ekki umbeðnar skýringar ráðuneytisins á tilgreindum atriðum þá hafði ráðuneytið þann 23. nóvember 2010 símasamband við sveitarstjóra Reykhólahrepps og ítrekaði beiðni sína. Ný umsögn Reykhólahrepps barst þann 9. desember 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. desember 2010 til HG var honum veittur andmælaréttur við umsögn Reykhólahrepps og bárust andmæli hans með tölvubréfi dags. 7. janúar 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 7. janúar 2011 var HG og lögmanni Reykhólahrepps tilkynnt að vegna anna í ráðuneytinu yrðu tafir á uppkvaðningu úrskurðar í málinu.

Með bréfi dags. 23. maí 2011 til lögmanns Reykhólahrepps óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum og bárust þær með bréfi dags. 30. maí 2011. Viðbótaupplýsinga var óskað með tölvubréfi dags. 6. júní 2001 og bárust umbeðnar upplýsingar í tölvupósti dags. 7. júní 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 1. júní 2011 til HG var honum veittur andmælaréttur við bréf sveitarfélagsins frá 30. maí 2011 og bárust andmælin með  tölvubréfi dags. 8. júní 2011.

Í málinu liggur fyrir umboð frá HG til Lísu Kristjánsdóttur.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök HG

Um ástæðu þess að ekki var kært fyrr segir HG að vilji hafi verið til þess að gefa hreppsnefndinni tækifæri á að rökstyðja mál sitt og gefa nýjum hreppsnefndarmönnum tækifæri á að hafa samband og kynna sér málið en eftir heimsókn hreppsnefndar þann 22. ágúst 2010 hafi hins vegar verið ljóst að enginn vildi taka ábyrgð og því hafi HG ekki séð sér annað fært en að kæra.

Ráðuneytið leitað eftir því við HG að hann upplýsti hvort að hann liti svo á að í tölvubréfi hans frá 28. maí 2010 hefði falist beiðni um rökstuðning við ákvörðun hreppsnefndar frá 20. maí 2010 um að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar. Í tölvubréfi dags. 8. október 2010 upplýsti Lísa Kristjánsdóttir f.h. HG að litið hafi verið á bréfið sem beiðni um rökstuðning. Þá kom fram í bréfinu að hreppsnefnd Reykhólahrepps hefði  komið í Flatey þann 22. ágúst 2010 þar sem málið hafi enn verið rætt við nefndina og henni afhent afrit af tölvubréfinu frá 28. maí 2010 og beiðni um svör verið ítrekuð á fleiri en einn hátt.

Í kæru HG kemur fram að umræddur brunnur hafi verið byggður 1984 þegar ,,Grænagarðsbrunnurinn” eyðilagðist vegna olíumengunar. Brunnurinn hafi verið hugsaður fyrir frystihúsið, fjárhúsin (Læknishús), bústaðina tvo (RARIK og Stjórnarráðið) og svo Grænagarð.  Einnig var brunninum ætlað að vera varabrunnur fyrir Læknishús og Byggðarenda ásamt Sjávarslóð eftir að það hús var byggt. Þá kemur fram hjá HG að brunnurinn hafi verið byggður af ábúendum Læknishúss sem lögðu til vinnu og sand en hreppurinn hafi lagt til sement, gröfu og mótatimur.

Þá telur HG að ákvörðun hreppsnefndar frá 20. maí 2010 gangi beinlínis gegn réttindum ábúenda en með henni sé brunnurinn afhentur sumarhúsaeigendum sem eru með gnægtir af vatni yfir allt sumarið. Telur HG það skjóta skökku við þegar hreppsnefndin þjóni frekar sumarhúsaeigendum heldur en lögheimilum og það á kostnað íbúa sveitarfélagsins.

HG telur jafnframt að sveitarfélagið hafi brotið stjórnsýslulög nr. 37/1993 við meðferð málsins og bendir í því sambandi á að það sé skylda stjórnvalds að svara erindum sem til þess er beint. Reykhólahreppur hafi hins vegar ekki svaraði margítrekuðu erindi hans og þar með hafi hreppsnefnd ekki virt rannsóknarreglu til undirbúnings ákvörðunar. Þá er því hafnað af hálfu Lísu Kristjánsdóttur að henni, Hafþóri Hafsteinssyni eða HG hafi verið kynnt sú afstaða hreppsnefndar er kom fram á fundi nefndarinnar þann 10. september 2009 að hafna erindi HG um að fá að kaupa ,,Grænagarðsbrunninn”. Segir hún að það bréf sem Reykhólahreppur haldi nú fram að sent hafi verið þeim Hafþóri þann 15. maí 2010 hafi aldrei borist þeim og þau því ekki haft vitneskju um að hreppsnefnd hafi hafnað erindinu. Jafnframt er fundið að því hvað langur tími leið frá því að hreppsnefndin tók ákvörðunina þ.e. 10. september 2009 og þar til að það bréf sem aldrei barst þeim er ritað, þ.e. um 8 mánuðir.

IV.       Málsástæður og rök Reykhólahrepps

Um aðalkröfuna.

Reykhólahreppur telur að engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en það hafi verið talið grunnskilyrði í sveitarstjórnarrétti að ákvarðanir sem kæranlegar séu á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 séu teknar í skjóli stjórnsýsluvalds. Bendir sveitarfélagið á að fræðimenn hafi skilgreint stjórnvaldsákvörðun svo að það sé þegar stjórnvald kveði einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Því séu ákvarðanir sem alfarið eru einkaréttarlegs eðlis almennt ekki kæranlegar. Máli sínu til stuðnings vísar sveitarfélagið til úrskurða félagsmálaráðuneytisins frá 9. ágúst 2001 og 18. maí 2005 en samkvæmt þessum úrskurðum séu ákvarðanir sveitarfélaga, m.a. um að ganga til samninga um eða ráðstafa beinum eða óbeinum eignarréttindum, ekki kæranlegar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Þá byggir Reykhólahreppur kröfu sína um frávísun á því að kæran hafi ekki borist innan kærufrests, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Ljóst sé að HG var í síðasta lagi kunnugt um ákvörðunina þann 28. maí 2010, sbr. tölvupóst Lísu Kristjánsdóttur til sveitarstjóra Reykhólahrepps þar sem fjallað er um ákvörðunina og vísað orðrétt í bókun hreppsnefndar um málið. Því sé ljóst að þann 30. ágúst hafi kærufrestur verið útrunninn og þ.a.l. beri á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá. Þá telur Reykhólahreppur ekki unnt að líta á bréfið frá 28. maí 2010 sem beiðni um rökstuðning í skilningi stjórnsýslulaga, a.m.k. verði ekki séð að þar sé krafist rökstuðnings á hinni kærðu ákvörðun um að heimila hreppsnefnd að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar.

Loks bendir Reykhólahreppur á að brunnurinn sem deila aðila snúist um sé á landi sem sé að fullu í eigu sveitarfélagsins og því sé beinn eignarréttur að brunninum óumdeilanlega í höndum sveitarfélagsins. Samkvæmt 1. gr. samningsins sé brunnurinn áfram í eigu sveitarfélagsins en vatnsveitan tekur að sér rekstur brunnsins og því beri að líta svo á að um þjónustusamning sé að ræða. Byggir Reykhólahreppur kröfu sína um frávísun m.a. á því að um þjónustusamning sé að ræða milli sveitarfélagsins og vatnsveitufélagsins en slíkir samningar falli utan úrskurðarvalds ráðuneytisins. Í því sambandi vísar sveitarfélagið til úrskurða félagsmálaráðuneytisins frá 22. ágúst 2003 og 6. október 2005.

Um varakröfuna.

Reykhólahreppur telur nokkuð óljóst hvert kæruefnið sé. Telur sveitarfélagið að tilboð HG um að kaupa brunninn og ákvörðun sveitarfélagsins um að samþykkja ekki það tilboð sé alls kostar ótengt þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að gera fyrrgreindan þjónustusamning við Vatnsveitu Flateyjar en samkvæmt samningnum sé vatnsveitufélaginu falið að sjá um rekstur brunnsins.  Brunnurinn sé í eigu sveitarfélagsins og mun verða það áfram. Það hafi ekki staðið til að selja brunninn og því hafi ekki verið orðið við tilboðum einstakra aðila sem fólu í sér yfirfærslu beins eignaréttar að honum. Afstaða sveitarfélagsins hafi byggst í meginatriðum á því að eðlilegt sé að öllum íbúum Flateyjar standi til boða að nota vatn úr brunninum ef þörf krefur en ekki að brunnurinn yrði seldur tilteknum íbúum til eignar. Telur sveitarfélagið þetta vera fullkomlega eðlilega og málefnalega ákvörðun af þess hálfu.

Í umsögn Reykhólahrepps kemur fram að ákvörðun hreppsnefndar þann 20. maí 2010 um að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar hafi byggst á því að eðlilegt þótti að aðeins ein vatnsveita væri rekin í Flatey. Þá sé í samningnum milli vatnsveitunnar og sveitarfélagsins ákvæði um að öllum íbúum standi til boða að nota vatn úr brunninum ef þörf krefur. Taldi hreppsnefndin að með þessu ákvæði væri hún að tryggja þeim íbúum sem þegar höfðu nýtt sér vatn úr ,,Grænagarðsbrunninum” áframhaldandi réttindi og að rekstur brunnsins væri á einni hendi.

Hvað málsmeðferðina varðar þá ákvað sveitarfélagið að ganga ekki að framkomnu kauptilboði HG með vísan til framangreindra ástæðna. Ítrekar sveitarfélagið þá afstöðu sína að þetta atriði hvorki tengjast né komi fyrrgreindum þjónustusamningi við með nokkrum hætti.

Þá byggir sveitarfélagið á því að stjórnsýslulög eigi ekki við um meðferð sveitarfélaga á tilboðum um einstakar eignir þar sem að ekki verði talið að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða í skilningi laganna. Því telur sveitarfélagið að reglur laganna um leiðbeiningarskyldu, andmælarétt og rökstuðning fyrir ákvörðun eigi ekki við í þessu tilviki. Verði hins vegar talið að lögin eigi við og að ekki hafi verið farið að settum reglum við meðferð kauptilboðsins er ítrekað að slíkt geti aldrei haft áhrif á lögmæti framangreinds þjónustusamnings.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Álitaefni máls þessa lýtur fyrst og fremst að ákvörðun hreppsnefndar Reykhólahrepps frá 20. maí 2010 þess efnis að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar um rekstur hins svokallaða ,,Grænagarðsbrunns”. Telur HG að ákvörðunin sé ólögmæt og krefst þess að hún verði felld úr gildi. Þá kvartar HG yfir því að sveitarfélagið hafi ekki svarað ítrekuðum erindum hans er lutu að ósk um að kaupa fyrrgreindan brunn.

1.         Úrskurðarvald. Grundvallarskilyrði þess að kæra sé tekin til úrskurðar er að kæruefnið heyri undir úrskuðarvald viðkomandi stjórnvalds. Sveitarfélagið heldur því fram að sú ákvörðun sem um er deilt í málinu sé ekki stjórnvaldsákvörðun og þ.a.l. geti umfjöllun ráðuneytisins ekki byggst á 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ráðuneytið telur ljóst að ákvörðun hreppsnefndar Reykhólahrepps um að ganga til samninga við Vatnsveitufélag Flateyjar um rekstur ,,Grænagarðsbrunnsins” teljist ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur er um að ræða ákvörðun einkaréttarlegs eðlis.

Ráðuneytið telur að þótt ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða þá gildi um meðferð málsins óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar sem til dæmis snerta undirbúning og rannsókn máls, skyldu til að byggja ákvarðanir í stjórnsýslu á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem gæta beri jafnræðis milli borgaranna. Styðst þessi afstaða ráðuneytisins við álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4478/2005, 2264/1997 og 1489/1995. Þá hefur ráðuneytið í úrskurðum sínum túlkað ákvæði 103. gr. sveitarstjórnarlaga rúmt og komist að þeirri niðurstöðu að það séu ekki eingöngu stjórnvaldsákvarðanir sem séu kæranlegar á grundvelli ákvæðisins.

Með hliðsjón af framangreindu er kröfu Reykhólahrepss um frávísun málsins á grundvelli þess að ekki sé um ræða stjórnvaldsákvörðun hafnað.

2.         Kærufrestir. Reykhólahreppur heldur því fram að vísa eigi kæru frá þar sem hún hafi borist eftir að kærufrestur var liðinn. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði stjórnsýslulaga, hvort sem um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða eða ekki. Í 1. mgr. 27. gr. er kveðið á um að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Þá segir í 3. mgr. 27. gr. að þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga þá hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið tilkynntur honum. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er heimild til að taka kærur sem berast að liðnum kærufresti til meðferðar, annars vegar þegar afsakanlegt er talið að kæra hafi ekki borist innan kærufrestsins og hins vegar ef veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þó skal ekki sinna kæru ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga

Hin kærða ákvörðun var tekin í hreppsnefnd Reykhólahrepps þann 20. maí 2010 og var kæra borin fram með bréfi, dags. 30. ágúst 2010, er barst ráðuneytinu þann 1. september 2010. Eins og að framan er rakið þá er hin kærða ákvörðun ekki stjórnvaldsákvörðun og þar af leiðandi bar hreppsnefnd Reykhólahrepps ekki að tilkynna hana sérstaklega.

Þar sem ekki er um stjórnvaldsákvörðun að ræða gilda ekki ákvæði 21. gr. stjórnsýslulaga um rétt aðila máls til þess að óska eftir rökstuðning við ákvörðun stjórnvaldsins. Ráðuneytið lítur því þannig á að erindi HG, dags. 28. maí, þar sem m.a. segir að ,,kallað sé á svör” sé erindi almenns eðlis sem sveitarfélaginu í samræmi við góða stjórnsýsluhætti hafi borið að svara sbr. umfjöllun í lið nr. 3 hér að aftan en í erindinu felist ekki beiðni um rökstuðning í skilningi 21. gr. stjórnsýslulaga.

Hin umdeilda ákvörðun var tekin á opnum fundi hreppsnefndar þann 20. maí 2010 og telur ráðuneytið að miða beri upphaf kærufrest við 21. maí 2010, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Hinn almenni þriggja mánaða kærufrestur var því liðinn þegar kæran barst ráðuneytinu. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir skýringum HG á því af hverju ekki var kært innan þriggja mánaða frá því að hin kærða ákvörðun var tekin. Telur ráðuneytið að skýringar HG um að hann hafi viljað gefa hreppsnefndinni tækifæri á að rökstyðja mál sitt og gefa nýjum hreppsnefndarmönnum tækifæri á að hafa samband og kynna sér málið hvorki uppfylla þau skilyrði að vera afsakanlegar né heldur telur ráðuneytið að fyrir hendi séu veigamiklar ástæður sem leitt gætu til þess að vikið sé frá hinni almennu reglu um þriggja mánaða kærufrest.

Með vísan til framangreinds er ljóst að kærufrestir voru liðnir þegar kæran barst ráðuneytinu þann 1. september 2010. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa máli þessu frá og kemur því ekki til frekari skoðunar hvort álitaefnið heyri að einhverju leyti undir úrskurðarvald ráðuneytisins.

3.         Erindi ekki svarað.     Kæra HG lýtur jafnframt að þeirri málsmeðferð Reykhólahrepps að svara ekki erindi hans dags. 24. júlí 2009. Engin kröfugerð er sett fram í því sambandi enda vandséð hvernig orðalag slíkrar kröfugerðar væri. Ráðuneytið telur samt sem áður rétt að brýna fyrir sveitarfélaginu að í íslenskum stjórnsýslurétti hefur sú óskráða meginregla verið talin gilda að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Ráðuneytið átelur þá málsmeðferð sveitarfélagsins sem það viðhafði við fyrrgreint erindi HG og beinir þeim tilmælum til Reykhólahrepps að sveitarfélagið hagi stjórnsýslu sinni í varðandi erindi sem því berast í samræmi við framangreinda reglu og góða stjórnsýluhætti. Tilmæli þessi eru sett fram á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga.

Vegna starfsanna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Kröfu Hafsteins Guðmundssonar um að ákvörðun hreppsnefndar Reykhólahrepps sem tekin var á fundi þann 20. maí 2010 um að ganga til samninga við Vatnsveitu Flateyjar um rekstur brunns sem staðsettur er innan við Grænagarð í Flatey sé ólögmæt er vísað frá ráðuneytinu.

Bryndís Helgadóttir

Hjördís Stefánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta