Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Mál nr. IRR11010562

 

Ár 2011, 24. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli IRR11010562

 

Gylfi Þór Þórisson

gegn

sveitarstjórn Reykhólahrepps

 

I.         Kröfur og kæruheimild

Þann 31. janúar 2011 barst innanríkisráðuneytinu stjórnsýslukæra dags. 29. janúar 2011 frá Gylfa Þ. Þórissyni (hér eftir nefndur GÞ). Í kæru er þess krafist að ráðuneytið úrskurði um eftirfarandi atriði:

-          hvort ákvörðun stjórnvaldsins um uppsögn/riftun ráðningarsamnings hafi verið lögmæt og

-          hvort ákvörðun stjórnvaldsins um ráðningu í starf sveitarstjóra hafi verið lögmæt þar sem ekki hafi verið valinn hæfasti umsækjandinn.

Þrátt fyrir orðalag kröfugerðar telur ráðuneytið að krafa GÞ lúti að því að ákvarðanir sveitarstjórnar Reykhólahrepps, annars vegar um að afturkalla fyrri ákvörðun sína þess efnis að ráða GÞ í starf sveitarstjóra og hins vegar að ráða Ingu Birnu Erlingsdóttur (hér eftir nefnd IBE) í starf sveitarstjóra Reykhólahrepps, verði úrskurðaðar ólögmætar.

Reykhólahreppur gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kæru segir að kært sé á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 103. gr. og 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Innanríkisráðuneytið telst ekki vera æðra stjórnvald gagnvart sveitarfélögum í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og á kæruheimild skv. 26. gr. þeirra því ekki við í þessu tilviki. Engin kæruheimild er í 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Kæran grundvallast því á 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Í stuttu máli eru málsatvik á þá leið að þann 9. ágúst 2010 auglýsti Reykhólahreppur eftir sveitarstjóra. GÞ sendi inn umsókn og var hann í framhaldi af því boðaður í viðtal þann 2. september 2010. Þann 8. september 2010 fékk GÞ símtal frá varaoddvita þar sem honum var tilkynnt að sú ákvörðun hefði verið tekin innan sveitarstjórnar að bjóða honum starfið. Á fundi sveitarstjórnar þann 9. september 2010 var eftirfarandi bókað:

„Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Gylfa Þór Þórisson. Oddvita og varaoddvita falið að ganga frá samningum við hann.“

Þann 10. september 2010 var GÞ boðaður á fund með oddvita og varaoddvita þar sem samið var um kaup og kjör. Þá var sama dag birt frétt á vef sveitarfélagsins þess efnis að GÞ hefði verið ráðinn nýr sveitarstjóri. Þann 12. september 2010 fékk GÞ símtal frá varaoddvita en í því kom fram að athugasemd hefði verið gerð við það að bú GÞ hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og þann 16. september 2010 móttók GÞ bréf lögmanns sveitarfélagsins þar sem sagði að forsendur fyrir ráðningu GÞ væru brostnar og því yrði ekki gengið til samninga við hann um stöðu sveitarstjóra.

Þann 20. september 2010 var haldinn fundur í sveitarstjórn Reykhólahrepps þar sem sú ákvörðun að ganga til samninga við GÞ um starfs sveitarstjóra var afturkölluð. Bókunin er svofelld:

„Á fundi hreppsnefndar 9. september sl. var oddvita og varaoddvita falið að ganga til samninga við umsækjandann Gylfa Þór Þórisson (GÞÞ) um stöðu sveitarstjóra. Áður en frá samningi var gengið fékk hreppsnefnd upplýsingar um að bú GÞÞ hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta í lok apríl sl., en umsækjandi hafði ekki látið þessa getið í umsókn sinni. Af þessum ástæðum ákveður hreppsnefnd að afturkalla ákvörðun sína um að ganga til samninga við GÞÞ. Hreppsnefnd mun að nýju fara yfir allar umsóknir um starfið með það að markmiði að velja þann hæfasta sem kostur er á.“

Með bréfi lögmanns sveitarfélagsins til lögmanns GÞ dags. 22. september 2010 var tilkynnt um bókunina hér að framan.

Í málinu liggur fyrir að oddviti sveitarfélagsins var einn af umsækjendum um starf sveitarstjóra og telur GÞ að það hafi gert oddvitann vanhæfan til þess að fjalla um málið. Samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins þá kom oddvitinn ekki að ráðningarferlinu fyrr en 9. september 2010, þ.e. þegar ákveðið var að ganga til samninga við GÞ en þá lá ljóst fyrir að oddvitinn kom ekki greina í starfið. Sveitarfélagið telur því að oddvitinn hafi ekki haft neina hagsmuni af þeirri ákvörðun sveitarstjórnar þann 20. september 2010 að afturkalla þá ákvörðun að ganga til samninga við GÞ og fara yfir umsóknir að nýju í því skyni að finna hæfasta umsækjandann. Hins vegar hafi sveitarstjórnin, til þess að taka af öll tvímæli, tekið málið fyrir að nýju á fundi 27. september 2010 þar sem gerð var svofelld bókun:

„Á fundi hreppsnefndar 20. þ.m. var ákveðið afturkalla fyrri ákvörðun um að ráða GÞÞ sveitarstjóra. Oddviti, Gústaf Jökull Ólafsson, tók þátt í þeirri ákvörðun. Gústaf Jökull var einn umsækjanda um starf sveitarstjóra. Þar sem fyrir lá á fundinum að Gústaf Jökull uppfyllti ekki þær kröfur sem hreppsnefnd gerði til umsækjenda, var litið svo á að hann hefði ekki hagsmuna að gæta við ákvörðun í málinu. Þar sem bornar hafa verið brigður á hæfi Gústafs Jökuls til að standa að ákvörðuninni 20. september s.l. ákveður hreppsnefnd að taka málið fyrir að nýju. Hreppsnefnd staðfestir einróma fyrrgreinda ákvörðun frá 20. september s.l. Samþykkt einróma.“

Lögmaður GÞ ritaði lögmanni sveitarfélagsins bréf dags. 6. október 2010 þar sem farið var yfir málið og þeirri skoðun gerð skil að sveitarfélagið hefði við meðferð málsins brotið alvarlega gegn stjórnsýslulögum, sveitarstjórnarlögum og meginreglum vinnu- og samningaréttar. Þá kom fram í bréfinu að nærtækt væri fyrir GÞ að kæra málið til ráðuneytisins og höfða skaðabótamál á hendur sveitarfélaginu fyrir dómstólum. Í bréfinu er síðan sett fram tillaga um sátt er fól m.a. í sér að Reykhólahreppur myndi greiða GÞ tæplega 2,7 milljónir króna auk þess sem sveitarfélagið myndi tilkynna um leiðréttingu á fyrri bókun þess og að sátt hefði tekist í málinu. Lögmaður sveitarfélagsins ritaði lögmanni GÞ bréf dags. 1. nóvember 2010 þar sem m.a. kom fram að sveitarfélagið teldi það ekki hafa brotið á rétti GÞ eða bakað honum tjón með saknæmum hætti og hafnaði þ.a.l. fyrrgreindum kröfum GÞ.

GÞ vildi ekki una þessu og kærði þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps að afturkalla fyrri ákvörðun sína þess efnis að ráða GÞ í starf sveitarstjóra til ráðuneytisins með bréfi dags. 29. janúar 2011. Bréfið var móttekið í ráðuneytinu þann 31. janúar 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 24. febrúar 2011 var Reykhólahreppi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi dags. 31. mars 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 1. apríl 2011 var GÞ send umsögn sveitarfélagsins og óskað eftir afstöðu hans til þess hvort kærufrestir væru liðnir og hvort undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga ætti við. Svar barst með bréfi dags. 4. maí 2011.

Með bréfi ráðuneytisins til lögmanns GÞ dags. 12. maí 2011 var óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til efnishliðar málsins. Svar barst þann 21. júní 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 1.júlí 2011 var GÞ send umsögn sveitarfélagsins og honum gefinn kostur á að gæta andmæla. Svar barst með bréfi dags. 29. júlí 2011.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður GÞ

Varðandi kærufrest.   

GÞ byggir á því að sú ákvörðun sveitarstjórnar sem miða beri við sé tekin 27. september 2010. Beiðni hans um rökstuðning sé dags. 6. október 2010, en það er innan 14 daga frestsins, sbr. 8. og 21. gr. stjórnsýslulaga. Engar formkröfur eru gerðar til beiðni um rökstuðning en GÞ bendir á að á þessum tíma hafi hann ítrekað verið í sambandi við sveitarstjórn og lögmann sveitarfélagsins en hafi engin eða takmörkuð svör fengið við fyrirspurnum sínum.

GÞ bendir á að skv. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga byrji nýr kærufrestur að líða eftir að rökstuðningur hafi verið tilkynntur. Stjórnvald hafi þá 14 daga til þess að svara en svarbréf frá lögmanni sveitarfélagsins við beiðni hans um rökstuðning barst ekki fyrr en með bréfi dags. 1. nóvember 2010. GÞ byggir á því að kærufrestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en hann fékk það bréf í hendur. Máli sínu til stuðnings vísar GÞ til 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að „þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum“” GÞ móttók bréfið nokkrum dögum eftir dagsetningu þess, en hann byggir á því að upphaf kærufrests beri að miða við það þegar bréf þetta barst honum eins og fyrr segir. Kærufresturinn sé því a.m.k. til 1. febrúar 2011 en stjórnsýslukæran var afhent ráðuneytinu þann 31. janúar 2011. Kæran hafi því verið borin fram innan tilskilins frests. sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Um nánari útreikning á upphafi frestsins vísar GÞ til 8. gr. stjórnsýslulaga.

GÞ byggir á því að kæran hafi borist innan tilskilins frest eins og rakið er hér að framan, en fari svo að ráðuneytið telji svo ekki vera þá telur GÞ að með tilliti til atvika málsins sé það fullkomlega afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. Byggir hann það á þeirri röksemd sem fram kemur í skýringum við 28. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, þar sem segir að ýmis mistök stjórnvalds við meðferð málsins geti réttlætt að kæra verði tekin til meðferðar að liðnum kærufresti. Í þessu sambandi bendir GÞ á að í bréfum lögmanns sveitarfélagsins til hans hafi hvorki verið leiðbeint um rétt hans til þess að fá rökstuðning fyrir ákvörðuninni né var honum leiðbeint um kæruleiðir. Þá telur GÞ að veigamiklar ástæður mæli ennfremur með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar en um mikla hagsmuni er að ræða fyrir hann auk þess sem hann telur að um ,,principmál“ sé að ræða sem geti haft mikið fordæmisgildi.

Varðandi efnishlið málsins.

GÞ heldur því fram að gerður hafi verið munnlegur ráðningarsamningur milli hans og Reykhólahrepps sem handsalaður hafi verið. Máli sínu til stuðnings vísar GÞ til þess að á heimasíðu sveitarfélagsins birtist frétt þann 10. september 2010 um að GÞ hefði verið ráðinn sveitarstjóri. Um bindandi samning hafi verið að ræða og skipti í því sambandi ekki máli hvort samningurinn var skriflegur eða munnlegur, enda ekki skilyrði í íslenskum rétti að ráðningarsamningar séu formbundnir.

Bendir GÞ á að í 55. gr. sveitarstjórnarlaga sé fjallað um hæfi sveitarstjóra en skv. ákvæðinu séu kröfur um almennt hæfi sveitarstjóra einungis þær að hann sé fjár síns ráðandi. En það að vera ,,fjár síns ráðandi“ þýði að bú viðkomandi sé ekki undir gjaldþrotaskiptum og hann hafi ekki verði sviptur fjárforræði af öðrum ástæðum. GÞ ítrekar að þegar hann sótti um starf sveitarstjóra hafi hann uppfyllt þetta skilyrði og geri það enn í dag. Staðreyndin er að bú hans var tekið til skipta fyrr á árinu en skiptalok voru þann 12. ágúst 2010. Hann var því „fjár síns ráðandi” þegar hann sótti um starfið.

GÞ heldur því fram að kominn hafi verið á bindandi ráðningarsamningur milli hans og Reykhólahrepps. Samningurinn hafi verið tímabundinn og því sé óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að um óheimila uppsögn/riftun á samningnum hafi verið að ræða, þar sem samningnum hafi í raun verið sagt upp á gildistíma hans. Telur GÞ að tilkynningu lögmanns Reykhólahrepps um að forsendur væru brostnar fyrir ráðningunni verði því að telja ólögmæta uppsögn eða riftun. Þá telur GÞ að rök sveitarfélagsins um að GÞ hafi orðið gjaldþrota fyrr á árinu og hafi þar af leiðandi ekki verið hæfur til að gegna starfi sveitarstjóra sé gróf mismunun á grundvelli efnahags. Ef rifta eigi samningi vegna efnahags viðkomandi þá sé um að ræða brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.  

Bendir GÞ á að við ráðningu í starf verði sveitarstjórn í öllu að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og þeim skilyrðum sem lögin setja. Það teljist til ómálefnalegra sjónarmiða að líta til persónulegra haga eða fjárhags umsækjanda en 11. gr. stjórnsýslulaga festi þá reglu í sessi.

Þá telur GÞ að sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Í kæru hans kemur fram að aðili innan sveitarstjórnarinnar hafi komið því á framfæri við aðra sveitarstjórnarmenn að bú GÞ hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og vegna þeirra upplýsinga hafi ráðningarsamningi hans verið rift. Í engu hafi verið sinnt umleitan hans um að fá að skýra mál sitt. Hafði hann samband við nokkra sveitarstjórnarmenn og lögmann sveitarfélagsins vegna þessa en ekki var orðið við beiðni hans. Sveitarstjórnin hafi því ekki leitast við að rannsaka þetta mál áður en hún tók ákvörðun í því og var honum hvorki gefið tækifæri til þess að tjá sig um þessar ásakanir né andmæla þeim. Bendir GÞ á að í 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sé að finna ákvæði þess efnis að stjórnvaldi beri að skrá upplýsingar sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Skylt er að hafa þetta sem undanfara þess að aðili máls fái andmælarétt að því er varðar framkomnar upplýsingar. Auk þess bendir GÞ á að hann hafi ekki fengið nægar upplýsingar fyrr en eftir að ákvörðun um uppsögn var tekin og því hafi sjónarmið hans og rök ekki legið fyrir við töku ákvörðunarinnar. Ákvörðun sem þessi er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun en skv. 12. gr. stjórnsýslulaga má stjórnvald einungis taka slíkar ákvarðanir þegar lögmætum markmiðum sem stefnt er að verður ekki náð með öðru og vægara móti. Telur GÞ því ljóst að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt í máli þessu.

Þá telur GÞ jafnframt að brotið hafi verið á andmælarétti hans í máli þessu. Ákvörðun sveitarstjórnar hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og þeim rökum að hann hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði 55. gr. sveitarstjórnarlaga án þess að hann hafi fengið tækifæri til þess að tjá sig um málið. Bendir GÞ á að efnisgrundvöllur andmælareglunnar sé að tryggja réttaröryggi þannig að stjórnvöld taki ákvarðanir sem eru byggðar á réttum upplýsingum. Bendir GÞ á að það sé skýrt að hann hafi hvorki fengið rétt til að andmæla né hæfilegan tíma eða tækifæri til að koma máli sínu á framfæri.

Þá bendir GÞ á að sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi ekki gætt þess meðalhófs sem stjórnvaldi beri að virða í málum sem þessum en í reglunni felst að stjórnvaldi er ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem athafnir stjórnvaldsins beinast að. Ljóst er að sveitarstjórn Reykhólahrepps hugaði ekki að þessu.

Þá byggir GÞ einnig á því að hann hafi verið ráðinn sem opinber starfsmaður og því fari um réttindi og skyldur hans skv. kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga. Þegar af þeirri ástæðu sé uppsögnin ólögmæt.

GÞ gerir athugasemd varðandi aðkomu og jafnframt hæfi oddvita sveitarstjórnar varðandi meðferð málsins en oddvitinn sótti sjálfur um starf sveitarstjóra og hafði því augljósa hagsmuni af því að koma GÞ úr starfi og auka þannig möguleika sína á nýjan leik á því að vera ráðinn sjálfur. Segir GÞ að oddvitinn hafi verið upphafsmaður að því að upplýsa sveitarstjórnarmennina um ,,meint vanhæfi“ GÞ auk þess að vera þátttakandi í meðferð málsins og umræðunum en slíkt verði að telja óheimilt skv. stjórnsýslulögum. Þá vísar GÞ jafnframt til 19. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti þegar mál varði hann eða nána venslamenn svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Bendir GÞ á að meginmarkmið hæfisreglnanna sé að stuðla að málefnalegri meðferð mála í stjórnsýslu sveitarfélaga og stuðla að nauðsynlegu trausti borgaranna á stjórnsýslunni.

GÞ byggir á því að hann hafi verið hæfasti umsækjandinn um stöðu sveitarstjóra, sbr. þá ákvörðun sveitarstjórnar að ráða hann til starfsins, en síðan hafi sveitarstjórn ákveðið að ráða annan til starfans. Af því leiði að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn til starfans, telur GÞ að málefnaleg sjónarmið s.s. um menntun og starfsreynslu hafi vikið fyrir ómálefnalegum sjónarmiðum um fjárhag hans en GÞ bendir á að hann hafi bæði lengri starfsreynslu og meiri menntun en sá sem ráðinn var í starfið. Þá bendir GÞ einnig á að í umsókn IBE er henni tíðrætt um að eiginmaður hennar reki Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum, en það gefi óneitanlega tilefni til að velta fyrir sér hvort þau tengsl hafi haft þýðingu við ráðningu hennar. Hafi sveitarstjórn látið slíkt hafa áhrif á mat sitt þá sé um mjög ómálefnaleg sjónarmið að ræða.

Varðandi þá fullyrðingu í umsögn sveitarfélagsins frá 18. júní 2011, að gætt hafi verið andmælaréttar gagnvart honum þar sem tilkynnt hafi verið að farið yrði yfir allar umsóknir á nýjan leik með það að markmiði að velja hæfasta umsækjandann tekur GÞ fram að hann hafi hvorki fengið slíkt bréf sent né að honum hafi verið gefinn andmælafrestur með formlegu bréfi.

Loks vitnar GÞ til álita umboðsmanns Alþingis þess efnis að stjórnvaldi beri að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið en það stjórnvald sem veitir stöðu hafi ekki frjálst val á milli umsækjenda þegar svo stendur á að fleiri en einn hæfur umsækjandi sækir um. Stjórnvaldinu beri að velja þann sem hæfastur er á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og aðra persónulega eiginleika sem máli skipta, sbr. álit umboðsmanns í máli nr. 4279/2004. Þá vísar GÞ jafnframt til álits umboðsmanns í málum nr. 4108/2004 og 2701/1999.

IV.       Málsástæður Reykhólahrepps

Um kærufrest.

Sveitarfélagið vísar til 27. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum.

Þá bendir sveitarfélagið á að ákvæði 21. gr. stjórnsýslulaga fjalli um það að aðili geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína ef rökstuðningur hefur ekki fylgt ákvörðun þegar hún var tilkynnt. Er í ákvæðinu skýrt fjallað um eftirfarandi rökstuðning ákvörðunar sem enginn rökstuðningur hefur fylgt í upphafi. Ákvörðun Reykhólahrepps um að ganga ekki til samninga við GÞ um stöðu sveitarstjóra hafi verið tilkynnt honum með rökstuddum hætti þann 16. september 2010.  

Telur sveitarfélagið að í bréfi lögmanns GÞ, dags. 6. október 2010, þar sem hann gagnrýndi meðferð málsins og gerði tillögu að skaðabótum til handa GÞ, hafi alls ekki falist krafa um rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga, auk þess sem erindið barst ekki innan 14 daga frá því að GÞ var tilkynnt ákvörðun sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 27. gr.

Reykhólahreppur bendir á að sú ákvörðun að ráða annan sveitarstjóra en GÞ hafi verið tekin þann 14. október 2010 og ráðningarsamningur við þann aðila undirritaður 22. október 2010. Kærufresturinn hafi því verið liðinn þegar kæran barst ráðuneytinu.

Krefst Reykhólahreppur þess að kærunni verði vísað frá á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga enda hafi ekki verið sýnt fram á að þau atvik sem greinir í 1. og 2. tölul. ákvæðisins hafi verið fyrir hendi.

Um efnishliðina.

Reykhólahreppur tekur fram að í auglýsingu um starf sveitarstjóra hafi ekki verið tilgreint sérstaklega hvaða hæfisskilyrði umsækjandi þyrfti að uppfylla, en ljóst að umsækjandi skyldi uppfylla almenn starfsskilyrði. Í umsókn GÞ er gerð grein fyrir persónulegum högum, menntun og fyrri störfum hans, þ. á m. reynslu af rekstri og fjármálum auk þess sem ítrekað er tekið fram í umsókninni að GÞ telji sig vel hæfan til að gegna starfi sveitarstjóra.

Á fundi sveitarstjórnar þann 9. september 2010 var oddvita og varaoddvita falið að ganga til samninga við GÞ um stöðu sveitarstjóra en áður en frá samningi var gengið fékk sveitarstjórn upplýsingar þess efnis að bú GÞ væri undir opinberum skiptum. Eftirgrennslan leiddi í ljós að GÞ hefði verið úrskurðaður gjaldþrota af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. apríl 2010. Reykhólahreppur bendir á að GÞ hafi í engu getið þessara mikilvægu upplýsinga í umsókn sinni, heldur þvert á móti látið að því liggja að hann stæði einkar framarlega vegna fjármálaþekkingar og reynslu af rekstri. Þannig leyndi GÞ sveitarstjórn mikilvægum atriðum sem máli skipta um hæfni og samanburð á umsækjendum.

Reykhólahreppur vísar til þess að um verksvið framkvæmdastjóra sveitarfélags er fjallað í 55. gr. sveitarstjórnarlaga, en í 3., 4. og 5. mgr. segi:

,,Framkvæmdastjóri er prókúruhafi sveitarsjóðs. Framkvæmdastjóra er heimilt að veita öðrum starfsmanni sveitarfélagsins prókúru að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Prókúruhafar sveitarsjóðs skulu vera fjár síns ráðandi.

Framkvæmdastjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.

Framkvæmdastjóri er æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið bendir á að í lagaákvæðinu er gerð skilyrðislaus krafa um að framkvæmdastjóri sé fjár síns ráðandi, en í því felist að bú hans megi ekki vera undir gjaldþrotaskiptum. Slík krafa sé eðlileg þar sem framkvæmdastjóri fer með prókúru sveitarsjóðs og sýslar þannig með opinbert fé auk þess sem meðal starfsskyldna hans er að undirrita skjöl sem fela í sér fjárhagsskuldbindingar og ráðstafanir eigna sveitarfélagsins.

Reykhólahreppur gerir athugasemd við þá staðhæfingu GÞ að skiptum á búi hans hafi í raun verið lokið þegar ráðningarferlið fór af stað því skiptalok hafi verið 20. ágúst 2010. Í Lögbirtingablaðinu þar sem m.a. skal birta úrskurði um töku búa til opinberra skipta og skiptaloka þrotabúa, en skiptalok á búi GÞ voru ekki auglýst þar fyrr en 20. september 2010 og miðast réttaráhrif skiptaloka við þann dag. Því sé ljóst að GÞ uppfyllti ekki skilyrði til þess að gegna starfi sveitarstjóra þegar umsókn hans var skilað inn og ráðningarferlið fór fram.

Reykhólahreppur telur að sveitarfélög hafi ekki frjálsar hendur um ráðningar sveitarstjóra eða annarra starfsmanna. Almennar stjórnsýslureglur leggja þá skyldu á sveitarfélög að þegar margir sækja um stöðu að ráða aðeins þann umsækjanda sem hæfastur er talinn. Telur sveitarfélagið að ráðning GÞ við framangreindar aðstæður hefði farið gegn þeirri grundvallarreglu að velja hæfasta umsækjandann og með ráðningu hans í starfið hefði verið brotið gegn öðrum umsækjendum.

Á grundvelli þeirra upplýsinga sem sveitarstjórn hafði um GÞ var sú ákvörðun tekin að hreppsnefnd myndi að nýju fara yfir allar umsóknir um starfið með það að markmiði að velja hæfasta umsækjandann. Sveitarfélagið segir að GÞ hafi komið til greina við það mat eins og aðrir umsækjendur og með því móti var gætt meðalhófs gagnvart honum. Þá var einnig gætt andmælaréttar með því að GÞ var tilkynnt að farið yrði yfir alla umsækjendur að nýju í því skyni að velja þann hæfasta.

Eftir að sveitarstjórn hafði að nýju farið yfir umsækjendur og metið hæfi þeirra var sú tillaga samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 14. október 2010 að ráða IBE í starf sveitarstjóra. Við það mat vó þungt reynsla hennar og þekking á sveitarstjórnarmálum í gegnum starf hennar sem skrifstofustjóri Hvalfjarðarsveitar svo og víðtæk þekking á tölvumálum, þ. á m. vef- og bókhaldsþekking.

Sveitarfélagið bendir á að það sé ekki viðunandi þegar ráðið sé í starf sem fylgja víðtækar fjárreiður með almannafé að bú viðkomandi hafi nýlega sætt gjaldþrotaskiptum. Í því sambandi megi benda á að víða í lögum megi finna ákvæði sem gera að skilyrði starfsgengis eða starfsréttinda að umsækjandi hafi fjárforræði og stundum gengið lengra og gert að skilyrði að bú viðkomandi hafi aldrei verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þar af leiðandi hafnar sveitarfélagið því algjörlega að það sé persónulegt mál GÞ hvort bú hans sé eða hafi nýlega verið undir gjaldþrotaskiptum og fráleitt að í því felist gróf mismunun á grundvelli efnahags að líta til fjárhagsaðstæðna þess sem fer með almannafé við mat á starfshæfni. Því var það heildstætt mat sveitarstjórnar þegar litið hafði verið til menntunar, starfsreynslu og persónulegra eiginleika umsækjenda að IBE væri hæfust þeirra til að gegna starfinu og í framhaldi af því var undirritaður ráðningarsamningur við hana.

Loks bendir Reykhólahreppur á, varðandi þá staðhæfingu GÞ um meint vanhæfi oddvita hreppsins til aðkomu að ráðningarferlinu, að oddvitinn kom ekki að ráðningarferlinu fyrr en 9. september 2010, en þá lá fyrir að hann kæmi ekki til greina í starfið. Umsókn hans var þar af leiðandi ekki meðal þeirra umsókna sem sveitarstjórn tók til skoðunar að nýju. Oddvitinn hafði því enga hagsmuni af þeirri ákvörðun sveitarstjórnar þann 20. september 2010 að afturkalla ákvörðun sína um að ganga til samninga við GÞ og fara yfir umsóknirnar að nýju í því skyni að finna hæfasta umsækjandann. Til þess að taka af öll tvímæli var þó ákveðið að taka málið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 27. september, en oddviti sat ekki þann fund, var fyrri ákvörðun staðfest á þeim fundi. Reykhólahreppur ítrekar þó þá afstöðu sína að oddvitinn hafi ekki verið vanhæfur við ákvarðanatökuna þann 20. september 2010, enda lá þá fyrir að hann var ekki lengur meðal umsækjenda.

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Deila aðila snýst í raun um tvö aðskilin ágreiningsefni þ.e.:

1.  Lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Reykhólahrepps að afturkalla fyrri ákvörðun sína

     þess efnis að ráða GÞ í starf sveitarstjóra.

2.  Lögmæti ráðningar í starf sveitarstjóra Reykhólahrepps.

Umfjöllun ráðuneytisins tekur mið af þessu.

1. Lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Reykhólahrepps að afturkalla fyrri ákvörðun sína þess efnis að ráða GÞ í starf sveitarstjóra.

Eitt af skilyrðum þess að kæra sé tekin til úrskurðar er að kært sé innan kærufrests en ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að því að kanna slíkt. Kæra þessi er sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3055/2000 en þar segir m.a.:

„Af þessu leiðir að mínu áliti að erindi sem berast ráðuneytinu á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga teljist stjórnsýslukærur þótt kærusamband frá sveitarfélagi til ráðuneytisins verði ekki byggt á almennri reglu 26. gr. stjórnsýslulaga. Þótt ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga sé ekki grundvöllur kærusambands frá sveitarfélagi til ráðuneytis leiðir það ekki út af fyrir sig til þess að önnur ákvæði stjórnsýslulaga um stjórnsýslukærur eigi ekki við um málskot á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis sveitarstjórnarlaga.“

Í fyrrgreindu áliti taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að frávísun ráðuneytisins væri byggð á ákvæðum 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga. Því er ljóst sbr. framangreint að ákvæði stjórnsýslulaga um kærufrest eiga við um stjórnsýslukærur sem berast ráðuneytinu á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í 1. mgr. 27. gr. er kveðið á um hinn almenna þriggja mánaða kærufrest sem hefst þegar aðila máls er tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Fari aðili fram á rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið kynntur honum, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. kemur svo fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Aðilar deila um það við hvaða tímamark miða eigi upphaf kærufrests við.

GÞ telur að stjórnvaldsákvörðun hafi fyrst verið tekin á fundi sveitarstjórnar þann 27. september 2010 en sú ákvörðun var ekki kynnt honum fyrr en með bréfi dags. 1. nóvember 2010. Þá telur GÞ að í bréfi hans dags. 6. október 2010 hafi falist beiðni um rökstuðning en því bréfi var ekki svarað af hálfu sveitarfélagsins fyrr en þann 1. nóvember 2010 og telur GÞ að frá þeim tíma, þ.e. 1. nóvember 2010, geti kærufresturinn fyrst byrjað að líða, þó að ljóst sé að bréfið hafi borist honum nokkrum dögum síðar. Kærufresturinn sé því a.m.k. til 1. febrúar 2011 en óumdeilt er að kæran barst ráðuneytinu þann 31. janúar 2011.

Reykhólahreppur telur að ákvörðunin um að ganga ekki til samninga við GÞ um starf sveitarstjóra hafi verið kynnt honum með rökstuddum hætti með bréfi dags. 16. september 2010 og frá og með þeim tíma hafi kærufresturinn byrjað að líða. Telur sveitarfélagið að 21. gr. stjórnsýslulaga eigi við í þeim tilvikum ef rökstuðningur hefur ekki fylgt ákvörðun þegar hún var tilkynnt aðila en um slíkt sé ekki að ræða í máli þessu og því eigi ákvæðið ekki við. Þá telur sveitarfélagið að í fyrrnefndu bréfi GÞ dags. 6. október 2010 hafi ekki falist krafa um rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem erindið barst ekki innan 14 daga frá því að GÞ var tilkynnt um ákvörðun sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Rétt er að geta þess að við vinnslu málsins skrifaði ráðuneytið lögmanni GÞ bréf dags. 12. maí 2011, þar sem sagði m.a.

,,Ráðuneytið hefur farið yfir gögn málsins og telur ljóst að með ákvörðun sinni þann 27. september 2010 þá afturkallaði sveitarstjórn Reykhólahrepps fyrri ákvörðun sína frá 20. september 2010 og tók í framhaldinu nýja ákvörðun sem var efnislega samhljóða hinni fyrri. Ákvörðunin frá 20. september 2010 sem kæranda var kynnt með bréfi dags. 22. september sl. er því ekki lengur í gildi og þar af leiðandi ekki unnt að binda nein réttaráhrif við hana. Upphaf kærufrests er því ekki unnt að miða við það tímamark þegar kæranda var sú ákvörðun kunn. Í málinu liggur fyrir að hin nýja ákvörðun frá 27. september sl. var ekki kynnt kæranda fyrr en með yðar bréfi yðar dags. 1. nóvember sl. Ekki er upplýst hvenær nákvæmlega bréf þetta barst kæranda eða lögmanni hans, en hvað sem því líður er óumdeilt að kæran barst ráðuneytinu 31. janúar 2011 og er hún því borin fram innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið mun þ.a.l. taka kæruna til meðferðar og óskar því eftir efnislegri umsögn Reykhólahrepps um kæruefnið.“

Við nánari skoðun ráðuneytisins á málavöxtum og gögnum málsins er ljóst að um misskilning af hálfu ráðuneytisins var ræða og ljóst að ákvörðunin frá 20. september var aldrei afturkölluð, hvorki með ákvörðuninni þann 27. september 2010 né annarri ákvörðun. Ályktun sú sem fram kemur í tilvitnuðu bréfi ráðuneytisins er varðar kærufrest er því röng og byggist niðurstaða ráðuneytisins þ.a.l. ekki á henni.

Ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps um að afturkalla fyrri ákvörðun um að ráða GÞ í starf sveitarstjóra var tekin á sveitarstjórnarfundi þann 20. september 2010 og áréttuð á fundi þann 27. september. Óumdeilt er að GÞ var tilkynnt um ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps með bréfi dags. 22. september 2010. Ráðuneytið telur ekkert það fram komið í málinu sem bendi til annars en að GÞ hafi borist það bréf nokkrum dögum síðar. Þá liggur fyrir að lögmaður sveitarfélagsins sendi GÞ bréf þann 16. september 2010 þar sem þessi afstaða sveitarstjórnar kom fram.

Ráðuneytið telur að það sé ákvörðunin frá 20. september 2010 sem sé sú ákvörðun sem miða ber upphaf kærufrests við en hún var tilkynnt GÞ með bréfi dags. 22. september 2010 eins og fyrr segir. Ákvörðunin frá 27. september var ekki afturköllun á fyrri ákvörðun einungis árétting á þeirri ákvörðun sem sveitarstjórn hafði þegar tekið og breytti hún henni í engu efnislega. Ákvörðunin frá 27. september var ekki tilkynnt GÞ sérstaklega enda innihélt hún ekki neina efnislega breytingu á fyrri ákvörðun. Kæran barst ráðuneytinu þann 31. janúar 2011 og var þá hinn almenni þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga liðinn.

Fari aðili fram á rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið kynntur honum, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið getur ekki fallist á þau rök GÞ að í bréfi hans frá 6. október 2010 felist beiðni um rökstuðning. Í bréfinu er hvergi óskað eftir rökstuðningi við hina umdeildu ákvörðun sveitarstjórnar heldur er þar sett fram fjárkrafa af hálfu GÞ til lausnar málsins. Þegar af þeirri ástæðu á 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga ekki við.

Kemur þá til skoðunar hvort undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við en í því felst að í ákveðnum tilvikum er heimilt að taka kæru til meðferðar þótt kærufresturinn sé liðinn. Annars vegar þegar afsakanlegt er talið að kæra hafi ekki borist innan kærufrestsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. og hins vegar ef veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar. Þó skal ekki sinna kæru ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Á grundvelli framangreinds er það skylda ráðuneytisins að leggja mat á það þegar kæra berst að liðnum kærufresti hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka kæruna til efnislegrar meðferðar.

Ráðuneytið sendi GÞ fyrirspurn í bréfi dags. 1. apríl 2011 þar sem óskað var eftir afstöðu hans til þess hvort undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga ættu við. Svar barst þann 5. maí 2011 með bréfi dags. 4. maí, þar sem ítrekað var að GÞ teldi að kæran hefði borist inna hins lögákveðna þriggja mánaða frests sem greinir í 27. gr. stjórnsýslulaga, en verði ekki fallist á það af hálfu ráðuneytisins taldi hann undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eiga við.

Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum segir að dæmi um tilvik sem falli undir 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga sé það þegar lægra sett stjórnvald hefur vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Þá er í skýringarriti um stjórnsýslulögin eftir Pál Hreinsson, Reykjavík, 1994, bls. 272, nefnt að ýmis mistök stjórnvalda við meðferð máls geti réttlætt að kæra verði tekin til meðferðar að liðnum kærufresti.

Í bréfi sveitarfélagsins til GÞ dags. 22. september 2010 þar sem honum er tilkynnt um þá ákvörðun sveitarstjórnar að afturkalla fyrri ákvörðun sína um að ráða hann í starf sveitarstjóra er ekki leiðbeint um kæruheimild. Ráðuneytið telur að við mat á því hvort það hafi þau áhrif að undantekningarákvæði 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. eigi við verði ekki fram hjá því litið að í bréfi lögmanns GÞ til lögmanns sveitarfélagsins dags. 6. október 2010 kemur skýrlega fram að hann sé að velta fyrir sér þeim möguleika að kæra málið til ráðuneytisins, en orðrétt segir:

,,Nærtækt er því að umbjóðandi minn kæri mál þetta til ráðuneytisins auk þess að fara í skaðabótamál á hendur hreppnum fyrir dómstólum.“

Verður ekki önnur ályktun dregin af þessu orðalagi en að GÞ hafi verið full kunnugt um að kæruheimild væri til staðar. Ráðuneytið telur því skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr ekki uppfyllt.

Ber því næst að kanna hvort undantekningarákvæði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við, þ.e. hvort fyrir hendi séu veigamiklar ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. GÞ telur að slíkar ástæður séu fyrir hendi, málið sé þess eðlis og um mikla hagsmuni hans sé að ræða. Í skýringarriti Páls Hreinssonar við stjórnsýslulögin (1994), segir á bls. 272 að ,,við mat á því hvort veigamiklar ástæður séu fyrir hendi beri að líta til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, t.a.m. hvort um ,,princip“-mál sé að ræða sem haft geti þýðingarmikið fordæmisgildi.“

Ráðuneytið telur að GÞ hafi ekki sýnt fram á það í málatilbúnaði sínum að um sé að ræða almannahagsmuni eða fordæmisgefandi mál sem réttlæti það að beita undantekningu 2. tölul. 28. gr. þannig að vikið sé frá meginreglunni í 27. gr. stjórnsýslulaga um þriggja mánaða kærufrestinn. Þá dregur ráðuneytið ekki í efa að það varði hann miklu að fá efnislega umfjöllun ráðuneytisins um ágreiningsefnið en telur þó að þeir hagsmunir séu ekki slíkir að undantekningarákvæðið eigi við. Tekið skal fram að ráðuneytið á ekki úrskurðarvald um önnur úrræði sem GÞ geta staðið til boða til að leita réttar síns, svo sem um bótaábyrgð og fébætur telji hann sveitarfélagið bera ábyrgð á fjártjóni sínu, þar sem slíkur ágreiningur á undir dómstóla.

Með vísan til framangreinds er ljóst að kærufrestir voru liðnir þegar kæran barst ráðuneytinu þann 31. janúar 2011 og telur ráðuneytið ekkert það fram komið sem réttlæti það að víkja frá almennu reglunni um þriggja mánaða kærufrest í 27. gr. stjórnsýslulaga og taka málið til efnismeðferðar. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa frá kröfu GÞ þess efnis að ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps, um afturköllun þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar er laut að því að ráða hann í starf sveitarstjóra, hafi verið ólögmæt.

2. Lögmæti ráðningar í starf sveitarstjóra Reykhólahrepps.

Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps þann 14. október 2010 tók sveitarstjórn þá ákvörðun að ganga til samninga við IBE um starf sveitarstjóra og þann 22. október 2010 var undirritaður ráðningarsamningur við hana. Telur GÞ sem var einn umsækjanda um starfið að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn og þar af leiðandi sé ráðningin ólögmæt. GÞ var ekki tilkynnt sérstaklega um þessa ráðningu en sveitarstjórn hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að afturkalla fyrri ákvörðun sína um að ráða hann í starfið, sbr. það sem rakið er hér að framan, og hafði honum sannanlega verið tilkynnt um þá afstöðu.

Óumdeilt er að GÞ var upphaflega einn af umsækjendum um starf sveitarstjóra sem og IBE. Þann 9. september 2010 tók sveitarstjórn Reykhólahrepps þá ákvörðun að ganga til samninga við GÞ um starf sveitarstjóra en sú ákvörðun var afturkölluð á fundi sveitarstjórnar þann 20. september 2010 eins og áður hefur verið rakið. Á þeim fundi var ákveðið að sveitarstjórn myndi fara á ný yfir fyrri umsóknir um starfið með það að markmiði að velja hæfasta umsækjandann. Í umsögn sveitarfélagsins frá 18. júní 2011 segir að GÞ hafi komið til greina við það mat. Því er ljóst að GÞ hafði beinna, sérstakra, verulegra og lögvarðra hagsmuna að gæta af ákvörðun um ráðningu í starf sveitarstjóra, því telur ráðuneytið að játa beri honum aðild að þeirri ákvörðun hreppsnefndar að ráða IBE í starf sveitarstjóra.

Eins og áður hefur verið rakið ber ráðuneytinu að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests, sbr. umfjöllun um kærufrest hér að framan. Af gögnum málsins verður ekki séð að GÞ hafi verið tilkynnt um þá ákvörðun sveitarstjórnar að ráða IBE í starfið. Af þeim sökum telur ráðuneytið að ekki liggi fyrir með skýrum hætti nákvæm dagsetning sem unnt er að miða upphaf kærufrests við en telur að skýra beri vafa um upphaf hans GÞ í vil og mun þar af leiðandi taka til efnislegarar umfjöllunar lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Reykhólahrepps að ráða IBE í starf sveitarstjóra.

Um hlutverk og ráðningu sveitarstjóra er fjallað í V. kafla sveitarstjórnarlaga en í 54. gr. laganna segir að sveitarstjórn sé heimilt að ráða framkvæmdastjóra sveitarfélags en engin ákvæði eru um hvernig að ráðningu hans skuli staðið. Aðdragandi að ráðningu sveitarstjóra getur þar af leiðandi verið mismunandi. Hann getur komið úr röðum kjörinna fulltrúa, hann getur verið ráðinn vegna stjórnmálaskoðana sinna og meirihluta sveitarstjórnar eða hann getur verið ráðinn með samstöðu allra eða flestra sveitarstjórnarmanna. Þá getur ráðningu hans borið að með ýmsum hætti, t.d. getur sveitarstjórn ákveðið að leita til tiltekins aðila eða ákveðið að auglýsa stöðuna.

Í 3. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um það að sveitarstjóri skuli sem prókúruhafi sveitarsjóðs vera fjár síns ráðandi en að öðru leyti eru ekki lögfestar hæfniskröfur til framkvæmdastjóra sveitarfélags. Sveitarstjórn er þannig í sjálfsvald sett að ákveða hvaða hæfniskröfur hún gerir til sveitarstjóra síns, hvaða kosti hún vill leggja til grundvallar vali sínu og hvernig hún kýs að standa að ráðningu hans. Að sjálfsögðu getur sveitarstjórn gefið til kynna t.d. með auglýsingu hvaða hæfniskröfur hún gerir. Það er mat ráðuneytisins með tilliti til eðlis sveitarstjórnarstarfsins að sveitarstjórn sé ekki bundin af slíku en starf sveitarstjóra er mikilvægt trúnaðarstarf fyrir sveitarstjórn og því afar nauðsynlegt að traust sé á milli aðila. Starf sveitarstjóra er pólitískt starf og lýtur þar af leiðandi öðrum lögmálum en önnur störf innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sveitarstjórn er því ekki bundin af þeim reglum stjórnsýsluréttarins sem gilda um ráðningu starfsmanna sveitarfélaga við ráðningu sveitarstjóra. En þó að val og ráðning sveitarstjóra fari fram með þessum hætti þá hefur sveitarstjóri ekki aðeins skyldur gagnvart meirihluta sveitarstjórnar heldur öllum kjörnum fulltrúum sveitarstjórnar og gildir það óháð því hvernig staðið er að ráðningu hans.

Ráðuneytið telur í ljósi framangreinds að ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps um að ráða IBE í starf sveitarstjóra sé lögmæt.

Úrskurðarorð

Kröfu Gylfa Þ. Þórissonar þess efnis að ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps, um afturköllun þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar er laut að því að ráða hann í starf sveitarstjóra, hafi verið ólögmæt er vísað frá ráðuneytinu.

 

Ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps um að ráða Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur í starf sveitarstjóra er lögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir                                                                                         Hjördís Stefánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta