Mál nr. IRR11070169
Ár 2011, þann 21. júlí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR11070169
Guðný Sigurðardóttir
gegn
Mýrdalshreppi
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Með ódagsettri stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 18. júlí 2011 kærði Guðný Sigurðardóttir (hér eftir nefnd GS) ráðningu í stöðu skólastjóra Víkurskóla í Mýrdalshreppi í maí 2011. Gerð er krafa um að ákvörðunin verði ógilt. Þá er því haldið fram að ákvörðun sveitarstjórnar sé ólögmæt. Þrátt fyrir orðalag kröfugerðar telur ráðuneytið að álitaefni málsins snúist fyrst og fremst um það hvort ráðning í stöðu skólastjóra Víkurskóla hafi verið lögmæt. Rétt er að geta þess þegar í upphafi að GS var ekki einn af umsækjendum um stöðuna.
Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Framangreind kæra barst ráðuneytinu þann 18. júlí 2011 en ráðið var í stöðuna í maí sama ár. Barst því kæran ráðuneytinu innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Í apríl 2011 var auglýst staða skólastjóra Víkurskóla í Mýrdalshreppi og bárust alls 9 umsóknir um stöðuna. Í fundargerð frá 175. fundi fræðslunefndar Mýrdalshrepps þann 29. apríl 2011 kemur fram að ákveðið hafi verið í sveitarstjórn að fela sveitarstjóra, oddvita og formanni fræðslunefndar að fara yfir umsóknirnar og leggja niðurstöðu þeirrar vinnu fyrir fræðslunefnd. Sveitarstjóri fór yfir stöðu málsins og kynnti niðurstöðu vinnuhópsins sem falið var að fara yfir umsóknirnar. Hópurinn lagði til að Anna Björnsdóttir (hér eftir nefnd AB) yrði ráðin til starfa sem skólastjóri og gerður við hana samningur til næstu tveggja ára. Fræðslunefndin lýsti yfir eindregnum stuðningi við þessa tillögu. Á 479. fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps þann 4. maí 2011 var svo samþykkt tillaga fræðslunefndar frá 29. apríl 2011 um að AB, starfandi skólastjóri, yrði ráðin til starfa sem skólastjóri Víkurskóla til næstu tveggja ára. Sveitarstjórn fól sveitarstjóra að ganga frá ráðningarsamningi við AB.
GS kærði ráðninguna í starf skólastjóra Víkurskóla til ráðuneytisins með ódagsettu bréfi er barst ráðuneytinu þann 18. júlí 2011.
III. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
Í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er kveðið á um að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar, sbr. til að mynda 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er það einungis sá sem telst vera aðili máls sem getur kært ákvörðun til æðra stjórnvalds en samkvæmt viðurkenndi skilgreiningu stjórnsýsluréttar er það á meðal skilyrða þess að maður verði talinn vera aðili máls að hann eigi einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra. Þá er oftast gerð sú krafa að hagsmunir séu verulegir (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 47).
Í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er ekki sérstaklega fjallað um hverjir geti kært mál til ráðuneytisins. Löng venja er hins vegar fyrir því að túlka ákvæðið þannig að kæruréttur 103. gr. sveitarstjórnarlaga sé rýmri en samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og á það jafnt við um íbúa sveitarfélaga sem og sveitarstjórnarmenn. Hefur verið litið svo á að íbúar sveitarfélags eigi almennt lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnarinnar. Er þá litið til þess að ákvarðanir geta haft margháttuð áhrif fyrir íbúa án þess að alltaf sé hægt að benda á einstaklega, beina og lögvarða hagsmuni einstaklinga.
Ráðuneytið telur hins vegar ekki að kæruréttur samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga sé takmarkalaus. Þegar litið er til eðlis ákvörðunar um ráðningu telur ráðuneytið þannig að ekki standi efni til þess að víkja frá þeirri meginreglu um aðild að einungis umsækjendur um starf geti kært tiltekna ráðningu sveitarfélags telji þeir að ekki hafi verið rétt að henni staðið. Lítur ráðuneytið þannig á að ákvörðun um ráðningu sé svo sértæk ákvörðun sem beinist að tilteknum hópi fólks að ekki verði litið svo á að hún snerti hag allra íbúa sveitarfélags með svo beinum hætti eða hafi áhrif á þá að þeir geti öðlast kærurétt einungis á grundvelli búsetu sinnar í sveitarfélaginu. Þar sem fyrir liggur að GS var ekki á meðal umsækjenda um starf skólastjóra Víkurskóla telur ráðuneytið því óhjákvæmilegt að vísa kæru hennar frá.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Guðnýjar Sigurðardóttur vegna ráðningar í stöðu skólastjóra Víkurskóla í Mýrdalshreppi í maí 2011, er vísað frá ráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Hjördís Stefánsdóttir
Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson