Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. 69/2010
Ár 2011, þann 18. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. 69/2010 (IRR 10121553)
Hannes Jónas Eðvarðsson
gegn
Sandgerðisbæ, Sveitarfélaginu Garði og Sveitarfélaginu Vogum
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru dagsettri 6. október 2010 kærði Hannes Jónas Eðvarðsson (hér eftir nefndur HJE) ákvörðun bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar, dags. 7. júlí 2010, um ráðningu í starf félagsmálastjóra Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga. Ekki eru hafðar uppi sérstakar kröfur í máli þessu en af kæru verður ráðið að farið sé fram á að ráðuneytið úrskurði að umrædd ráðning hafi verið ólögmæt.
Kæran er borin fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi sveitarstjórnar Sandgerðisbæjar þann 7. júlí 2010. Með bréfi, dags. 6. október 2011, kærði HJE umrædda ákvörðun svo til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (nú innanríkisráðuneyti) og telst kæran því fram borin innan hins lögmælta kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Með samningi, dags. 24. mars 2009, gerði félagsþjónusta Sandgerðisbæjar samning við Sveitarfélagið Garð og Sveitarfélagið Voga um skipan, rekstur og starfsemi sameiginlegrar félagsmálanefndar og barnaverndarnefndar. Er hinni sameiginlegu félagsmála- og barnaverndarnefnd/félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga ætlað að sinna verkefnum og umsýslu verkefna sem tilheyra félagsþjónustu sveitarfélaga sem og verkefnum sem barnaverndarnefnd er ætlað að sinna.
Vorið 2010 var ákveðið að ráða nýjan félagsmálastjóra til starfa fyrir hina sameiginlegu þjónustu í kjölfar þess að þáverandi félagsmálastjóri lét af störfum. Annaðist Sandgerðisbær ráðninguna en réð sér til fulltingis ráðningarþjónustuna X sem sá um uppsetningu starfsauglýsingar, auglýsingu og starfsviðtöl.
Þann 24. apríl 2010 birtist auglýsing í Fréttablaðinu þar sem fram kom að laust til umsóknar væri starf félagsmálastjóra Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga. Alls bárust sjö umsóknir um starfið og voru þar af fimm umsækjendur boðaðir í viðtal. Með bréfi, dags. 31. maí 2010, lagði X til við Sandgerðisbæ að gengið yrði til samninga við Kristínu Þyrí Þorsteinsdóttur (hér eftir nefnd KÞÞ) um ráðningu í starfið.
Tillagan var lögð fyrir bæjarráð Sandgerðisbæjar á fundi þess þann 3. júní 2010 og var það niðurstaða bæjarráðs að leggja til við bæjarstjórn að KÞÞ yrði ráðin. Var launafulltrúa, skrifstofustjóra og fjármálastjóra falið að ganga frá samningi fyrir næsta fund bæjarstjórnar. Var HJE tilkynnt um umrædda ráðningu með tölvubréfi þann 25. júní 2010. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar staðfesti svo umrædda afgreiðslu á fundi sínum þann 7. júlí 2010.
Með bréfi, dags. 6. október 2010, kærði HJE umrædda ráðningu til ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 21. október 2010, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Sandgerðisbæjar vegnar kærunnar. Barst slík umsögn með bréfi, dags. 22. nóvember 2010, og viðbótargögn með tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2011. Með bréfum, dags. 10. febrúar og 17. mars 2011, gaf ráðuneytið HJE færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar sveitarfélagsins. Kaus HJE að nýta sér ekki þann rétt.
Með bréfi, dags. 8. apríl 2011, óskaði ráðuneytið nánari gagna og upplýsinga frá Sandgerðisbæ, einkum varðandi skráningu munnlegra upplýsinga og þau gögn er X aflaði frá umsækjendum við meðferð málsins. Svar sveitarfélagsins barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. maí 2011. Með bréfi, dags. 12. maí 2011, gaf ráðuneytið HJE færi á að gæta andmælaréttar vegna þeirra gagna. Bárust slík andmæli ráðuneytinu með bréfi, dags. 13. maí 2011.
Með tölvubréfi, dags. 24. maí 2011, óskaði ráðuneytið enn nánar tiltekinna gagna frá Sandgerðisbæ, einkum varðandi þær spurningar er lagðar voru fyrir umsækjendur í starfsviðtölum og svör þeirra við þeim. Af hálfu sveitarfélagsins var erindið framsent til X og barst ráðuneytinu svar frá ráðningarþjónustunni með tölvubréfi, dags. 27. maí 2011.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður og rök HJE
HJE óskar eftir því að ráðuneytið taki til skoðunar ráðningarferlið sem og ráðningu félagsmálastjóra Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, m.t.t. lagaákvæða er varða ráðningu opinberra starfsmanna, hæfni og jafnréttislaga.
Hvað ráðningarferlið varðar þá telur HJE að hann hafi ekki setið við sama borð og aðrir umsækjendur og þar með ekki fengið sama tækifæri til ráðningar og aðrir. Hann sé menntunarlega mun hæfari en KÞÞ til að gegna viðkomandi starfi og hafi ekki síðri starfsreynslu.
Litið hafi verið til menntunar KÞÞ sem félagsráðgjafi. HJE sé löggiltur félagsráðgjafi og sálfræðingur auk þess að hafa MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. KÞÞ sé um það bil að ljúka námi sem veiti henni meðferðarréttindi (PMT – Parent Management Training). HJE hafi sinnt uppeldisráðgjöf í fimm ár sem sálfræðingur, gefið út bók sem fjallar um hvernig ala eigi upp erfið ungmenni og sé að þýða aðra bók sem fjalli um hvernig eigi að ala upp ofvirk börn án rítalíns og skyldra efna. Auk þess hafi hann verið kallaður til ráðgjafar fyrir skóla í tengslum við börn með hegðunarfrávik.
KÞÞ hafi fimm ára reynslu sem félagsmálastjóri. HJE hafi tveggja ára reynslu sem slíkur og eins árs reynslu sem deildarfélagsráðgjafi í barnaverndarmálum – auk fimm ára meðferðarreynslu. Sem ráðgjafi Geðhjálpar hafi stór hluti starfs hans falist í að styðja foreldra barna er hafi þurft á þjónustu Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) að halda sem og foreldra sem þurft hafi að eiga samskipti við barnaverndarnefndir vegna barna sinna.
Litið hafi verið til þess að KÞÞ hafi sinnt svæði sem nær til sex sveitarfélaga. HJE hafi sinnt starfi sem félagsmálastjóri er heyrði undir byggðasamlag um félagsþjónustu, félags- og skólaþjónustu Austur-Húnavatnssýslu, og að því hafi staðið sjö hreppar, hver með sína afstöðu til slíkrar þjónustu.
Í ljósi þess rökstuðnings er fram komi í erindi Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra Sandgerðisbæjar, telur HJE að hann standi hinum nýráðna félagsmálastjóra mun framar hvað varði menntun og meðferðarreynslu. Munur á starfsreynslu sé ekki teljandi.
Þá vill HJE taka fram vegna umsagnar Sandgerðisbæjar um kæru hans að í greinargerð framkvæmdstjóra X sé hvergi minnst á þá staðreynd að sú er viðtalið tók við hann vissi, að eigin sögn, ekkert um stöðuna og hafi stýrt starfsviðtalinu miðað við almennt starfsviðtal, sem hann hefði óskað eftir nokkru áður. Hún hafi ekki veitt honum færi á að koma á framfæri upplýsingum um frammistöðu, starfsskyldur né kunnáttu er hann hafi úr sambærilegu starfi og verið var að ráða í þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans til þess. Upplýsingar sem X segi nú að hafi haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Ljóst megi vera af erindum þeim er ráðuneytið hafi undir höndum frá honum að hann hafi strax í upphafi reynt að rétta sinn hlut án viðbragða eða árangurs.
Til að jafnræði geti talist ríkja milli umsækjenda sé ljóst að mat á hæfni þurfi að byggjast á einhvers konar stöðlun. Við faglegt ráðningarferli sé leitast við að nota staðlað ráðningarviðtal. Viðtal sem miði að því að kanna getu umsækjenda til að sinna ákveðnu starfi. Til þess að svo megi vera þurfi ráðgjafinn a.m.k. að hafa fyrirfram ákveðnar spurningar fyrir framan sig, spyrja þeirra í ákveðinni röð og skrá svörin. Því hafi ekki verið til að dreifa, einvörðungu huglægu mati á frásögn eins ráðgjafa í eyru annars um hvað fram fór í viðtali við HJE. Í þessu tilfelli hafi KÞÞ sem ráðin var notið þess forskots að sitja viðtal hjá manneskju, sem hafi rætt við hana um hæfni til að gegna ákveðnu starfi. HJE hafi verið í viðtali sem ætlað hafi verið til að safna upplýsingum um almenna hæfni hans. Þetta fyrirkomulag eitt og sér telji hann vera brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þau hafi ekki setið við sama borð í ráðningarferlinu. Rétt sé að vekja athygli á því að X hafi ekki andmælt því að ofangreint fyrirkomulag hafi verið viðhaft.
Þær upplýsingar sem fram komi í erindi X endurspegli einnig þann mun er viðtölin hafi borið með sér. Hér sé bæði átt við starfstengdar upplýsingar sem og menntunarlegar. HJE vilji gera athugasemd við að X geri minna úr starfsreynslu hans en raunin sé. Í upplýsingum X sé gefið í skyn að hann hafi verið félagsmálastjóri í eitt ár. Raunin sé að hann hafi starfað í tvö ár sem félagsmálastjóri og framkvæmdastjóri hjá byggðasamlagi með svipuðu rekstrarsniði og viðhaft sé suður með sjó, auk þess sem hann hafi ársreynslu sem barnaverndarstarfsmaður. Það geri samtals þrjú ár í sambærilegu starfi og KÞÞ hafi gegnt. Þá sé mat X á menntunarlegri yfirsýn einnig ámælisvert þar sem HJE hafi auk MBA-gráðu, cand. psych-gráðu í sálfræði og réttindi til að starfa sem sálfræðingur, umfram KÞÞ.
Þá vill HJE átelja það viðhorf sem lesa megi úr erindi X. Hann telji að markmið þess að auglýsa opinberar stöður og fara út í viðamikið ráðningarferli vera til þess að ætlað að ráða þann sem hæfastur sé í stöðuna, m.a. með tilliti til menntunar. Ekki að sá sem ráðinn sé fullnægi lágmarkshæfisskilyrðum til að gegna henni. Þó ekki sé nema í ljósi almannahagsmuna.
IV. Málsástæður og rök Sandgerðisbæjar
Í umsögn sveitarfélagsins segir að bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hafi tekið ákvörðun um að auglýsa umrætt starf í samræmi við starfsmannastefnu bæjarfélagsins og í kafla um ráðningar segi m.a.:
Sandgerðisbær leitast við að ráða starfsmenn sína til frambúðar.
Við ráðningar í stöðu skal gilda sú meginregla, að í þær sé ráðið samkvæmt hlutlægu mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til starfsins.
Starfsmönnum Sandgerðisbæjar skal veittur forgangur að lausum störfum hjá bænum, enda standi viðkomandi jafnfætis utanaðkomandi umsækjendum hvað varðar hæfni bæði faglega og persónulega.
Allar stöður skulu auglýstar, á áberandi hátt, bæti utan- og innanhúss, þannig að allir sem áhuga hafa eigi möguleika á því að skila inn umsókn.
Rétt er og að árétta að bæjarstjórn Sandgerðisbæjar leggur áherslu á að virða beri lög um jafnan rétt kvenna og karla til starfa og óheimilt er að mismuna starfsfólki eftir aldri, kynferði, kynþætti, stjórnmálaskoðunum eða trúarskoðunum.
Ákvörðun um málsmeðferð hafi því verið í samræmi við starfsmannastefnu sveitarfélagsins og hafi verið stuðst við hana þegar þáverandi félagsmálastjóri Sandgerðisbæjar hafi sagt starfi sínu lausu þann 18. mars 2010.
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hafi haft umboð til að auglýsa starfið. Umboð hennar hafi verið ljóst en samráð verið haft við þáverandi félagsmálastjóra. Þáverandi bæjarstjóri Sandgerðisbæjar og þáverandi félagsmálastjóri hafi haft fullt samráð við bæjarstjóra Garðs og þáverandi bæjarstjóra Voga. Sandgerðisbær hafi hins vegar alfarið borið og beri ábyrgð á starfsmannahaldi vegna samstarfs sveitarfélaganna þriggja um félagsþjónustu og sé ekki skylt að fá samþykki hinna vegna mannaráðninga.
Þáverandi bæjarstjóri haft lagt til í bæjarráði að fela X að sjá um uppsetningu á auglýsingu, auglýsa starfið, og taka viðtöl við umsækjendur og hafi það verið samþykkt. Auglýsingin hafi svo birst í Fréttablaðinu þann 24. apríl 2010. Mat á umsækjendum hafi farið fram á vegum X.
Bæjarstjóri hafi gert bæjarráði grein fyrir fjölda umsókna og nöfnum umsækjenda en beðið hafi verið eftir nánari úrvinnslu og ábendingum frá X. Starfsmenn félagsþjónustunar og félagsmálastjóri hafi einnig fengið trúnaðarupplýsingar um nöfn umsækjenda með áherslu á að málið væri til afgreiðslu í bæjarstjórn en í vinnslu og í vinnuferli hjá starfsmönnum X. Tillaga starfsmanna X hafi verið borin upp í bæjarstjórn og samþykkt einróma. Rétt sé að taka fram og leggja áherslu á að deildarstjórar séu ráðnir beint af bæjarstjórn Sandgerðisbæjar en ráðningar annarra starfsmanna fari til umsagnar hjá fagráðum sveitarfélagsins.
Ráðningarferlið hafi verið opið en sjö hafi sótt um starfið, þrír karlmenn og fjórar konur. Fagfólk á vegum X hafi tekið viðtöl við umsækjendur sem metnir hafi verið hæfastir og eftir að viðtöl hafi farið fram hafi X gert tillögu um ráðningu. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hafi því tekið endanlega ákvörðun um ráðninguna eftir umræður í bæjarráði og að fenginni tillögu sem byggð hafi verið á ábendingum og viðtölum starfsmanna X.
KÞÞ hafi verið ráðin og hafi sú ákvörðun verið fagleg. Rétt sé að taka fram að það hafi verið skoðun bæjarfulltrúa Sandgerðisbæjar að KÞÞ væri hæfust í starfið enda hefði hún áður unnið sambærilegt starf. KÞÞ hafi því verið hæfust umsækjenda að mati fagaðila í ráðningarmálum og bæjarstjórn Sandgerðisbæjar.
Með bréfi, dags. 8. apríl 2011, óskaði ráðuneytið eftir því við Sandgerðisbæ að ráðuneytinu yrðu látin í té afrit af þeim gögnum sem X hefði aflað vegna málsins sem og þeim upplýsingum sem komið hefðu fram munnlega og höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Svarbréf sveitarfélagsins barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. maí 2011, og var þar að finna greinargerð framkvæmdastjóra X vegna málsins.
Þar kemur fram að X hafi annast ákveðna þætti ráðningarferilsins fyrir Sandgerðisbæ vegna ráðningar félagsmálastjóra sameiginlegrar félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga. X hafi móttekið auglýsingartexta frá bænum og annast auglýsingu, tekið við umsóknum og annast fyrstu úrvinnslu umsókna. X hafi byggt mat sitt á þeim hæfniskröfum sem gerðar hafi verið fyrir umrætt starf. Samskiptahæfni og viðmót hafi verið látin vega þungt og vegna þess að við stjórn félagsmála þriggja sveitarfélaga, þar sem reynir á úrlausn afar vandasamra mála, skipti þessir þættir megin máli.
Umsækjendur hafi alls verið sjö. Að loknum umsóknarfresti hafi X annast fyrstu úrvinnslu umsókna og hafi þá metið að fimm umsækjendur uppfylltu grunnhæfisskilyrði sem fram komu í auglýsingu og varði menntun. Hafi HJE verið í þeim hópi. Þessir umsækjendur hafi allir verið teknir í viðtal hjá X sem hafi verið framkvæmt samkvæmt stöðluðu spurningarformi X. HJE hafi á sama tíma pantað viðtal hjá X, komið í viðtal hjá ráðgjafa X og farið í gegnum hið staðlaða spurningarform. KÞÞ hafi með sama hætti verið tekin í viðtal samkvæmt sama staðlaða formi.
Við úrvinnslu viðtala hafi það verið mat ráðgjafa X að umsækjandi sá sem ráðinn var hafi sýnt mjög góða samskiptahæfni í viðtalinu, komið vel fyrir og gert mjög vel grein fyrir störfum sínum sem félagsmálastjóri félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og miðlað skýrri sýn varðandi faglegt starf, stjórnun og rekstur í núverandi starfi.
Við úrvinnslu viðtala hafi það verið mat ráðgjafa X að HJE hafi ekki sýnt eins góða samskiptahæfni og framkomu í viðtali sínu og sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið. Þá hafi hann ekki miðlað jafn greinargóðri lýsingu á starfsreynslu sinni sem félagsmálastjóri og KÞÞ, og ekki náð að miðla jafnskýrri sýn varðandi faglegt starf, stjórnun og rekstur og sá umsækjandi.
KÞÞ sé með með löggildingu sem félagsráðgjafi. Hún hafi starfað sem félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs frá árinu 2005. Í því starfi hafi hún haft umsjón með rekstri félags- og barnaverndarþjónustu sveitarfélagsins ásamt skipulagningu og framkvæmd þjónustu við fimm sveitarfélög sem njóti þjónustu félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs á grundvelli samninga. Hún hafi komið að stefnumótunarvinnu í velferðarmálum, bæði innan sveitarfélagsins, í samvinnu við aðrar stofnanir og fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi. KÞÞ hafi starfað hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá 2003-2005 sem félagsráðgjafi á þroskahömlunarsviði.
HJE sé með löggildingu sem sálfræðingur og félagsráðgjafi. Þá hafi hann lokið MBA-námi frá Háskóla Íslands. Hann hafi frá árinu 2008 starfað sem ráðgjafi hjá Geðhjálp og sálfræðingur hjá Kæra sála ehf. frá árinu 2005. HJE hafi verið félagsmálastjóri hjá félagsþjónustu A-Húnavatnssýslu árið 2001 og borið þar ábyrgð á rekstri félagsþjónustunar, mannauðsmálum, faglega og fjárhagslega ábyrgð á barnaverndarmálum, félagsþjónustu og málefnum aldraðra og fatlaðra í umdæminu.
Við mat á menntun HJE annars vegar og KÞÞ hins vegar hafi það verið mat Xað menntun HJE væri meiri. Hvað varði faglega menntun þá sé hann að auki með MBA-gráðu. Fagleg menntun þess umsækjanda sem ráðinn hafi verið sem félagsráðgjafi hafi þó fyllilega fullnægt hæfisskilyrðum starfsins. Við mat á starfsreynslu hafi það verið mat X að starfsreynsla KÞÞ sem félagsmálastjóri félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, þar sem fyrir hendi sé sambærilegt fyrirkomulag um samvinnu sveitarfélaga varðandi stjórn félagsmála og sé í Sandgerðisbæ, Garði og Vogum, væri mjög æskileg varðandi það starf sem verið hafi verið að ráða í. Þá hafi hún gegnt því starfi samfellt frá árinu 2005 en nokkur ár séu síðan HJE lét af starfi sem félagsmálastjóri og hafi starfað á öðrum vettvangi síðan. Að því virtu og á grundvelli upplýsinga sem HJE og KÞÞ hafi veitt um starfsreynslu sína í viðtölum við ráðgjafa X hafi það verið mat X að starfsreynsla KÞÞ félli betur að því starfi sem verið var að ráða í að þessu sinni.
Samkvæmt framangreindu hafi það því verið mat X út frá niðurstöðum viðtala og mati á menntun og starfsreynslu að KÞÞ væri hæfari umsækjandi en HJE. Það hafi jafnframt verið mat X að KÞÞ væri hæfust þeirra umsækjenda sem sóttu um starfið.
Svo sem fyrr greinir óskaði ráðuneytið með tölvubréfi, dags. 24. maí 2011, nánar tiltekinna gagna frá Sandgerðisbæ, einkum varðandi þær spurningar er lagðar voru fyrir umsækjendur í starfsviðtölum og svör þeirra við þeim. Af hálfu sveitarfélagsins var erindið framsent til X og barst ráðuneytinu svar frá ráðningarþjónustunni með tölvubréfi, dags. 27. maí 2011. Þar kemur fram að að HJE og KÞÞ hafi bæði verið spurð sömu spurninga sem hafi verið eftirfarandi:
- Hvers vegna viltu skipta um starf?
- Hvert hefur verið ábyrgðarsvið þitt í núverandi og fyrrverandi störfum?
- Hvernig metur þú þekkingu þína á þeim sviðum sem um ræðir?
- Hefur reynt á frumkvæði í þínum störfum (breytingar)?
- Samskiptahæfni – hvað getur þú sagt mér um hana?
- Hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér (styrkleikar – veikleikar)?
- Hvað skiptir þig mestu máli varðandi starf?
- Byrjunartími – launaóskir?
Jafnframt kemur fram í svarbréfi X að í báðum viðtölum hafi verið rætt við umsækjendur um það starf er kæran varði og að rökstuðningur X liggi fyrir í bréfi til Sandgerðisbæjar frá 4. maí 2011, en þar komi fram skýr niðurstaða á mati ráðgjafa varðandi þessa tvo umsækjendur.
Þá segir að lokum í erindi X að vinnuskjöl X við umsækjendur hafi aldrei verið afhent stjórnvaldinu (Sandgerðisbæ), og teljist því ekki til gagna málsins samkvæmt stjórnsýslulögum. Minnispunktar úr almennum viðtölum geymi oft upplýsingar persónulegs eðlis sem X hafi talið sér óheimilt að láta af hendi.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
1. Ráðuneytið telur rétt þegar í upphafi að víkja stuttlega að því fyrirkomulagi sem sveitarfélögin Sandgerðisbær, Garður og Vogar viðhafa í kringum félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Í 2. mgr. 7. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 kemur fram að sveitarstjórnir geti ákveðið að vinna saman að einstökum verkefnum á sviði félagsþjónustu eftir því sem henta þykir á hverjum stað. Enn fremur geta einstök sveitarfélög gert með sér sérstakt samkomulag um sameiginlega félagsþjónustu eða einstaka þætti hennar. Er sambærilega heimild að finna í 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segir í 2. mgr. að sveitarstjórn kjósi barnaverndarnefnd. Fámennari sveitarfélög skuli þó hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um kosningu barnaverndarnefndar og skal samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd ekki vera undir 1.500.
Á grundvelli framangreindra lagaheimilda hafa sveitarfélögin þrjú sem hér um ræðir gert með sér samning um skipan, rekstur og starfsemi sameiginlegrar félagsmálanefndar og barnaverndarnefndar, er tók gildi þann 1. september 2008. Í upphafi samningsins kemur m.a. fram að hinni sameiginlegu félagsmála- og barnaverndarnefnd sé ætlað að sinna verkefnum og umsýslu þeirra verkefna sem tilheyra félagsþjónustu sveitarfélaga sbr. 2. gr. laga nr. 40/1991 sem og þeim verkefnum sem barnavernd er ætlað að inna af hendi skv. 12. gr. laga nr. 80/2002. Er hin sameiginlega nefnd kölluð fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga og mun meginstarfsstöð félagsþjónustunnar vera í Sandgerðisbæ. Telst félagsmálastjóri vera starfsmaður hinnar sameiginlegu nefndar.
Í umsögn Sandgerðisbæjar kemur fram að starfsmannahald vegna samstarfs sveitarfélaganna þriggja sé alfarið á ábyrgð Sandgerðisbæjar og að ekki sé skylt að leita samþykkis hinna sveitarfélaganna vegna mannaráðninga, og hafi sveitarstjórn Sandgerðisbæjar haft umboð til að auglýsa starf það sem hér um ræðir. Hins vegar hafi verið fullt samráð við bæjarstjóra Garðs og Voga við auglýsinguna og séu þeir tilbúnir til að votta þá málsmeðferð með undirskrift sinni. Ráðuneytið tekur fram að það leitaði ekki afstöðu sveitarfélaganna Garðs og Voga til þessa atriðis enda ekki tilefni til þess að rengja þær upplýsingar er fram komu í umsögn Sandgerðisbæjar þessu að lútandi.
Fjallað er um ráðningar starfsfólks sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 en þar segir í 1. mgr. 56. gr. að sveitarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veiti þeim lausn frá starfi. Í 2. mgr. 56. gr. segir svo að um ráðningar annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gefi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna. Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga er svo tekið fram að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ráðningarsamningum. Rétt er að taka fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 gilda ekki um starfsmenn sveitarfélaga.
Í 62. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sandgerðisbæjar nr. 494/2002 sem öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 1. júlí 2002 kemur fram að bæjarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá bæjarfélaginu, svo sem yfirmenn stofnana og deilda bæjarfélagsins og veiti þeim lausn frá störfum. Samkvæmt umsögn sveitarfélagsins telst félagsmálastjóri vera deildarstjóri í skilningi ákvæðisins. Í samræmi við þetta tók bæjarstjórn Sandgerðisbæjar endanlega ákvörðun um hina umdeildu ráðningu en undirbúningur hennar var í höndum bæjarstjóra, fráfarandi félagsmálastjóra og ráðningarfyrirtækisins X.
2. Þá telur ráðuneytið rétt að víkja að þeirri málsástæðu HJE að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn í starfið en HJE telur m.a. að hann sé menntunarlega hæfari en KÞÞ til að sinna umræddu starfi og hafi ekki síðri starfsreynslu. Átelur HJE það viðhorf sem hann telur að lesa megi úr umsögn X en hann telji að markmið þess að auglýsa opinberar stöður og fara út í viðamikið ráðningarferli vera til þess að ætlað að ráða þann sem hæfastur sé í stöðuna, m.a. með tilliti til menntunar. Ekki að sá sem ráðinn sé fullnægi lágmarkshæfisskilyrðum til að gegna henni.
Í umsögn X kemur fram að menntun HJE sé meiri en KÞÞ en að fagleg menntun KÞÞ hafi þó fyllilega fullnægt hæfisskilyrðum starfsins. Þá hafi það verið metið sem svo að starfsreynsla KÞÞ sem félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs þar sem fyrir hendi er sambærilegt fyrirkomulag væri mjög æskileg varðandi það starf sem verið var að ráða í. Hún hefði gegnt því starfi óslitið síðan 2005 en lengra sé síðan HJE hafi látið af starfi sem félagsmálastjóri. Telur ráðuneytið ljóst að framangreind atriði, auk upplýsinga sem umsækjendur veittu um starfsreynslu sína í viðtölum, hafi verið ráðandi við val á umsækjanda.
Það hefur verið talin meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að við veitingu opinberra starfa skuli leitast við að velja hæfasta umsækjandann um starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Þegar ekki er að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum leiðbeiningar um hvaða hæfniskröfur umsækjandi um starf skuli uppfylla er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun. Slík sjónarmið þurfa þó sem endranær að vera málefnaleg og lögmæt svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta (sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 382/1991, nr. 2701/1999, nr. 2793/1999, nr. 2862/1999). Þegar ekki er mælt fyrir um tiltekin hæfnisskilyrði í lögum eða öðrum reglum sem veitingarvaldshafi er bundinn af hefur hann því meira svigrúm en ella til að ákveða hvaða sjónarmiðum ákvörðun verður byggð á og hvert innbyrðis vægi þeirra skuli vera.
Ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um hæfnisskilyrði þeirra sem sinna starfi eins og því sem um ræðir í máli þessu, en það var metið svo í því tilviki sem hér er til umfjöllunar að sú reynsla og þekking sem KÞÞ býr yfir hentaði þörfum sveitarfélagsins betur en reynsla HJE. Eins og áður segir er meginreglan sú að stjórnvald ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðun um ráðningu sé ekki að finna leiðbeiningar um slíkt í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Verður enda að telja að viðkomandi ráðningarvaldshafi sé alla jafna í bestu aðstöðunni til þess að meta hvaða eiginleikum mikilvægast er að tilvonandi starfsmaður búi yfir og er það ekki hlutverk ráðuneytisins að endurskoða slíkt mat stjórnvalds eða hvaða ályktanir stjórnvald dregur um hæfni umsækjanda. Hefur stjórnvald því allnokkurt svigrúm við slíkt mat svo lengi sem það telst málefnalegt og byggist á lögmætum sjónarmiðum.
Að mati ráðuneytisins verður að telja það málefnalegt sjónarmið út af fyrir sig að velja umsækjanda eftir heildstætt mat og eftir atvikum að leggja áherslu á tiltekna þætti, svo sem ákveðna starfsreynslu eða persónulega eiginleika, sem að mati ráðningarvaldshafa hentar viðkomandi starfi best á þann hátt sem gert var í því tilviki sem hér um ræðir. Á hinn bóginn verður að líta svo á að við ráðningu í starf beri stjórnvaldi skylda til að tryggja að öll málsmeðferð og undirbúningur sé framkvæmdur á forsvaranlegan hátt enda verður ekki talið að öðruvísi verði raunverulega upplýst um hver teljist hæfasti umsækjandinn að virtum þeim sjónarmiðum sem ákveðið er að leggja til grundvallar við ráðningu.
3. Í umsagnarbeiðni sinni til Sandgerðisbæjar, dags. 21. október 2010, óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir upplýsingum um ráðningarferlið og hvernig staðið hefði verið að ákvarðantöku þar að lútandi, s.s. hver mat umsóknir og umsækjendur, annaðist starfsviðtöl, gerði tillögu um ráðningu og tók endanlega ákvörðun um hana. Með bréfi, dags. 8. apríl 2011, óskaði ráðuneytið svo ennfremur eftir afriti af þeim gögnum sem X hefði aflað um HJE og KÞÞ, þ.m.t. upplýsingum sem hefðu komið fram munnlega og höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, s.s. upplýsingum sem hefðu komið fram í starfsviðtölum við umsækjendur og í umsögnum annarra aðila um umsækjendur. Minnti ráðuneytið á 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 í því sambandi en þar segir að við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, beri stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Með bréfi sínu frá 8. apríl 2011 óskaði ráðuneytið svo einnig upplýsinga um hvaða gögn um umsækjendur bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hefði haft undir höndum er hún tók endanlega ákvörðun um ráðninguna.
Af gögnum málsins verður ráðið að Sandgerðisbær hafi ákveðið að fela ráðningarfyrirtækinu X að annast tiltekna þætti ráðningarferlisins. Þannig annaðist X auglýsingu starfsins, tók við umsóknum og annaðist úrvinnslu umsókna. Að lokinni fyrstu úrvinnslu var það mat X að fimm umsækjendur uppfylltu grunnhæfisskilyrði og voru þeir allir kallaðir í viðtöl. Út frá niðurstöðu viðtala og mati á menntun og starfsreynslu var það mat X að KÞÞ væri hæfust allra umsækjenda og tilkynnti X bæjarstjórn Sandgerðisbæjar um þá niðurstöðu.
Stjórnvaldi er heimilt án sérstakrar lagaheimildar að leita sérfræðilegrar aðstoðar við ráðningu í opinbert starf kjósi það svo. Með hliðsjón af lögmæltu hlutverki stjórnvaldsins sem fer með ákvörðunarvald í málinu eru þó takmarkanir á því hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum. Eru þar þrjú atriði sem skipta mestu máli. Í fyrsta lagi þurfa allar þær upplýsingar sem ætla verður að hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins að vera lagðar fyrir viðkomandi stjórnvald svo því sé unnt að ganga úr skugga um að tiltekin ákvörðun sé rétt. Þá ber stjórnvaldi í öðru lagi að tryggja að meðferð málsins sé þannig hagað hjá ráðningarfyrirtækinu að réttarstaða málsaðila verði ekki lakari en mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum og öðrum lögum. Í þriðja lagi verður að gæta þess að allar ákvarðanir sem teknar eru við vinnslu málsins og geta haft grundvallarþýðingu fyrir stöðu umsækjanda, svo sem ákvarðanir sem miða að því að þrengja hóp umsækjenda, verða í ljósi lögmælts hlutverks stjórnvaldsins að vera teknar af því sjálfu (sjá álit umboðsmanns Alþingis frá 11. júlí 2005 í máli nr. 4217/2004). Með öðrum orðum hvílir áfram sú skylda á stjórnvaldinu að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og að skráðum og óskráðum reglur stjórnsýsluréttar sé fylgt við meðferð þess. Verður að telja að í því augnamiði sé stjórnvaldi rétt að gera viðkomandi ráðningarfyrirtæki grein fyrir þeim skyldum sem á stjórnvaldinu hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum og öðrum lögum og gæta þess að ekkert í starfsháttum fyrirtækisins hindri að réttur málsaðila verði virtur.
3.1 Í umsögn Sandgerðisbæjar um framkomna kæru, dags. 22. nóvember 2010, kemur fram að þáverandi bæjarstjóri hafi gert bæjarráði grein fyrir fjölda umsókna og nöfnum umsækjanda á þeim tíma sem málið var í vinnuferli hjá starfsmönnum X. Jafnframt kemur þar fram að tillaga X hafi svo verið borin upp og samþykkt í bæjarráði og bæjarstjórn. Ekki kemur þar hins vegar fram hvort sveitarfélagið hafi haft umsóknir og önnur gögn um umsækjendur undir höndum á þeim tíma.
Ráðuneytið óskaði sérstaklega eftir því að fá afrit af þeim gögnum sem X aflaði um KÞÞ og HJE, þ.m.t. upplýsinga sem skráðar hefðu verið skv. 23. gr. upplýsingalaga. Var sú beiðni ráðuneytisins framsend til X af hálfu sveitarfélagsins en það verður ekki skilið öðruvísi en svo að mati ráðuneytisins en að sveitarfélagið hafi ekki haft umrædd gögn undir höndum. Í svari X, dags. 26. maí 2011, kemur raunar fram að vinnuskjöl X um umsækjendur hafi aldrei verið afhent stjórnvaldinu og teljist því ekki til gagna málsins samkvæmt stjórnsýslulögum. Ennfremur segir þar að minnispunktar úr almennum viðtölum geymi oft upplýsingar persónulegs eðlis sem X hafi talið sér óheimilt að láta af hendi.
Sú skylda hvílir á stjórnvaldi sem þarf að taka afstöðu til þess hver skuli ráðinn til að gegna opinberu starfi að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu felst m.a. að tryggja verður að viðhlítandi upplýsingar liggi fyrir um þau atriði sem stjórnvaldið telur að eigi að hafa þýðingu við samanburð milli hæfra umsækjenda. Ekki er þannig nóg að ráðningarfyrirtæki sem fengið hefur verið til aðstoðar afli og meti gögn um umsækjendur heldur þarf stjórnvaldið sjálft að hafa gögnin undir höndum. Ekki verður séð hvernig stjórnvald getur að öðrum kosti fullyrt að ákvörðun sé rétt og í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og málsmeðferð í samræmi við aðrar réttarreglur stjórnsýsluréttar sem við kunna að eiga. Bar Sandgerðisbæ að ganga eftir því við X að fá afhent öll gögn málsins áður en ákvörðun var tekin, þ.m.t. upplýsingar sem komu fram í starfsviðtölum eða umsögnum. Er slíkt sérstaklega brýnt þegar um upplýsingar er að ræða sem skipt geta verulegu máli. Vill ráðuneytið benda á í því sambandi að ekki verður betur séð en að viðtöl við umsækjendur hafi skipt verulegu máli í máli því sem hér er til umfjöllunar. Kemur þannig fram í gögnum málsins að við úrvinnslu viðtala hafi það verið mat ráðgjafa X að HJE hefði ekki sýnt eins góða samskiptahæfni og framkomu í viðtali sínu og sá KÞÞ. Þá hefði hann ekki miðlað jafn greinargóðri lýsingu á starfsreynslu sinni sem félagsmálastjóri og KÞÞ og ekki náð að miðla jafn skýrri sýn varðandi faglegt starf, stjórnun og rekstur.
3.2 Þá eru fyrrnefnd skylda stjórnvaldsins til að afla allra gagna málsins í tilvikum sem þessum, sem og 23. gr. upplýsingalaga, nátengd upplýsingarétti aðila máls, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir m.a. í 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál varða. Það er þannig meginregla að aðili máls á rétt á aðgangi að öllum gögnum, þ.m.t. þeim er verða til skv. 23. gr. upplýsingalaga, er máls hans varða nema heimilt sé að takmarka þann rétt hans, sbr. 16. gr. eða 17. gr. stjórnsýslulaga, þar sem segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.
Þannig á að vera tryggt að skrifleg gögn liggi fyrir í máli svo aðila máls sé unnt að kynna sér þær upplýsingar sem liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu sem komist er að og geti í framhaldinu gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni eftir að ákvörðun er tekin. Ef stjórnvald hefur ekki umrædd gögn undir höndum er vandséð hvernig umræddum rétti málsaðila verður komið fram. Bendir ráðuneytið á í því sambandi að öll gögn sem aflað er vegna tiltekins stjórnsýslumáls teljast hluti þess og í tilvikum sem þessum er það stjórnvaldsins en ekki ráðningarfyrirtækis að meta hvort leyfilegt sé að takmarka aðgang aðila máls að þeim á grundvelli 16. gr. eða 17. gr. stjórnsýslulaga.
Ráðuneytið bendir sérstaklega á í því sambandi að HJE telur að hann hafi ekki setið við sama borð og aðrir umsækjendur í umsóknarferlinu en slíkt gæti jafnframt falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. KÞÞ hafi þannig notið þess forskots að sitja viðtal hjá manneskju sem rætt hafi við hana um hæfni til þess að gegna ákveðnu starfi, en HJE hafi hins vegar verið í viðtali sem ætlað hafi verið til að safna upplýsingum um almenna hæfni hans. Honum hafi að sama skapi ekki verið gefið færi á að koma á framfæri upplýsingum um frammistöðu, starfsskyldur né kunnáttu sína úr sambærilegu starfi og verið var að ráða í en slíkt gæti að mati ráðuneytisins falið í sér brot gegn 10. gr. stjórnsýslulaga og/eða andmælareglu 13. gr. laganna. Ráðuneytið leitaði upplýsinga um þetta atriði og barst svar frá X þann 27. maí 2011 en þar kom fram að HJE og KÞÞ hefðu bæði verið spurð sömu spurninga sem hafi verið eftirfarandi:
- Hvers vegna viltu skipta um starf?
- Hvert hefur verið ábyrgðarsvið þitt í núverandi og fyrrverandi störfum?
- Hvernig metur þú þekkingu þína á þeim sviðum sem um ræðir?
- Hefur reynt á frumkvæði í þínum störfum (breytingar)?
- Samskiptahæfni – hvað getur þú sagt mér um hana?
- Hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér (styrkleikar – veikleikar)?
- Hvað skiptir þig mestu máli varðandi starf?
- Byrjunartími – launaóskir?
Jafnframt kemur fram í svarbréfi X að í báðum viðtölum hafi verið rætt við umsækjendur um það starf er kæran varði. Er svo tekið fram að vinnuskjöl X hafi aldrei verið afhent Sandgerðisbæ og teljist því ekki til gagna málsins skv. stjórnsýslulögum. Minnispunktar úr almennum viðtölum geymi oft upplýsingar persónulegs eðlis sem X hefði talið sér óheimilt að láta af hendi.
Ráðuneytið telur ekki tilefni til þess að efast um framangreindar upplýsingar X um að KÞÞ og HJE hafi frá upphafi setið við sama borð og aðrir umsækjendur en bendir á að erfitt er að staðreyna þær þar sem ekki var orðið við ósk ráðuneytisins um að fá afrit af nánari gögnum þar að lútandi og sveitarfélagið hafði þau ekki undir höndum. Minnir ráðuneytið ennfrekar á að um gögn er að ræða sem falla undir upplýsingarétt aðila máls, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, að virtum 16. gr. og 17. gr. sömu laga, en ráðningarvaldshafa ber í málum sem þessum að sjá til þess að sá réttur sé virtur.
3.3 Þá telur ráðuneytið rétt að víkja að því að þar sem ákvörðun um ráðningu í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga þarf það stjórnvald sem fer með ráðningarvaldið að taka allar ákvarðanir sem eru til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir framgang umsækjenda í ráðningarferlinu og það að stjórnvaldið leiti sér aðstoðar utanaðkomandi sérfræðings eða ráðgjafa við undirbúning og vinnslu málsins leysir stjórnvaldið ekki undan þessari skyldu (sjá álit umboðsmanns Alþingis frá 24. júní 2011 í máli nr. 5890/2010).
Af gögnum málsins verður ráðið að umsækjendur um starfið hafi alls verið sjö og þar af hafi X ákveðið að kalla fimm þeirra í viðtöl. Ekki verður séð að Sandgerðisbær hafi komið að þeirri ákvörðun. Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að X hafi kallað alla í viðtöl sem uppfylltu hlutlæg menntunar- og hæfnisskilyrði í starfsauglýsingu og þannig í raun aðeins útilokað þá sem ljóst var að uppfylltu ekki gerðar kröfur. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þessa framkvæmd í umræddu tilviki en ítrekar hins vegar mikilvægi framangreinds sjónarmiðs um að ráðningarvaldshafa beri að taka allar ákvarðanir sem hafa verulega þýðingu fyrir framgang umsækjenda í málum sem þessum.
4.4. Ráðuneytið telur að ekki verði annað séð í því máli sem hér er til umfjöllunar en að ráðningarfyrirtækinu X hafi beinlínis verið falið að annast heildstæða öflun upplýsinga um umsækjendur og leggja síðan faglegt mat á hver umsækjenda væri best til þess fallinn að gegna starfinu. Tillaga X var svo lögð fyrir og samþykkt af bæjarráði og bæjarstjórn Sandgerðisbæjar.
Gögn málsins bera ekki með sér að starfsfólk Sandgerðisbæjar hafi tekið þátt ráðningarferlinu eða lagt mat á þau gögn sem lágu til grundvallar niðurstöðu X. Jafnframt verður að telja að Sandgerðisbæ hafi verið skylt að afla þeirra gagna sem lágu til grundvallar úttekt X á öllum umsækjendum áður en tekin var lokaákvörðun í málinu. Að öðrum kosti verður ekki séð hvernig sveitarfélaginu var unnt að bera þá stjórnsýslulegu ábyrgð sem á því hvíldi í tengslum við ráðninguna og fylgja því eftir að ákvæðum stjórnsýslulaga væri gætt (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 26. maí 2003 í máli nr. 3616/2002). Vísast sérstaklega til framangreindrar umfjöllunar um 10. gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga í því sambandi. Með vísan til alls framangreinds verður að mati að ráðuneytisins að telja að svo verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að óhjákvæmilegt sé að lýsa hana ólögmæta af þeim sökum. Með tilliti til þess er starfið hlaut verður hin kærða ákvörðun þó ekki felld úr gildi.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist nokkuð í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð
Ákvörðun bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar, dags. 7. júlí 2010, um ráðningu í starf félagsmálastjóra Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, er ólögmæt.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir
Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson