Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11100252
Ár 2012, 21. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. IRR11100252
Þorsteinn Gunnarsson
gegn
Mýrdalshreppi
I. Kröfur og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru dagsettri 3. júní 2011 kærði Páll Arnór Pálsson f.h. Þorsteins Gunnarssonar (hér eftir nefndur ÞG) ráðningu í starf landvarðar í friðlandi Dyrhólaeyjar.
Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði að umrædd ráðning hafi verið ólögmæt, ógildi ráðninguna og það kveði á um að staðan verði auglýst að nýju.
Kæran er borin fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og er hún fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Þann 8. júní 2011 undirrituðu Umhverfisstofnun og Mýrdalshreppur samning um rekstur og umsjón friðlandsins í Dyrhólaey á grundvelli 30. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999, með síðari breytingum, en ákvæðið hljóðar svo:
Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að þjóðgörðum undanskildum. Gera skal sérstakan samning um umsjón og rekstur svæðanna sem ráðherra staðfestir. Í samningnum skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð á svæðunum og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu, svo og gjaldtöku, sbr. 32. gr. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samningsskuldbindingar.
Umhverfisráðherra staðfesti samninginn þann 27. júní 2011. Á grundvelli samkomulagsins réð sveitarstjóri Mýrdalshrepps Eirík Vilhem Sigurðsson (hér eftir nefndur EVS) sem landvörð í Dyrhólaey til þriggja mánaða sumarið 2011, án auglýsingar. Skyldi landvörðurinn í faglegu tilliti heyra undir Umhverfisstofnun, en Mýrdalshreppur greiða honum laun og sjá um annan rekstrarkostnað, svo sem varðandi bifreið og kostnað vegna ferða og fæðis.
ÞG taldi ráðninguna ólögmæta og kærði hana til Umhverfisráðuneytisins. Kæra hans tók einnig til samningsgerðar Umhverfisstofnunar við Mýrdalshrepp og þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar að takmarka umferð um Dyrhólaey árið 2011. Þann 20. október 2011 framsendi umhverfisráðuneytið innanríkisráðuneytinu þann lið kærunnar er varðaði ráðningarmálið en vísað öðrum liðum frá.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. október 2011, var Mýrdalshreppi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 8. nóvember 2011.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 8. nóvember 2011, var ÞG gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 2. desember 2011.
Með bréfum, dags. 9. desember 2011 og 22. febrúar 2012, tilkynnti ráðuneytið aðilum máls að tafir yrðu á uppkvaðningu úrskurðar.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Málsástæður ÞG
ÞG segir að hann hafi séð í héraðsfréttamiðli í byrjun maí árið 2011 að ráðinn hafi verið landvörður í Dyrhólaey sem myndi starfa á ábyrgð Umhverfisstofnunar. Bendir ÞG á að hann sé ábúandi á einni af eignarjörðum Dyrhólaeyjar en þrátt fyrir það hafi Umhverfisstofnun ekki á neinu stigi málsins haft samráð við hann né aðra ábúendur um ráðningu landvarðarins.
ÞG bendir á að Umhverfisstofnun hafi ekki auglýst stöðu landvarðar, hvorki í héraðsfréttablöðum né á heimasíðu Umhverfisstofnunar og hafi bæði landvörðurinn og sviðsstjóri náttúruauðlindasviðs Umhverfisstofnunar staðfest það. Í kæru ÞG kemur fram að einn ábúenda hafi nýverið fjárfest í menntun sem veiti réttindi til landvörslu, m.a. til þess að hann gæti sótt um stöðu landvarðar í Dyrhólaey, ef og þegar slík staða yrði auglýst, enda sé þekking á staðháttum, sögu og menningu viðkomandi staðar talin gildur þáttur í hæfi góðs landvarðar. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi viðkomandi verið ókleift að sækja um starf þetta þar sem það var ekki auglýst.
Í kæru ÞG kemur fram að ákvörðunin um að Mýrdalshreppur réði mann til að sinna landvörslu í friðlandinu í Dyrhólaey hafi verið tekin með munnlegu samkomulagi sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar, en það undirstriki ábyrgð stofnunarinnar á málinu, enda ljóst að Umhverfisstofnun hafi lagt sveitarfélaginu línurnar um það á hvað bæri að leggja áherslu við ráðningu landvarðar, auk þess sem samkomulag hafi verið um að í faglegu tilliti heyrði staða landvarðar undir starfsmenn Umhverfisstofnunar. Jafnframt telur ÞG vera vafa á því hvort Umhverfisstofnun hafi getað framselt vald til ráðningar landvarðar til Mýrdalshrepps.
ÞG bendir einnig á það að EVS sem ráðinn var til starfsins sé systursonur núverandi oddvita sveitarstjórnar. Þá hafi EVS verið í framboði til sveitarstjórnar fyrir síðustu kosningar og nú nýverið beitt sér með virkum hætti í pólitískri baráttu meirihluta sveitarstjórnar gegn friðun æðarvarpsins í Dyrhólaey. ÞG telur því að vert sé að velta því fyrir sér hverjar forsendur ráðningarinnar hafi verið og hvort pólitísk eða hagsmunatengd sjónarmið hafi ráðið meiru en þekkingarkröfur. Bendir ÞG á að í umsögn sveitarfélagsins um kæruna komi einmitt fram að sveitarstjóri hafi við val sitt á landverðinum notað ógegnsæ persónutengsl og kröfur hafi ekki verið fyrirfram skilgreindar. Kemur þar fram að sveitarstjóri hafi kannað lauslega með samtölum við starfsmenn Umhverfisstofnunar hvort þeim væri kunnugt um einhverja einstaklinga í Mýrdalshreppi sem hefðu landvarðarréttindi og hefðu menn þar vitað að svo væri. Telur ÞG slíkt ámælisvert og spyrja megi að því hvaða upplýsingar Umhverfisstofnun hafi gefið sveitarstjóra varðandi þá einstaklinga sem kynnu að koma til álita. Varðandi þá fullyrðingu sveitarstjóra sem fram kemur í umsögn sveitarfélagsins að hann hafi ekki vitað af fjölskyldutengslum EVS við oddvita sveitarfélagsins bendir ÞG á að þar sem ráðningarferlið hafi ekki verið afmarkað sé í raun útilokað að staðreyna þessa fullyrðingu. Sveitarstjóra hafi borið að tryggja opið ráðningarferli, gegnsæi í kröfum og faglegt mat á hæfi. Því smærra sem sveitarfélagið sé þeim mun meiri hætta sé á að fjölskyldutengsl kunni að hafa áhrif á slíkt ferli, og það hafi sveitarstjóra mátt vera ljóst. Þá telur ÞG rétt að benda á að landvörðurinn hafi verið ráðinn þann 29. apríl 2011 og samningur Umhverfisstofnunar og Mýrdalshrepps hafi verið staðfestur í hreppsnefnd þann 4. maí 2011. Oddvita hafi því átt að vera ljóst hver hafi verið ráðinn og hafi hann leynt sveitarstjórn skyldleikanum þá sé það vandamál sem sveitarfélagið beri ábyrgð á þar sem oddvitinn hafi tekið þátt í afgreiðslu málsins. Hafi sveitarstjóri leynt sveitarstjórnina því hver hafi verið ráðinn eða hvernig staðið hafi verið að ráðningunni telur ÞG málið enn undarlegra með hliðsjón af mikilvægi þess eins og skýrt megi sjá af fundargerð sveitarstjórnar. Vekur ÞG athygli á því að sveitarstjóri hafi ekki svarað því hvort ráðningin hafi verið rædd á fundum sveitarstjórnarinnar en allt bendi til að hún hafi verið rædd um leið og samningurinn á fundinum 4. maí 2011.
ÞG bendir á að þó svo að sveitarstjóri hafi gert ráðningarsamninginn, þá beri sveitarstjórn Mýrdalshrepps ábyrgð og henni beri að fara að viðurkenndum stjórnvaldsreglum. ÞG hafnar því að landvörðurinn hafi verið ráðinn af sveitarstjóra eins og hver annar starfsmaður sveitarfélagins, enda skýrt tekið fram í samningi milli Mýrdalshrepps og Umhverfisstofnunar að landvörðurinn ætti að heyra undir starfsmenn Umhverfisstofnunar og vera á launakjörum þeirrar stofnunar.
Bendir ÞG á að þrátt fyrir að í drögum að samningi milli Umhverfisstofnunar og Mýrdalshrepps hafi verið gert ráð fyrir ráðningu landvarðar, þá geti ráðning landvarðarins hins vegar ekki átt sér stoð í þeim samningi, þar sem ráðherra hafði ekki staðfest hann og þar af leiðandi hafi hann ekki gildi. Auk þess hafi landeigendur á vesturjörðum Dyrhólahverfis mótmælt harðlega samningsgerðinni.
Bendir ÞG á að hvorki hafi verið haft samráð við hann né aðra ábúendur á eignarjörðum Dyrhólaeyjar vegna þeirrar ákvörðunar að setja á stofn starf landvarðar í Dyrhólaey, né um verkefni hans. Telur hann að starf landvarðar verði að samræma umsýslu og nytjum ábúenda í eynni, að öðrum kosti kunni lokun eyjarinnar á varptíma að verða marklítil. Landvörður sem ekki sé jafnframt starfsmaður ábúenda og starfi ekki í umboði þeirra geti ekki annast gæslu, umhirðu og nýtingu varpsins. Viðvera og umgangur slíks landvarðar um eyna á lokunartíma sé einfaldlega óæskileg og sé ávísun á árekstra og skaða fyrir æðarbúskapinn, nema haft hafi verið samráð við þá sem annist og nýti varpið.
Telur ÞG aðgerðir varðandi ráðningu landvarðarins vera andstæðar stjórnsýslulögum og þá sérstaklega 10.-14. gr. þeirra.
IV. Málsástæður Mýrdalshrepps
Í umsögn Mýrdalshrepps kemur fram að í viðræðum milli fulltrúa sveitarstjórnar og Umhverfisstofnunar um gerð samnings um umsjón og rekstur friðlandsins í Dyrhólaey hafi aðilar verið sammála um nauðsyn þess að ráðinn yrði landvörður til starfa í Dyrhólaey sumarið 2011. Í máli fulltrúa Umhverfisstofnunar hafi hins vegar komið fram að ekki væri til rekstrarfé hjá stofnuninni til slíks og því hafi verið gengið frá munnlegu samkomulagi um að sveitarfélagið réði landvörð til starfa og greiddi honum laun sumarið 2011.
Þar segir jafnframt að af hálfu Umhverfisstofnunar hafi verið lögð áhersla á að viðkomandi starfsmaður hefði landvarðarréttindi og samningurinn yrði á sömu nótum og samningar Umhverfisstofnunar við sína landverði og að í faglegu tilliti þá heyrði landvörðurinn í Dyrhólaey undir starfsmenn Umhverfisstofnunar þó að Mýrdalshreppur greiddi laun og sæi um annan rekstrarkostnað starfsins. Á móti þessu framlagi sveitarfélagins hafi verið rætt um að stofnunin hefði möguleika á að setja meira fé í uppbyggingu í Dyrhólaey sumarið 2011, því það tengdist ekki rekstrarfé stofnunarinnar. Stefnt hafi verið að gerð göngustíga, öryggisgirðinga o.fl.
Í umsögn Mýrdalshrepps kemur fram að sveitarstjóri hafi kannað lauslega með samtölum við starfsmenn Umhverfisstofnunar hvort þeim væri kunnugt um einhverja einstaklinga í Mýrdalshreppi sem hefðu landvarðarréttindi og hafi menn vitað um það. Stuttu seinna hafi sveitarstjóri frétt frá atvinnurekanda í Vík sem hugðist ráða EVS til starfa að hann væri með slík réttindi. Hafi sveitarstjóri þá sett sig í samband við EVS og falast eftir honum til þessa starfs, enda hafi sveitarstjóri talið mikilvægt að fá heimamann í starfið m.a. með tilliti til þekkingar á staðháttum og eins þess að ekki hafi verið um auðugan garð að gresja hvað varðaði laust húsnæði í sveitarfélaginu. Hafi sveitarstjóri talið að mikill fengur væri að ráða slíkan mann sem EVS þar sem hann væri afar hæfur maður til að gegna starfinu, hefði áhuga á útivist og náttúruvernd og hefði auk þess aflað sér víðtækrar þekkingar á fuglalífi. Þá hafi hann verið með landvarðarréttindi og að ljúka námi í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum.
Sveitarstjóri Mýrdalshrepps hafi tekið þá ákvörðun að ráða EVS til starfa með vísan til þess sem rætt hafi verið á fundum sveitarstjórnar þann 19. apríl og 4. maí 2011 og í bókun sveitarstjórnar frá 19. maí 2011 sé þess sérstaklega getið að búið sé að ráða landvörð. Fjárhagsleg afgreiðsla málsins hafi svo verið á fundi sveitarstjórnar þann 15. júní 2011 þegar fyrir lá hver kostnaðurinn yrði af starfi landvarðar.
Mýrdalshreppur bendir á að með ráðningu landvarðarins hafi sveitarstjóri nýtt sér heimild 6. gr. starfsmannastefnu sveitarfélagsins þess efnis að ráða megi í tímabundið starf án auglýsingar.
Upplýst er af hálfu Mýrdalshrepps að ráðning landvarðarins hafi ekki farið fyrir sveitarstjórn, enda ekki gert ráð fyrir því að ráðningar annarra starfsmanna en yfirmanna séu ræddar í sveitarstjórn. Sveitarstjóri beri ábyrgð á og ráði fólk til starfa innan fjárhagsheimilda sveitarsjóðs. Það eina í þessu ferli sem þurfti staðfestingar við í sveitarstjórn sé að færa til þá peninga sem ætlaðir voru til uppbyggingar í Dyrhólaey milli liða með vísan til samkomulagsins við Umhverfisstofnun um ráðningu landvarðar og hafi það verið gert á fundi sveitarstjórnar þann 15. júní 2011.
Bent er á af hálfu Mýrdalshrepps að sveitarstjóri hafi aðeins starfað í sveitarfélaginu í ár og því hafi honum ekki verið kunnugt um öll fjölskyldutengsl innan sveitarfélagsins. Hafi hann ekki haft vitneskju um fjölskyldutengsl EVS og oddvita sveitarfélagsins fyrr en löngu eftir ráðningu þess fyrrnefnda. Hvorki oddviti né aðrir sveitarstjórnarmenn hafi komið að þessu ráðningarferli með neinum hætti.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
1. Í 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sem í gildi voru er atvik mál þess gerðust, sagði að ráðuneytið skyldi úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kynnu að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerti þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Markmið ákvæðisins var að stuðla að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni og með því var ráðuneytinu veitt heimild til að endurskoða ákvarðanir sveitarfélaga. Á þennan hátt kaus löggjafinn að tryggja réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnsýslu sveitarfélaga og ákvæðið geymdi ríkan rétt til handa þeim sem hagsmuna áttu að gæta varðandi stjórnsýslu sveitarfélaga. Með hliðsjón af markmiði ákvæðisins hefur ráðuneytið í framkvæmd túlkað ákvæðið fremur rúmt og rýmra heldur en 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem bundin er við stjórnvaldsákvarðanir.
Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar, sbr. til að mynda 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er það einungis sá sem telst vera aðili máls sem getur kært ákvörðun til æðra stjórnvalds en samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu stjórnsýsluréttar er það á meðal skilyrða þess að maður verði talinn vera aðili máls að hann eigi einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra. Þá er oftast gerð sú krafa að hagsmunir séu verulegir (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 47).
Í 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga er ekki sérstaklega fjallað um hverjir geti kært mál til ráðuneytisins. Löng venja hefur hins vegar verið fyrir því að túlka ákvæðið þannig að kæruréttur þess sé rýmri en samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga og á það jafnt við um íbúa sveitarfélaga sem og sveitarstjórnarmenn. Hefur verið litið svo á að íbúar sveitarfélags eigi almennt lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnarinnar. Er þá litið til þess að ákvarðanir geta haft margháttuð áhrif fyrir íbúa án þess að alltaf sé hægt að benda á einstaklega, beina og lögvarða hagsmuni einstaklinga.
Kæruréttur samkvæmt 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga er hins vegar ekki takmarkalaus. Telur ráðuneytið rétt að játa GÞ aðild að því hvort það hafi verið lögmætt af hálfu Mýrdalshrepps að taka þá ákvörðun að auglýsa ekki hina umdeildu stöðu landvarðar. Hvað ráðninguna sjálfa varðar þá lýtur ráðuneytið svo á að um sé að ræða sérstaka ákvörðun sem ekki snerti hag allra íbúa sveitarfélagsins með svo beinum hætti eða hafi slík áhrif á þá að þeir geti öðlast kærurétt einungis á grundvelli búsetu sinnar í sveitarfélaginu og þar af leiðandi er það niðurstaða ráðuneytisins að ÞG eigi ekki kæruaðild að þeim þætti málsins.
2. Í 1. mgr. 56. gr. eldri sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veiti þeim lausn. Í 2. mgr. 56. gr. laganna segir að um ráðningar annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gefi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna. Í 1. mgr. 57. gr. laganna er svo tekið fram að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ráðningarsamningum. Rétt er að taka fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 gilda ekki um starfsmenn sveitarfélaga.
Í 54. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Mýrdalshrepps sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins, kemur fram að sveitarstjórn ráði starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu, svo sem yfirmenn stofnana og deilda sveitarfélagsins og veiti þeim lausn frá störfum. Í 55. gr. samþykktarinnar segir síðan að um ráðningu annarra starfsmanna fari eftir reglum sem sveitarstjórn setur og að um kaup og kjör fari eftir kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga. Á fundi sínum þann 20. apríl 2011 samþykkti sveitarstjórn Mýrdalshrepps starfsmannastefnu Mýrdalshrepps, þar sem kemur fram sú meginregla að öll föst störf skuli auglýsa á áberandi hátt og á heimasíðu sveitarfélagsins. Sú undantekning er þó frá þessari reglu að ekki er skylt að auglýsa afleysingarstöður og störf sem ráðið er í innan ársins. Í starfsmannastefnunni kemur einnig fram að sveitarstjóri annist ráðningu forstöðumanna stofnanna og deilda sem staðfest skuli af sveitarstjórn. Aðrar ráðningar eru í höndum forstöðumanna stofnana að fenginni umsögn viðkomandi nefnda.
Í máli þessu er óumdeilt að ráðning landvarðar í friðlandið í Dyrhólaey var tímabundin ráðning í fjóra mánuði. Þegar af þeirri ástæður telur ráðuneytið ljóst að sveitarfélaginu var heimilt að ráða í stöðuna án auglýsingar.
Með vísun til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að telja hina kærðu ákvörðun Mýrdalshrepps um ráðningu í starf landvarðar í friðlandi Dyrhólaeyjar lögmæta.
3. Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu telur ráðuneytið rétt að geta þeirrar meginreglu í íslenskum stjórnsýslurétti að við veitingu opinberra starfa skuli leitast við að velja hæfasta umsækjandann um starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Verður að telja að þó að stjórnvald sé ekki bundið við þá skyldu að auglýsa viðkomandi starf, sé það engu að síður bundið við fyrrgreinda meginreglu á þann hátt að velja beri hæfan aðila til starfsins. Þegar ekki er að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum leiðbeiningar um hvaða hæfniskröfur umsækjandi um starf skuli uppfylla er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggi slíka ákvörðun. Slík sjónarmið þurfa þó sem endranær að vera málefnaleg og lögmæt svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar ekki er mælt fyrir um tiltekin hæfnisskilyrði í lögum eða öðrum reglum sem veitingarvaldshafi er bundinn af hefur hann því meira svigrúm en ella til að ákveða hvaða sjónarmiðum ákvörðun verður byggð á og hvert innbyrðis vægi þeirra skuli vera. Ráðuneytið mun ekki endurskoða mat Mýrdalshrepps á hæfi EVS í starf landvarðar, enda standa heimildir þess ekki til þess. Hins vegar verður ekki annað séð en að Mýrdalshreppur hafi við val sitt á viðkomandi landverði byggt á málefnalegum sjónarmiðum og þannig lagt áherslu á tiltekna þætti sem að mati sveitarfélagsins hentuðu viðkomandi starfi. Þá er ekkert fram komið í gögnum málsins sem gefur tilefni til þess að ætla megi að oddviti Mýrdalshrepps hafi komið að ráðningu EVS, systursonar síns, á einhverju stigi málsins og því verður vart sú ályktun dregin að vanhæfur sveitarstjórnarmaður hafi komið að afgreiðslu málsins.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu Þorsteins Gunnarssonar um að tímabundin ráðning í starf landvarðar í friðlandi Dyrhólaeyjar vorið 2011 hafi verið ólögmæt.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir Hjördís Stefánsdóttir