Úrskurður í máli nr. IRN22010308
Ár 2022, þann 24. júní, er í innviðaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli IRN22010308
Kæra X
á ákvörðun
Kópavogsbæjar
I. Kröfur og kæruheimild
Þann 14. febrúar 2020 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra X (hér eftir kærandi) vegna ákvörðunar Kópavogsbæjar (hér eftir sveitarfélagið) þann 28. nóvember 2019 þess efnis að synja beiðni kæranda um lækkun á gatnagerðargjöldum. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt og sveitarstjórn gert að taka nýja ákvörðun, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda verið hafnað og hin kærða ákvörðun staðfest.
Kæran er borin fram á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 og er fram komin innan kærufrests, sbr. 2. málsl. sömu greinar.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi óskaði þess við sveitarfélagið með erindi dags. 7. febrúar 2019 að gatnagerðargjöld yrðu lækkuð um 40% vegna lóðanna .. á grundvelli 7. gr. samþykktar um gatnagerðargjald í Kópavogi. Í framhaldinu greiddi kærandi gatnagerðargjald en gerði fyrirvara við þá greiðslu, enda hafði hann þá þegar óskað lækkunar hennar.
Með bréfi dags. 28. nóvember 2019 var kæranda tilkynnt að bæjarstjórn sveitarfélagsins hefði þann 26. nóvember 2019 hafnað beiðni hans.
Kæran barst ráðuneytinu þann 14. febrúar 2020. Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. febrúar sama ár, var sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og sjónarmiðum varðandi kæruna. Gögn og athugasemdir sveitarfélagsins bárust ráðuneytinu þann 12. mars 2020.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. mars 2020 var kæranda gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins. Andmæli kæranda bárust með tölvubréfi dags. 2. apríl 2020.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskaði þess að gatnagerðargjöld yrðu lækkuð um 40% vegna lóðanna að .. á grundvelli 7. gr. samþykktar Kópavogsbæjar um gatnagerðargjöld.
Kærandi bendir á að samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hafi heimild ákvæðisins tvisvar sinnum verið nýtt og í eitt skipti hafi lækkun verið hafnað en það hafi verið í tilviki hans. Í þau tvö skipti sem heimildin var notuð hafi gatnagerðargjöld verið lækkuð um 40% vegna A og hins vegar um 40% vegna B. Samkvæmt skipulagi á A hafi einbýlishús verið rifið og stærra einbýlishús byggt í staðinn. Á B hafi einbýlishús verið rifið og stórt parhús verið byggt í staðinn. Afgreiðsla bæjarstjórnar á framangreindum erindum virðist að sögn kæranda hafa farið fram á árunum 2018 og 2019.
Að sögn kæranda má leiða að því líkur að bæjarstjórn hafi áður samþykkt lækkanir á þeim forsendum að þar hafi eldri hús verið rifin og ný byggð í staðinn auk þess sem um hafi verið að ræða þéttingu byggðar.
Ákvæði 7. gr. samþykktarinnar segir kærandi vera heimildarákvæði. Stjórnvöld séu þó samkvæmt reglum stjórnsýsluréttarins bundin af réttmætisreglunni og þyrftu allar ákvarðanir stjórnvalda því að vera málefnalegar. Ómálefnaleg sjónarmið væru þau sem byggðust á geðþótta, óvild eða persónulegum ástæðum. Því væru sjónarmið tengd hagsmunum stjórnvaldshafa af úrlausn máls, svo sem persónulegir, pólitískir eða fjárhagslegir, alla jafna ómálaefnaleg.
Bendir kærandi þá á að með sama hætti og stjórnvöld eru bundin af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sé jafnræðisregla lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar komi meðal annars fram að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá komi einnig til skoðunar reglur á sviði samkeppnisréttar, enda sitji aðilar augljóslega ekki við sama borð gagnvart sveitarfélaginu varðandi gatnagerðargjöld á Kársnesi.
Segir kærandi að með fyrri ákvörðunum bæjarstjórnar hafi orðið til ákveðin stjórnsýsluframkvæmd. Af umræðu bæjarstjórnar um afgreiðslu málsins megi draga þá ályktun að bæjarstjórn telji að hún gæti beitt heimildarákvæði 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins eftir því hvernig á henni liggi þann daginn. Staðreyndin sé aftur á móti sú að með því að samþykkja fyrri umsóknir um lækkun gatnagerðargjalda hafi bæjarstjórn sett fordæmi og búið til stjórnsýsluframkvæmd um það hvernig fyrrgreindri heimild verði beitt. Af því leiði að bæjarstjórn beri samkvæmt lögum, réttmætisreglu og jafnræðisreglu að afgreiða önnur mál með sama hætti. Í því sambandi bendir kærandi á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 652/1992 þar sem segir: „Þegar breytt er stjórnsýsluframkvæmd, sem er almennt kunn, án þess að til komi breyting á réttarreglum, verður í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gera þá kröfu til stjórnvalda, að þau kynni breytinguna fyrirfram, þannig að þeir aðilar, sem málið snertir, geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna.“
Í fyrirliggjandi máli sé ljóst að engar breytingar hafi verið gerðar á þeirri reglu 7. gr. samþykktarinnar sem hér um ræðir eftir afgreiðslu fyrri umsókna. Þegar af þeim ástæðum hafi bæjarstjórn verið skylt að samþykkja umsókn kæranda.
Þá getur kærandi þess að aðstæður í þjóðfélaginu og á fjármagnsmörkuðum séu með þeim hætti að erfitt geti verið að fjármagna byggingarframkvæmdir og stuðli lækkun gatnagerðargjalda því að framkvæmdum og þannig þéttingu byggðar.
Í umsögn bæjarlögmanns um umsókn kæranda, dags. 10. nóvember 2019, segir kærandi því hafa verið haldið fram að í málinu væru ekki sérstakar ástæður fyrir hendi fyrir utan þéttingu byggðar. Það athugist að þétting byggðar, ein og sér, sé ekki nægjanleg til þess að uppfylla skilyrði 7. gr. samþykktarinnar og fallast á beiðni kæranda. Afgreiðsla fyrri mála hafi þó að mati bæjarstjórnar þótt nógu sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins og við þá framkvæmd væri sveitarfélagið bundið. Þá stæðist sú fullyrðing bæjarlögmanns þess efnis að næg aðsókn væri í byggingarrétt á Kársnesi enga skoðun og þar af leiðandi sé ekki hægt að byggja afgreiðslu málsins á slíkum rökum, fyrir utan að slíkt skilyrði sé hvergi að finna í samþykkt bæjarstjórnar.
IV. Sjónarmið sveitarfélagsins
Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins feli í sér sérstaka lækkunarheimild þar sem bæjarstjórn er heimilað að lækka gatnagerðargjöld um 40% þegar nýbyggingar koma í stað eldri húsa sem eru rifin. Lækkunarheimildin eigi þá aðeins við tiltekin svæði og falli Kársnes þar undir.
Um sé að ræða undantekningu á þeirri meginreglu að sveitarstjórn skuli innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli, sbr. 3. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald. Hér sé um að ræða sérstakan skatt og umrædd lækkunarheimild byggð á heimildum þar um í greindum lögum, sbr. 6. gr. þeirra. Undantekningar beri að skýra þröngt. Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun hafii verið byggð á ómálefnalegum rökum og geðþótta. Það að lækkun hafi verið veitt einum aðila þýði ekki að sama eigi að gilda um alla á svipuðu svæði heldur verði að vera um að ræða sambærileg mál. Bæjarstjórn hafi í tvígang samþykkt lækkun gatnagerðargjalda frá gildistöku samþykktarinnar, vegna A og B. Í báðum tilvikum hafi verið um að ræða einstaklinga sem keyptu einbýlishús í niðurníðslu. Heimilað hafii verið að rífa húsin og byggja ný, annars vegar einbýli og hins vegar parhús. Þá hafi það legið fyrir að húsin sem stóðu á lóðunum hefðu lengi verið í söluferli og ásókn lítil. Bæði húsin væru samkvæmt skipulagi staðsett á skilgreindu skipulagssvæði Kársness og hafi bæjarstjórn talið þessar tilteknu nýbyggingar uppfylla skilyrði 1. mgr. 7. gr. samþykktar um gatnagerðargjald í Kópavogi.
.. sé jafnframt staðsett á skilgreindu skipulagssvæði Kársness. Á hinn bóginn sé samkvæmt samþykktum byggingaráformum gert ráð fyrir fjölbýlishúsi með 38 íbúðum. Þá sé skipulagssvæðið sem lóðin .. er staðsett á jafnframt frábrugðin að því leyti að það svæði sé skilgreint þróunarsvæði, ÞR-1. Samkvæmt gildandi skipulagi sé á ÞR-1 gert ráð fyrir töluverðri breytingu á notkun og verulegri þéttingu byggðar. Verið sé að breyta iðnaðarsvæði í íbúða-, verslunar- og þjónustusvæði. Þar liggi því fyrir allt aðrar forsendur en í hinum tveimur málunum, til dæmis er varðar eftirspurn. Mikil uppbygging eigi sér stað á þróunarsvæði ÞR-1 og því megi jafnframt færa rök fyrir því að hér sé um samkeppnistilvik að ræða, þ.e. að eftirspurnin sé mun meiri en framboð lóða til slíkrar uppbyggingar á skilgreindu þróunarsvæði. Synjun bæjarstjórnar hafi meðal annars byggt á framangreindum rökum og hafi því ekki verið talið að um sérstakar aðstæður væri að ræða í tilviki .., svo sem litla ásókn og skilyrði 1. mgr. 7. gr. samþykktarinnar því ekki talin uppfyllt.
Að lokum tekur sveitarfélagið undir með kæranda að vissulega setji bæjarstjórn fordæmi með því að heimila lækkun gatnagerðargjalda fyrir tilteknar lóðir. Hins vegar sé því með hliðsjón af framangreindu hafnað að tilvik .. sé sambærilegt þeim tveimur erindum þar sem lækkun hafi verið samþykkt. Með hinni kærðu ákvörðun hafi sveitarfélagið því ekki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.
V. Andmæli kæranda
Kærandi mótmælir því sem fram kemur af hálfu sveitarfélagsins þess efnis að ekki sé um að ræða sambærileg mál.
Kærandi vísar til þess að sveitarfélagið hafi tilgreint að í þeim málum sem fallist var á lækkun hafi verið um að ræða einstaklinga. Bendir kærandi á að heimildarákvæði 1. mgr. 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins um lækkun á gatnagerðargjaldi sé hvorki bundið við einstaklinga né sé það tiltekið að eignarhald á þeim fasteignum sem heimildin eigi að ná til þurfi að vera með tilteknum hætti. Þá verði að telja að skýra heimild þurfi í lögum ætti að mismuna aðilum með tilliti til þess hvort um sé að ræða einstaklinga eða hvers kyns lögaðila, sér í lagi þar sem gjaldskyldu samkvæmt lögum nr. 153/2006 um gatnagerðargjald sé beint að lóðarhafa eða byggingarleyfishafa sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, eins og til að mynda komi fram í 2. mgr. 6. gr. laganna í tengslum við annars konar lækkunarheimild. Það sjónarmið að um einstaklinga hafi verið að ræða en kærandi sé lögaðili geti því ekki haft áhrif á niðurstöðu sveitarfélagsins.
Vísar kærandi þá til þess að fram hafi komið af hálfu sveitarfélagsins að í fyrri málum hafi verið keypt einbýlishús í niðurníðslu. Að því leyti væri ekki um að ræða sambærileg mál. Bendir kærandi á að á þeim lóðum sem hann hefði keypt hafi verið ónýtt einbýlishús í niðurníðslu auk atvinnuhúsnæðis í algjörri niðurníðslu.
Þá segir kærandi að sú útskýring sveitarfélagsins, að húsin sem staðið hafi á lóðunum hafi verið í söluferli og ásókn lítil, eigi jafn vel við um eigið tilvik og önnur. Sem dæmi hafi, eftir bestu þekkingu kæranda, húsið við .. verið til sölu frá árinu 2010 þegar kærandi keypti það árið 2016. Þá hafi kærandi jafnframt reynt að selja umræddar lóðir í núverandi ástandi, þ.e. tilbúnar til framkvæmda, en engin ásókn hafi verið í þær. Til viðbótar hafi eignir og eða lóðir á svæðinu verið til sölu í langan tíma án þess að það hafi skilað árangri. Segir kærandi þá, án þess að um ræði tæmandi talningu, að nefna megi að .., þar sem deiliskipulag heimilaði byggingu 40 íbúða og .., þar sem deiliskipulag heimilaði byggingu 45 íbúða, auk lóðarinnar .. sem hafi verið í sölu síðan í maí 2018.
Segir þá af hálfu kæranda að fráleitt sé að halda því fram að það eigi að hafa áhrif á afgreiðslu málsins að .. sé á skilgreindu þjónustusvæði. Frekar megi færa fyrir því rök að lóðir á þróunarsvæði, þar sem margar lóðir séu í algjörri niðurníðslu, ættu að njóta lækkunar á gatnagerðargjöldum frekar en lóðir í rótgróinni byggð. Það að um þróunarsvæði sé að ræða væri ákvörðun sveitarfélagsins til þess að stuðla að þéttingu byggðar og sé heimildin einmitt sniðin utan um afmarkað svæði innan sveitarfélagsins þar sem slík tilvik eigi við. Slík tilvik uppfylli þannig fleiri skilyrði umræddrar reglu 1. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006, þar sem um sé að ræða nýbyggingu í stað eldri húsa, þéttingu byggðar og litla ásókn í viðkomandi lóð – á meðan hin tilvikin tvö uppfylli aðeins tvö framangreindra skilyrða. Þannig sé það augljóslega áhættumeira að standa að byggingarframkvæmdum fyrir lóðarhafa á þróunarsvæði Kársness þar sem margar lóðir séu eins og ruslahaugar í algjörri niðurníðslu, sem sjálfkrafa hefði gríðarleg áhrif á sölu og fjárfestingu í hreinsun og markaðssetningu hverfisins, borið saman við sambærileg verkefni í rótgrónu hverfi.
Af hálfu kæranda er þá vikið að því sem kemur fram um skipulag og það sem kærandi segir ímyndaða eftirspurn sveitarfélagsins. Segir kærandi að fram komi samkvæmt skipulagi að gert sé ráð fyrir töluverðri breytingu á notkun og því sé um allt aðrar forsendur að ræða í máli kæranda en í hinum málunum, til dæmis er varðar eftirspurn. Ekki sé fyllilega ljóst hvað sveitarfélagið eigi við með svari sínu en til þess að svara því sem fram hafi komið þurfi að liggja fyrir hvaða allt aðrar forsendur það séu og hvaða eftirspurn það væri sem sveitarfélagið vísaði til. Fyrir liggi að um sé að ræða niðurrif eldri húsa þar sem reisa eigi ný með þéttingu byggðar á lóðum þar sem ásókn sé og hafi verið lítil sem engin í skilningi 1. mgr. 6. gr. samþykktarinnar. Kærandi mótmælir öllu tali um það sem hann vísar til sem ímyndaðrar eftirspurnar nema sýnt verði fram á hana með óyggjandi gögnum.
Ítrekar kærandi þá framangreint varðandi þá fullyrðingu sveitarfélagsins að eftirspurn sé mun meiri en framboð lóða á Kársnesi. Þannig sé, eins og bent hafi verið á, fjölmörg rými á Kársnesi til töku sem hægt sé að rífa og byggja þar ný hús samkvæmt gildandi aðal- og deiliskipulagi. Þá hafi það áður komið fram að kærandi hafi haft umræddar lóðir til sölu án þess að slíkt hafi skilað árangri. Kærandi segir það ekki boðlegan málflutning að halda því fram að einhver umframeftirspurn sé eftir lóðum á Kársnesi þegar slíkt eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og bendir á að engin gögn hafi verið lögð fram sem sýndu fram á slíkt.
VI. Niðurstaða ráðuneytisins
Til álita er synjun sveitarfélagsins á lækkun gatnagerðargjalds á grundvelli samþykktar um gatnagerðargjald í Kópavogi frá 8. apríl 2013.
Um gatnagerðargjald gilda lög um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að lögbinda gjaldstofn fyrir sveitarfélag til töku sérstaks skatts af fasteignum og rétt sveitarfélaga til að ákveða innan marka laganna hvernig sá gjaldstofn er nýttur. Í lögunum gefur að finna sérstaka lækkunarheimild í 6. gr. og á grundvelli hennar er sveitarstjórn heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður. Þá er sveitarstjórn heimilt samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna að mæla nánar fyrir um skilyrði framangreindra lækkunarheimilda í samþykkt sinni um gatnagerðargjald.
Um 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 segir í greinargerð með frumvarpi er varð að lögunum að í greininni sé að finna sérstaka heimild sem sveitarfélögum sé veitt til þess að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður. Gert væri ráð fyrir því að ákvarðanir um slíkt yrðu teknar með stjórnvaldsákvörðunum hverju sinni en þrátt fyrir það væri gert ráð fyrir því samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins að sveitarfélög settu reglur í samþykkt sína um nánari útfærslu slíkra undanþáguheimilda. Tilgangur þess væri meðal annars að auka gegnsæi og samræmi við ákvarðanatöku um lækkun eða niðurfellingu í viðkomandi sveitarfélagi.
Í gildi er samþykkt um gatnagerðargjald í Kópavogi frá 8. apríl 2013. Í 1. mgr. 7. gr. samþykktarinnar er bæjarstjórn veitt heimild til að lækka gatnagerðargjald um allt að 40% vegna nýbygginga sem koma í stað eldri húsa sem rifin eru. Lækkunarheimildin er bundin skilyrði um staðsetningu og sérstökum aðstæðum, sem eru til dæmis þétting byggðar, atvinnuuppbygging eða lítil ásókn í viðkomandi lóð. Sú viðbót, frá því sem fram kemur í lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006 og felst í ákvæðinu, er að hámark lækkunarinnar er tilgreint og það gert að skilyrði að eldra hús sé rifið og nýbygging reist í stað þess. Þá er skilyrði að nýbyggingin sé á ákveðnu svæði. Að öðru leyti er ákvæðið efnislega samhljóma ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjald, sem því er ætlað að skýra, að undanskyldu því að eftirspurn eftir leiguhúsnæði er ekki í dæmaskyni talin til sérstakra aðstæðna líkt og gert er í lagagreininni. Stendur því eftir matskennt ákvæði, nánast samhljóma 6. gr. laganna, sem eykur aðeins lítillega við gagnsæi og samræmi við ákvarðanatöku um lækkun eða niðurfellingu í viðkomandi sveitarfélagi.
Fyrrgreind lækkunarheimild 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 og sérstök lækkunarheimild 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins fela í sér matskennd heimildarákvæði. Þrátt fyrir að um ræði heimild til lækkunar er sveitarfélaginu ekki í frjálst vald sett hvernig heimildinni er beitt. Gæta verður að meginreglum stjórnsýsluréttar, þá helst jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar sama efnis. Af því leiðir að sveitarfélagið er bundið af fyrri framkvæmd sinni á grundvelli ákvæðanna og verður sveitarfélagið því að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilviki. Um þau tilvik sem eru sambærileg í lagalegu tilliti gildir að þau skuli hljóta sams konar úrlausn. Gildir þá jafnframt að ekki felst í því brot gegn reglunni ef niðurstaða mála verður ólík ef sá munur leiðir af því að tilvikin eru ekki nægilega sambærileg og að baki niðurstöðunni búa frambærileg og lögmæt sjónarmið.
Kemur þá til skoðunar hvort jafnræðis var gætt þegar umsókn kæranda um lækkun gatnagerðargjalda vegna lóða á .. var hafnað. Fyrir liggur í gögnum málsins að nýting lækkunarheimildarinnar hefur komið til skoðunar í þrjú skipti. Orðið var við beiðnum þinglýstra eigenda A og B um lækkun gatnagerðargjalda á grundvelli samþykktar um gatnagerðargjald í Kópavogi. Þær bárust sveitarfélaginu þann 13. nóvember 2018 og 28. janúar 2019, eru sambærilegar og hlutu sömu niðurstöðu. Í beiðnunum kemur fram að rifin hafi verið eldri hús sem eigendur segja ónýt, lýti hvað götumyndina varðar og að lítil ásókn hafi verið í lóðirnar. Þá er í báðum tilvikum um að ræða byggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðarbúsetu beiðenda.
Beiðni kæranda barst sveitarfélaginu 7. febrúar 2019 en var hafnað. Í beiðninni kemur ekki annað fram en að kærandi telji lækkunarheimild 7. gr. samþykktar Kópavogsbæjar eiga við þar sem um sé að ræða þéttingu byggðar. Í kæru kemur ekki fram af hvaða ástæðum öðrum en þéttingu byggðar eigi að fallast á beiðni kæranda. Þá segir raunar ekki með hvaða hætti fyrirliggjandi tilvik og fyrri tilvik séu sambærileg. Það er fyrst í andmælum kæranda sem fram kemur með hvaða hætti fyrirliggjandi tilvik teljist sambærileg.
Í fyrri tilvikum hafa einbýlishús verið rifin og umsóknir varðað eina ákveðna lóð en í tilviki kæranda einbýlishús og atvinnuhúsnæði, og umsóknin varðar þrjár lóðir. Þá hafa í fyrri tilvikum gatnagerðargjöld einstaklinga verið lækkuð vegna húsnæðis sem ætlað hefur verið til eigin búsetu. Sá grundvallarmunur er á aðstöðu kæranda og beiðenda í fyrri tilvikum að kærandi er lögaðili rekinn í hagnaðarskyni. Eðli máls samkvæmt hefur kærandi ekki í huga byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin búsetu. Að því leyti er aðstaða kæranda frábrugðin þeirri aðstöðu sem uppi var í fyrri tilvikum sem leiðir að mati ráðuneytisins til þess að málin eru ekki nægilega sambærileg svo að fyrri úrlausnir sveitarfélagsins hafi fordæmisgildi. Þá má lesa þá meginreglu úr 2. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 og 2. mgr. 7. gr. samþykktar Kópavogsbæjar um gatnagerðargjald að annað getur gilt við lækkun gatnagerðargjalds þegar viðkomandi aðili er stofnun, félagasamtök eða félag sem rekið er í ágóðaskyni.
Að framangreindu sögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að hafna beri kröfu kæranda.
Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu X um ógildingu ákvörðunar Kópavogsbæjar frá 28. nóvember 2019 þess efnis að synja beiðni félagsins um lækkun á gatnagerðargjöldum