Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í máli nr. IRR16030226

Ár 2016, 21. mars er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi 

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR16030226

 

Kæra U-listans í Langanesbyggð
vegna ákvörðunar
meirihluta sveitarstjórnar Langanesbyggðar

 

I.         Kröfur

Þann16. mars 2016, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þriggja fulltrúa U-listans í Langanesbyggð, þ.e. þeirra Siggeirs Stefánssonar, Halldóru Jóhönnu Friðbergsdóttur og Björns Guðmundar Björnssonar (hér eftir nefnd U-listi), vegna þeirrar ákvörðunar meirihluta sveitarstjórnar Langanesbyggðar, sem tekin var á fundi sveitarstjórnar þann 25. febrúar 2016, að breyta fundartíma sveitarstjórnar í samþykktum sveitarfélagins.

Verður að ætla að þess sé krafist að fyrrgreind ákvörðun verði felld úr gildi.

 

II.        Málsatvik, málsmeðferð og sjónarmið U-listans    

Á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar, þann 25. febrúar 2016, var eftirfarandi bókað:

Reglulegir fundir sveitarstjórnar Langanesbyggðar - minnisblað

Sveitarstjóri lagði fram og fór yfir minnisblað varðandi málið er varðar breyttar tímasetningar funda. Breytingin felur í sér að hér eftir verði fundað þriðja hvern fimmtudag.

Tillaga að bókun frá U-lista: Það er mat U-listans að afgreiðsla allra mála verði þyngri og erfiðari ef fækka eigi fundum sveitarstjórnar frá því sem nú er, sem og að fundirnir verði lengri og strembnari og því gerir U-listinn það að tillögu sinni að reglubundnir fundir sveitarstjórnar haldist óbreyttir en þóknun sveitarstjórnarmanna, fyrir hvern fund, verði lækkuð um helming. 3 samþykkir, Hilma, Hulda Kristín, Þorsteinn Ægir og Reynir Atli á móti.

Tillaga að bókun: Sveitarstjórn Langanesbyggðar felur sveitarstjóra að gera þær breytingar sem þarf á samþykktum sveitarfélagsins. 4 samþykkir, Siggeir, Halldóra Jóhanna og Björn Guðmundur á móti

U- listinn vísar til þess að um sé að ræða breytingu á samþykkt sveitarfélagsins Langanesbyggðar, nr. 612/2013, en í 1. og 2. mgr. 8. gr. samþykktarinnar segir

Sveitarstjórn Langanesbyggðar heldur reglulega fundi sveitarstjórnar annan og fjórða hvern fimmtudag í mánuði, kl. 17.00.
Aukafundi skal halda þegar oddviti eða sveitarstjóri telur það nauðsynlegt eða ef þriðjungur sveitarstjórnarfulltrúa óskar þess.


Í 1. tölulið 1. mgr. 14. gr. sömu samþykktar sé síðan skýrlega kveðið á um að sé um breytingu á samþykkt sveitarfélagsins að ræða þá þurfi tvær umræður um málefnið í sveitarstjórn, en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Ákvæði er svohljóðandi:

Sveitarstjórn skal hafa tvær umræður, með a.m.k. einnar viku millibili um:
1. Samþykktir og aðrar reglur sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra.


Bendir U-listinn á að reglulegur fundur sveitarstjórnar hefði átt að vera haldinn þann 10. mars 2016, en svo hafi ekki verið.

Á grundvelli eðlis málsins taldi ráðuneytið ekki þörf á því að gefa sveitarfélaginu Langanesbyggð kost á að gæta andmæla við sjónarmið U-listans.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga segir að aðilum máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. Í 2. mgr. sömu greinar segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Um kæruleiðbeiningar, kærufrest og meðferð kærumáls fer að öðru leyti að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Af athugasemdum við 111. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli.

Ljóst er að ágreiningsefni það sem U-listinn hefur borið undir ráðuneytið er ekki stjórnvaldsákvörðun í framangreindum skilningi. Ekki eru um það að ræða að sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun sem beint hafi verið að tilteknum aðila þar sem kveðið var á bindandi hátt um rétt hans eða skyldu í ákveðnu og fyrirliggjandi máli, heldur var um að ræða breytingu á samþykkt sveitarfélagins er varðar fundartíma sveitarstjórnar. 

Á grundvelli framangreinds telur ráðuneytið að hin kærða ákvörðun uppfylli ekki skilyrði þess að vera stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 109. gr. sömu laga og ber að vísa máli þessu frá ráðuneytinu.

Ráðuneytið tekur hins vegar fram að það mun á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga taka til athugunar hvort tilefni sé til að skoða stjórnsýslu sveitarstjórnar Langanesbyggðar í máli þessu, en U-listinn á ekki aðild að því máli.

Með vísun til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu.


Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru þriggja fulltrúa U-listans í Langanesbyggð, þ.e. þeirra Siggeirs Stefánssonar, Halldóru Jóhönnu Friðbergsdóttur og Björns Guðmundar Björnssonar vegna þeirrar ákvörðunar meirihluta sveitarstjórnar Langanesbyggðar, sem tekin var á fundi sveitarstjórnar þann 25. febrúar 2016, að breyta fundartíma sveitarstjórnar í samþykktum sveitarfélagins er vísað frá.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta