Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12070243
Ár 2012, þann 29. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 12070243
Ómar R. Valdimarsson
gegn
Reykjavíkurborg
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann 23. júlí 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Ómars R. Valdimarssonar (hér eftir nefndur ÓRV), vegna ákvörðunar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um breytingar í skipulagi leikskólans Hlíðar. Er gerð sú krafa í málinu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er farið fram á að ráðuneytið fresti réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.
Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og er hún fram komin innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 2. mgr. 111. gr. sömu laga.
II. Sjónarmið ÓRV
Í kæru sinni til ráðuneytisins rekur ÓRV að þann 13. júlí 2012 hafi honum borist ákvörðun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar þess efnis að hafnað hafi verið kröfum hans um að aldursskiptingu barna í mismunandi hús leikskólans Hlíðar í Reykjavík yrði frestað og ákvarðanir er að aldursskiptingunni lytu yrðu ógiltar. Tekur ÓRV fram að krafa hans hafi verið byggð á því að ýmis ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefðu verið brotin við meðferð málsins.
Í kæru er ennfremur greint frá því að þann 11. apríl 2012 hafi foreldrum barna á leikskólanum Hlíð borist bréf frá stjórnendum leikskólans um að til stæði að breyta skipulagi skólans. Hafi breytingarnar átt að fela í sér að börnum í hinum sameinaða leikskóla yrði aldursskipt, þannig að öll börn fædd árin 2007 og 2008 myndu eftir 1. september 2012 flytjast yfir í húsnæði sem áður hafi hýst Sólhlíð, en börn fædd árin 2009 og 2010 flytjast yfir í húsnæði sem áður hafi tilheyrt Hlíðaborg. Breytingarnar hafi verið kynntar sem liður í sameiningarferli leikskólanna Hlíðaborgar og Sólhlíðar.
ÓRV telur ljóst að umrædd ákvörðun Reykjavíkurborgar sé tekin í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga, og því hafi umræddu stjórnvaldi, þ.e. stjórnendum leikskólans, borið að virða málsmeðferðarreglur laganna áður en ákvörðunin kæmi til framkvæmda. Telur ÓRV ljóst að ef ákvörðunin komi til framvæmda muni hún hafa bindandi réttaráhrif gagnvart honum og öðrum foreldum barna í leikskólanum Hlíð. Ákvörðuninni sé beint út á við og beinist að réttindum hans og skyldum, sem og annarra foreldra barna við umræddan leikskóla. Telur ÓRV rétt að undirstrika að þrátt fyrir að ákvörðunin beri ýmis merki þess að vera almenn ákvörðun sem beinist ekki sérstaklega að tilteknum einstaklingum eða hópi einstaklinga, sé hið gagnstæða rétt. Í fyrirliggjandi máli hátti þannig til að umræddur hópur, sem sem hin kærða ákvörðun hafi áhrif á, sé mjög afmarkaður og geti ákvörðunin því ekki talist það almenn að hún falli utan gildissviðs stjórnsýslulaga. Þessu sjónarmiði megi finna stað í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4340/2005. Þá telur ÓRV rétt að geta þess sérstaklega að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafi ekki dregið í efa að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða eða að ÓRV eigi aðild að máli vegna ákvörðunarinnar. Telur ÓRV því ljóst af öllu ofangreindu röktu að hin kærða ákvörðun sé tekin í ákveðnu og fyrirliggjandi máli og sé ætlað að binda enda á stjórnsýslumál.
Rétt er að geta þess að ÓRV hefur tiltekið ýmsar fleiri röksemdir máli sínu til stuðnings sem ráðuneytið telur ekki nauðsynlegt að rekja hér frekar.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það eru því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.
Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að sú ákvörðun sem kæra þessi lýtur að lúti fyrst og fremst að innra skipulagi í starfsemi Reykjavíkurborgar og að verklegri framkvæmd tiltekinnar þjónustu fyrir almenning. Slíkar ákvarðanir teljast ekki til stjórnvaldsákvarðana, enda eru með þeim ekki teknar ákvarðanir um rétt eða skyldur tiltekinna aðila í ákveðnu og fyrirliggjandi máli.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið ljóst að ágreiningsefni það sem ÓRV hefur borið undir ráðuneytið fellur ekki undir kæruheimild 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga og er af þeim sökum óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Ómars R. Valdimarssonar, vegna ákvörðunar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um breytingar í skipulagi leikskólans Hlíðar, er vísað frá ráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir
Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson