Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11090133
Ár 2012, þann 6. mars er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 11090133
Aron Jóhannsson
gegn
Sorpeyðingarstöð Suðurnesja
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Með stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 13. september 2011 kærði Aron Jóhannsson, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur AJ), ákvörðun stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. um ráðningu í starf framkvæmdastjóra sorpeyðingarstöðvarinnar. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ólögmæt.
Kæran er sett fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og barst hún ráðuneytinu innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Þann 2. apríl 2011 var auglýst starf framkvæmdastjóra Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. og var umsóknarfrestur til 17. apríl sama ár. Alls munu 45 umsóknir hafa borist um starfið og var AJ á meðal umsækjanda. Ekki liggur nákvæmlega fyrir í gögnum málsins hvenær tekin var ákvörðun um ráðninguna en ljóst er að það var um miðjan júní 2011. Var AJ sendur rökstuðningur vegna ákvörðunarinnar með bréfi, dags. 15. júní 2011. Ljóst er af kæru að AJ telji að hann sé hæfari til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Sorpeyðingarstöðvarinnar en sá sem ráðinn var, upplýsingaöflun og málsmeðferð í ráðningarferlinu hafi verið ábótavant og að rökstuðningur fyrir ráðningunni sé ekki í samræmi við þær kröfur sem fram komu í auglýsingu starfsins.
Með bréfi, dags. 16. september 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja um kæruna auk afrits af öllum gögnum málsins. Barst umbeðin umsögn og gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 17. október 2011. Með tölvubréfi, dags. 3. nóvember 2011, óskaði ráðuneytið nánar tiltekinna upplýsinga frá Sorpeyðingarstöðinni og bárust þær ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 17. nóvember 2011.
Með bréfi, dags. 1. nóvember 2011 gaf ráðuneytið AJ færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. um kæru hans. Bárust ráðuneytinu slík andmæli með bréfi, dags. 8. desember 2011.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
Í 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 var kveðið á um að ráðuneytið skyldi úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kynnu að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerti þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Úrskurðarvald ráðuneytisins nær því eingöngu til athafna sveitarfélaga og stofnana þeirra er teljast stjórnvöld eða falið er að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur borgaranna í skjóli stjórnsýsluvalds. Við afmörkun úrskurðarvalds ráðuneytisins ber þannig að líta til 1. mgr. 1. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, og 2. mgr. 1. gr. laganna þar sem fram kemur að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
Stjórnsýslulög nr. 37/1993 taka almennt ekki til lögaðila sem komið er á fót á einkaréttarlegum grundvelli í því félagaformi sem atvinnufyrirtæki hafa jafnan, svo sem í formi sameignarfélaga. Slík félög teljast þannig ekki stjórnvöld í skilningi stjórnsýslulaga og gildir þar einu hvort þau eru í eigu opinberra aðila eða annist stjórnsýslu. Hefur verið litið svo á í því sambandi að hið opinbera hafi að meginstefnu val um hvort ákveðinni starfsemi sé komið á fót í lagaumhverfi hins opinbera réttar eða á einkaréttarlegum grundvelli, t.d. sem hlutafélagi eða sameignarfélagi (sjá nánar Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2005, bls. 120).
Undantekning frá framangreindri reglu um að stjórnsýslulög taki ekki til slíkra einkaréttarlegra lögaðila svo sem að framan er getið er þegar þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir er varða réttindi eða skyldur borgaranna. Gilda þá stjórnsýslulög og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar um meðferð þeirra tilteknu mála. Ákvörðun um ráðningu í starf hjá félagi er starfar á einkaréttarlegum grunni, s.s. sameignarfélagi, telst hins vegar ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. sjórnsýslulaga eða liður í beitingu stjórnsýsluvalds að öðru leyti heldur fer um hana eftir almennum reglum vinnuréttar. Af því leiðir að slík ákvörðun lýtur ekki endurskoðunarvaldi ráðuneytisins.
Samkvæmt samþykktum fyrir Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., síðast breytt 25. ágúst 2011, er Sorpeyðingarstöðin sameignarfélag í eigu og rekin af Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Sveitarfélaginu Garði og Sveitarfélaginu Vogum, sbr. 1. gr. samþykktanna. Er því ljóst að starfsemi félagsins fer fram á einkaréttarlegum grunni og lýtur þar af leiðandi ekki stjórnsýslulögum nema að því marki sem félaginu hefur sérstaklega verið falin meðferð stjórnsýsluvalds. Ákvörðun um ráðningu í starf framkvæmdastjóra félagsins telst hins vegar ekki ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og lýtur því ekki endurskoðunarvaldi ráðuneytisins. Er óhjákvæmilegt af þeim sökum að vísu kæru AJ frá ráðuneytinu.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Arons Jóhannssonar, kt. xxxxxx-xxxx, á ákvörðun stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. um ráðningu í starf framkvæmdastjóra sorpeyðingarstöðvarinnar, er vísað frá ráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir
Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson