Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12050256

Ár 2012, þann 21. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12050256

Reynir Þorsteinsson

gegn

Sveitarfélaginu Garði

 

I.       Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 18. maí 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Reynis Þorsteinssonar, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur RÞ) vegna 103. fundar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs, sem haldinn var 16. maí 2012. Er gerð sú krafa að ráðuneytið úrskurði að afgreiðsla bæjarstjórnar á 2. dagskrárlið fundarins verði ógilt og fyrirskipað að málið verði tekið fyrir að nýju.

Er ljóst að kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og er hún fram komin innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 2. mgr. 111. gr. sömu laga.

II.      Sjónarmið RÞ

Í kæru tekur RÞ fram að hann, íbúi í sveitarfélaginu, hafi mætt á 103. fund bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs, sem áheyrandi. Kveður hann að ljóst hafi verið fyrir fundinn að meirihluti bæjarstjórnar hafi verið sprunginn og uppsögn bæjarstjóra væri á dagskrá. Á dagskrá fundarins, undir 2. lið, hafi jafnframt verið fundargerð skólanefndar sveitarfélagsins vegna fundar hennar þann 9. maí 2012.  Hafi hann haft mikinn áhuga á að heyra afstöðu nýs meirihluta bæjarstjórnar til úttektar á starfsemi Gerðaskóla. Sérstaklega hafi verið áhugavert fyrir RÞ að heyra umræðurnar þar sem fram komin úttekt hefði verið einn helsti orsakavaldur þess að fyrri meirihluti hefði klofnað, og þar sem hann hefði verið formaður skólanefndar þegar úttektin hafi verið unnin.

Þegar fundargerð skólanefndar hafi verið tekin fyrir hafi Ásmundur Friðriksson, þáverandi bæjarstjóri, stigið í pontu og gert umrædda úttekt að umtalsefni, þ. á m. tillögur um skipan nýrra stjórnenda sem og endurráðningu í stöðu sérkennslufulltrúa. Oddvita hafi mislíkað þau ummæli og vísað þáverandi bæjarstjóra aftur til sætis, ekki einu sinni heldur tvisvar. Þá hafi oddviti jafnframt hótað að loka fundinum og kalla lögreglu til ef fundargestir yfirgæfu ekki fundarsalinn. Telur RÞ að sú athöfn oddvita sé skýrt brot á 1. mgr. 16. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem hvorki fundargerð skólanefndar né umrædd úttekt á starfsemi Gerðaskóla geti talist viðkvæm mál, enda hafi verið búið að birta hvoru tveggja áður. Engin umræða hafi farið fram um lokun fundarins. Hafi einhver umræða átt sér stað um lokun fundarins hafi hún átt sér stað eftir að fundargestir yfirgáfu hann.

Þá tekur RÞ fram að hann kæri jafnframt að meirihluti bæjarstjórnar hafi ákveðið að yfirgefa fundinn án formlegrar tillögu um fundarhlé. Enga bókun sé að finna um slíkt í fundargerð fundarins, og verði með þessu að telja að meirihluti bæjarstjórnar hafi slitið fundinum. Fundurinn hafi ekki verið ályktunarhæfur, sbr. 1. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga, eftir brotthvarf meirihlutans. Því hafi verið óheimilt að halda honum áfram án þess að boða til aukafundar.

Telur RÞ því að lögverndaður réttur hans til að fylgjast með umræðum á 103. fundi bæjarstjórnar hafi verið fótum troðum og óskar hann eftir því við ráðuneytið að það úrskurði 2. lið fundarins, ógildan og fyrirskipi að málið verði tekið fyrir að nýju svo íbúar megi kynna sér afstöðu einstakra bæjarstjórnarfulltrúa til úttektar á starfsemi Gerðaskóla. Einnig óskar RÞ þess að ráðuneytið úrskurði um hvort það geti talist eðlileg fundarsköp hjá meirihluta bæjarstjórnar að yfirgefa fund án formlegrar tillögu um fundarhlé og þá hvort fundurinn hafi talist löglegur eftir það.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það eru því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.

Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli  (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ljóst er að ágreiningsefni það sem RÞ hefur borið undir ráðuneytið fellur ekki þar undir, enda verður ekki séð að bæjarstjórn hafi á umræddum fundi sínum tekið stjórnvaldsákvörðun í fyrirliggjandi máli er varðar hann umfram aðra, heldur er um að ræða almennan ágreining um fundarsköp og fundarstjórn. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu enda fellur hún ekki undir kæruheimild 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga.

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru Reynis Þorsteinssonar, kt. xxxxxx-xxxx vegna 103. fundar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs, sem haldinn var 16. maí 2012, er vísað frá.

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta