Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12070078
Ár 2012, þann 18. júlí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 12070078
Jón Jósef Bjarnason
gegn
Mosfellsbæ
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann 6. júlí 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Jóns Jósefs Bjarnasonar, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur JJB), vegna samþykktar 1079. fundar bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 21. júní 2012 um að heimila bæjarstjóra að ganga frá samningi við Landsbanka Íslands um uppgjör sjálfskuldarábyrgðar.
Er ljóst að kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og er hún fram komin innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 2. mgr. 111. gr. sömu laga.
II. Sjónarmið JJB
Í kæru tekur JJB fram að á fundi sínum þann 21. júní 2012 hafi bæjarráð Mosfellsbæjar heimilað bæjarstjóra sveitarfélagsins að semja um greiðslu til Landsbanka Íslands, með eignum og réttindum sem aðilar telji um kr. 250.000.000 virði.
Þá tekur JJB fram að samkvæmt 58. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 geti sveitarstjórn ein tekið ákvarðanir um málefni sem varði verulega fjármál sveitarfélagsins. Telur JJB að umrætt mál falli í þann flokk. Í sömu grein segi að sveitarstjórn ein geti tekið ákvarðanir um lán, ábyrgðir eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélagsins, sölu eigna og annarra réttinda þess.
Þá tekur JJB jafnframt fram að samkvæmt lögfræðiáliti lögfræðings sveitarfélagsins sé sjálfskuldarábyrgð sú sem greiðslan sé til komin vegna, ólögleg. Þar segi að ábyrgðarskuldbinding sveitarfélags sem stofnast hafi í andstöðu við ákvæði 6. mgr. 73. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 verði talin óskuldbindandi fyrir viðkomandi sveitarfélag. Telur JJB að Mosfellsbær sé því ekki ábyrgur og að með umræddri ákvörðun gæti bæjarráðsfulltrúar ekki hagsmuna sveitarfélagsins og íbúa þess eins og þeim beri skylda til skv. 24. gr. og IV. kafla sveitarstjórnarlaga.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það eru því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.
Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ljóst er að ágreiningsefni það sem JJB hefur borið undir ráðuneytið fellur ekki þar undir, enda verður ekki séð að bæjarstjórn hafi á umræddum fundi sínum tekið stjórnvaldsákvörðun í fyrirliggjandi máli er varðar hann umfram aðra. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu enda fellur hún ekki undir kæruheimild 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Jóns Jósefs Bjarnasonar, kt. xxxxxx-xxxx, vegna samþykktar 1079. fundar bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 21. júní 2012, er vísað frá.
Fyrir hönd ráðherra
Hjördís Stefánsdóttir Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson