Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í máli nr. IRR13080254

Ár 2014, 13. janúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR13080254

 

Kæra félagsins Lónsleiru ehf.

á ákvörðun

Seyðisfjarðarkaupstaðar

 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 26. ágúst 2013, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Sigurðar Gunnarssonar f.h. félagsins Lónsleiru ehf., kt. [xxxxxx-xxxx] (hér eftir nefnt L), dags. 22. ágúst 2013 þar sem kærð er álagning Seyðisfjarðarkaupstaðar á gatnagerðargjaldi vegna fasteignanna að Lónsleiru nr. 7 og 9 á Seyðisfirði, sem eru í eigu félagsins.

Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði að umrædd álagning gatnagerðargjalds sé ólögmæt.

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga nr. 153/2006.

Af málsgögnum verður ekki séð hvenær hin kærða ákvörðun var tekin, en þó liggur fyrir í skjölum málsins að útreikningur gjaldsins fór fram þann 10. júlí 2013 og því ljóst að álagning gjaldsins hefur ekki átt sér stað fyrir þann tíma. Kærufrestur skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 153/2006 er þrír mánuðir og er kæran því fram komin innan lögmælts kærufrests.

II.        Málsatvik, málsmeðferð og röksemdir

L er eigandi að fasteignunum að Lónsleiru nr. 7 og 9 á Seyðisfirði, en um svokallaðar hótelíbúðir er að ræða. Seyðisfjarðarkaupstaður hefur lagt gatnagerðargjald á eignirnar og krafði L um greiðslu þess. Álagningin miðast við 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrár sveitarfélagsins um gatnagerðargjöld (hér eftir nefnd gjaldskráin), en ákvæðið er svohljóðandi:

Gatnagerðargjald vegna nýbyggingar og/eða viðbyggingar skal miðast við ákveðinn hundraðshluta byggingarkostnaðar á rúmmetra í vísitöluhúsi Hagstofu Íslands, fjölbýlishúsi, svo sem hér segir:

1. Einbýlishús 3,75 %

2. Tvíbýlishús og sambyggð einbýlishús á einni hæð 3,50 %

3. Fjölbýlishús 2 hæðir 3,30 %

4. Fjölbýlishús 3 hæðir eða meira 3,00 %

5. Verslunar- og skrifstofuhúsnæði 3,75 %

6. Iðnaðar, vörugeymslur og annað atvinnuhúsnæði 2,20 %

7. Tankar og geymar stærri en 500 rúmmetrar 1,00 %

Málatilbúnaður L verður ekki skilinn á annan veg en þann að álögðu gatnagerðargjaldi sé mótmælt á þeirri forsendu að álagningin sé röng. Telur L að álagningin eigi að miðast við 6. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar en ekki þann 5. eins og sveitarfélagið gerir. Bendir L á að í 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar sé tæmandi talið það húsnæði sem þar falli undir, en það sé einungis verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hótelíbúðir geti þ.a.l. ekki fallið þar undir. Telur L að allt annað atvinnuhúsnæði, annað en verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eigi því að falla undir 6. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar og þar með talið fasteignirnar að Lónsleiru nr. 7 og 9.

Eins og fyrr segir barst stjórnsýslukæra L ráðuneytinu þann 26. ágúst 2013.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. september 2013, var Seyðisfjarðarkaupstað gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Þann 24. september 2013 bárust ráðuneytinu gögn frá sveitarfélaginu.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. september 2013, voru L send þau gögn sem sveitarfélagið hafði sent ráðuneytinu þann 24. september 2013 og félaginu gefinn kostur á að gæta andmælaréttar. Engin andmæli bárust.  

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er deilt um álagningu gatnagerðargjalds. Ekki er deilt um að gatnagerðargjald beri að greiða heldur einungis hvort álagningin eigi að miðast við 5. eða 6. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar.

Um gatnagerðargjald er fjallað í lögum nr. 153/2006, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 543/1996. Í 3. gr. laganna segir að sveitarstjórnir skuli innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli og í 12. gr. er kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið, þar sem eftir atvikum er kveðið er á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því, afslætti o.fl. Þann 11. desember 1997 samþykkti Seyðisfjarðarkaupstaður gjaldskrá um gatnagerðargjald í Seyðisfjarðarkaupstað, á grundvelli 2. mgr. 6. gr. þágildandi laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996.  

Sveitarstjórn er heimilt, skv. 1. mgr. 5. gr.  laga um gatnagerðargjald (samsvarandi ákvæði í 1. mgr. 3. gr. eldri laga nr. 17/1996), að ákveða að mishátt gatnagerðargjald skuli greiða eftir tegund húsnæðis. Hefur Seyðisfjarðarkaupstaður í gjaldskrá sinni tekið ákvörðun um að flokkun húsnæðis í sjö flokka. Eru flokkarnir eftirfarandi; einbýlishús, tvíbýlishús og sambyggð einbýlishús á einni hæð, fjölbýlishús tvær hæðir, fjölbýlishús þrjár hæðir eða meira, verslunar- og skrifstofuhúsnæði, iðnaðar, vörugeymslur og annað atvinnuhúsnæði og loks tankar og geymar stærri en 500 rúmmetrar.

Eins og fyrr segir lýtur ágreiningur máls þess einungis að því í hvaða flokk, skv. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar, húsnæðið að Lónsleiru nr. 7 og 9 eigi að falla. Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru notkun bygginganna að Lónsleiru nr. 7 og 9 skráð sem hótelíbúðir. Ráðuneytið fellst á það með L að hótelíbúðir flokkist hvorki sem verslunar- né skrifstofuhúsnæði og þ.a.l. geti hin kærða álagning ekki tekið mið af 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar. Þegar af þeirri ástæðu telur ráðuneytið að við álagningu gatnagerðargjalds á fasteignir L að Lónsleiru nr. 7 og 9 beri að miða við 6. tölul. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar en ekki 5. tölul. sama ákvæðis.

Að framangreindu virtu verður fallist á kröfu L um að ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar um álagningu gjaldsins hafi verið ólögmæt.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu Lónsleiru ehf. um að álagning Seyðisfjarðarkaupstaðar á gatnagerðargjaldi vegna fasteignanna að Lónsleiru nr. 7 og 9  á Seyðisfirði, hafi verið ólögmæt.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta