Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í máli nr. IRR12030363

Ár 2013, þann 25. júní, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12030363 

Kæra A

á ákvörðun

Svalbarðsstrandarhrepps

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. mars 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra A á ákvörðun Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 27. desember 2011, um að hafna kröfu hans um að fella niður álagningu fasteignaskatts fyrir jörðina X og útihús á þeirri jörð fyrir árin 2008-2012. Er gerð sú krafa að ráðuneytið felli úr gildi hina kærðu ákvörðun og leggi fyrir sveitarfélagið að verða við kröfum A.

Hin kærða ákvörðun var tekin í gildisstíð eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem nú hafa verið leyst af hólmi með sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Lítur ráðuneytið því svo á að um kæruheimild og kærufrest fari eftir ákvæðum eldri sveitarstjórnarlaga en tekur þó fram að réttarstaða A væri sú sama að þessu leyti þótt farið væri eftir ákvæðum yngri laganna. Í 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sagði að ráðuneytið skyldi úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kynnu að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerti þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki var í lögum nr. 45/1998 kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið leit svo á í úrskurðum sínum að um kærufrest giltu ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiddi að kæra samkvæmt lögunum skyldi borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæltu á annan veg. Svo sem fyrr greinir barst kæra A ráðuneytinu þann 27. mars 2012 og var því fram borin innan lögmælts kærufrest.

II.      Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti:

Með bréfi til Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 7. nóvember 2011, óskaði A eftir að felld yrði niður álagning fasteignaskatts á jörðina X og útihús á þeirri jörð fyrir árin 2008-2012. Til stuðnings kröfu sinni vísaði A m.a. til þess að skv. 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 væri sveitarstjórn heimilt að lækka niður fasteignaskatt af bújörðum á meðan þær væru nýttar til búskapar og af útihúsum í sveitum, ef þau væru einungis nýtt að hluta eða stæðu ónotuð. Sveitarstjórn væri skylt að setja sér reglum um beitingu þessarar heimildar en það hefði Svalbarðsstrandarhreppur ekki gert. Beiðni A var tekin fyrir og hafnað á 23. fundi sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 29. nóvember 2011 og var A formlega tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi sveitarstjóra, dags. 27. desember 2011 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Í bréfi sveitarstjóra segir m.a.:

Bókun sveitarstjórnar á 23. fundi var svohljóðandi:

1111013 Ósk um niðurfellingu fasteignaskatts og sorpgjalds

Í bréfi dagsettu 7. nóvember 2011 fer [A] þess á leit við sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að felldur verði niður álagður fasteignaskattur á jörðina [X] og útihús sem á henni standa fyrir árin 2008-2012 og álagt sorphirðugjald af eldra íbúðarhúsi í [X]  frá og með 2011. Sveitarstjórn hafnar erindinu um niðurfellingu fasteignaskatts á þeim forsendum að sveitarfélagið hefur fram að þessu ekki nýtt þessa undanþáguheimild og ekki sett sér reglur varðandi hana. Sveitarstjórn þakkar þó ábendinguna og mun setja sér almennar reglur varðandi þessa undanþáguheimild fyrir árið 2012. Varðandi álagningu sorphirðugjalds er hún í samræmi við reglur sveitarfélagsins þar að lútandi og erindinu því hafnað.

Á sama fundi var fjallað um reglur um afslátt af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífieyrisþega, þ.m.t. ábendingu þína um heimildir til lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatts á bújarðir sem nýttar eru til búskapar og útihúsum sem eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð. Breytingar á reglunum voru ræddar en afgreiðslu frestað til 24. fundar. Á 24. fundi voru samþykktar breyttar reglur með hliðsjón af heimildum til lækkunnar fasteignaskatts af bújörðum og útihúsum í eigu tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega. Reglurnar eru meðfylgjandi.

Lækkun eða niðurfelling fasteignaskatts eða sorphirðugjalda ársins 2012 mun fara eftir almennum reglum sveitarfélagsins um þessi atriði.

Svo sem að framan greinir kærði A framangreinda ákvörðun til ráðuneytisins með bréfi, dags. 20. mars 2012, sem barst ráðuneytinu þann 27. mars sama ár. Með bréfi, dags. 10. apríl 2012 óskaði ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins um kæruna auk afrits af öllum gögnum málsins. Bárust umbeðin gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 10. maí 2012.

Með bréfi, dags. 25. maí 2012, gaf ráðuneytið A færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar sveitarfélagsins um kæru hans. Bárust athugasemdir A þar að lútandi ráðuneytinu með bréfi, dags. 5. apríl 2013, en honum hafði áður verið veittur aukinn frestur til andmæla vegna persónulegra aðstæðna hans.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

 

III.    Málsástæður og rök A

Í kæru sinni tekur A m.a. fram að í 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt af bújörðum meðan þær séu nýttar til búskapar, og af útihúsum í sveitum ef þau séu einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð. Sveitarstjórn sé skylt að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis.

A telur að hér sé um að ræða skýr fyrirmæli í lögum sem sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hafi hundsað síðan ákvæðið var lögfest. Tekur A jafnframt fram að kröfum hans hafi verið hafnað án alls rökstuðnings en höfnunin virðist byggja á sömu sjónarmiðum og sveitarstjórn lítur til við ákvörðun um lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti á íbúðarhús lífeyrisþega.

Í andmælum sínum til ráðuneytisins í tilefni af umsögn Svalbarðsstrandarhrepps um kæru hans tekur A fram að vísi sjónarmiðum sveitarfélagsins á bug og telji þau alfarið röng. Ítrekar A í því sambandi það álit sitt að Svalbarðsstrandarhreppi hafi borið fortakslaus skylda til þess að setja reglur um beitingu ákvæði 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 þegar er þau lög tóku gildi. Ekki þýði fyrir Svalbarðsstrandarhrepps að halda því fram að sveitarfélagið hafi sjálfdæmi um hvort það fari eftir lögum eður ei.

Þá hefur A uppi ýmsar fleiri málsástæður í kæru sinni og andmælum sem ráðuneytið telur ekki ástæðu til að rekja hér frekar.

 

 

IV.    Málsástæður og rök Svalbarðsstrandarhrepps

Í umsögn Svalbarðsstrandarhepps kemur m.a. fram að sveitarstjórn líti ekki svo á að 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 feli í sér skyldu til niðurfellingar eða lækkunar fasteignaskatts, né heldur fortakslaus skyldu til að setja reglur um beitingu ákvæðisins, nema að því tilskyldu að sveitarstjórn velji að nýta sér heimildir þess.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hafi sett reglur um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum sé gert að greiða, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 og endurskoði þær árlega. Sveitarfélagið hafi hins vegar, fram til ársins 2012, ekki valið að nýta sér heimildarákvæði 5. mgr. 5. gr. laganna og þar af leiðandi ekki sett sérstakar reglur um beitingu þess. Sveitarstjórn telur ekki að með því sé brotið gegn umræddu lagaákvæði enda hafi engir afslættir verið veittir með vísan til þess. Þar sem sveitarfélaginu hafi ekki borið skylda til að nýta umrætt heimildarákvæði á tímabilinu 2008-2012 hafi því ekki borið skylda til að verða við kröfum A.

Þá er tekið fram af hálfu Svalbarðsstrandarhrepps að 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 sé augljóslega ætlað að tryggja jafnfræði meðal jafnstæðra fasteignaeigenda í sveitarfélaginu. Ekki hefði verið heimilt í því ljósi að setja reglur með afturvirkum hætti, líkt og A fari fram á, nema að því tilskyldu að reglunum væri beitt jafnt fyrir alla þá sem uppfylltu skilyrði viðkomandi reglna fyrir það árabil sem um ræðir. Fyrir því hafi ekki verið vilji hjá sveitarstjórn. Því verði að telja að niðurfelling fasteignaskatts hjá A án tilsvarandi niðurfellingar fasteignaskatts jafnstæðra fasteignaeigenda í Svalbarðsstrandarhreppi hefði falið í sér brot á því jafnræði sem 5. mgr. 5. gr. nr. 4/1995 sé ætlað að tryggja.

Þá tiltekur Svalbarðsstrandarhreppur ýmis fleiri sjónarmið í umsögn sinni sem ráðuneytið telur ekki ástæðu til að rekja hér frekar.

 

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Svo sem fyrr greinir er hér til umfjöllunar sú ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 29. nóvember 2011 og tilkynnt A með bréfi þann 27. desember 2011, um að hafna beiðni hans um niðurfellingu álagningar fasteignaskatts á jörðina X og útihús á þeirri jörð fyrir árin 2008-2012. A byggir kröfur sínar fyrst og fremst á því að sveitarstjórn hafi ekki sinnt fyrirmælum 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 um að setja reglur um beitingu þess ákvæðis.

Í 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 segir að sveitarstjórn sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt af bújörðum á meðan þær eru nýttar til búskapar og af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð. Samkvæmt ákvæðinu er sveitarstjórn skylt að setja reglur um beitingu þess. Í ákvæðinu felst þannig heimild fyrir sveitarstjórn til að ákveða að lækka eða fella niður álagningu fasteignaskatts á bújarðir og útihús við tilteknar aðstæðar. Áréttar ráðuneytið að sveitarfélögum er ekki skylt að lækka eða fella niður álagningu fasteignaskatts samkvæmt ákvæðinu heldur felst í því heimild sem sveitarfélög geta beitt telji þau ástæðu til. Verður að játa sveitarfélögum nokkurt svigrúm við það mat. Í framangreindu felst m.a. að aðili máls getur ekki átt rétt á því samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 að fasteignaskattur verði felldur niður eða lækkaður nema það sveitarfélag sem í hlut á hafi ákveðið að nýta sér umrædda heimild.

Af ákvæðinu leiðir jafnframt að ákveði sveitarfélag að lækka eða fella niður álagningu fasteignaskatts á grundvelli 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 er sveitarfélaginu skylt að setja sér reglur um það áður en ákvæðinu verður beitt. Með öðrum orðum verður að líta svo á að sveitarfélagi sé ekki heimilt að beita ákvæðinu án þess að hafa áður sett slíkar reglur. Byggist það m.a. jafnræðissjónarmiðum enda verður ekki litið svo á að tryggt sé að mál sem þessi hljóti sambærilega meðferð nema tryggt sé að byggt sé almennum viðmiðum sem kunn eru.

Í ákvæði 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga felst hins vegar ekki að sveitarfélögum beri fortakslaus skylda til að setja sér reglur af þessu tagi, líkt og A heldur fram, heldur er það einungis í þeim tilvikum sem viðkomandi sveitarfélag ákveður að nýta sér heimild ákvæðisins sem slík skylda stofnast. Svalbarðsstrandarhreppur veitti ekki ívilnanir á grundvelli 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 á því tímabili sem hin kærða ákvörðun lýtur að, þ.e.a.s. árin 2008-2012, og tók með því þá afstöðu að lækka ekki eða fella niður álagningu fasteignaskatts af bújörðum nýttum til búskapar eða útihúsum í sveitum sem einungis eru nýtt að hluta eða standa ónotuð. Ber því að hafna kröfu A um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu tekur ráðuneytið fram að í þeim tilvikum þar sem sveitarfélögum er heimilt að veita ívilnanir með setningu sérstakra reglna, s.s. um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts, er mikilvægt að það liggi fyrir með skýrum hætti, s.s. með sérstakri ákvörðun sveitarstjórnar, ef sveitarfélagið kýs að nýta ekki heimildina. Er það m.a. nauðsynlegt svo að íbúar sveitarfélagsins átti sig með glöggum hætti á réttarstöðu sinni og hvort umræddar ívilnandi ráðstafanir geti staðið þeim til boða eður ei. Ljóst er að Svalbarðstrandarhreppur hefur nú sett sér reglur um beitingu 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, sbr. reglur um afslátt fasteignagjalda hjá Svalbarðsstrandarhreppi árið 2012, dags. 13. desember 2012. Eru þær reglur ekki til umfjöllunar í úrskurði þessum.

Úrskurðarorð

Kröfu A, um að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 27. desember 2011, um að hafna kröfu hans um að fella niður álagningu fasteignaskatts fyrir jörðina X og útihús á þeirri jörð fyrir árin 2008-2012, er hafnað.

                                                            Fyrir hönd ráðherra

Hjördís Stefánsdóttir                                                            Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta