Úrskurður í Stjórnsýslumáli IRR11030004
Ár 2012, þann 12. mars er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 11030004
A
gegn
Sveitarfélaginu X
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann 11. febrúar 2011 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra A varðandi miðlun grunnskóla í sveitarfélaginu X á upplýsingum um barn hans og samskipti hans við skólayfirvöld og sveitarfélagið. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur í málinu.
Er kæran borin fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr 45/1998. Nánar er vikið að kærufresti síðar í úrskurðinum.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.
Þann 11. febrúar 2011 barst ráðuneytinu tölvubréf frá A þar sem fram kom að hann teldi sig og barn sitt beitt órétti í samskiptum sínum við tiltekinn grunnskóla og sveitarfélagið X. Telur hann þannig að sveitarfélagið/grunnskólinn geti ekki tekið einhliða ákvörðun um að nota tölvukerfið Mentor til þess að miðla upplýsingum um grunnskólabarn til foreldra þess, óháð aðstæðum hverju sinni enda séu skyldur skólans gagnvart foreldrum ekki uppfylltar með því.
Þann 3. mars 2011 ritaði ráðuneytið A bréf þar sem m.a. var óskað staðfestingar á því að þess væri óskað að ráðuneytið tæki erindið til meðferðar sem stjórnsýslukæru á grundvelli 1. mgr. 103. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga og jafnframt að sá skilningur ráðuneytisins væri réttur að málið varðaði sérstaklega upplýsingamiðlun skólayfirvalda til A og samskipti hans við skólann og sveitarfélagið.
Með tölvubréfi til ráðuneytisins, dags. 18. mars 2011, er fallist á að skilningur ráðuneytisins á famangreindum álitaefnum sé réttur. Jafnframt benti A ráðuneytinu á fleiri atriði er hann taldi rétt að vekja athygli á. Tók hann fram í því sambandi að kæra hans liti m.a. að einhliða sjálftökurétti stjórnvalda til miðlunar upplýsinga foreldra langveikra barna og samskiptin er því tengjast. Hann væri ekki að tala um Mentor í því sambandi. Tekur A jafnframt fram í því sambandi að niðurstaða viðræðna hans við skólayfirvöld og sveitarstjórnir, bæði í sveitarfélaginu X og annars staðar þar sem hann hafi búið hafi litlu skilað. Oftar en ekki hafi þau endað með þeim hætti hann honum hafi verið vísað frá með ólund og leiðindum. Tekur A fram að yfirvöld telji sig hafa fullan rétt til að miðla upplýsingum einhliða og ef hann óski eftir öðru þá sé það undir þeim komið og engum öðrum hvort hann fái slíka sérþjónustu barns síns vegna, sem langveikt sé. Vekur A athygli ráðuneytisins á að hann hafi margoft rætt þetta álitaefni við bæjarstjóra sveitarfélagsins X án árangurs. Rétt er að geta þess að í framangreindum erindum A, sem og öðrum samskiptum hans við ráðuneytið, hafa komið fram ýmis fleiri sjónarmið, sem ráðuneytið telur ekki ástæðu til að rekja hér.
Með bréfi, dags. 22. mars 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins X um kæruna ásamt afriti af gögnum málsins. Í bréfi ráðuneytisins var tiltekið að ráðuneytið hefði ekki til skoðunar í málinu hvort grunnskólum sé heimilt að nota tölvukerfi til þess að miðla upplýsingum um nemendur, og þá ákveðið tölvukerfi umfram annað, né heldur hvernig slík tölvukerfi skuli úr garði gerð, enda hafði ráðuneytið þá áður framsent þann hluta málsins til úrlausnar mennta- og menningarmálaráðherra. Álitaefni það sem ráðuneytið hefði til meðferðar lyti því fyrst og fremst að upplýsingamiðlun grunnskólans til A sérstaklega og samskiptum hans við sveitarfélagið og skólayfirvöld.
Ráðuneytinu bárust umbeðin gögn með bréfi sveitarfélagsins, dags. 4. apríl 2011. Umsögn sveitarfélagsins fylgdi mikill fjöldi tölvubréfa sem sýna samskipti A og skólayfirvalda. Ráðuneytið telur ekki efni til að rekja efni þeirra hér frekar en telur að umrædd tölvubréf gefi glögga mynda af samskiptum A og skólayfirvalda, einkum síðari hluta skólarársins 2008-2009 og allt skólaárið 2009-2010.
Með bréfi, dags. 15. apríl 2011, gaf ráðuneytið A færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar sveitarfélagsins X um kæru hans og þau gögn er henni fylgdu. Ráðuneytinu bárust slík andmæli með tölvubréfi, dags. 20. maí 2011.
Þá er rétt að geta þess að ráðuneytinu bárust að nýju erindi frá A með tölvubréfum, dags. 5. og 6. desember 2011. Þar sem þau álitaefni er þar er greint frá eru að meginstefnu af sama tagi og í fyrri erindum A, telur ráðuneytið að úr þeim verði jafnframt leyst í þessu máli.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
1. Í 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 var kveðið á um að ráðuneytið skyldi úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kynnu að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerti þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ráðuneytið hefur litið svo á í fyrri úrskurðum sínum að túlka skuli umrædda kæruheimild rúmt, þannig að undir hana falli ekki eingöngu stjórnvaldsákvarðanir heldur einnig eftir atvikum aðrar ákvarðanir sveitarfélaga og stofnana þeirra sem og ýmis álitaefni sem upp kunna að rísa þeim vettvangi. Ráðuneytið telur þó að gera verði þá lágmarkskröfu að til að unnt sé að taka mál kærumeðferðar og ljúka með uppkvaðningu úrskurðar, verði að liggja fyrir tiltekið álitaefni sem hægt er að afmarka á nokkuð skýran hátt.
Í máli þessu liggur fyrir að A telur að upplýsingamiðlun grunnskólans til hans um barn hans hafi ekki verið með réttum hætti og að hann hafi verið beittur órétti í samskiptum sínum við skólayfirvöld og sveitarfélagið. Að mati ráðuneytisins er þannig ekki um að ræða afmarkað álitaefni heldur lýtur ágreiningur máls þessa að meðferð sveitarfélags á stjórnsýsluvaldi yfir tiltekið tímabil, að meginstefnu skólaárið 2009-2010 og síðari hluta skólaársins 2008-2009. Er þannig deilt um framkvæmd grunnskólan við skráningu og miðlun upplýsinga um skólabarn til foreldra og samskipti foreldris og skóla til lengri tíma.
Ekki verður því litið svo á að hér sé um álitaefni að ræða sem falli innan kæruheimildar 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga og er óhjákvæmilegt að þeim sökum að vísa kæru A frá ráðneytinu.
2. Þá tekur ráðuneytið fram að ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. kemur svo fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
Svo sem fyrr greinir verður ráðið af gögnum málsins að atvik þau er ágreiningur máls þess lýtur að hafi átt sér stað síðari hluta skólaársins 2008-2009 og skólaaárið 2009-2010. Kæra A til ráðuneytisins barst því hins vegar ekki fyrr 11. febrúar 2011, en ljóst er að hinn lögmælti þriggja mánaða kærufrestur var þá liðinn, sé miðað við lok skólaársins 2010. Þar sem ráðuneytið hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að vísa beri kæru A frá telur það hins vegar ekki ástæðu til að taka afstöðu til þess hvort að undantekningarákvæði 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kunni að eiga við í máli þessu.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru A, varðandi miðlun grunnskóla í sveitarfélaginu X á upplýsingum um barn hans og samskipti hans við skólayfirvöld og sveitarfélagið, er vísað frá ráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson