Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12060284
Ár 2012, þann 15. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 12060284
Jón Jósef Bjarnason
gegn
Mosfellsbæ
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann 20. júní 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Jóns Jósefs Bjarnasonar, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur JJB), vegna þeirrar stjórnsýslu Mosfellsbæjar að verða ekki við beiðni hans um að fá mál á dagskrá 1078. fundar bæjarráðs þann 14. júní 2012.
Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og er hún fram komin innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 2. mgr. 111. gr. sömu laga.
II. Málavextir, sjónarmið og meðferð máls
Í upphafi er rétt að geta þess að JJB er kjörinn bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og á þeim tíma sem beiðnin kom fram átti hann jafnframt sæti sem aðalmaður í bæjarráði Mosfellsbæjar.
Í kæru tekur JJB fram að hann hafi þann 7. júní 2012 óskað eftir því að sett yrði á dagskrá bæjarráðs Mosfellsbæjar ,,...til umræðu nýjar upplýsingar um útsendingu á fundum bæjarstjórnar. Þessari beiðni var ekki sinnt og þannig brotið á rétti mínum sem bæjarfulltrúa og lögum um sveitarfélög“, eins og segir í kæru.
Þann 2. júlí 2012 sendi ráðuneytið bréf til Mosfellsbæjar þar sem óskað var eftir því að upplýst yrði hvort beiðni JJB hefði verið svarað og þá hvers efnis það svar hefði verið. Þann 17. júlí 2012 barst ráðuneytinu svar Mosfellsbæjar. Í svarinu kemur fram að um misskilning hafi verið að ræða. Við móttöku á tölvupósti JJB, sem innihélt að meginmáli samskipti annarra aðila en JJB og varðaði útsendingar á bæjarstjórnarfundum og kostnað því samfara, yfirsást að skipt hafi verið út texta í tilvísunarlínu (Subject) þar sem í stað textans „Útsendingar á bæjarstjórnarfundum“ stóð „Óska eftir að setja þetta á dagskrá bæjarráðs“. Í bréfi Mosfellsbæjar kemur síðan fram að JJB hafi sent tölvupóst til Mosfellsbæjar þann 15. júní 2012 þar sem hann óskaði svara við því af hverju málið hafi ekki verið á dagskrá fundar bæjarráðs þann 14. júní 2012. Í bréfi Mosfellsbæjar kemur fram að það hafi verið á þeim tímapunkti sem stjórnsýsla bæjarins áttaði sig á því að í tölvupóstinum frá 7. júní 2012 hafi falist beiðni um að málið yrði tekið á dagskrá bæjarráðs. Var JJB þá strax sendur tölvupóstur og hann upplýstur um það að óski bæjarfulltrúi eftir því að fá mál á dagskrá með formlegum hætti, þurfi bæjarfulltrúinn að upplýsa hvert eigi að vera heiti málsins og til hvers sé ætlast, þ.e. hvort dagskrárliðurinn eigi að vera til kynningar, umræðu eða afgreiðslu með einhverjum hætti. Jafnframt var beðist afsökunar á því að það hefði farið fram hjá starfsmönnum sveitarfélagsins að í tölvupóstinum hefði falist beiðni um að fá mál á dagskrá. Í bréfinu bendir Mosfellsbær einnig á að á bæjarráðsfundinum þann 14. júní 2012 hafi JJB hvorki vakið athygli á því að ekki hefði verið orðið við erindi hans um að fá mál á dagskrá né hafi hann gert nokkra tilraun til að bera upp ósk um nýjan dagskrárlið á fundinum, auk þess sem hann gerði ekki athugasemd við útsendingu á dagskrár fundarins.
Ráðuneytið taldi ekki þörf á að óska eftir frekari gögnum eða sjónarmiðum og er málið er því tekið til úrskurðar.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.
Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ljóst er að ágreiningsefni það sem JJB hefur borið undir ráðuneytið fellur ekki þar undir, enda ekki um það að ræða að stjórnvaldið hafi í máli þessu tekið stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til ráðuneytisins. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu enda fellur hún ekki undir kæruheimild 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Jóns Jósefs Bjarnasonar, kt. xxxxxx-xxxx, vegna þeirrar stjórnsýslu Mosfellsbæjar að verða ekki við beiðni hans um að fá mál á dagskrá 1078. fundar bæjarráðs er vísað frá.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir
Hjördís Stefánsdóttir