Úrskurður í máli nr. IRR14070211
Ár 2015, 24. apríl er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. IRR14070211
Kæra Vigfúsar Andréssonar
á ákvörðun
Ásahrepps
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann, 26. júlí 2014, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Vigfúsar Andréssonar, […]. (hér eftir nefndur V), vegna fjórða fundar sveitarstjórnar Ásahrepps sem haldinn var þann 23. júlí 2014.
Verður kæra ekki skilin á annan veg en að V krefjist þess að fundur hreppsnefndar Ásahrepps verði úrskurðaður ólögmætur og að ráðuneytið taki afstöðu til þess hvort að sú ákörðun er laut að ráðningu sveitarstjóra og tekin var á fundinum sé ógild.
Kært er á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga og barst kæran innan kærufrest, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.
II. Sjónarmið V og bókanir sveitarstjórnar
Í kæru kemur fram að V hafi verið einn af umsækjendum um starf sveitarstjóra Ásahrepps sem hafi verið auglýst á vormánuðum 2014 og því hafi hann ætlað að hlýða á umræðu á fundi sveitarstjórnar um ráðningu í starf sveitarstjóra. Sú umræða hafi farið fram á fjórða fundi sveitarstjórnar, þann 23. júlí 2014. Fundurinn hafi hins vegar ekki verið auglýstur eins og áskilið sé í 15. gr. sveitarstjórnarlaga og þar af leiðandi hafi V ekki haft vitneskju um fundinn. Vegna þessa ágalla telur V að þær ákvarðanir sem teknar voru á fundinum séu ógildar, m.a. sú að samþykkja ráðningu Björgvins G. Sigurðsson sem sveitarstjóra og lýtur krafa hann að því að ráðuneytið taki afstöðu til þess.
Sveitarstjórn Ásahrepps, samþykkti ráðningarsamning við sveitarstjóra á fundi sínum þann 23. júlí 2014. Í fundargerð er eftirfarandi bókað:
Ráðningarsamningur sveitarstjóra. Þann 14. júlí samþykkti hreppsnefnd Ásahrepps að ráða Björgvin G. Sigurðsson sem sveitarstjóra Ásahrepps. Þessi samþykkt (var rafræn eins og samþykktir Ásahrepps gefa heimild til) og var gerð á grundvelli tillögu oddvita og varaoddvita sbr. síðustu fundargerð hreppsnefndar. Ráðningarsamningurinn gerir ráð fyrir 70% starfshlutfalli og miðast launakjör við þingfararkaup þ.e. 70% að auki er greiddur símakostnaður, tölvutenging og akstur annar en til og frá vinnu samkvæmt akstursbók samkvæmt ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Ráðningarsamningurinn gildir frá 1. ágúst 2014 til 30. júní 2018 og er með 3 mánaða uppsagnarfresti að beggja hálfu.
Afgreiðsla hreppsnefnd Ásahrepps staðfestir ráðninguna og ráðningarsamninginn. Samþykkt með fjórum atkvæðum. Karl Ölvisson situr hjá.
Á sama fundi sveitarstjórnar er einnig eftirfarandi bókun:
Ábending frá Karli Ölvissyni um að fundarboð fjórða fundar hreppsnefndar hafi ekki birst á heimasíðu Ásahrepps. Skrifstofan hefur verið lokuð á umræddum tíma og starfsmaður sem séð hefur um heimasíðuna er í leyfi.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.
Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169).
Það hvernig sveitarstjórn stendur að boðun fundar er ekki stjórnsvaldsákvörðun í framangreindum skilningi og því ekki kæranlegt til ráðuneytisins.
Með vísun til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu.
Um stjórnsýslueftirlit ráðherra með sveitarfélögum fer eftir XI. kafla sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt 109. gr. laganna hefur ráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt þeim og öðrum löglegum fyrirmælum, að því leyti sem öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins hefur ekki verið falið það eftirlit. Þá ákveður ráðuneytið sjálft á grundvelli 112. gr. laganna hvort tilefni sé til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess skv. 109. gr., óháð því hvort um kæranlega ákvörðun sé að ræða skv. 111. gr. laganna. Ráðuneytið telur að kæra V gefi tilefni til að hefja formlega athugun, á grundvelli 112.gr. sveitarstjórnarlaga, á því hvernig Ásahreppur hafi staðið að auglýsingu sveitarstjórnarfundar þann 23. júlí 2014.
Ráðuneytið telur rétt að taka fram, þó svo að niðurstaða þess hvernig staðið var að auglýsingu fundar sveitarstjórnar Ásahrepps þann 23. júlí 2014 liggi ekki fyrir, að ákvörðun um ráðningu sveitarstjóra fellur ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins. Um hlutverk og ráðningu sveitarstjóra er fjallað í V. kafla sveitarstjórnarlaga en í 54. gr. laganna segir að sveitarstjórn sé heimilt að ráða framkvæmdastjóra sveitarfélags en engin ákvæði eru um hvernig að ráðningu hans skuli staðið. Aðdragandi að ráðningu sveitarstjóra getur þar af leiðandi verið mismunandi. Hann getur komið úr röðum kjörinna fulltrúa, hann getur verið ráðinn vegna stjórnmálaskoðana sinna og meirihluta sveitarstjórnar eða hann getur verið ráðinn með samstöðu allra eða flestra sveitarstjórnarmanna. Þá getur ráðningu hans borið að með ýmsum hætti, t.d. getur sveitarstjórn ákveðið að leita til tiltekins aðila eða ákveðið að auglýsa stöðuna. Sveitarstjórn er í sjálfsvald sett að ákveða hvaða hæfniskröfur hún gerir til sveitarstjóra síns, hvaða kosti hún vill leggja til grundvallar vali sínu og hvernig hún kýs að standa að ráðningu hans. Sveitarstjóri þarf þó að vera fjár síns ráðandi, sbr. 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga. Starf sveitarstjóra er mikilvægt trúnaðarstarf fyrir sveitarstjórn og því afar nauðsynlegt að traust sé á milli aðila. Starf sveitarstjóra er pólitískt starf og lýtur þar af leiðandi öðrum lögmálum en önnur störf innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sveitarstjórn er því ekki bundin af þeim reglum stjórnsýsluréttarins sem gilda um ráðningu starfsmanna sveitarfélaga við ráðningu sveitarstjóra. Mál er varða ráðningu sveitarstjóra eru því ekki kæranleg til ráðuneytisins.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur málsmeðferðin dregist og er beðist velvirðinga á því.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Vigfúsar Andréssonar, […]., vegna fjórða fundar sveitarstjórnar Ásahrepps sem haldinn var þann 23. júlí 2014 er vísað frá.