Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í máli nr. IRR14110098

 Ár 2015, 26. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR14110098

Kæra Jóns Pétursson
á  afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita bs.,
sem staðfest var af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps
 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

 Þann 14. nóvember 2014, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Jóns Péturssonar  […]. (hér eftir nefndur JP), f.h. eiginkonu sinnar Magdalenu Kristinsdóttur, […]., vegna afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita bs. þann 11. september 2014 á erindi hans. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps staðfesti bókun nefndarinnar á fundi sínum þann 19. september 2014. Samþykkt nefndarinnar á fyrrgreindum fundi var eftirfarandi:

 Lagt fram erindi Jóns Péturssonar, lóðareiganda að Þórsstíg 23 dags. 26. ágúst 2014, þar sem farið er fram á að lóðir í landi Ásgarðs verði ekki stofnaðar í tengslum við sölu á nýjum lóðum þar sem Búgarður ehf. hefur ekki sinnt viðhaldi á girðingum um jörðina í samræmi við skipulagsskilmála. Að mati nefndarinnar er um vanefnir við lóðarsölu að ræða en ekki skipulagsmál.

 Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði að umrædd afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita bs. og staðfesting sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í kjölfarið hafi verið ólögmæt og að ráðuneytið hlutist til um að hvorki skipulags- og byggingafulltrúi sveitarfélagsins né sveitarstjórn áriti  gögn vegna lóða í landi Ásgarðs á meðan ákvæði byggingar- og skipulagsskilmála (hér eftir nefndir skilmálarnir) fyrir svæðið eru ekki uppfyllt af hálfu eiganda þess.

 II.        Málsatvik og málsmeðferð

 Með bréfi dags. 26. ágúst 2014 til Grímsnes- og Grafningshreppi og skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, krafðist JP þess:

 „…að skipulags- og byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps áriti ekki og framsendi ekki gögn frá Búgarði ehf. vegna útgáfu og sölu á sumarhúsalóðum á jörðinni Ásgarður í Grímsnes- og Grafningshreppi á meðan ekki er farið að skipulags- og byggingarsamþykkt svæðisins.“

 Í fyrrgreindu bréfi kemur fram að Búgarður ehf. sé eigandi að jörðinni Ásgarði, en á jörðinni séu skipulagðar sumarhúsalóðir. Í skilmálunum fyrir svæðið komi fram að svæðið skuli allt vera girt, en um það segir í skilmálunum:

 Girðingar: Svæðið er allt girt af einni heildargirðingu. Girðingin og viðhald hennar er á kostnað jarðareiganda. Óheimilt er að girða hverja lóð fyrir sig nema með limgerðum.

 Í bréfinu vísar JP einnig  til þess að þrátt fyrir vitneskju skipulags- og byggingafulltrúa um að eigandi Ásgarðs uppfylli ekki fyrrgreint ákvæði skilmálanna, þá hafi hann áritað skipulagsgögn vegna lóða í Ásgarðslandi og sent þau áfram til Þjóðskrár Íslands til skráningar. Bendir JP á það í fyrrgreindu bréfi að girðingin um jörðina Ásgarð sé ekki fjárheld auk þess sem eigandi jarðarinnar hafi ekki sinnt viðhaldi hennar og rofið girðinguna í Giljatungu. Mikill ágangur sauðfjár hafi verið á svæðinu og mikil óánægja sé á meðal sumarhúsaeigana á svæðinu, og hafi öllum aðilum verið kunnugt um þetta vandamál.

 Skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita bs. tók erindi JP fyrir á fundi sínum þann 11. september 2014 og var eftirfarandi bókað:

 Lagt fram erindi Jóns Péturssonar, lóðareiganda að Þórsstíg 23 dags. 26. ágúst 2014, þar sem farið er fram á að lóðir í landi Ásgarðs verði ekki stofnaðar í tengslum við sölu á nýjum lóðum þar sem Búgarður ehf. hefur ekki sinnt viðhaldi á girðingum um jörðina í samræmi við skipulagsskilmála. Að mati nefndarinnar er um vanefnir við lóðarsölu að ræða en ekki skipulagsmál.

 Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps staðfesti bókun nefndarinnar á fundi sínum þann 19. september 2014.

Eins og fyrr segir barst stjórnsýslukæra JP ráðuneytinu þann 14. nóvember 2014.

Með bréfi ráðuneytisins, dags.10. febrúar 2015, var Grímsnes- og Grafningshreppi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 25. mars 2015.

 Með bréfi ráðuneytisins, dags.28. maí 2015, var JP gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 13. júní 2015, ásamt umboði frá Magdalenu Kristinsdóttur til JP.

 III.    Sjónarmið JP

 JP vísar til þess að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps og skipulagsfulltrúa hafi verið fullkunnugt um að jarðareigandi Ásgarðs hafi ekki uppfyllt skyldur sínar eins og þeim er lýst í skilmálunum.

Bendir JP á að þrátt fyrir þessa vitneskju hafi skipulags- og byggingafulltrúi áritað skipulagsgögn vegna lóða í Ásgarðslandi og ljóst sé að hann hyggist gera það áfram.  Telur JP þessa framgöngu skipulagsfulltrúans augljóst brot á skilmálunum.

 IV.    Sjónarmið Grímsnes- og Grafningshrepps

 Sveitarfélagið bendir á að í gögnum málsins haldi JP því fram að hann sé eigandi lóðarinnar að Þórsstíg 23 í landi Ásgarðs, en skv. vottorði Fasteignaskrár Íslands sé Magdalena Kristjánsdóttir skráður eigandi fasteignarinnar.

 Þá bendir sveitarfélagði á að um einkaréttarlegan ágreining er að ræða eins og bókað var á fundi skipulags- byggingarnefndar þann 11. september 2014 þegar erindi hans var tekið fyrir. Telji eigandi Þórsstígs 23 að landeigandi vanefni skyldur sínar varðandi girðingar eða hann vanefni skyldur sínar skv. skilmálunum þá beri viðkomandi að beina slíkum athugsemdum til landeiganda. Ekki sé um það að ræða að sveitarfélagið eigi aðild að slíku máli.  Auk þess bendir sveitarfélagið á að girðingar á svæðinu séu ekki undirorpnar eftirlitsskyldu sveitarfélagsins.

 Varðandi þá kröfur JP að sveitarfélagið áriti ekki gögn vegna lóða í landi Ásgarðs á meðan á meintum vanefndum jarðareiganda standi þá bendir sveitarfélagið á að væntanlega sé JP að vísa til stofnunar lóða á svæðinu en um það efni gildi 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Aðfinnslum hvað það varðar verður JP að beina til Þjóðskrár Íslands, telji hann afgreiðslu umsókna um stofnun lóða eða fasteignaskráningu ekki vera með réttum hætti. Sveitarfélagið tekur þó fram að einkaréttarlegur ágreiningur þess efnis hvort girðingar hafi verið reistar eða ekki geti ekki komið í veg fyrir afgreiðslu umsókna um stofnun lóða skv. fyrrgreindum lögum.  Því sé ljóst að ráðuneytið hafi enga valdheimild að lögum til þess að bregðast við kröfu JP og það sé ekki innan valdsviðs þess að fjalla um kæruna hvað þetta atriði varðar.

 Jafnframt bendir sveitarfélagið á að telji JP að einhver vanhöld séu upp í skipulagsmálum sveitarfélagsins og að það hafi tekið ákvörðun þar sem hann hafi haft lögvarinna hagsmuna að gæta, sem brjóti gegn fyrirmælum skipulagslaga nr. 123/2001, geti hann kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum, skv. lögum 130/2001.  Slík ágreiningsmál eigi ekki undir innanríkisráðuneytið og því beri ráðuneytinu að vísa kærunni frá.

 Loks bendir sveitarfélagið á að skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins hefur ekki undirritað nein skjöl í tengslum við sölu lóða úr landi Ásgarðs. Skipulags- og byggingarfulltrúi áritar ekki skjöl vegna lóðasölu í sveitarfélaginu og hefur hvorki aðkomu að viðskiptum með lóðir í sveitarfélaginu né lögbundið hlutverk vegna slíkra viðskipta.

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

 Í 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um almennt stjórnsýslueftirlit ráðuneytisins með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Eftirlitið tekur einnig til byggðasamlaga sem og til annarra að því leyti sem þeim er falið að sinna stjórnsýslu á vegum sveitarfélags samkvæmt heimild í sveitarstjórnarlögum eða öðrum lögum. Í 2. mgr. ákvæðisins er m.a. tekið fram að eftirlit ráðuneytisins taki ekki til stjórnsýslu sem fram fer á vegum sveitarfélaganna og öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins hefur með beinum hætti verið falið eftirlit með.

 Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og Skipulagsstofnun hefur með lögum verið falið eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga er varðar skipulagsmál. Þegar af þeirri ástæðu á mál þetta ekki undir úrskurðar- eða eftirlitsvald ráðuneytisins og því ber að vísa málinu frá.

 Ágreiningur í máli þessi á rót sína að rekja til þess að JP telur að landeigandi Ásgarðs vanefni skyldur sínar samkvæmt byggingar- og skipulagsskilmálum, slíkur ágreiningur á ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins, eins og að framan greindir, en ráðuneytið telur rétt að benda JP á að hann geti hugsanlega farið þess á leit við skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveit bs. á grundvelli ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 að hann gæti þess að eigandi Ásgarðs fari að skilmálunum eða beint erindi til Skipulagsstofnunar á grundvelli almenns eftirlitshlutverks hennar, sbr. 4. gr. skipulagslaga.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur málsmeðferðin dregist og er beðist velvirðinga á því.

 Úrskurðarorð

 Stjórnsýslukæru Jóns Pétursson f.h. Magdalenu Kristinsdóttur vegna afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita bs. þann 11. september 2014 sem staðfest var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þann 19. september 2014 er vísað frá.

 

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta