Úrskurður í máli nr. IRR15010248
Ár 2015, 16. apríl er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. IRR15010248
Kæra Þorragötu 5, 7, 9 húsfélags
á ákvörðun
velferðarráðs Reykjavíkurborgar
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann15. janúar 2015, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Helga Jóhannessonar hrl, f.h. Þorragötu 5, 7, 9 húsfélags, […] (hér eftir nefnt Þ), vegna samþykktar 249. fundar velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 16. október 2014.
Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti eftirfarandi tillögu samhljóða á fyrrgreindum fundi:
,,Lögð fram tillaga vegna tilfærslu heimaþjónustu út í hverfi. Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.“
Með tillögunni fylgdi greinargerð þar sem eftirfarandi tillaga kom fram:
,,Lagt er til að samþætta heimaþjónusta í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum verði staðsett að Þorragötu 3 þar sem nú er rekin dagdvölin Þorrasel fyrir aldraða.“
Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara er sett fram beiðni um að ráðuneytið hefji frumkvæmismál á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, með síðari breytingum
Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga og barst innan kærufrest, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.
II. Sjónarmið Þ
Í kæru vísar Þ m.a. til efnis svokallaðrar skipulagsforsögu sem gefin var út af hálfu félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar áður en þjónustukjarninn að Þorragötu var byggður, lóðarleigusamnings frá árinu 1994 og samkomulags milli Þ og borgarverkfræðings í Reykjavík frá árinu 2000. Bendir Þ á að í skipulagsforsögunni komi fram að fyrirhugað sé að byggja þjónustusel fyrir aldraða á lóðinni í tengslum við íbúðirnar sem ráðgert sé að byggja og í samkomulaginu frá árinu 2000 komi fram að breytingar á núverandi skipulagi hvors lóðarhluta (Þorragötu 3 annars vegar og Þorragötu 5-9 hins vegar) séu háðar samþykkir beggja aðila.
Þ bendir á að velferðarráðið hafi eftir að það tók hina kærðu ákvörðun kynnt íbúum á Þorragötu 5-9 ákvörðunina en augljóslega sé ekki ætlunin að afla samþykkis þeirra fyrir hinni breyttu ráðstöfun húsnæðisins.
Þ bendir jafnframt á að málsmeðferð velferðarráðs sé ekki í samræmi við samþykktir ráðsins. Vísar Þ í því sambandi til 10. gr. samþykktarinnar sem kveður á um samráð og 14. gr. sem kveður á um að við undirbúning mála og stjórnvaldsákvarðana skuli þess gætt að farið sé að stjórnsýslulögum og verklagsreglum um stjórnsýsluna. Þá bendir Þ á að hvorki hafi farið fram grenndarkynning sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, né hafi verið aflað leyfis byggingafulltrúa, sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr 160/210. Auk þess hafi ekki verið farið að lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, en lóðin við Þorragötu 3-9 sé óskipt og sameiginleg. Nefnir Þ í því sambandi m.a. að skv. 1. mgr. 19. gr. fjöleignarhúsalaga komi skýrt fram að verulegar breytingar verði ekki gerðar á sameign eða hagnýtingu hennar nema allir eigendur séu því samþykkir.
Þ tekur enn fremur fram að eigendur íbúða við Þorragötu 5-9 hafi réttmætar væntingar til þess að sú starfsemi sem fram fer í Þorragötu 3 sé ekki í grundvallaratriðum önnur en til stóð í upphafi.
Loks bendir Þ á að hin fyrirhugaða breyting á nýtingu Þorrasels muni hafa í för með sér miklar neikvæðar afleiðingar fyrir aldraða íbúa Þorragötu 5-9, skapa þeim óhagræði og skerða lífsgæði þeirra og vellíðan.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eru það því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.
Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ljóst er að ágreiningsefni það sem Þ hefur borið undir ráðuneytið fellur ekki þar undir, enda verður ekki séð að velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi á umræddum fundi sínum tekið stjórnvaldsákvörðun í fyrirliggjandi máli. Um er að ræða ákvörðun sem lýtur fyrst og fremst að útfærslu og fyrirkomulagi ákveðinnar þjónustu en er ekki beint til tiltekins/inna aðila í ákveðnu og fyrirliggjandi máli.
Í málflutningi sínum vísar Þ til efnis lóðarleigusamnings frá árinu 1994 og samkomulags milli Þ og borgarverkfræðings í Reykjavík frá árinu 2000. Vegna þess telur ráðuneytið rétt að árétta að úrskurðarvald ráðuneytisins tekur ekki til ágreinings er varðar efni einkaréttarlegra samninga.
Með vísun til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu.
Ráðuneytið telur eftir skoðun þess á gögnum málsins ekki tilefni til þess að hefja frumkvæðisathugun í málinu á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru Þorragötu 5, 7, 9 húsfélags, […]., vegna samþykktar 249. fundar velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 16. október 2014, þess efnis að breyta nýtingu á fasteigninni við Þorragötu 3 (Þorrasel) úr dagdvöl fyrir aldraða í aðstöðu fyrir heimaþjónustu fyrir Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar, er vísað frá.