Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði sveitarstjórnarmála

Úrskurður í máli nr. IRR13020131

Ár 2013, 5. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
 

ú r s k u r ð u r

í máli IRR 13020131

Kæra Kristjáns Árnasonar

á ákvörðun

Orkuveitu Reykjavíkur

  

I.         Kröfur, kæruheimild, og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 12. febrúar 2013 kærði Kristján Árnason, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur KÁ) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd OR) um álagningu vatnsgjalds fyrir árin 2011, 2012 og 2013 fyrir fasteignina Fluggarðar skýli 26, fastanr. 202-9213, í Reykjavík. Af kæru verður ráðið að gerð sé sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að gjaldið verði leiðrétt aftur í tímann svo langt sem lög leyfi.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Í 2. mgr. 111. gr. laganna segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Um kæruleiðbeiningar, kærufrest og meðferð kærumáls fer að öðru leyti að ákvæðum stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds kemur einungis til skoðunar hvort að álagning OR fyrir árið 2013 sé í samræmi við lög, enda ljóst að kæra er of seint fram borin hvað varðar álagningu fyrir árin 2011 og 2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti:

Með bréfi OR, dags. 14. janúar 2013, var KÁ tilkynnt um álagningu vatnsgjalds fyrir fasteignina Fluggarðar skýli 26, fastanr. 202-9213. Kærði KÁ framangreinda álagningu til ráðuneytisins með bréfi, dags. 10. febrúar 2013, sem barst ráðuneytinu þann 12. febrúar s.á.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn OR um kæruna auk afrits af gögnum málsins. Bárust umbeðin gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 8. apríl 2013.

Með bréfi, dags. 12. apríl 2013, gaf ráðuneytið KÁ færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar OR um kæru hans. Kaus KÁ að nýta sér ekki þann rétt sinn.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök Kristjáns Árnasonar

Í kæru sinni til ráðuneytisins tekur KÁ m.a. fram að umrætt flugskýli sé 448 m2 að stærð og nýtt til geymslu á flugvélum. Aðeins um 15% skýlisins sé upphitað. KÁ tekur fram að eitt salerni með handlaug sé í skýlinu sem og eldhúsvaskur í kaffistofu. Kröfu sinni til stuðnings vísar KÁ til 2. mgr. 6. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 þar sem segir að í gjaldskrá sé heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur sé heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegnar stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. ákvæðinu skuli þó aldrei vera hærri en segi í 1. mgr. 6. gr. laganna eða 0,5 hundraðshlutar af fasteignamati.

Í því sambandi tekur KÁ fram að hann hafi keypt löggiltan vatnsrennslismæli, svonefndan magnmæli, árið 2011 og komið honum fyrir á innrennsli kalda vatnsins. KÁ tekur fram að hann telji þau háu gjöld sem hann þurfi að greiða jafngilda eignaupptöku.

 

IV.      Málsástæður og rök Orkuveitu Reykjavíkur

Í umsögn OR um kæru KÁ er tekið fram að samkvæmt 6. gr. laga nr. 32/2004 sé heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið og megi gjaldið nema allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna sé í gjaldskrá heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skuli þó aldrei vera hærri en sem nemur 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati.

Í umsögninni er síðan tekið fram að gjaldskrá OR, sem birt sé á heimasíðu fyrirtækisins, miðist við fast gjald og breytilegt vegna flatarmáls húsnæðisins. Ekki sé gert ráð fyrir gjaldtöku vegna mældrar notkunar, nema vegna atvinnurekstrar og þá sem viðbót við framangreinda gjaldtöku. Þar sem um mælda notkun sé að ræða séu mælar settir upp á vegum OR , sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2004, þar sem segi að vatnsveita láti þeim er greiða skuli notkunargjald í té löggilta vatnsmæla og skuli notandi greiða gjald fyrir leigu mælis samkvæmt gjaldskrá. Er tekið fram að OR hafi ekki séð ástæðu til uppsetningar slíks mælis í því tilviki sem hér um ræðir og KÁ hafi ekki farið fram á slíkt.

 

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. mgr. 6. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 segir að heimilt sé að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið og má gjaldið nema allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Í þeim tilvikum þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir við álagningu vatnsgjalds, en fasteign getur þó notið vatns frá vatnsveitu, er heimilt að ákveða upphæð vatnsgjalds með hliðsjón af áætluðu fasteignamati fullfrágenginnar eignar, og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu. Er samhljóða ákvæði að finna í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 401/2005.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004 segir að í gjaldskrá sé heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur sé heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. ákvæðinu skuli þó aldrei vera hærri en segi í 1. mgr. 6. gr. laganna eða 0,5 hundraðshlutar af fasteignamati. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2004 segir svo að þar sem vatn sé notað til atvinnustarfsemi eða annars en venjulegra heimilisþarfa sé vatnsveitu heimilt að innheimta sérstakt notkunargjald sem miðist við notkun mælda í rúmmetrum. Notkunargjald skal að jafnaði innheimta eftir á samkvæmt mældri notkun, en verði því eigi við komið ákveður stjórn vatnsveitu gjaldið samkvæmt áætlaðri notkun. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að vatnsveita láti þeim sem greiða skulu notkunargjald í té löggilta vatnsmæla þar sem þeim verði við komið en notandi skal sjá fyrir aðstöðu fyrir mæli. Vatnsveita er eigandi vatnsmælanna og skal notandi greiða gjald fyrir leigu mælis samkvæmt gjaldskrá. Óheimilt er að rjúfa innsigli mælis nema með leyfi vatnsveitu.

Af gögnum málsins er ljóst að KÁ telur að um álagningu vatnsgjalds fyrir fasteignina Fluggarðar skýli 26, fastanr. 202-9213, eigi að fara eftir 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004 eða 1. mgr. 7. gr. laganna, þ.e. að gjaldið skuli ákveðið samkvæmt mældri notkun. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að samkvæmt téðum lagaákvæðum er vatnsveitu heimilt að miða álagningu vatnsgjalds við mælda notkun. Ákvæðin verða að mati ráðuneytisins hins vegar ekki skilin svo, að skylda vatnsveitu til að miða við mælda notkun verði beinlínis leidd af þeim, þótt afstaða vatnsveitu til beiðni þar um, og eftir atvikum synjun slíkrar beiðni, verði líkt og allar ákvarðanir stjórnvalda að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Þá er jafnframt ljóst af 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2004 að í þeim tilvikum sem ákveðið er að álagning vatnsgjalds skuli miðast við mælda notkun, þá skal vatnsveita leggja til vatnsmæli og skal hann vera bæði löggiltur og innsiglaður. Er viðkomandi fasteignareiganda óheimilt að rjúfa innsigli mælisins.

Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið ljóst að fasteignareigandi hefur ekki rétt á að ákveða einhliða að álagning vatnsgjalds fyrir fasteign í hans eigu skuli miðast við mælda notkun. Né heldur getur hann gert þá kröfu að álagningin skuli sjálfkrafa miðast við notkun samkvæmt vatnsmæli sem hann hefur sett upp að eigin frumkvæði og án aðkomu vatnsveitunnar, sem t.a.m. hefur það hlutverk að ganga úr skugga um vatnsmælir sé innsiglaður með viðeigandi hætti. Að mati ráðuneytisins er þannig ljóst að atbeina viðkomandi vatnsveitu þarf til þegar ákveðið er að miða álagningu vatnsgjalds við mælda notkun. Í því máli sem hér um ræðir hefur OR ekki séð ástæðu til uppsetningu vatnsmælis og í umsögn OR um kæru KÁ kemur fram að hann hafi ekki farið fram á slíkt. Með vísan til framangreinds ber því að hafna kröfum KÁ.

 

Úrskurðarorð

Kröfu Kristjáns Árnasonar, kt. xxxxxx-xxxx, um að felld verði úr gildi ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um álagningu vatnsgjalds fyrir árið 2013 fyrir fasteignina Fluggarðar skýli 26, fastanr. 202-9213 í Reykjavík, er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta